laugardagur, apríl 14, 2001

Dýrin í Hálsaskógi

Pýramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík
Samkomuhúsinu á Húsavík laugardaginn 14. apríl 2001

Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Sigurður Hallmarsson


Piparkökur eins og piparkökur eiga að vera

DÝRIN í Hálsaskógi er nú komið á það virðingarstig að vera óumdeilanlega sígilt verk. Það sést best á þeim gjörólíku túlkunarleiðum sem hafa verið farnar að því í sýningum undanfarið. Stefán Jónsson og leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði gerði úr því kostulega Tarantino-martröð um einelti, Björn Gunnlaugsson lagði áherslu á flókin samskipti Lilla og Marteins í sýningu á Fáskrúðsfirði og nú síðast heyrast kenningar um að Egner hafi verið að túlka goðsögnina um kristnitökuna á Íslandi. Enn hefur enginn ráðist í að sviðsetja verkið með hliðsjón af þeirri forvitnilegu hugmynd og einnig er óvíst hvaða áhrif breytt viðhorf almennings til grænmetisframleiðenda og hollustu ólíkra landbúnaðarafurða almennt mun hafa á túlkun Dýranna. Við bíðum spennt.

Þangað til er sýning Pýramusar og Þispu ágætis sýnishorn af hefðbundinni nálgun við þetta merka verk. Og auðvitað kemur þá í ljós að það stendur fyllilega fyrir sínu án nokkurrar rýni og tilrauna til frumleika. Sagan er góð, persónurnar skemmtilegar, lögin grípandi og gleðin ríkir.

Sigurður Hallmarsson er þaulvanur að segja óvönum leikurum til og þarf því ekki að koma á óvart að leikarar stóðu allir fyrir sínu. Textameðferð var vitaskuld til norðlenskrar fyrirmyndar, meira að segja í hópsöngvum komst hvert atkvæði til skila. Undirleik annaðist Sigurður sjálfur ásamt Ingimundi Jónssyni og af þeim samleik mátti helst ráða að um einn fjórhentan hljóðfæraleikara væri að ræða. Enn átti Sigurður svo hlut að máli þegar kom að leikmyndinni, sem var heilt ævintýri á að líta. Tré úr görðum Húsvíkinga fylla sviðið í Samkomuhúsinu og ilmurinn af þeim vit sýningargesta. Frábær mynd sem nýttist vel sem heimkynni dýranna.

Sýningin byrjaði tiltölulega hægt, kannski var afslöppunin heldur mikil fyrst um sinn, en hélt þó athyglinni við efnið og náði um síðir að skapa viðeigandi spennu og fjör þegar leitin að Bangsa litla stóð sem hæst.

Af leikendum er rétt að geta þeirra þriggja sem mest mæddi á. Hilmar Valur Gunnarsson var pottþéttur Refur, aldrei sérlega hættulegur en alltaf skemmtilegur. Arnar Þór Sigurðsson var iðandi af lífi sem Lilli lífsnautnamús og hæfileg andstæða við Martein fyrirmyndarmús sem Katrín Ragnarsdóttir gerði skotheld skil.

Pýramus og Þispa sækja nafn sitt til leikrits handverksmannanna í Draumi á Jónsmessunótt en ólíkt tekst Egner, Sigurði og þeirra fólki betur upp en Spóla vefara og félögum. Saman eiga þó Húsvíkingar og Aþeningar Shakespeares ást á viðfangsefni sínu og aðferðinni við að skila því; leikhúsinu. Og það skilar sér.