fimmtudagur, október 18, 2012

Leigumorðinginn

Höfundur: Aki Kaurismaki
Leikstjórn og leikgerð: Egill Heiðar Anton Pálsson
Þýðandi: Jórunn Sigurðardóttir
Leikmynd, lýsing og hreyfimyndir: Egill Ingibergsson
Búningar: Helga Mjöll Oddsdóttir
Tónlist: Georg Kári Hilmarsson

Leikendur
Aðalbjörg Árnadóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Einar Aðalsteinsson, Hannes Óli Ágústsson og Helga Mjöll Oddsdóttir.

Hljómsveit
Davíð Jónsson, Eva Margrét Árnadóttir, Guðmundur Sigurpálsson, Linda Björk Guðmundsdóttir og Valberg Kristjánsson.

Leikfélag Akureyrar í október 2012 – birtist fyrst í Spássíunni

Hinn þrítennti kalkúnn örlaganna

Það gladdi mig þegar ég var að glugga í leikskrá Leigumorðingjans í hléinu að Aki Kaurismaki hafi sótt sér fyrirmynd og innblástur í hinar snjöllu og geðþekku Ealing-kómedíur. Þessar bresku gamanmyndir sem kenndar eru við Ealing-kvikmyndaverið og voru framleiddar á árabilinu 1947 til 1957 byggjast gjarnan á skýrri og einfaldri sögu með sterkum „króki“ sem heldur athyglinni við efnið, rassinum á sætisbrúninni og fær þig til að gleyma að borða poppið.

Þeir verða nú ekkert mikið sterkari, krókarnir, en í Leigumorðingjanum: þegar Henri Boulanger missir vinnuna afræður hann að stytta sér aldur. Þegar það gengur ekki sem skyldi ræður hann leigumorðingja til verksins. Þegar hann verður svo ástfanginn og eignast lífsvilja að nýju þarf hann að afpanta þjónustuna, en það reynist ekki alveg einfalt mál.

Til að koma þessu safaríka efni til okkar velur Egill Heiðar Anton Pálsson, eins og búast mátti við, að sprengja rammann. Við byrjum með leikurunum sjálfum á síðustu stundu að hefja vinnu við að segja okkur söguna. Við erum í bókstaflegri merkingu sett í hlutverk leikhúsgesta – erum stödd gestkomandi á vinnustað hópsins og honum ber að hafa ofan af fyrir okkur, þó engin sé leikmyndin (svona hérumbil), hvað þá lýsingin (eða varla). Til þess eru síðan öll meðöl notuð; búningasamtíningur, allskyns dót, trúðalæti, og, ef allt annað bregst; afdráttarlaus einlægni.

Halldór Laxness setti leikhúsgestum fyrir að skilja lógaritmatöflurnar eftir heima og „koma eins og krakki“, og leikhópurinn í Samkomuhúsinu nær svo sannarlega að taka af okkur reiknitækin og setja okkur í stöðu opineyga barnsins, lokka okkur inn í söguna.

Óreiðukennd nálgun leikstjórans þótti mér kunnugleg úr fyrri sýningum hans sem ég hef séð, Mindcamp og Rambó 7. Þar þótti mér kaosið svolítið standa í vegi fyrir erindinu frekar en að hjálpa því, formtilraunirnar og leikurinn með leikhúsið þvælast fyrir þörfinni til að miðla þjóðfélagslegum boðskap og spurningum. Hér hinsvegar styður nálgun og efni hvort annað. Eitursnjöll og vel uppbyggð Ealing-saga Kaurismakis heldur áhorfendum spenntum við framvinduna og lausatök leikstíls og grunnhugmyndar sýningarinnar eyða allri þörf fyrir umbúnað, raunsæi og endursköpun staðar og stundar. Draga okkur inn í samsæri leikara og áhorfanda.

Reyndar verð ég svolítið heimtufrekur á svona sýningum – ætlast gjarnan til að einhverjar af lausnunum sem frumstæðar aðstæðurnar  kalla fram séu alveg yfirmáta brilljant. Get nú varla sagt að nein þeirra hafi kallað fram stórt „Vá!“ hjá mér að þessu sinni. Kannski komust næst því trampólínhoppin hjá aðalsöguhetjunni til að tjá okkur ástarbríma sinn, flott vídeó-uppbrot í lok sýningar sem er með því snjallara sem ég hef séð af því taginu. Já og reykvélin sem leigumorðinginn ógurlegi gekk með í hendinni til að skapa dulúð hvar sem hann fór. Öll myndefnisnotkun var stórskemmtileg, ekki síst furðuveran sem skeiðaði um sýningartjaldið í tíma og ótíma og ég hallast helst að að hafi verið kalkúnn, þó ég hafi líka heyrt aðrar kenningar.

Fjölskipaður harmóníkuhópurinn sem sér um tónlist sýningarinnar að mestu settu skemmtilegan og óvenjulegan svip á sýninguna, ekki síst þær Eva Margrét Árnadóttir og Linda Björk Guðmundsdóttir sem taka öllu meiri þátt í framvindunni en félagar þeirra. Þó saknaði ég þess svolítið að hljóðmyndin styddi betur við atburði og stemmingu. Sniðugt leiðarstef leigumorðingjans gaf til kynna að þarna væru vannýttir möguleikar.

Leikarar af yngri kynslóðinni eru eins og síldartorfa í vatni í þessum leikstíl. Aldeilis ófeimin við að mæta með sjálf sig á sviðið og vinna út frá því. Þetta gildir svo sannarlega um þennan hóp. Á engan er samt hallað þó nokkrum orðum verði varið í að tala um Hannes Óla Ágústsson sérstaklega. Á honum hvílir sú ábyrgð að vera miðja og hjarta sýningarinnar í hlutverki hins (ó)lánssama og uppburðarlausa sjálfsmorðingja Henri Boulanger. Hannes Óli fær að vera „í hlutverki“ og í sama hlutverki nokkurnvegin allan tímann og nær að teikna mjög fallega, áreynslulausa og trúverðuga mynd af persónunni og nær að halda henni lifandi og sannfærandi í hinni mjög svo óáreiðanlegu umgjörð sýningarinnar.

Leigumorðinginn er mikil skemmtisýning þar sem nokkrum hefðbundnum meðulum óhefðbundins leikhúss er beitt á óvenju snjallan hátt á skemmtilegan efnivið svo úr verður sýning sem allir sem það vilja hljóta að njóta. Held ég allavega.

Og sem ég sit og skrifa þessa umsögn berast þær fréttir á Facebook að búið er að ráða Ragnheiði Skúladóttur í starf leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar til næstu tveggja ára. Það eru gleðitíðindi og ástæða til að óska henni og norðlenskum leikhúsunnendum til hamingju. Byrjunin lofar í það minnsta frumlegu, aðgengilegu – og góðu.