laugardagur, febrúar 16, 2002

Gauragangur

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum
Valaskjálf laugardaginn 16. febrúar 2002

Höfundur: Óalfur Haukur Símonarson
Tónlist: Ný Dönsk
Leikstjóri: Unnar Geir Unnarsson
Tónlistarstjóri: Hafþór Snjólfur Helgason
Danshöfundur: Steinunn Ingvarsdóttir

Vaxtarverkir

SUMT breytist hratt í unglingaheimum, annað alls ekki. Gauragangur er góðu heilli að mestu um aðalpersónuna, snillinginn og gallagripinn Orm Óðinsson, sem opnar vart svo kjaftinn án þess að einhvern svíði, og áhorfendur hlægi.

Gauragangur sver sig í ætt við margar leikgerðir skáldsagna í því að atriði eru mörg og stutt og styttast ef eitthvað er eftir því sem verkinu vindur fram. Þetta gerir uppfærslu verksins á hefðbundnu félagsheimilissviði að torleystu verkefni, og leggur leikurum erfiða þraut á herðar að flytja orku og innlifun frá einni senu til annarar. Grundvallarlausn Unnars Geirs Unnarssonar í þessari uppfærslu er býsna snjöll. Stór pallur á hjólum er heimili Orms, en myndar einnig bakvegg fyrir aðrar senur. Skiptingar ganga enda rösklega fyrir sig og staðsetningar mynda skýrar og oft sterkar myndir. Gott dæmi eru hvernig upphafs- og lokamynd sýningarinnar, ímyndaður dauði Orms og raunveruleg jarðarför Hreiðars, kallast á. Þessi skýrleiki ásamt kraftmiklum og fagmannlegum tónlistarflutningi eru sterkustu þættir sýningarinnar. Á hinn bóginn verður hún á köflum óþarflega kyrrstæð, jafnvel í hópatriðum sem ættu að vera kjörið tækifæri til að láta mikið ganga á. Nokkur tónlistaratriðanna voru skemmtilega útfærð í dansi, til dæmis gullgerðarsöngurinn, en óþarflega mörg þeirra fólust einfaldlega í að lögin voru sungin án nokkurrar sviðsetningar. Ég saknaði kraftsins sem meiri hreyfing hefði leyst úr læðingi hjá leikhópnum.

Í menntaskólauppfærslum á Gauragangi eru hlutverk eldri kynslóðarinnar stundum vandamál, en svo er ekki hér. Unnar fer þá leið að ýkja nokkuð persónueinkenni eldra fólksins. Það er svolítið eins og við sjáum þau í gegnum ofurraunsæisgleraugu Orms, og þetta gefur leikurunum tækifæri til að teikna skýrar skopmyndir. Mörgum tekst þetta ágætlega, til að mynda Hálfdáni Helga Helgasyni sem var kennarablókin Arnór, Sigurði Borgari Arnaldssyni sem gerði skólastjórann ljóðelska að ótrúlegum eftirleguhippa og Steinunni Ingvarsdóttur í hlutverki móður draumadísarinnar Lindu. Engri hreyfingu var ofaukið hjá Steinunni og kuldinn streymdi um salinn.

En það eru auðvitað krakkarnir sem mest mæðir á. Andri Bergmann Þórhallsson og Ragnar Sigurmundsson eru hæfilega slöttólfslegir sem þeir fóstbræður Ormur og Ranúr. Andri fer áreynslulaust með hlutverk sitt, syngur vel og skilar fyndni Orms prýðilega. Þá er framabrautarbeibið Linda trúverðug hjá Elísabetu Öglu Stefánsdóttur.

Hljómsveitin fór örugglega í gegnum tónlistina og sama er að segja um velflesta söngvara. Ánægjulegt er hvað textaframburður var skýr í söngvunum, nokkuð sem oft verður fórnarlamb hljóðnema og hávaða. Hér voru bæði hljóðnemar og nægur hávaði en samt mátti skilja það sem sagt var.

Heildaryfirbragð Gauragangs Menntaskólans á Egilsstöðum er einfalt og skýrt. Með meiri krafti og fjöri hefði sýningin náð meiri hæðum, en skilaboðin komast samt í gegn; allir verða að finna sinn þroskaveg, ekki í einrúmi heldur í slagtogi við hina sauðina.