föstudagur, janúar 19, 2007

Sælueyjan

Höfundur: Jacob Hirdwall, leikgerð Gréta María Bergsdóttir og María Ellingsen, leikstjóri: María Ellingsen, dramatúrg: Gréta María Bergsdóttir, leikmynd og búningar: Snorri Freyr Hilmarsson, tónlist: Ólafur Björn Ólafsson, ljósa- og myndbandshönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Gideon Kiers. Leikendur: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Kristján Franklín Magnús, Sólveig Arnarsdóttir og Þórunn Erna Clausen. Þjóðleikhúsið 19. janúar 2007.

Að lifa lengi og lifa vel

ÞAÐ hlýtur aldeilis að hafa virkað spennandi á forráðamenn Þjóðleikhússins þegar sænskur leikhúsmaður dúkkar þar upp með leikrit (eða allavega hugmynd eða drög) þar sem raunverulegir atburðir og aðstæður í íslensku samfélagi mynda bakgrunn djúpstæðrar samfélagsgagnrýni um siðaklemmur sem eru að byrja að þrengja að nútíma tæknisamfélagi, sem aukinheldur stýrist að miklu leyti af stjórnlausri auðhyggju. Ekki veit ég hversu langt Jacob Hirdwall var genginn með þegar ákveðið var að setja það á svið. Eins er ekki ljóst hversu stór hlutur hans er í því handriti sem liggur sýningunni til grundvallar því leikstjóri og dramatúrg sýningarinnar eru skrifaðir fyrir "leikgerð" á verkinu.

Hitt er jafnskýrt að einhvers staðar á leiðinni fór eitthvað alvarlega út af sporinu.

Undirstaða verksins er ágætis upplegg í vondan "þriller", eða jafnvel sæmilega tveggja þátta seríu í sjónvarpi. Maður nokkur kemst undir læknishendur og kveðst vera 150 ára gamall. Rannsóknir leiða í ljós að í erfðamengi hans eru frávik sem koma í veg fyrir þá hrörnun sem orsakar elli í venjulegu fólki. Hvað á að gera við þennan fróðleik? Að því gefnu (og verkið gefur sér það) að hægt sé að þýða þessa þekkingu yfir í lyf sem veitir öðrum sömu gæði, hver á að njóta þess og er það þess virði? Sjálfur virðist hinn langlífi ekkert sérlega ánægður með hlutskipti sitt og hefur mögulega verið að reyna að binda enda á það á sérlega hálfkákslegan hátt. Hann tjáir sig gjarnan í óhemjuvondum kveðskap, en er að öðru leyti eiginlega ekki persóna, meira svona höfundartæknileg brella til að koma hreyfingu á "plottið". Enda heitir hann Aion (eilífð), svona ef einhvern áhorfanda færi að gruna að hann væri ekki fyrst og fremst tákn.

En eins og í öllum sæmilegum sjónvarpsseríum er líka persónuleg hlið á siðaklemmunni. Það er hún Tekla, sem verður ástkona vísindamannsins og heldur því leyndu fyrir honum að hún er með alvarlegan erfðasjúkdóm sem fljótlega mun draga hana til dauða. Tilkoma Aions og vonin um töfralyfið virðist gefa henni von, þó erfitt sé að sjá hvernig lyf við öldrun sé sjálfkrafa líka lyf við Huntingtons-sjúkdómnum. En hvað veit ég? Þegar útlit er fyrir að hagsmunir elskendanna fari ekki saman grípur hún til örþrifaráða. Inn í allt saman blandast síðan illyrmislegur svissneskur lyfjaframleiðandi með ógnvænlegar hugmyndir sem benda til að hann hafi hrifist mjög á unglingsárum þegar hann las Brave New World , en hætt í miðri bók.

Þetta er ekki gott leikrit. Fyrir utan klisjurnar sem einkenna það þá hefur það því miður ekkert merkilegt fram að færa um þær stóru siðferðisspurningar sem virðast vera kveikjan að því. Framvindan er bæði hæg og bláþráðótt, stíllinn er hvorki hverdagsraunsær né rismikill heldur fyrst og fremst flatur, ósannfærandi sem talmál og óáhugaverður sem skáldskapur. Fyrirlestur um Huntingtons-sjúkdóminn skar sig nokkuð úr, var vel unninn og tengdi hið fræðilega og persónulega á þann hátt sem hefði þurft að einkenna allt verkið. Það var ekki nóg.

Fyrir vikið er varla nema von að leikurunum gangi allbrösuglega að blása lífi í persónur sínar. Það var kannski helst líkamstjáning Sólveigar Arnarsdóttur sem gladdi, svo og túlkun hennar á fyrrnefndum fyrirlestri. Já, og kómískur "vísindanörd" Baldurs Trausta Hreinssonar. Um annað er varla neitt áhugavert að segja. Meira og minna skammlaust en frekar tilgangslítið.

Sýningin er lipurlega sviðsett og flæðir vel hjá Maríu Ellingssen í þénugri leikmynd Snorra Freys. Lýsing og niturbasagrafík Björns Bergsteins Guðmundssonar og Gideons Kiers var smart og truflaði ekki neitt þó hún hefði misst áhrifamátt sinn eftir fyrstu senu. Tónlist Ólafs Björns Ólafssonar lítt eftirminnileg, en alls ekki til ama.

Hvað hefur leikhúsið fram að færa í umræðu um erfið, flókin og brýn úrlausnarefni samfélagsins? Hvað gerir það betur en aðrir miðlar? Jú, það sýnir fólk í návígi takast á við siðferðisspursmál og afleiðingar þess sem ákvarðanir þeirra og annarra hafa í för með sér. Enginn vafi leikur á að þeim Jacobi, Maríu og Grétu Maríu þótti þau vera með merkilegt viðfangsefni. En þeim lánaðist ekki að finna í því kjarnann, fundu ekki söguna sem varpaði gagnlegu ljósi á það, fundu ekki orðin sem persónurnar þurftu til að miðla líðan sinni, höfðu kannski einfaldlega ekkert spennandi um málið að segja.
Þetta hefði einhver átt að sjá í tíma, stýra verkefninu í farsælli átt, spyrja frjórra spurninga, og mögulega taka verkið af dagskrá ef svörin voru ekki nógu góð.

Eitt er víst. Ef ungt, íslenskt leikskáld með takmarkað orðspor hefði sent Þjóðleikhúsinu það handrit að Sælueyjunni sem liggur til grundvallar sýningunni þá hefði það uppskorið stuttan fund með leiklistarráðunaut hússins, kaffibolla, hvetjandi orð og kurteislegt nei.

Vonandi.

sunnudagur, janúar 14, 2007

The Power of Love

Brilljantín og Ismedia Höfundur, leikstjóri og leikari: Halldóra Malin Pétursdóttir. Austurbær 14. janúar 2007

Kella í helli 


THE Power of Love sver sig í ætt leiksýninga sem eðlilegast er að kenna við Hellisbúann. Eintöl þar sem karlar – og konur – útmála á skoplegan hátt afstöðu sína til hins kynsins. Þetta eru nokkurs konar varnarræður, verða stundum dálítið MORFÍS-legar, og á köflum ákaflega hvimleiðar.

The Power of Love er ekki hvimleið sýning. Hún er einlæg, nokkuð frumleg og skemmtileg úttekt á því hvernig það horfir við ungri konu að vera nánast ekki til nema eins og hún birtist körlunum sem hún vill (eða telur sig verða) að nálgast.

Sýningin samanstendur af laustengdum atriðum sem sameina dansleikhús, látbragð og trúð, stundum á nokkuð ómarkvissan hátt, stundum frábærlega, aldrei leiðinlega. Textinn er lítill sem enginn, en þegar persónan fær loks málið talar hún eingöngu í klisjulegum tilvitnunum í popptexta, og vekur þannig til umhugsunar um hvað grunnhyggni og sölumennska er nánast allsráðandi í umfjöllun um ástina, sem á hinn bóginn er sífellt mærð sem dýpsta og dýrmætasta kennd okkar.

Halldóra Malin hefur mikinn sviðssjarma og kann að nota hann. Hún var frá fyrsta andartaki í sambandi við salinn, þótt sýningin byrjaði á atriði þar sem tærnar á henni voru í aðalhlutverki. Líkamspartar léku reyndar stórt hlutverk sýninguna út í gegn, tær, fingur, augu, (óæskilegt) hár. Þetta var á köflum óborganlegt.

Sumt var að vonum klisjulegt. Tepruviðbrögð við myndum í kynlífskennslubók eru gömul saga. Margt af því var á móti útfært á frumlegan og skemmtilegan hátt í takt við tónlistina. Hin spennta bið við símann var dæmi um ferska nálgun á þreytt viðfangsefni. Og gaman hvernig hún nýtir hið trúðska augnaráð út í salinn, sem stöðugt biður um viðurkenningu. Því það á sér augljósa hliðstæðu í því hlutskipti kvenna að finnast þær knúnar til að uppfylla óorðuð og illa skilgreind viðmið til að vera gjaldgengar í augum okkar sem á þær glápum.

Mest var þó gaman að lokaatriðinu, þar sem persónan lokkar til sín mann á stefnumót. Þar tókst sýningin á flug, í líkingamáli sínu, í snjallri notkun á leikmunum og í krafti leikkonunnar. Þá var nú gaman.

Sýning af þessu tagi er í eðli sínu í stöðugri þróun, og það er ýmislegt sem mætti skerpa. Umgjörðin er tætingsleg, og þó svo það kunni að vera með vilja gert þá hjálpar það ekki erindi hennar. Meiri nákvæmni væri af hinu góða, svo lengi sem aginn gengur ekki af persónunni dauðri. Og svo má lengi skipta út atriðum fyrir önnur betri eftir því sem hugmyndirnar kvikna. Halldóra Malin er í þann veginn að halda í leiklistarhátíðavíking með sýninguna. Sjáið hana endilega áður en hún fer, og svo aftur þegar hún snýr heim

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Blúskóngur mærður

[Listapistill]

Menningarlíf utan höfuðborgarsvæðisins stendur í blóma. Það á ekki síst við um sviðslistir. Auk hefðbundinnar starfsemi áhugaleikfélaganna, sem mörg hver eru að hefja vinnu við sýningar leikársins, er gleðilega viðbót við þá merku starfsemi að finna víða. Kómedíuleikhús Elvars Loga Hannessonar er gott dæmi og nýlega sá undirritaður ansi hreint athyglisverða sýningu á sveitakrá í Reykjadal norður. Þar komu saman burðarásar úr leikfélagi Húsavíkur og Umf. Eflingar og settu á svið einþáttung úr smiðju eins félagans. Remba heitir verkið og höfundurinn Hörður Benónýsson. Árangurinn var vonum framar, bráðfyndið en laundjúpt verk um lífskrísur nokkurra iðnaðarmanna, sem varð einkar áreynslulaust í meðförum úrvalsleikaranna. Og þar með áhrifamikið. Ég veit ekki hvort sýningum er lokið en ef svo er ekki er heimsókn í vinnuskúrinn til kallanna algerlega ómaksins verð. 

Áreynsluleysi er líka aðalsmerki nýrrar sýningar í Landnámssetrinu í Borgarnesi, en þar hafa Kristján Kristjánsson og Einar Kárason tekið saman höndum á ný og unnið dagskrá upp úr lífshlaupi og list KK. Landnámssetrið heldur því áfram á sinni kröftugu braut við að efla menningarlíf héraðsins. 

Form sýningarinnar gæti að óséðu áreiðanlega ært hvern óstöðugan póstmódernista. Sögumaður segir uppvaxtarsögu manns, sem sjálfur situr og hlustar á og svarar með tónlist og textum, að mestu úr eigin smiðju. Sem betur fer stóðust þeir félagar þá freistingu að gera sér sérstakan mat úr þessum óvenjulegu aðstæðum. Til þess bera þeir of mikla virðingu fyrir viðfangsefni sínu. Kristján fyrir tónlistinni og Einar fyrir sögunni. 

Útkoman er alveg töfrandi. Sennilega nýtur Einar sín hvergi betur en einmitt svona. Með nokkurn veginn ákveðið umfjöllunarefni sem hann endurskapar þó í hvert sinn, les ekki upp heldur miðlar efninu með þeim orðum sem koma í hugann í augnablikinu. Sagan er enda mögnuð, lífshlaupið á köflum óvenjulegt, en líka kunnuglegt og snertipunktaríkt við líf áheyrendanna. Sviðsetningar Einars á helstu sögusviðum ævinnar voru hver annarri ágætari, Kalifornía eftirstríðsáranna, Þingholtin á bítlaárunum, sumardvölin í Húnaþingi. Ef eitthvað á að hnýta í þá væri það helst að söguhetjan sjálf fellur eilítið í skuggann fyrir leiktjöldunum, og svo endirinn sem var óþarflega snubbóttur. En það er á við góðan dekurdag að láta segja sér sögu af svona mikilli íþrótt. 

Kannski er það einmitt tengingin við Landnámssetrið, sem gæti virst ankannalegur staður fyrir þennan viðburð. En hér var auðvitað verið að mæra konung eins og Egill og fleiri gerðu forðum og hlutu af virðingu mikla og frægð um leið og þeir héldu nafni höfðingjans á lofti. Kvæði sín fluttu þeir vitaskuld í áheyrn viðfangsefnisins. það er í þau fótspor sem Einar stígur og flytur ræðu sína um hinn íslenska blúskóng. Og Einar og við hin þiggjum síðan góðar gjafir hans. 

KK er sennilega að mestu leyti búinn til úr tónlist. Svo áreynslulaus virðist hún streyma frá honum. Átökin sem einkenna sum lögin eru alltaf úr tónlistinni sjálfri, aldrei frá honum. Hann glímir ekki við formið heldur dansar í því. Meira að segja þegar röddin er ekki alveg í eins góðu formi og hann vildi, sem kannski var raunin í upphafi leiks á laugardagskvöldið, er allt eðlilegt. Það hvað hann er lunkinn textasmiður, fimur gítarleikari og sjarmerandi „performer“ eru aukaatriði. Tónlistin er það sem skiptir máli. Og hún skilar sér. Það sama má segja um söguna sem Einar segir. Hann miðlar henni og reynir að trufla hana sem minnst. Þetta einkenni þeirra beggja leggur grunninn að því hvað samspilið verður fallegt og sýningin öll tær. Og þeir sem dýrka „virtúósítet“ og halda að þetta sé auðvelt ættu að reyna það. 

Ferð upp í Borgarfjörð er lítið ómak fyrir svona ágæta stund. Blúskonungur mærður Töfrandi „Útkoman er alveg töfrandi. Sennilega nýtur Einar sín hvergi betur en einmitt svona. Með nokkurnvegin ákveðið umfjöllunarefni sem hann endurskapar þó í hvert sinn, [...].