föstudagur, október 26, 2001

Stæltir stóðhestar

Litli leikklúbburinn á Ísafirði
Ísafirði 26. október 2001

Höfundar: Anthony McCarten og Stephen Sinclair
Leikstjóri: Elvar Logi Hannesson
Dansar: Eva Friðþjófsdóttir

Leikendur: Ásgerður Bergsdóttir, Friðrik Stefánsson, Gunnsteinn Sigurðsson, Páll Gunnar Loftsson, Unnar Þór Reynissonm, Úlfur Þór Úlfarsson, Viðar Örn Sveinbjörnsson og Þröstur Ólafsson.

Hvað sem er fyrir frægðina

SÖGUEFNIÐ í Stæltu stóðhestunum er orðið næsta kunnuglegt, enda nánast það sama og í þeirri ágætu bíómynd The Full Monty. Hópur vonlausra og stefnulausra kalla ákveður að gerast fatafellur til að græða peninga, en öðlast í leiðinni óvænt sjálfsvirðingu og já, reisn við það að takast loksins á við eitthvað af alvöru. Hið nýsjálenska leikrit mun vera eldra en myndin og heyrst hefur af ágreiningi um höfundarétt vegna þessa. Það má þó liggja milli hluta.

Það verður að segjast að handrit Stóðhestanna ekki sérlega merkileg smíð. Persónur eru reyndar nokkuð skýrt dregnar í upphafi og fyrri hluti verksins, þar sem drengirnir stíga sín fyrstu skref úr fötunum, nokkuð skemmtilega skrifaður. Botninn dettur síðan nánast algerlega úr verkinu þegar á að byggja upp spennu í seinni hlutanum, þar sem okkur er sýnt hvernig hið nýfengna en brothætta sjálfsálit hópsins virðist ætla að brotna, en stenst síðan (auðvitað) raunina. Þessi hluti er illa uppbyggður og forsendur orða og gerða persónanna illgreinanlegar. Verkinu líkur svo á frumsýningu hópsins, sem auðvitað er frábær skemmtun ef vel tekst til og bjargar öllu fyrir horn.

Semsagt, frekar slappt handrit. Í höndum Ísfirðinga og Bíldælingsins Elvars Loga verður sýningin hins vegar bráðskemmtileg, sem helgast fyrst og fremst af góðri persónusköpun og leikstíl sem líklega er réttast að kalla testósteróndrifinn. Það sem glatast af blæbrigðum er bætt upp með krafti og fjöri sem alla hrífur sem á annað borð hefur áhuga á að skemmta sér. Sýningin dalaði skiljanlega í seinni hlutanum og textamistök settu leikarana út af laginu, en nektarsýningin var makalaust skemmtileg svo allt endaði á góðu nótunum. Texti verksins hefur verið staðfærður og vísanir í bæjarlífið á Ísafirði virkuðu vel.

Allir eiga leikararnir þátt í því að sýningin lukkast. Friðrik Stefánsson er traustur sem leiðtoginn Geir, Unnar Þór Reynisson var bæði brjóstumkennanlegur og fyndinn sem hinn bassagítar-óði Barði, Úlfur Þór Úlfarsson var kannski óþarflega ýktur hommi sem Leifur, en átti hins vegar flottasta dansatriðið og einfeldningurinn Hermann var hjartað í sýningunni í frábærri meðferð Gunnsteins Sigurðssonar. Viðar Örn Sveinbjörnsson var öruggur sem Ævar og yndislegur sem kynnir á “sjóinu”. Þröstur Ólafsson var gríðarlega kraftmikill sem félagi stripparanna sem ekki treystir sér í þessa nýju útgerð. Ásgerður Bergsdóttir var flott sem atvinnudansarinn sem hjálpar strákunum á veg. Atriðið þar sem hún leggur þeim lífsreglurnar var sérstaklega skemmtilegt og Ásgerði tókst vel að sýna kulda atvinnumannsins, sem er þeim félögum auðvitað nauðsynleg lexía. Reynsluboltinn Páll Gunnar Loftsson fór síðan létt með lítið hlutverk Dúdda klúbbeiganda.

Litli leikklúbburinn hefur innréttað nýtt leikhús í ónýttu fiskverkunarhúsi fyrir sýninguna og farist það vel úr hendi. Húsið hefur mikla möguleika sem þau fá vonandi tækifæri til að nýta frekar áður enn hið langþráða framtíðarheimili leikklúbbins í Edinborgarhúsinu kemst í gagnið, sem óskandi er að verði þó sem fyrst.

Stæltu stóðhestarnir er skemmtileg og kraftmikil sýning sem áreiðanlega á eftir að gleðja margan Ísfirðinginn á næstu vikum. Hvað nákvæmlega er sýnt og hvað sést læt ég leikhúsgestum eftir að komast að.