miðvikudagur, maí 31, 2006

Ritskoðarinn

Sokkabandið. Höfundur: Anthony Neilson, þýðendur: Stefán Hallur Stefánsson og Vignir Rafn Valþórsson. Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson. Leikendur: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson. Sjóminjasafnið við Grandagarð 31. maí 2006.

Klámið í auga sjáandans


ÞEGAR Peter Brook er spurður að því hvers hann leitar með leikhústilraunum sínum biður hann gjarnan spyrilinn að rétta upp höndina og kreppa hnefann eins fast og hann getur. Síðan spyr hann hver munurinn sé á þessum hnefa og þeim sem er steyttur í reiði. Skyld hugsun er hreyfiaflið í þessu forvitnilega leikriti Anthony Neilson.

Ung kona hefur gert kvikmynd sem af lýsingum að dæma er næsta dæmigerð klámmynd. Ekkert nema kynlífsathafnir, engin önnur framvinda, enginn texti. En konan fullyrðir að myndin segi sögu, lýsi tilfinningum, sé djúp og margflata mynd af persónum sínum, sagðar með táknmáli kynlífsins einu. Hún veit hvað hún var að reyna að segja, og telur fullvíst að aðrir muni sjá í gegnum klámið og að kjarna málsins. Og hún mætir undirtyllu hjá Kvikmyndaeftirlitinu til að tala máli sínu og myndarinnar.

En þetta stutta en efnisríka leikrit er sem betur fer ekki bara vitsmunaleg rökræða um klám og list. Reyndar þykir mér Neilson sleppa sjálfum sér óþarflega billega frá því máli sem vissulega er til umræðu í verkinu. En honum liggur meira á hjarta í þessu klukkustundarlanga verki. Erindi listakonunnar ungu virðist nefnilega ekki síður felast í því að róta upp í lífi hins bælda og óhamingjusama ritskoðara sem hefur það hlutverk að upphalda yfirborðssiðgæði samfélagsins og vernda það fyrir því sem samfélagið hefur sammælst um að kalla sora. En bæling er ekki uppræting, hvorki í samfélögum né sálarlífi og listakonan nær að draga fram duldar hvatir ritskoðarans.

Þetta er forvitnilegt leikrit, ekki sérlega frumlegt en opið, órætt, ágengt og vel skrifað. Það lifir með manni eftir að heim er komið, krefst þess að það sé rökrætt. Sálfræðin í því er svolítið ódýr, og Neilson tekst varla að gera hina bakgrunnslausu og óræðu listakonu að sjálfstæðri persónu, heldur verður hún málpípa, efnahvati atburðanna. Hann leyfir sér líka að gefa henni innsæi í huga ritskoðarans sem engin leið er að skilja hvaðan hún hefur nema af því að skapari persónanna hefur látið henni upplýsingarnar í té. Og það er svindl.

Sviðsetning Jóns Páls er einföld og smekkleg í skemmtilegu rýminu í hinu tilvonandi sjóminjasafni. Sennilega er það með vilja gert að halda ákveðinni einhæfni í staðsetningum persónanna, sem verður til þess að helmingur áhorfenda verður betur upplýstur um ritskoðarann og hinn helmingurinn um stúlkuna. Einföld lýsing er vel nýtt og kynlífstilburðir meðhöndlaðir af öryggi sem gerir þá hvorki að einberum „sjokkeffektum“ né týnir áhrifum þeirra í tepruskap.

Ritskoðarinn er ekki leikrit sem sýnir leikurum mikla miskunn. Það krefst afdráttarlausrar innlifunar þrátt fyrir óræðni sína og naumhyggjulegan stílinn. Á heildina litið má segja að leikhópurinn komist býsna langt að markinu en ekkert þeirra samt alla þá leið sem þarf. Þannig var umtals- og aðdáunarverð tækni Stefáns Halls helst til sýnileg í túlkun hans á ritskoðaranum. Og þó Elma Lísa hafi útlit, fas og týpueinkennin með sér í hina yfirborðsöruggu listakonu þá náði hún ekki að fylla upp í það tómarúm sem höfundurinn hefur skilið eftir í persónunni sem varð fyrir vikið frekar hættulaus, sem hjálpar ekki spennustigi sýningarinnar neitt. Arndís Hrönn varð líka að kröftugri týpu sem eiginkonan, en ekki mikið meira en það. Þýðing þeirra Stefáns Halls og Vignis Rafns er á heildina litið þokkalega lipur, en tilraunir til staðfærslu held ég að hafi verið óþarfar.

Það virðist vera búið að úthluta sjálfstæðu leikhúsunum því hlutverki að kynna Íslendingum hina tíu ára gömlu byltingarbylgju ungra leikskálda í Bretlandi sem smekklausir blaðamenn þar í landi kalla „In-Yer-Face-Theatre“. Dýrðlingur þessa ágenga leikhúss, Sarah Kane, er af óskiljanlegum ástæðum ósýnd hér enn. Verk Anthony Neilson er um margt dæmigert fyrir verk úr þessum sundurlausa skóla. Kuldi, óræðni, grimmd og nærgöngul sýning á ofbeldi og kynlífi sem þjónar þeim markmiðum að segja mikilvægan sannleika um manneskjuna. Þetta er sterkt en gallað verk sem heldur áfram að tala við áhorfandann þegar heim er komið. Sokkabandinu ber að þakka fyrir þá listrænu drift að kynna okkur þetta athyglisverða leikskáld.

mánudagur, maí 08, 2006

Skuolfi

SKUOLFI

Jojk-ópera eftir Johan Sara jr. og Harriet Nordlund. Beaivvás Sámi Teáhter. Norræna húsinu 8. maí 2006.

Ugluspil


HÚN fór ekki hátt, heimsókn þjóðleikhúss Sama til Íslands að þessu sinni. Enda voru áhorfendur næsta fáir í Norræna húsinu á sunnudaginn þegar þau sýndu seinni sýningu sína á jojkóperunni Skuolfi.

Samt er þetta víðfrægt leikhús með gott orðspor og sterka Íslandstengingu í gegnum Hauk Gunnarsson sem um árabil var leikhússtjóri og hafði mótandi áhrif á listræna stefnu leikflokksins. Og einhvern tíma hefði því nú verið haldið fram að íslenskt leikhús væri fábrotnara en svo að leikhúsiðkendur og -áhugamenn hefðu menningarleg efni á að láta jafnframandi sýningu og þessa fram hjá sér fara.

Og það er framandleikinn sem heillar í Skuolfi. Seiðurinn í tónlistinni, hljómur tungumálsins, einlægnin í andlitunum. Innihald sýningarinnar er næsta óljóst, textinn virðist upphafinn og óræður, en sagan sem samkvæmt leikskrá kemst tæpast til skila.

Að einhverju leyti er vitaskuld um að kenna tungumálinu, en ég hef séð nógu mikið af sýningum á málum sem ég skil ekkert í til að vita að hér hefði verið hægt að miðla mun skýrar. Sterkari andstæður og minni óræðni hefði hjálpað okkur að skilja og samlíða með náttúrubarninu Jovna Nilas sem nefndur er Uglan í tilraunum hans til að fóta sig í breyttum heimi nútíma lifnaðarhátta.

Sýningin virðist ekki miðla því efni sem upplýsingarnar benda til að sé tilgangurinn. Á hinn bóginn er það sem fyrir augu og eyru ber áheyrilegt og áferðarfallegt í sjálfu sér. Tónlistin einföld en sterk, hljóðmynd slagverks, bassaklarínetts og sópransaxófóns skemmtileg og söngurinn látlaus og hreinn. Umgjörðin falleg og óvenjuleg, með hálfu hvítu tjaldi og hálf-þjóðlegum búningum. Ingor Ántte Áilu Gaup og Egil Keskitalo buðu af sér látlausan þokka í hlutverkum Nilas og prests, en það var Mary Sarre sem fangaði hugann í torræðu hlutverki einhvers konar náttúruanda (að ég held) með skýru og óvenjulegu líkamsmáli, sem jaðraði við dans, og fjölbreyttri raddbeitingu. Skuolfi er torskilin sýning en falleg. Það er alltaf þakklátt að fá að skyggnast inn í framandi heima, en leikhúsið býður upp á talsvert öflugri hjálpartæki við að skilja annað fólk en þau sem Beaivvás Sámi Teáhter beitti hér.

mánudagur, maí 01, 2006

Þrek og tár

Leikfélag Hveragerðis Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson, leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson. Völundi 1. maí 2006

Í víðmynd 


EINHVERN tímann las ég í kennslubók um ljósmyndun að dýrustu linsur væru þær sem tækju víða mynd sem væri þó laus við bjögun fiskaugans. Þannig er sjónarhorn Ólafs Hauks í Þreki og tárum. Það horfir vítt yfir hversdagsraunir og -gleði óhversdagslegrar fjölskyldu í Reykjavík á sjötta áratugnum. Tóntegundin er létt og mest björt, og munar þar mest um tónlistina sem spannar sviðið frá rómantík til væmni. En samt rúmar verkið okurlánastarfsemi, tryggingasvik, geðveilur, eiturlyfjaneyslu, heimilisofbeldi, útskúfun, íkveikjur og sjálfsvíg.

Og þetta virkar hvað með öðru. Verkið boðar umburðarlyndi og fyrirgefningu, og það þarf svo sannarlega umburðarlyndan höfund til að tryggja farsælt sambýli þessara stríðu efnisþátta. Þessi einkenni gera einnig ríkar kröfur til leikstjóra. Sú jafnvægislist ræður í raun úrslitum um hversu heilstæð sýning á Þreki og tárum verður.

Og það verður að játast að Ólafi Jens hefur ekki tekist til fullnustu að skapa einingu milli hins bjarta og dimma, létta og þunga í leikarahóp sínum. Það er vitaskuld freistandi að skemmta áhorfendum, en ef of langt er seilst í þá átt missa alvarlegri þræðirnir áhrifamátt sinn og þau atriði þar sem þeir eru í forgrunni falla dauð.

Þetta verður þeim mun dapurlegra þegar leikarahópurinn er þó jafn traustur og hér, með Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson fremstan meðal jafningja. Sigurgeir fer vitaskuld létt með að gera Jóhann ættföður drepfyndinn í öllum sínum snjöllu tilsvörum, en hann hefði þurft að fá strangara aðhald til að stilla sig í gríninu og leggja á djúpið.

Þeir einu sem mér þóttu ganga þannig á hólm við sitt hlutverk var Magnús Ólafsson, sem lýsti Einari sem lágstemmdum samanbitnum manni, og Sveinn Óskar Ásbjörnsson sem sonur hans. Margir náðu hins vegar skýrum skoptýpum, og sýningin er vissulega bráðskemmtileg og iðulega sniðuglega sviðsett á ágætlega þénanlegu sviðinu í Völundi. Tónlistin vel flutt.

Fullur salur af áhorfendum hló og skemmti sér sem vonlegt var. Ég líka. En mig vantaði tárin.