laugardagur, apríl 28, 2001

Tilbrigði við Súperstar

Leikfélag Sólheima
Íþróttaleikhúsinu Sólheimum 28. apríl 2001

Leikstjóri: Árni Pétur Guðjónsson

Leikendur: Anja Rún Egilsdóttir, Ármann Eggertsson, Dísa Sigurðardóttir, Edda Guðmundsdóttir, Einar Baldursson, Erla Björk Sigmundsdóttir, Erla Leifsdóttir, Eyrún Briem Kristjánsdóttir, Gísli Halldórsson, Guðlaug Jónatansdóttir, Guðrún Rósalind Jóhannsdóttir, Guðrún Tómasdóttir, Halldór Hartmannsson, Haukur Þorsteinsson, Hákon Fannar Kristjánsson, Helga Alfreðsdóttir, Jón Grétar Jónasson, Kamma Viðarsdóttir, Katrín Ösp Jónasdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Kristjana Larsen, Kristján Ólafsson, Kristján Þór Steinþórsson, Lárus Fjeldsted, María Kristjánsdóttir, Ólafur Benediktsson, Pálína Erlendsdóttir, Roberta Brambilla, Rúnar Magnússon, Sigríður Sigurðardóttir, Sigurður Gíslason, Sigurlín Sigurgeirsdóttir, Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, Valdimar Reynisson og Valgerður Pálsdóttir.

Helgileikur á afmælisári

EITT elsta leikfélag landsins heldur upp á afmæli sitt á árinu. Leikfélag Sólheima hefur haldið uppi starfsemi í sjötíu ár, og sýnir á hverju ári nýja sýningu, oftast frumsköpun leikhópsins og leikstjórans, að því er ég best veit. Slíkum dugnaði og listelsku ber að sjálfsögðu að fagna og óska afmælisbarninu langra lífdaga og er það gert hér með.

Í ár ræðst Leikfélag Sólheima í að sýna okkur örlagaríkustu sögu allra tíma, síðustu daga Krists frá innreiðinni í Jerúsalem til dauða hans á krossinum, dyggilega studd af tónlist Webber lávarðar. Á fjórða tug leikara taka þátt í sýningunni, vistmenn, starfsmenn og börn mynda einkar samhentan hóp sem á stóran þátt í því hve vel heppnuð sýningin er og áhrifarík.

Því það er hún. Frá því Júdas slær trommu sína í upphafi þar til leikhópurinn horfir til himins í lokin á móti því ljósi sem hefur verið kveikt í heiminum heldur Tilbrigði við Súperstar áhorfandanum gersamlega föngnum. Árni Pétur Guðjónsson hefur unnið frábært verk og kann greinilega vel þá list að ná miklum áhrifum með einföldum aðferðum. Sýningin er ákaflega skýrt mótuð og hreyfingar og stöður þjóna ætíð tilgangi og margar myndir og einstök atriði munu seint gleymast. Öllu þessu skilar leikhópurinn af einlægni, innlifun og með mikilli prýði. Búningar eru sérlega fallegir og auka enn á áhrifin.

Til að leiksýning nái áhrifum sínum þurfa ótal atriði að verka saman, eins og þátttakendur í sýningum jafnt sem leikhúsgestir vita. Einna mikilvægast er þó að áhorfendur upplifi að verið sé að bjóða þá velkomna til að taka þátt í einhverju og til að verða vitni að atburðum sem skiptir leikhópinn máli að skýra frá. Þessi tilfinning er grundvöllur þess sambands þáttakenda og áhorfenda sm stundum er kallað galdur leikhússins. Tilbrigði við Súperstar er svoleiðis sýning og glæsilegur minnisvarði um sjötíu ára leikstarfsemi á Sólheimum. Til hamingju.