sunnudagur, júlí 24, 2005

How do you like Iceland?

Stóra íslensk-ameríska leikhússamsteypan
Kaffi Sólon 20. júlí 2005

Höfundur: Benóný Ægisson
Leikstjóri: Darren Foreman
Leikendur: Darren Foreman og Kolbrún Anna Björnsdóttir

Í spegli gestsaugans


ÉG veit ekki hvort það er eitthvað meira áberandi í fari Íslendinga en annarra þjóða að vilja sífellt spegla sig í augum útlendinga, en allavega er þörfin sterk hjá okkur. Kannski hefur það eitthvað að gera með smæðina. Þessi árátta er einn rauði þráðurinn í sýningunni How do you like Iceland, kynning á sögu okkar og menningu, en þó fyrst og fremst á sjálfsmynd okkar. Gamlar klisjur eru viðraðar, hæðst að þeim en sannleikskorninu í þeim samt aldrei hafnað.

Ramminn er einfaldur. Maður nokkur ávarpar salinn eins og hálfdrukkinn maður á bar, afgreiðslustúlka reynir að stoppa hann, en dregst síðan inn í það verkefni að útskýra þessa skrýtnu þjóð fyrir gestunum. Afstöðumunur þeirra til efnisins skapar spennuna sem í verkinu er; hann stoltur af sinni stöðluðu mynd af landi, sögu og þjóð, hún dregur í efa, hefur aðra sögu að segja. Í lokinn býður leikskáldið svo upp á snjallan endahnút þar sem við fáum algerlega nýja mynd af persónunum tveimur. Niðurlagið er síðan óþarflega snubbótt og bratt, haganleg hoppin milli efnisatriða, fortíðar og nútíðar sýna að Benóný á að geta búið betur um.

Þó efnistök og megnið af innihaldinu sé kunnuglegt fyrir innfædda er margt í texta Benónýs fyndið, hann hittir oft í mark. Það er vitaskuld erfitt að fullyrða um það út frá eigin reynslu, en ég hef grun um að fyndnin í verkinu virki ekki síður á Íslendinga og þá gesti okkar sem þegar hafa kynnst landi og þjóð nokkuð. Ég held að megnið af frumsýningargestum hafi verið innfæddir og við hlógum að sömu hlutunum, og hlógum oft. Gæti trúað að margt af fyndninni útheimti einhverja þekkingu á því sem verið er að skopast að. Gaman væri að sjá sýninguna aftur með fullum sal að útlendingum, því vel má vera að þeir hlægju einfaldlega á öðrum stöðum, fyrir utan ánægjuna af öllum þeim skrautlega fróðleik sem leynist innan um gamanið á okkar kostnað.

Darren Foreman nýtur sín sérlega vel í hlutverki hins stolta Íslendings með klisjusafnið í kollinum, er þægilega afslappaður og eðlilegur í samskiptum sínum við áhorfendur og mótleikara sinn. Kolbrún Anna Björnsdóttir hefur á sér öllu meiri “leikarabrag” sem þjónustustúlkan en bætir það upp með snyrtilegum mannlýsingum í innskotsatriðum þar sem hún bregður fyrir sig írskum, þýskum og íslenskum hreim af mikilli íþrótt. Sérstaklega fannst mér hún skemmtileg sem íslands”vinurinn” Blefken, og að gefa honum orðið var auk þess eitt það nýstárlegasta í sýningunni sem annars rær á fremur kunnugleg mið í efnisvali.

How do you like Iceland er snyrtileg og skemmtileg lítil sýning og góður kostur fyrir áhugafólk um Ísland. Allra skemmtilegust held ég að hún sé fyrir Íslendinga sjálfa að bjóða erlendum gestum sínum á. Klukkutíma kabarett, búinn klukkan sex og þá er tilvalið að setjast niður yfir góðum mat og bera saman upplifun og reynslu og nota sýninguna sem stökkpall inn í samræður um okkur í spegli gestsaugans.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Annie

Austurbæ sunnudaginn 17. júlí 2005.

Höfundar. Thomas Meehan, Charles Strouse og Martin Charnin.
Þýðandi: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Leikmynd: Þorvaldur Böðvar Jónsson
Tónlistarstjóri: Óskar Einarsson
Lýsing: Hörður Ágústsson
Búningar Elín Edda Árnadóttir
Dansar: Ástrós Gunnarsdóttir

Leikendur: Bjarni Baldvinsson, Bryndís Petra Bragadóttir, Brynja Valdís Gísladóttir, Erlendur Eiríksson, Gísli Pétur Hinriksson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Ingibjörg Stefánsdóttir, Sólveig Óskarsdóttir og fleiri.

Þar sem aldrei ber skugga á


ÞAÐ er vandkvæðum bundið að horfa alvörugefnum gagnrýnum augum á verk sem hefst á því að milljónamæringur fær lánaða munaðarlausa stúlku til að hafa hjá sér um jólin til að bæta ímynd sína og lýkur á því að sjálfur Bandaríkjaforseti birtist eins og guð úr vélinni með upplýsingar sem CIA hefur grafið upp um foreldra stúlkunnar og frelsar heilt munaðarleysingjahæli með persónulegu loforði um menntun og ástríkar fósturfjölskyldur. Það er á köflum erfitt að trúa því að höfundum söngleiksins Annie sé alvara með verkinu og hvernig þeir láta persónurnar bregðast við því sem gerist. Enda virðast Viðar Eggertsson og aðrir aðstandendur sýningarinnar ekki alltaf vita hversu hátíðlega þeir eiga að taka efnivið sinn, hversu mikla eftirfylgju á að ljá tilfinningaseminni, hversu bókstaflega á að bera boðskapinn á borð. Mörg af grínaktugum hliðarsporum sýningarinnar eru ljómandi skemmtileg og þó þau dragi úr melódramatískum áhrifum á tárakirtla og önnur slík viðkvæm líffæri þá er mér til efs að Íslendingar nútímans treystu sér til að kyngja þessu sætmeti algerlega íróníulaust. Og blessuð börnin hafa eins og kunnugt er ekki gott af meiri sykri nema síður sé.

Fyrir utan innihaldið er líka ýmislegt sérkennilegt við það hvernig höfundarnir koma því til skila. Fléttan er óttalega spennulaus og sú litla snurða sem hleyput á þráðinn kemur seint og leysist fljótt. Verra er að aðalpersónurnar tvær, Annie og Daníel Óliver, eiga engan þátt í að leysa úr þeirri þraut, Verst er síðan að kjarni sýningarinnar, persónuleiki Anniear, er aldrei sýndur hafa áhrif á nokkurn mann. Frá því að hr. Óliver vill helst senda hana heim af því að hann var búinn að gleyma ímyndarbrellunni og vildi auk þess frekar fá strák, og þar til hann heillast af henni og ákveður að fara með hana í leikhús líða að ég held 30 sekúndur. Upp frá því elskar hann hana út af lífinu, enda er hún ómótstæðileg. Við fáum hinsvegar ekki að sjá hvernig Annie bræðir hjarta hans, við fáum bara að vita að það sé bráðnað. Það sama má eiginlega segja um öll samskipti Anniear við annað fólk. Allir elska hana frá því þeir sjá hana fyrst, nema náttúrulega illmennin sem helst vilja drepa hana, en eru stöðvuð um leið og þau gera tilraun til að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd.

Að þessum fyrirvörum gefnum má það teljast nokkuð afrek að ýningin er alveg hreint ágætlega heppnuð matreiðsla á efniviðnum. Hún rennur afar vel, er afskaplega skýr og nákvæm í sviðsetningu og það sem mestu skiptir: ekki er annað að sjá en að þorri leikhópsins njóti þess sem hann er að gera. Þetta er sérlega mikilvægt í sýningu þar sem blandað er saman stórum barnahóp og fólki með menntun og reynslu. Til að ljá sýningunni heildarsvip verða hóparnir að tileinka sér það besta í fari hinna, börnin verða að tileinka sér alvöru og aga hinna reyndu, og þeir á móti leikgleði barnanna – hér dugir svo sannarlega ekki að vera bara í vinnunni. Sem betur fer lukkast þetta að mestu leyti hér. Það er mikill en agaður hraði og kraftur í sýningunni, dansatriði eru skýr og aldrei eins og farið sé á ystu brún getu leikaranna eins og of oft er raunin.

Þrjár stúlkur fara með hlutverk Anniear og á frumsýningunni var það Sólveig Óskarsdóttir sem það gerði og axlaði þar með stærsta ábyrgð á áhrifamætti sýningarinnar. Frammistaða hennnar var glæsileg, hún uppfyllti allar þær fyrirframhugmyndir sem hægt var að gera sér um um þennan rauðhærða orkubolta og sjarmatröll, lék, söng og dansaði eins og ekkert væri sjálfsagðara en að halda athygli og áhuga hjá fullum sal af fólki. Og séstakt hrós á hún skilið fyrir textameðferð, Hvert einasta orð skildist í söngtextunum hjá Sólveigu, nokkuð sem er sjaldgæft hjá öllum þeim sem hefja upp raust sína í söngleikjum.

Gísli Pétur Hinriksson var aðsópsmikill og kröftugur í hlutverki milljarðamæringsins Daníel Ólíver, en hlutverkið líður mjög fyrir handritið af fyrrgreindum ástæðum og Gísli kannski líka einum of mikið eins og ofvirkur íslenskur útrásartöffari en ekki amerískur ríkisbubbi. Hafi þetta verið meiningin þá finnst mér það varla ganga upp því það hefði kostað mun gegnumfærðari staðfærslu. Brynja Valdís Gísladóttir nýtur greinilega hverrar sekúndu sem hin hroðalega munaðarleysingjahælisstýra Frú Karítas.

Sérstakt hrós verður að senda barnahópnum fyrir frábæra frammistöðu. Þau skiluðu sínum hópatriðum af mikilli nákvæmni, en samt þannig að hver einasti einstaklingur lifnaði á sviðinu án þess að ræna sviðsljósinu. Dans og söngur til fyrirmyndar og þá ekki síst framsögnin sem er sú besta sem ég man eftir að hafa heyrt hjá svona stórum barnahóp, jafnt í leik og söng.

Tónlistarflutningur er með sóma, samstilling leikara og hljómsveitar hnökralítil og tónlistin er prýðilega áheyrileg. Umgjörðin þénug og trúverðug og skiptingar gengu vel og vasklega hjá leikhópnum sem vinnur vel saman á öllum póstum.

Söngleikurinn Annie er skemmtileg sýning þar sem fagmannleg nákvæmni og sniðugar hugmyndir eru í jafnvægi og útgeislun leikaranna skilar sér út fyrir sviðsopið. Þannig tekst að yfirvinna að hluta ágalla leikverksins og gleðja áhorfendur sem gengu út úr Austurbæ í gær með bros á vör og sól í hjarta.

mánudagur, júlí 18, 2005

Ronja Ræningjadóttir

Leikfélagið Hallvarður Súgandi
Suðureyri 7. júlí 2005

Höfundur: Astrid Lindgren - leikgerð Annina Paasonen og Bente Kongsböl
Þýðendur: Þorleifur Hauksson/Böðvar Guðmundss.
Leikstjóri: Elvar Logi Hannesson

Vík milli vina


RONJA Ræningjadóttir er saga með marga kosti sem heilla leikgerðarfólk. Sá stærsti er vitaskuld að hún er eftir Astrid Lindgren, og því þarf ekki að hafa mikið fyrir því að sannfæra fólk um að sagan sé þess virði að sjá. En svo er hún líka viðburðarík, full af skrautlegum karakterum og snýst um vináttu og ást, sársauka og persónuþroska. Þrjár meginpersónur sögunnar þurfa öll að læra nýja hluti um stöðu sína í heiminum og gagnvart öðru fólki sem bæði getur þýtt að sleppa takinu og axla ábyrgð.

Margt hefur verið ritað um vandann við að skrifa góða leikgerð og ekki pláss til að reifa þau mál hér. Hinsvegar verður að láta þess getið að leikgerðin sem Halllvarður Súgandi notar er ákaflega metnaðarlaust verk sem er brennt öllum helstu mörkum leikgerða sem ná ekki að þýða fyrirliggjandi sögu yfir á mál leikhússins þannig að efnið lifni í nýju formi. Fyrir vikið verður sýningin bæði of löng og síðari hluti hennar alltof teygður og niðurlagið langdregið. Róttæk stytting hefði hjálpað, sérstaklega þar sem meirihluti leikenda í sýningunni eru börn og unglingar sem valda því varla að halda uppi spennu á sviðinu heilt kvöld, sem vonlegt er.

Innan þeirra takmarkana sem þessir annmarkar setja verkefninu er margt að gleðjast yfir í sýningu Hallvarðs Súganda, og vitaskuld vegur þar þyngst það afrek að koma sýningu af þessari stærðargráðu yfirhöfuð á laggirnar í þessu litla samfélagi. Enda var stoltið og gleðin tjáð af krafti af fullum salnum á frumsýningunni.

Þó flestir leikaranna séu sýnilega lítt reyndir hvað þá komnir til ára sinna þá voru eldri og reyndari leikendur í mikilvægum hlutverkum. Sennilega er enginn íslenskur áhugaleikari jafn vel til þess fallinn að skila flumbraranum og tilfinningabúntinu barnslega, Matthíasi ræningjaforingja, og Þröstur Ólafsson. Strangari leikstjórn hefði sennilega yddað framgöngu hans betur, og á það reyndar við um alla vinnu Elvars Loga að þessu sinni, en engu að síður var þetta skýrt teiknuð mynd af Matthíasi hjá Þresti. Þá var Hallgrímur Hróðmarsson afbragð í hlutverki Skalla-Péturs.

Þau Ástrós Þóra Valsdóttir og Burkni Dagur Burknason voru hárrétt í hlutverkum Ronju og Birkis, hún ákveðin og örugg, hann íbygginn og hlédrægur. Samleikur þeirra var prýðilegur, svo og mótleikur við aðra leikara.

Umgjörð öll bar metnaði aðstandenda vitni, Meira nostur við hópatriði hefði einnig beint ótvíræðum kraftinum betur í réttan farveg, og eins hefðu hópsöngvar þurft að beinast til áhorfenda frekar en að ræningjarnir væru að syngja hver fyrir annan.

Ronja ræningjadóttir er góð og holl saga sem skilaði sér í gegnum illa skrifað leikhandrit af ástríðu þátttakenda í sýningunni. Starfsemi Hallvarðs Súganda er þakkarvert framtak sem á vonandi eftir að gleðja bæjarbúa og gesti þeirra um ókomin ár.