þriðjudagur, janúar 01, 2008

Dagur vonar

Leikfélag Reykjavíkur
nýja sviðið 11. janúar 2007


Höfundur: Birgir Sigurðsson, leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason, leikmynd:Vytautas Narbutas, tónlist: Egill Ólafsson, lýsing: Kári Gíslason, búningahönnun: Margrét Einarsdóttir og Dýrleif Ýr Örlygsdóttir, förðun Sigríður Rósa Bjarnadóttir.

Leikarar: Birgitta Birgisdóttir, Ellert A. Ingimundarson, Gunnar Hansson, Hanna María Karlsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason og Sigrún Edda Björnsdóttir,


Tíðindi úr þagnarhúsinu



STÆRSTU tíðindin í mínum augum eftir að hafa nú séð Dag vonar í þriðja sinn, og í annað sinn á sviði, er að leikritið lifir. Það þótti mér alls ekki sjálfgefið þegar ég settist í salinn á fimmtudagskvöldið. Birgir Sigurðsson valdi nefnilega að feta ákaflega vandratað einstigi þegar hann ákvað að segja þessa sögu. Hann gefur persónum sínum, hverri einustu, hæfileika til að tjá sig á háfleygan, orðmargan og hnitmiðaðan hátt, ljær þeim öllum kjark til að tjá sig opinskátt og umbúðalaust og flestu að auki innsæi til að deila tilfinningum sínum með hinum persónunum og þar með okkur áhorfendum. Það er ekkert Tjekovst eða Jökulskt við þetta leikrit, ef það á einhverja fræga frændur í útlöndum eru þeir sennilega ættaðir frá Eugene O’Neill.

Þetta er hættulegur stíll, og það kemur vissulega fyrir að verkið rambar á öðrum fæti á brúninni við melódramafenið. Stundum meira að segja slettist aðeins á það. En hin djúpa og augljósa alvara höfundarins og krafturinn sem hann blæs í efniviðinn drífur það alltaf áfram, allt að leikslokunum þar sem ekkert stendur eftir nema vonin.

Og um leið og áhrifaríkri frásögninni vindur fram, hægt en af þunga, eru umfjöllunarefnin lögð fram og krufin. Hlutskipti listamannsins og afstaða hans til lífsins, frjó eða ófrjó. Ljósið sem sannleikurinn ber inn í líf fólks, þó það sem hann gerir sýnilegt sé ekki allt fallegt. Og hörmungarnar sem blinda, sjálfsblekking og skilningsleysi kallar yfir okkur. Atburðirnir leiða þetta í ljós, rökræðurnar skerpa sýnina, skáldskapurinn kveikir myndirnar sem næra skilninginn. Magnað leikrit.

Það er kreppuástand í fjölskyldunni sem Dagur vonar greinir frá. Fyrir utan efnahagskreppuna sem mótar lífsaðstæður þeirra hafa skömmu áður en verkið hefst gerst tveir atburðir sem hækka spennustigið í þær illbærilegu hæðir sem gefa tónin um samskiptin. Dóttirin Alda, sem virtist vera að ná sér upp úr geðveikinni, hverfur á ný inn í sinn ljóðræna einkaheim og móðirin Lára tekur saman við drykkjumanninn Gunnar sem synir hennar eiga erfitt með að lynda við. Yfir öllu vakir síðan húseigandinn Guðný, sem einkum leggur sig eftir velferð Öldu og Reynis, yngri sonarins, sem þrátt fyrir einarðar tilraunir Láru til að stýra honum frá glötunarbraut listrænunnar úr föðurættinni reynist vera hneigður í þá átt.

Það er fánýtt að rekja söguþráðinn frekar. Hann er innbrenndur í leikhúsminni þeirra sem sáu frumuppfærsluna, og þeir sem ekki fengu notið hennar er betur þjónað með því að gefa þeim tækifæri til að mæta ógnarlegum atburðum verksins óviðbúnir.

Enn fráleitara er að reyna að bera þessar tvær sýningar saman. Sú nýja nýtur þess að vera fersk í huganum, hin hefur fengið að búa um sig þar í tuttugu ár, svo eftir standa einungis þeir þættir hennar sem ekki er hægt að gleyma. Höldum okkur við núið.

Verkið lifir, en það tók sýninguna dágóðan tíma að vinna mig á sitt band. Nánasarlegt fótarýmið í áhorfendabekkjum Nýja sviðsins hjálpaði þar ekkert til, en það var fleira sem truflaði.

Hilmir Snær hefur valið að fylgja hamsleysinu í verkinu eftir í stað þess að tempra það. Það er mikið öskrað, og þó það sé stundum tilefni til þess þá hefur það á endanum öfug áhrif, slævir í stað þess að vekja. Meiri alúð við styrkleika- og tempóbreytingar, meiri stjórn, hefði áreiðanlega styrkt sýninguna sem heild.

Hlutverkaskipan þótti mér á mörkunum hvað varðaði aldursmun, sem er nákvæmlega tilgreindur í handriti, umtalaður í verkinu og skiptir talsverðu máli. Hilmir hefur algerlega horft framhjá þessu, og það truflaði mig framanaf.

Og þó rimlagrindin sem skilur að rými áhorfenda og persóna og lokar þær síðarnefndu inn í búri nýtist stundum í sterkar myndir og kalli fram áhrifaríkar lausnir þá þvældist hún líka fyrir, eins og ljóst mátti vera. Truflaði sjónlínur, þreytti augun. Og svo er það nú eitt af því sem þessum rýni leiðist hvað mest þegar leikmyndahönnuðir líta á það sem sitt verkefni að segja áhorfendum um hvað leikritið sé.

Mestu máli skipti samt hvað ég átti erfitt með að trúa á sambandið sem er orkustöð atburðanna. Til þess er Gunnar of augljóslega lítilsigldur frá upphafi hjá Ellert A. Ingimundarsyni, of mikil reisn yfir Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í hlutverki Láru. Ekkert í fari hennar sagði mér að þar færi kona á síðasta snúning í ástarmálunum sem væri knúin til að grípa hvern sem treysti sér í að fullnægja þörfum hennar. Og hvergi sá ég þess stað í Gunnari í túlkun Ellerts sem gæti fengið þessa konu til að trúa því að honum væri við bjargandi.

Og að síðustu: Ég skil ekki af hverju Gunnari Hanssyni var leyft að standa ekki með persónunni sinni, heldur grípa hvert tækifæri til að gera hana hlægilega. Sem er að sönnu auðvelt, en þeim mun meiri ástæða til að leggja algera sannfæringu í rómantíska sjálfsblekkingarraus Harðar um skáldskap, listamannseðli sitt og lítilmótleika hinna.

En svo gerðist eitthvað. Eða margt, reyndar. Járnrimlunum var svift frá sviðsopinu (ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum að nú væri Öldu að batna) sem bætti samband sviðs og salar til muna. Gunnar Hansson fór að trúa á sinn mann um leið og blekkingin var frá honum tekin og skilaði á endasprettinum býsna sannfærandi veiklunduðum manni sem maður óskaði alls góðs og fyrirgaf honum vanþroskann.

Það sem kannski skipti mestu; þegar elskhuginn var á brott varð Sigrún Edda eins sannfærandi sem móðir og hún var áður ótrúverðug drykkjumannskona. Ef Dagur vonar er harmleikur þá er Lára hin tragíska hetja, og því skilaði Sigrún í lokakaflanum, og mátti ekki seinna vera.

Rúnar Freyr Gíslason er sannfærandi týpa fyrir hlutverk ólíkindatólsins Reynis og gerði margt vel, þó hann hafi tilhneigingu til að verða svolítið eintóna og dytti stundum í þá gryfju hér. En ég trúði bæði á hörkutólið og skáldið í Reyni og það er gott.

Hanna María Karlsdóttir sýndi mér hlýjuna í hinni lífsreyndu Guðnýju, en stéttamunurinn á þeim Láru var ekki til staðar, Hönnu Maríu lætur ekki best að lýsa aristókratí.

Birgitta Birgisdóttir fær það verkefni að vera hið skáldlega hjarta sýningarinnar. Í fyrstu var ég dálítið áhyggjufullur yfir leið hennar og leikstjórans með ljóðrænan texta Öldu, að láta hana lifa sig svona inn í hann og upplifa fegurðina í því sem hún segir. Það býður heim hættunni á að viðkvæmur textinn verði of væminn í bernskum stíl sínum. En það sleppur og Birgitta nær að gera Öldu nálæga okkur þrátt fyrir fjarlægðina í ástandi hennar. Líkamsmál hennar er verulega vel unnið, og sást best í lokin þegar bráir af henni og það gerist fyrst og fremst í líkamanum og við sjáum hvað Birgitta hefur haldið vel utan um þennan þátt sýninguna í gegn.

Hljóðmynd Egils Ólafssonar er stemmingsrík en ekki alltaf samferða öðrum elementum í hughrifunum. Sérstaklega áberandi í ræðu Öldu um „sálarmorðingjana“ þar sem hægferðugt sellóið gerði ekkert til að hjálpa tempói sýningarinnar.

Búningar Dýrleifar Ýr Örlygsdóttur og Margrétar Einarsdóttur sannfærandi, lýsing Kára Gíslasonar vinnur vel með leikmynd Vytautasar Narbutas, sem er falleg og þénug fyrir utan fyrrnefndan framvegg.

Sýning Leikfélags Reykjavíkur á Degi vonar lukkast á endanum, þó svo við hana sé ýmislegt að athuga í persónusköpun, hlutverkaskipan, leikmynd og tóntegund þeirri sem leikstjórinn velur.

Og það færir heim sanninn um það að hér fer meistarastykki frá hendi höfundar. Vogað leikrit þar sem ástríðurnar ná frá sálum persónanna upp á yfirborðið, tjáðar á kraftmiklu, skáldlegu máli. Ekkert verður eins hlægilegt og svona verk ef þau eru mislukkuð. Þeim mun virðingarverðari ef þau heppnast.