föstudagur, mars 30, 2001

Augun þín blá - Dagskrá úr verkum Jónasar og Jóns Múla Árnasona

Leiklistarhópur ungmennafélagsins Eflingar
Breiðumýri, Reykjadal 30. mars 2001

Leikstjórn og dagskrárgerð: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Sigurður Illugason

Sígræna

SÖNGLEIKIR þeirra Múlabræðra, sumir reyndar samdir í slagtogi við aðra, eru náttúrulega sígild íslensk leikverk. Frábær tónlistin, hnyttnir textarnir, húmorinn og sú sérstaka hlýja sem einkennir efnistök öll gera þau að sjálfsögðum viðfangsefnum á öllum tímum.Smákrimmaóperettan Rjúkandi ráð, sjúkrahússöngleikurinn Allra meina bót, Jóla- og bílnúmerarevían Deleríum Búbónis, og síldar- og spírítismasöngleikurinn Járnhausinn eru hvert öðru skemmtilegra. Íslensk áhugaleikfélög munu alltaf standa í þakkarskuld við þá bræður og því er viðeigandi af Eflingu að senda Jóni Múla kveðju á áttræðisafmælinu með þessari bráðskemmtilegu sýningu
Arnór Benónýsson hefur týnt saman söngva og leikatriði úr verkunum fjórum, auk þess sem sungin eru tvö lög úr ófluttu verki, Forsetakosningar 2012, sem mun vera að uppistöðu skopleikurinn Halelúja, aukinn söngvum. Mörg laganna eru vitaskuld alþekkt og heyrast oft, en hér gat einnig að heyra söngdansa sem standa óverðskuldað í skugga þeirra frægari. Kavatína Kristínar úr Rjúkandi ráði, Sérlegur sendiherra úr Deleríum Búbónis, Hvað er að hvíta ský? úr Járnhausnum og Barbídúkka úr nýja verkinu eru frábær lög sem gaman var að rifja upp kynnin við með Eflingarfólki. Þá var líka gott að heyra gamalkunnug lög tekin ferskum tökum, sérstaklega óborganlega útgáfu af Ástardúettinum fallega úr Deleríum Búbónis, sem var sunginn þrisvar, af pörum á öllum aldri, og með ólíkum forsendum.
Þeir Reykdælir eru vel búnir tónlistarkröftum og því ekki að undra að sá þáttur sýningarinnar væri vel af hendi leystur. Hljómsveitin var vel spilandi og söngvarar upp til hópa fínir. Hraðaval var að jafnaði í frískari kantinum, sem kom stundum niður á textunum, einkum í hópsöngvum, en kunna ekki allir Fröken Reykjavík hvort eð er?
Leikatriðin voru flest ágæt, en ég gæti trúað því að erfitt sé fyrir þá sem lítt eru kunnugir verkunum að henda reiður á hvað er að gerast í sumum þeirra. Kannski hefði verið ráð að gera stutta grein fyrir efnisþræði verkanna í leikskrá. En leiktexti Jónasar stendur auðvitað fyrir sínu og skilaði sér alla jafnan til áhorfenda.
Umgjörð sýningarinnar er eins einföld og hugsast getur, leikmyndin fyrst og fremst leikhópurinn sjálfur, engir búningar, bara föt leikaranna sjálfra að mér sýndist. Þetta var ágæt lausn, hér voru skáldbræðurnir í forgrunni. Myrkvanir á sviðinu milli atriða voru eiginlega óþarfar í þessu óþvingaða andrúmslofti.
Augun þín blá eru skemmtileg og kraftmikil yfirlitssýning sem fær áhorfendur, allavega undirritaðan, til að bíða spennta eftir næsta tækifæri til að sjá söngleikina í heild sinni. Svoleiðis sýning myndi augljóslega ekki vefjast fyrir Ungmennafélaginu Eflingu.