fimmtudagur, október 25, 2001

Brúðkaup Tony og Tinu

Leikfélag Mosfellssveitar
Frumflutt af Artificial Intelligence

Þýðing: María Guðmundsdóttir og Guðný María Jónsdóttir
Leikstjóri: Guðný María Jónsdóttir
Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ
fimmtudaginn 25. október 2001

Boðflennur velkomnar

ÞETTA er engin smáræðis útgerð hjá Mosfellingum. Fyrir utan leikarafjöldann (23 leikendur) hafa þau umbylt húsinu sínu, innréttað kirkju baksviðs en breytt leiksviðinu í veislusal. Svo láta þau sig ekki muna um að bera fram tvíréttaða máltíð meðan á sýningu stendur. Það fer ekki á milli mála, sýningargestir í Bæjarleikhúsinu eru staddir í brúðkaupi.

Brúðkaup Tony og Tinu er önnur atlaga leikfélagsins að því sem þau kalla samskiptaleikhús, tilraun til að brjóta múrinn milli leikara og áhorfenda og draga gesti inn í heim verksins. Í þeirri fyrri, Jarðarför ömmu Silvíu, voru áhorfendur viðstaddir útför og erfidrykkju ættmóður gyðingafjölskyldu í New York. Nú er það ítalskt -amerískt brúðkaup og veislan sem fylgir á eftir.

Eins og gefur að skilja er sýning sem byggir á samskiptum við áhorfendur að miklu leyti spunnin. Það á að mér sýnist enn frekar við um brúðkaupið en jarðaförina. Það er nánast enginn söguþráður, framvinda eða þróun í samskiptum persónanna. Jafnvel ekki þar sem lagt er upp með eitthvað slíkt, eins og að gamall kærasti brúðarinnar birtist óvænt í athöfninni og er hreint ekki búinn að gleyma henni. Uppgjörið sem maður á von á í þeim þríhyrningi kemur aldrei. Þess í stað verða sýningargestir að láta sér nægja að fylgjast með ferð einstakra persóna í gegnum veisluna, nú eða að hella sér út í að taka þátt í henni af lífi og sál og skemmta sér sjálfur.

Því miður finnst mér það engan vegin koma í staðinn fyrir leiksýningu. Til þess er ramminn sem samskiptum leikara og gesta er settur of stífur, brúðkaup ókunnugs og framandi fólks. Sýningargestir eru boðflennur, sem vissulega eru boðnar velkomnar og reynt að draga þær inn í gleðskapinn, en ekkert fær breytt því að þær þekkja engan og fá í raun engu ráðið um framgang mála. Og af því að söguþráðurinn er að mestu látinn lönd og leið er ekkert sem stýrir athygli gestanna, ekkert sem gerist öðru merkilegra. Afmörkuð atriði eru skemmtileg sem slík, en breyta engu nema fyrir þá sem taka þátt í þeim. Að þessu leyti þykir mér þessi athyglisverða tilraun Leikfélags Mosfellssveitar ekki ganga upp.

Það sem hins vegar gengur upp og tekst vel er persónusköpun og innlifun leikhópsins. Hver einasti þátttakandi er á tánum frá upphafi til enda og margar persónurnar frábærlega mótaðar og skemmtilegar. Af þeim sem mest fönguðu athygli mína má nefna Stefán Bjarnason, sem þróaðist úr taugastrekktum brúðguma í blindfullt (og ákaflega íslenskt) partídýr og Halldór Halldórsson, sem var svo þorparalegur fyrrverandi kærasti brúðarinnar að erfitt var að skilja af hverju var ekki búið að henda honum á dyr fyrir löngu. Allra mest horfði ég þó eftir Ólafi J. Straumland sem var ósýnilegur og þó ótrúlega áberandi ljósmyndari.

Og við Maddy, fylgikonu hins ógnvekjandi föður brúðgumans, vil ég segja þetta: Já, ég laug mig frá að dansa við þig. Maður dansar ekki í leyfisleysi við hjákonur svona mafíulega vaxinna manna.