laugardagur, nóvember 10, 2012

Bastarðar

Höfundar: Gísli Örn Garðarsson og Richard LaGravenese
Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson
Aðstoðarleikstjóri: Selma Björnsdóttir
Tónlist: Lars Danielsson og Cæcillie Norby
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Maria Gyllenhoff

Leikendur
Elva Ósk Ólafsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurjónsson, Jóhannes Níels Sigurðsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Víkingur Kristjánsson og Þórunn Erna Clausen.

Borgarleikhúsið. Birtist í Spássíunni 10. nóvember 2012

Ó, pabbi minn …


Ein af gullnu reglum gagnrýnandans er að reyna ekki að geta sér til um ætlan listamannanna. Verkefni okkar er að segja eitthvað gagn- gáfu- og áhugavert um það sem fyrir augu og eyru ber, lýsa því hvaða áhrif sviðsviðburðurinn hefur á taugakerfi og tilfinningalíf. Ég verð því miður að klofa yfir þessa girðingu og hætta mér aðeins inn á hið forboðna svæði til að segja eitthvað með ríkulegra innihaldi um Bastarða en: „Því miður, þetta bara virkaði ekki á mig.“

Því stóra spurningin sem sú sýning skilur eftir sig hjá mér er: „Hvað voru menn að pæla?“ Ekki endilega í merkingunni að þetta hafi verið allsendis ómögulegt. Meira svona: „Ég skil í alvörunni ekki hvað var verið að segja mér“, og þaðan af síður hvað kom höfundum og frumkvöðlum sýningarinnar af stað í þetta ferðalag.

Kannski er ég að ætlast til of mikils. Vera má að það hafi aldrei annað staðið til en að búa til léttúðugt skemmtiverk þar sem húmorinn er sóttur í netta skopstælingu á nítjándu aldar melódrama og Joe gamla Orton.

Hvernig byrjaði þetta?

Það er mjög erfitt að ímynda sér að þörfin til að miðla þessu frumstæða ævintýri um siðblinda föðurinn og skemmd afkvæmi hans hafi drifið þetta gríðarstóra verkefni áfram. Varla þótti listrænum stjórnendum þriggja leikhúsa í jafn mörgum löndum erindi hópsins svo brýnt hvað boðskap varðar að þeim hafi runnið blóðið til skyldunnar þess vegna. Var þetta ekki meira spurning um að gefa „heitum“ og snjöllum leikhóp frjálsar hendur? Taka áhættu.

Hvað langaði Gísla Örn og félaga að gera? Eða kannski öllu heldur: langaði þá virkilega að gera þetta sem á endanum birtist á sviðinu?

Ég á bágt með að trúa því.

Handritið er ákaflega frumstætt. Klunnalega byggt, og svo eintóna að það er merkilegt að það hafi þurft tvo menn til að skrifa það. Fyrir utan eina senu snemma í seinni hlutanum milli yngsta sonarins og eiginkonu miðbróðurins þá var það eiginlega bara pínlega klisjulegt. Nema það hafi verið ætlunin (sjá fyrstu málsgrein).

Vinna leikaranna er að sumu leyti hetjuleg. Gríðarlegri orku er eytt í að halda athygli okkar, skemmta okkur. Allir standa á öskrinu allan tímann. Sem er óhjákvæmilegt, bæði út af handritinu og skelfilegri hljóðvist Stóra sviðs Borgarleikhússins, en einkum út af furðulegri ákvörðun (einhvers) um að hafa áhorfendur allt um kring.

Persónusköpunin er einsleit og ófrjó. Skop-persónurnar sem Hilmir Snær (aldeilis frábær) og Víkingur (nokkuð skemmtilegur) fá að leika eru fyndnar, eiginkonurnar sem Elva Ósk og Þórunn sitja uppi með eru litlausar og  illyrmisleg restin er yfirborðið eitt. Tökum samt ofan fyrir nýliðanum Sigurði Þór Óskarssyni. Vel gert í vonlausum aðstæðum.

Hljóðmyndin vinnur nánast alltaf á móti andrúmsloftinu, og þegar hún gerir það ekki er hún með ólíkindum klisjuleg.

Leikmyndin er ofboðslega flott – en ýtir fyrir vikið undir tómleikatilfinninguna. Af hverju alla þessa rómantísku umgjörð utan um … svona voðalega flatneskju, þessi innantómu öskur? Þetta algera innihaldsleysi?

Sennilega er besta leiðin til að njóta sýningarinnar að sjá hana sem einhverskonar teiknimynd. Eða groddalega paródíu á nítjándu aldar melódrama. Eða finnast innihaldið engu máli skipta þegar kemur að því að dást að fimi og krafti leikhópsins og hugmyndaauðgi þeirra sem hanna og stýra.

Ekkert af þessu virkaði almennilega fyrir mig. Eitt er nú að fimi leikhópsins er ekkert sérstök og hin rómaða fimleikanálgun Vesturports er að þessu sinni bæði fremur snautleg og algerlega utanáliggjandi. Annað er að ég bara get ekki trúað því að melódramaskopstæling hafi vakað fyrir hópnum. Og ef svo væri – þá byrja ég að hugsa um alla peningana, ferðalögin, þriggja landa samstarfið, sérsmíðaða tjaldið í Svíþjóð, umturnunina á sal Borgarleikhússins … allt til að segja mér að gamaldags leikhús sé gamaldags. Og mér verður pínu óglatt.

En kannski var þetta ekki grín. Kannski var ætlunin að segja mér eitthvað merkilegt á frumlegan, leikrænan hátt um manndýrið og fjölskylduna – allt það sem leikhúsið hefur fengist við frá örófi alda. Og það hafi bara mistekist. Og ég byrja að hugsa um alla peningana, ferðalögin, þriggja landa samstarfið, sérsmíðaða tjaldið í Svíþjóð, umturnunina á sal Borgarleikhússins … allt til að segja mér að við séum skíthælar. Og mér verður pínu óglatt.

Án fimleikaæfinga, með áreynsluminni skopstælingarnálgun, með fjölbreyttari persónusköpun í texta og leikaravinnu, með minni öskrum, í íburðarminni en snjallari leikmynd, án þeirrar tilgangslausu aukaáreynslu sem hringformið leggur á hópinn og hugkvæmni leikstjórans hefðu Bastarðar orðið léttvæg prýðis-skemmtun.

Því miður er bara næstum óhugsandi að ímynda sér að „prýðis-skemmtun“ hafi verið það sem að var stefnt. Án þess að ég viti neitt um það. Annað en að á heimasíðu Borgarleikhússins stendur að Bastarðar séu „án efa viðamesta leikhúsverkefni sem unnið hefur verið á Íslandi“.