föstudagur, mars 22, 2002

Vígsluvottorðið

Leikfélag Siglufjarðar
22. mars 2002.

Höfundur: Efraim Kishon.
Þýðandi: Árni Bergmann.
Leikstjóri: Linda María Ásgeirsdóttir.

Leikendur: Bogi Kristjánsson, Hanna Björnsdóttir, Páll Þorvaldsson,Sigurður Hlöðvesson, Soffía Arnardóttir og Sólveig Halla Kjartansdóttir.

Ævi og ástir pípulagningamanns

EF ekki kæmi til kollhúfur og tal um samyrkjubú væri auðvelt að ímynda sér að Vígsluvottorðið væri danskt leikrit. Hin hlýja og elskulega skoptóntegund sem Efraim Kishon syngur í fer ansi nærri þeirri sem oft er að finna í verkum frá því landi, en sjálfur er hann er hins vegar ungverskur að uppruna, býr nú í Sviss, en verk hans gerast í Ísrael, þar sem hann bjó lengst af.

Í Vígsluvottorðinu kynnumst við píparanum Daníel Brozowsky og fjölskyldu hans. Hjónaband hans og Ellu er fyrir löngu fallið í farveg hverdagsleikans, en þegar dóttirin Vicky ætlar að gifta sig heimtar tengdamóðirin tilvonandi að sjá vígsluvottorð foreldra hennar. Það finnst hvergi, og þau hjónin hálfminnir reyndar að ef til vill hafi þau aldrei komið því formsatriði í verk að ganga fyrir rabbía, enda hvorugt sérlega trúhneigt. En við þessa uppgötvun fer að hrikta í hversdagsstoðunum. Vill Ella giftast þeim heimilisharðstjóra sem Daníel er orðinn? Getur hann og vill breyta sér aftur í mann sem Ella hefur áhuga á? Um þetta snýst þetta ágæta leikrit, sem er bráðskemmtilegt og sækir fyndnina ekki í fíflalæti, orðaleiki eða misskilning, heldur í grínaktukt sjónarhorn Kishons á brölt venjulegs fólks við að lifa lífinu. Verkið er kjörið viðfangsefni sem óhætt er að mæla með að forsprakkar fleiri leikfélaga gefi gaum. Hér sannast það, sem við vitum auðvitað öll, að venjulegt fólk í austurlöndum nær er merkilega lítið frábrugðið bræðrum sínum og systrum á Siglufirði.

Leikstjóri verksins er heimamaður, Linda María Ásgeirsdóttir, og er þetta frumraun hennar við uppsetningu heils kvölds verks. Óhætt er að segja að hún komist dável frá þeirri eldskírn og úr verður bráðskemmtileg kvöldstund. Umgjörðin er afar nostursamleg stofa, sem gæti eins verið íslensk og ísraelsk. Hreyfiferli er lipurt og þó leikarar séu auðsjáanlega mis-sviðsvanir þá skila þeir allir skýrum persónum. Það sem helst má að sýningunni finna er að hún mætti að ósekju þéttast nokkuð. Hvort sem um er að kenna óöryggi í textakunnáttu eða ónógri eftirfylgju leikstjórans þá virðast leikarar óþarflega oft þurfa að hugsa sig um áður en setningar falla. Þetta kemur nokkuð niður á kraftinum í sýningunni, en mun vafalaust lagast eftir því sem líður á sýningartímann.

Af leikendum hvílir mest á Sigurði Hlöðvessyni og Sólveigu Höllu Kjartansdóttur í hlutverkum Daníels og Ellu, en það eru einnig bitastæðustu hlutverkin. Samleikur þeirra er aldeilis ágætur, þau eru bæði trúverðug og skemmtileg, og ná einnig bæði að eignast samúð okkar. Við hlægjum að reigingslegri karlrembunni í Daníel, en finnum einnig til með honum í vandræðum hans við að komast fram hjá henni og nálgast langþreytta konu sína á ný.

Það er mikilvægur áfangi hjá hverju leikfélagi að eignast leikstjórnarreynslu og þekkingu innan félagsins. Það stælir metnaðinn, eykur möguleikana á fjölbreyttu starfi og hjálpar félaginu að fá það besta út úr aðkeyptum leikstjórum. Ég óska Leikfélagi Siglufjarðar til hamingju með Lindu Maríu.