þriðjudagur, febrúar 29, 2000

Síldin kemur og síldin fer

Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Félagsheimilið Breiðamýri, Reykjadal febrúar 2000

Eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur
Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Leikstjóri: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Jaan Alavere

Uppgrip

SÍLDIN þeirra Steinsdætra er eitt af þeim leikritum sem íslenskt áhugaleikhús hefur fyrir löngu tekið að hjarta sínu. Frá því Húsvíkingar frumfluttu það hefur það verið sýnt um landið þvert og endilangt, lengst af aðallega við sjávarsíðuna, en upp á síðkastið hefur þessi undrafiskur verið að krafla sig æ lengra inn í land. Það var heldur ekki annað að sjá en kvikindið dafni vel í Reykjadalnum. Þessar vinsældir eru ekkert ástæðulausar. Verkið er bæði fyndið og fjörugt og ánægjulega laust við ádeilubrodda, sem sumum finnst að hljóti að eiga að leynast í öllum gamanleikjum. Síldin er skýr og skemmtileg mynd af veröld sem var, og gagnast bæði þeim sem muna þessa tíma og okkur sem yngri erum og njótum þess einfaldlega að eyða kvöldstund í félagsskap lifandi fólks. Breiðamýri er að upplagi fremur hefðbundið félagsheimili en Arnór og leikdeildin hafa brugðið á það snjalla ráð að umbylta leikrýminu, byggja pall eftir endilöngu salargólfinu og leika á honum og við báða enda hans. Þetta nýtist feikivel, sparar umstang við sviðsskiptingar og gefur verkinu aukna vídd.

Sýningin er bráðskemmtileg. Hún einkennist öðru fremur af krafti og fjöri og þingeyska sjálfsöryggið geislar af hverju andliti. Persónurnar eru skýrt teiknaðar og þær þeirra sem bjóða upp á tilþrif voru ekki sviknar af leikurum sínum. Svo einhverjir sé nefndir þá naut Jón Friðrik Benónýsson sín í hlutverki Ófeigs bónda og Aðalbjörg Pálsdóttir ekki síður sem eiturtungan Málfríður símamær. Saltstrákurinn fordrukkni, Lilli, var í góðum höndum hjá Karli Ingólfssyni, Þorgerður Sigurgeirsdóttir var sannfærandi sem hinn upprennandi kvenskörungur Jökla og framganga Ásgríms Guðnasonar sem hásetinn og slagsmálahundurinn Konni líður seint úr minni. Reyndar var landlegudansleikurinn og eftirmál hans í heild óborganleg skemmtun, þar nýttist langi pallurinn vel og tilþrifin á dansgólfinu voru heilt leikrit út af fyrir sig.

Tónlistarflutningur er undir stjórn Jaan Alavere og gerir sitt fyrir skemmtanagildi sýningarinnar. Hópsöngvar voru kraftmiklir og í sólónúmerum náðu leikararnir að bæta vídd við persónur sínar. Jaan fór að auki létt með lítið hlutverk sitt sem rússneskur síldarkaupmaður, og virtist mér á máli hans að hann hefði þungar áhyggjur af drykkjuskapnum á söltunarfólkinu, sem vonlegt er.

Efling hefur undanfarin ár notið fulltingis nemenda Framhaldsskólans á Laugum við sýningar sínar. Þetta hefur gefið færi á að setja upp mannmargar stórsýningar og er það stefna félagsins að gefa öllum færi á að vera með sem þess óska. Þetta er eftirtektarverð stefna og þegar afraksturinn er jafn heilsteypt og kröftug og Síldin er þá er stefnan líka rétt frá sjónarhóli áhorfandans, sem vill fá sína skemmtun hvað sem öllum stefnum líður. Þeir nemendur sem fá auk sinnar venjulegu bókmenntunar kennslustund í því að vinna að sameiginlegu markmiði með fólki á öllum aldri með ólíkan bakgrunn eru áreiðanlega ekki sviknir af námsdvöl sinni í Reykjadalnum. Og enginn áhorfandi verður svikinn af stórskemmtilegri uppfærslu Arnórs og Eflingar.

sunnudagur, febrúar 27, 2000

Tartuffe

Stúdentaleikhúsið og Torfhildur, félag bókmenntafræðinema
Kaffileikhúsinu febrúar 2000

Höfundur: Moliére
Þýðandi: Pétur Gunnarsson
Leikstjóri og gerð sýningarhandrits: Ólafur Egill Egilsson

Í frumlitum

Mig brestur minni til að átta mig á hvað Ólafur Egill hefur gert miklar breytingar á verki Moliéres, fyrir utan vænar flísar sem hann hefur sneytt framan og aftan af verkinu. Líklega eru þó fleiri bitar foknir, fyrir nú utan nauðsynlega fitubrennslu til að taka tillit til minnkandi einbeitingarhæfileika tónlistarmyndbandakynslóðarinnar, sem við reyndar bætum upp með þjálfun í að skilja fyrr en skellur í tönnum. Hvað svo sem gert hefur verið þá gengur það upp.
Einhver fordómadurgurinn hefði sjálfsagt ekki átt von á miklum tilþrifum af bókmenntafræðinemum að fást við klassískan texta, í mesta lagi "lærðum" skírskotunum í kenningar og túlkanir. En sá hinn sami hefði verið fljótur að éta þann hatt. Sýningin byrjar af fítonskrafti og heldur honum allt til enda. Fókus, einbeiting og fjör einkenna hana alla ásamt ríflega meðalskammti af góðum hugmyndum. Góðum, vegna þess að þær beinast í sömu átt og verkið, sem er því miður alls ekki alltaf rauninn í glímunni við klassíkina. Þeim mun skemmtilegra er þá þegar allt leggst á eitt eins og hér. Leikendurnir sækja orkuna í textann og aðstæðurnar, miðla áhorfendum af örlæti og uppskera ríkulega.
Leikhópurinn er myndaður í kringum þessa sýningu og sjálfsagt hefur hann einhverntíman verið sundurleitur en þess sáust ekki merki á frumsýningu. Satt að segja var sýningin ótrúlega jöfn, og þó sumir næðu að "fara á kostum" svona umfram það sem við var að búast, þá var það bara svona eins og bónus fyrir áhorfendur. Tvíeykið Orgon og Tartuffe, þeir Hlynur P. Pálsson og Bjartmar Þórðarson voru algerlega óborganlegir og ég get ekki stillt mig um að nefna sérstaklega Svein Ólaf Gunnarsson sem bjó til ótrúlega fyndinn rúðustrikaðan karakter úr Cléante, En eins og ég segi, þessi skúta var vel mönnuð í hverju rúmi. Það er bara von mín að hópurinn haldi áfram á þessari braut og lífgi hið aðframkomna Stúdentaleikhús við, enn á ný.
Umgjörð er, líkt og leikgerð og leikstjórn, verk Ólafs Egils. Leikrýmið er vel nýtt, enda varla annað hægt í Kaffileikhúsinu þar sem er nánast ekkert rými. Hugmyndin að baki búningunum er skýr og skemmtileg og aðeins einu sinni fannst mér hún skjóta yfir markið, í tilfelli Valere. Ég gat ekki betur séð en Halldóri Vésteini Sveinssyni væri fyllilega treystandi til að vera skoplegur bjargvættur þótt búningurinn segði ekki brandarann fyrir hann. Hljóðmynd þeirra Karls Óttars Geissonar og Sigurðar Guðmundssonar var falleg, en stakk eilítið í stúf við það sem fram fór á sviðinu, sérstaklega framan af. Hugleiðslukennd gítartónlist setur áhorfendur tæpast í réttar stellingar fyrir þennan djöfladans.
Shakespeare er skáld ljóss og skugga, dýptar og tvíræðni. Moliére er meistari frumlitanna. Það sem augað sér er það sem er. Allt er skýrt og tært, jafnt persónur og aðstæður. Hvatirnar etja kappi við skyldur og venjur og vinna ævinlega sigur. Persónurnar glíma síðan við afleiðingarnar. Sýning Torfhildar og Stúdentaleikhússins dregur fram þetta einkenni á skýran, kraftmikinn og frumlegan hátt. Ólafur Egill er ekkert feiminn við litakassann sinn og hefur skapað með sínu fólki alveg makalaust skemmtilega kvöldstund sem okkur stendur nú til boða um skamma stund. Endilega drífið ykkur, það er greinilega nóg til.

þriðjudagur, febrúar 22, 2000

Skuggasveinn

Sauðkindin, Leikfélag nemendafélags MK
Félagsheimili Kópavogs þriðjudaginn 22. febrúar, 2000

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson

Ekkert er ókeypis

ÞAÐ er greinilegt að Sauðkindin hefur ekki setið auðum höndum síðustu vikurnar. Fyrir utan alla fyrirhöfnina við að setja saman leiksýningu hafa þau lagt í það að umbreyta stóra salnum í Félagsheimili Kópavogs og skapa þar mikla furðuveröld úr svampi og svörtu plasti. Enda erum við stödd í mikilli furðuveröld, einhvers konar blöndu af heimi Grimms-ævintýranna og nútímalegu eiturlyfjahelvíti.

Efniviður sýningarinnar er ekki samnefnt leikrit Matthíasar Jochumssonar heldur þjóðsagan um unga manninn sem þiggur silfurkúlur Skrattans til að vera verðugur eiginmaður unnustu sinnar. Vitaskuld kemur að skuldadögunum og kúlurnar dýrari en ráð var fyrir gert. "Ekkert er ókeypis" er boðskapur sögunnar, þótt Kindurnar og leikstjóri þeirra kjósi að þrengja sjónarhornið á eiturlyf og afleiðingar þeirra.

Í leikskrá kemur fram að sýningin hafi verið unnin í spuna, og losaraleg framvindan hefur vissulega á sér spunaeinkenni. Textinn er hins vegar áreiðanlega ekki runninn áreynslulaust upp úr menntskælingum, upphafinn, sumstaðar í bundnu máli og ekki laus við að renna á köflum út í fremur innantóma mælgi. Leikhópurinn átti í nokkrum brösum við að gera sér mat úr torfinu, best gekk Skrattanum, sem Sverrir Árnason málaði í sterkum "Rocky-Horror" litum. Elskendurnir voru líka skemmtilegir í meðförum Vignis Rafns Valþórssonar og Írisar Stefánsdóttur. Í heild var sýningin óþarflega óöguð sem stakk í stúf við formfestuna í textanum og dró dálítið slagkraftinn úr mögnuðu efninu.

Saga þessi hefur áður höfðað til skálda. Frægasta dæmið er óperan Der Freischütz eftir Carl Maria von Weber, en löngu síðar gerði þríeykið William S. Burroughs, Robert Wilson og Tom Waits sína útgáfu, The Black Rider. Lauslegur samanburður á lögum og textum í Skuggasveini við tónlist Waits úr verki þeirra leiðir í ljós að tónlist Skuggasveins er að mestu leyti úr smiðju hans og textarnir þýddir, nokkuð haganlega meira að segja en þýðanda að engu getið. Ekki kemur neitt fram um þetta í leikskrá, né heldur hvort sýningin í heild er byggð að einhverju eða öllu leyti á verki þremenninganna. Ef sú er raunin er slíkt auðvitað algerlega ótækt, og allavega er stórlega ámælisvert að grípa á þennan hátt til tónlistar, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið gert í leyfisleysi.

Því miður eru nokkur dæmi þess að leikfélög framhaldsskólanna sinni ekki skyldum sínum við höfunda. Vitaskuld er reynsluleysi um að kenna, en þá er ábyrgð leikstjóranna og forráðamanna skólanna því meiri. Eitt af því sem læra má af Skuggasveini er nefnilega að á endanum borgar sig ekki að stytta sér leið í lífinu.

miðvikudagur, febrúar 09, 2000

Rauða klemman

Snúður og Snælda
Ásgarði, félagsheimili eldri borgara í Reykjavík febrúar 2000

Höfundur: Hafsteinn Hansson
Leikstjóri: Bjarni Ingvarsson


Í klemmu

Skortur á heppilegum verkefnum hefur löngum verið höfuðverkur hjá Snúði og Snældu, hinu öfluga leikfélagi eldri borgara í Reykjavík. Bæði eru það "aldurstakmörkin" sem þvælst hafa fyrir, og svo þessi einkennilega árátta leikskálda að skrifa aðallega fyrir karla þegar það eru helst konurnar sem vilja leika. Einföld lausn á þessum vanda er vitaskuld ef hópurinn kemur sér upp höfundi sem klæðskerasaumar verk fyrir hópinn, eins og Hafsteinn Hansson hefur nú gert með Rauðu klemmunni.
Leikritið gerist í sjoppu og fjallar um hjón sem reka hana, vini þeirra og viðskiptamenn. Þetta eru allt sjálfbjarga einstaklingar, sumir seilast raunar lengra en löglegt má teljast, sjoppueigandinn bruggar og leigir út "náttúrulífsmyndir", félagi hans safnar fé í eigin þágu á vegum heimatilbúinna góðgerðafélaga, vinkona þeirra selur af heimaslátruðu og svikamiðill einn féflettir viðskiptavini sjoppunnar. Það er ekki fyrr en sú síðastnefnda fer að ganga nærri hagsmunum hinna að þeim þykir tímabært að stöðva prettina. Það reynist hins vegar þrautin þyngri, enda alþekkt í bransanum að ómögulegt er að pretta svikahrapp.
Hafsteini lætur greinilega vel að skrifa samtöl, þau eru eðlileg og víða fyndinn. Persónurnar eru lifandi og skýrar. Höfundur leikur sjálfur í sýningunni og tókst manna best að laða fram húmorinn í texta sínum. Þegar líða fer á leikritið er ekki laust við að slakni á fléttunni, síðari hlutinn hefði haft gott af meiri yfirlegu. Ekki er samt annað að sjá en Snúður og Snælda geti horft fram á bjartari tíma í leit sinni að viðfangsefnum.

Leikhópurinn er vel skipaður og allir standa vel fyrir sínu. Félagar í Snúði og Snældu hafa löngum getað bætt sér það upp með lífsreynslu það sem á hefur skort í leikreynslu og skilað sannfærandi mannlýsingum í krafti hennar. Það er því gaman að sjá hvað aukin leikreynsla er farin að skila sér í tilþrifum og öryggi hjá þeim reyndari í hópnum. Síðan má ekki gleyma að reglulega virðist Snúði og Snældu bætast skemmtilegur liðsauki. Nefna má Aðalheiði Sigurjónsdóttur sem lék kjötkaupmanninn Maríu með krafti og öryggi, Þorstein Ólafsson sem var skemmtilega ráðvilltur sem sjoppueigandinn þegar allt stefndi í óefni með klámið og spírann, og Sigurborgu Hjaltadóttur sem var óborganleg sem gamalt skar sem er þó alls ekki nógu dauð úr öllum æðum fyrir sínar penu dætur. Þá var Helga Guðbrandsdóttir litríkur miðill.

Bjarni Ingvarsson hefur unnið nokkru sinnum áður með félaginu og virðist samstarfið vera með ágætum. Snjöll var hugmynd hans að byrja verkið á nokkurs konar forleik, þar sem ljósamaður og hvíslari koma inn sem almennir áhorfendur og eiga orðaskipti sem leiða okkur inn í verkið.

Snúður og Snælda fagna tíu ára afmæli sínu á þessu ári. Félagið hefur starfað af miklum krafti, sett upp leiksýningu á hverju ári, að ég held, staðið fyrir bókmenntakynningum og leiklistarnámskeiðum og lagst í víking bæði til Þýskalands og Kanada. Leikhópurinn eflist við hverja raun og nú hefur þeim áskotnast höfundur í afmælisgjöf. Til hamingju.

þriðjudagur, febrúar 08, 2000

Thriller

Nemendamót Verslunarskóla Íslands
Loftkastalinn febrúar 2000

Söngleikur byggður á tónlist Michael Jackson
Handrit og leikstjórn: Gunnar Helgason
Þýðing söngtexta: Hallgrímur Helgason
Dansar: Guðfinna Björnsdóttir og Íris María Stefánsdóttir
Leikmynd og lýsing: Sigurður Kaiser
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson

Í fílíng

Að taka nokkur frægustu lög hins lifandi listlíkis Michael Jackson og tengja saman með leiknum atriðum hljómar í mínum eyrum eins og uppskrift að stórslysi. Þær voru því ekki stórar væntingarnar meðan ég beið eftir að sýning hæfist í Loftastalanum sl. fimmtudagskvöld. Góðu heilli þá kunna verslingar og þeirra samstarfsmenn þá list að fara frjálslega með uppskriftir og ekkert slys í augsýn.

"Thriller" gerist á rammíslenskum skemmtistað þar sem rammíslensk ungmenni og ennþá íslenskari fyllibyttur rembast við að skemmta sér sem mest þau mega. Það gengur að sjálfsögðu misvel, enda fer aldrei neinum sögum af fólki sem siglir áreynslulaust gegnum þroskaárin. Það tíðkast á þessum stað eins og víðar að stytta sér leið að lífsgleðinni með þartilgerðum efnum, og sú iðja réttilega fordæmd.

"Thriller" er eiginlega alveg unaðslega klassísk saga, minnir til skiptis á "Sem yður þóknast" og "Pilt og stúlku", allt fært til nútímans og framreitt í söngleikjaformi, sem líka er auðvitað öldungis klassísk leið til að segja góðar sögur.
Gunnar Helgason á heiður að handritsgerð og hefur satt að segja tekist ótrúlega vel að skrifa áhugaverða sögu í stað þess að stikla milli laga með einföldum brögðum. Lögin falla flest mjúklega inn í atburðarásina, þjóna henni og persónusköpuninni vel. Sum samtöl og einstök tilsvör voru bráðfyndin og framvindan skýr.

Ég er ekki vel að mér í tónlist viðundursins Jackson en þó grunar mig að þýðingar Hallgríms Helgasonar séu annað og meira en það, og iðulega hafi hann sveigt af leið til að styðja betur verk bróður síns, og er það vel. Þýðingarnar eru liprar og snjallar og oftast tókst að greina orðaskil, sem er alls ekki sjálfsagt mál í söngleikjaflutningi.
Það er mikils krafist af leikhópnum og hann sendur undir því. Söngur og dans var hreinlega óaðfinnanlegur. Ég hef ekki hundsvit á dansi en ef eitthvað var athugavert við frammistöðu dansara í þessari sýningu má ég hundur heita. Leikmynd var haganleg og bauð upp á fjölbreyttar lausnir.

Söngur og dans gerir afdráttarlausar tæknikröfur til flytjenda og auðvelt að sjá hvort eitthvað tekst eða ekki. Öðru máli gegnir með leik. Þar er ekki við jafn mikið að styðjast, hvorki fyrir leikendur né gagnrýnendur. Öllum tókst þó að móta skýrar týpur og flytja mál sitt af krafti. Mest gustar af Þorvaldi D. Kristjánssyni í hlutverki töffarans Benna sem verður næstum því töffaraskapnum að bráð, Rakel Sif Sigurðardóttur sem gerir lífsnautnagelluna og skiptinemann Billy Jean bráðskemmtilega og þeim bræðrum af Króknum Badda og Bödda sem urðu aldeilis óborganlegir í meðförum Sigurðar H. Hjaltasonar og Daníels T. Daníelssonar.

"Thriller" er kraftmikil fjörug og skrautleg sýning, borin uppi af leikhóp sem gerir afdráttarlausar kröfur til sjálfs sín. Ef krakkarnir læra þessa einbeitingu, metnað og eftirfylgni í skólanum þá er greinilega verið að gera eitthvað rétt í Ofanleitinu.

miðvikudagur, febrúar 02, 2000

Paradísareyjan

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Tjarnarbíói febrúar 2000

Byggt á skáldsögunni „Lord of the Flies“ eftir William Golding
Þýðing leikgerðar: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Árni Pétur Guðjónsson
Hreyfihönnuður: Ólöf Ingólfsdóttir
Tónlistarstjóri: Árni Heiðar Karlsson
Lýsing: Egill Ingibergsson

Paradís á jörð?

Það var ánægjulegt að fá tilefni til að rifja upp gömul kynni við Flugnahöfðingja Nóbelsskáldsins William Golding, þó svo ekki ynnist tími til að lesa hana aftur fyrir frumsýningu Leikfélags MH. En sagan er eitt af þessum meistarastykkjum þar sem einföld grunnhugmynd verður að líkingu fyrir mannlífið allt og til verður tilraunastofa í manneðlisfræði.

Hópur skóladrengja lifir af þegar flugvél hrapar á hitabeltiseyju. Enginn fullorðinn er meðal eftirlifenda, og sagan lýsir þriggja mánaða ferðalagi drengjanna frá því að vera vel upp aldir vestrænir fyrirmyndarstrákar yfir í blóðþyrst og samviskulaus villidýr.

Tvennt gerir það að verkum að saga þessi er ekki endilega heppilegt viðfangsefni fyrir íslenskt menntaskólaleikfélag. Í fyrsta lagi eru unglingar kannski allra síst til þess fallnir að leika börn sem eru nokkrum árum yngri en þeir. Óhugsandi hefði verið fyrir hópinn að „leika“, eða herma eftir börnum, slíkt hefði gert sýninguna að hreinum skrípaleik. Þar af leiðandi eru það unglingar sem áhorfandinn sér, og þarf þá annaðhvort að minna sig stöðugt á að þetta eiga að vera börn, eða hreinlega að sætta sig við að hér eru unglingar á ferð. Í annan stað er vitaskuld engin leið að sniðganga stúlkurnar, sem alla jafna bera uppi félagsskap á borð við skólaleikfélög. Það er hins vegar íþyngjandi fyrir ímyndunaraflið að samfélag menntaskólastúlkna og -drengja á eyðieyju skuli þróast á jafn „kynlausan“ hátt og hér er sýnt. Þegar áhorfandinn hefur sætt sig við þessi atriði er síðan ekkert því til fyrirstöðu að njóta sýningarinnar.

Paradísareyjan hefur sterkt svipmót spunasýninga, þó svo skrifað handrit hafi verið lagt til grundvallar. Höfuðáherslan er á hópinn, viðbrögð hans í heild og það er einmitt á þeim stundum þegar þessu hópafli er beitt sterkast sem sýningin er áhrifamest. Hins vegar stendur þessi nálgun nokkuð í vegi fyrir því að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir persónulegri afstöðu einstaklinganna til þess sem gerist. Fyrir vikið verður sagan kannski einfaldari en efni standa til, erfiðara að skilja en jafnframt meira að upplifa. Árni Pétur Guðjónsson hefur greinilega lag á að segja sögu á þennan hátt, og þeim vinnubrögðum sem lýst er í leikskrá, að virkja hópinn allan í sköpun sýningarinnar frá grunni, er auðvitað til fyrirmyndar fyrir skólaleikfélag.
Leikhópurinn sem heild er sem sagt aðalleikari sýningarinnar og á sem slíkur hrós skilið. Leikskráin undirstrikar þetta, þar er enga persónuskrá að finna, einungis mynd af leikhópnum og nöfn sem undirrituðum reyndist illmögulegt að tengja andlitum á óyggjandi hátt. Þrátt fyrir þetta vil ég gjarnan koma því til skila að þeir þrír leikarar sem mest mæddi á, leiðtogarnir tveir og „Svínka“, stóðu sig afar vel, sköpuðu skýrar persónur, en fengu þó þrátt fyrir allt úr of litlu að moða til að gera fulla persónulega grein fyrir ferð sinni gegnum verkið.

Umgjörð er af einföldustu gerð, autt svið, en lýsingu óspart beitt til að kalla fram stemningu og leiða athyglina þangað sem hún á heima. Þetta heppnast vel. Búningar eru stílhreinir og fallegir og staðsetja söguna vandlega í rúmi og tíma.

Eitt af því sem sýning menntskælinganna skildi eftir sig í hugskoti þessa gagnrýnanda var undrun yfir því af hverju sagan virkar svo sláandi á lesandann/áhorfandann. Eftir á að hyggja virðist allt sem gerist óhjákvæmilegt. Frá því að börnin standa á ströndinni og spurningin „hvað eigum við að gera“ heyrist er ljóst að þetta getur ekki endað nema illa. Hvernig ættu börn, án menntunar, lífsreynslu og heimsskilnings, að hafa svör við spurningu sem mannkynið er búið að reyna að svara frá upphafi vega með misjöfnum og oft skelfilega öfugsnúnum árangri?