mánudagur, mars 18, 2002

Rocky Horror Show

Leikhópur Verkmennataskólans á Akureyri
Ketilhúsinu á Akureyri 18. mars 2002

Höfundur: Richard O’Brien
Þýðandi: Veturliði Guðnason
Leikstjóri: Þorsteinn Bachmann

Hryllingur, kynórar og rokk

EINKENNILEGUR kokteill, Rocky Horror. Háðsk ástarjátning til þriðja flokks hryllings- og vísindaskáldskaparkvikmynda, rokktónlistar og klæðskiptinga. Allt efnið er meðhöndlað í gamansamri fjarlægð, en samt leynir væntumþykja höfundar á viðfangsefninu sér ekki. Til að kokkteillinn hrífi þurfa aðstandendur sýningar á Rocky Horror að ganga þetta sama einstigi. Vera einlægir og fjarlægir í senn.

Að sumu leyti tekst jafnvægislistin ágætlega í sýningu Verkmenntaskólans á Akureyri. Hún hefur grófgert yfirbragð B-myndanna, er ekki “kóreógraferuð” út í ystu æsar, leikmynd, búningar og leikmunir skemmtilega “ódýrir”. Sönglega er hún afbragð, allir aðalleikaranna fara með númerin sín eins og þaulreyndir rokkhundar. Leiklega er hún köflótt eins og við er að búast í svo stórum hópi lítt reyndra leikara. Alltaf þó ágæt skemmtun.

Þó Rocky Horror sé galgopalegt og alvörulaust verk þá er það í raun mjög heilsteypt, og hvílir á fyrirmyndum sínum, B-myndum og rokki. Þorsteinn Bachmann hefur sem höfundur sýningarinnar gert nokkrar breytingar á verkinu og það verður að segjast að þar er hann á hálum ís. Sú ákvörðun til dæmis að leggja texta sögumanns í munn partístúlkunnar Columbiu gerir ekkert annað en að rugla áhorfendur í ríminu. Nær hefði verið að sleppa honum alveg, enda bætir hann engu við nema gríninu sem felst í hátíðlegum og siðavöndum texanum úr munni hátíðlegs og siðavands sögumanns. Eins er með persónu Dr. Scott. O’Brien skopast með þá klisju að brjálaðir vísindamenn séu af þýskum ættum og hafi vafasama fortíð, en að gera Scott að Adolf sjálfum drepur öllu gamni á dreif. Þessar og fleiri hugmyndir geta virst skemmtilegar þegar þær kvikna, en þegar augljóst er orðið að þær þjóna ekki markmiðum sýningarinnar og vinna gegn áhrifamætti verksins er eina vitið að henda þeim.

Tónlistarflutningur var að mestu til fyrirmyndar, en þar virtist líka vera löngun til að sprengja rammann, láta ekki rokkklisjurnar nægja. Það gafst ekki vel, það er nefnilega ramminn sem er aðalkostur Rocky Horror, eina ástæða þess að verkið er þess virði að setja það á svið.

Það er mikil áskorun fyrir hvern leikara að smeygja sér í háhælaða skó Frank’N Further. Sigursveinn Þór Árnason var prýðilegur höfuðpaur, söng frábærlega og skapaði heilsteypta skrípamynd. Nokkuð vantaði upp á að nægilegri ógn stafaði af höfuðpaurnum, en þar er allt eins við mótleikarana og leikstjórann að sakast, til að leika kónginn þurfa aðrir að haga sér eins og hann sé kóngur. Af öðrum leikurum þótti mér mest koma til Sunnu Valgerðardóttur sem var afar skemmtileg Columbia og fór vel með sögumannstextann þó hann ætti illa heima hjá henni. Þá var þjónninn og kroppinbakurinn Riff Raff flottur hjá Stefáni Jakobssyni sem auk þess er þrususöngvari. Í raun mætti nefna alla leikarana, og hrósa þeim fyrir að skapa skýrar persónur og vera bráðskemmtilegir. Það er þeirra verk að gera þessa frumraun VMA í söngleikjabransanum að þeirri prýðisskemmtun sem hún er, þrátt fyrir þær blindgötur sem hún ratar annað slagið í.