sunnudagur, apríl 01, 2001

Á Svið!

Leikfélag Mosfellssveitar
Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ 1. apríl 2001

Höfundur: Rick Abbott
Þýðandi: Guðjón Ólafsson
Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir
Leikendur: Dóra Wild, Grétar Snær Hjartarson, Gunnhildur Sigurðardóttir, Harpa Svavarsdóttir, Hjalti Kristjánsson, Hrefna Vestmann, María Guðmundsdóttir, Ólafur Haraldsson, Stefán Bjarnason og Vaka Ágústsdóttir.

Fyndið fólskumorð

LEIKRIT sem skopstæla viðvaningshátt í leikhúsi eru til fjölmörg. Eins er um verk sem draga dár að hinu staðlaða breska sakamálaleikriti, með Músagildruna ódrepandi sem eilífa fyrirmynd og skotspón. Svo eru þónokkur sem reyna að gera hvorttveggja. Á svið eftir Rick Abbott verður að teljast með lítilsigldustu bræðrunum í þessari fjölskyldu. En með úthugsuðum stílbrögðum, fítonskrafti og leikgleði tekst leikhóp þeirra Mosfellinga að leiða hugann frá líflitlu verkinu og skemmta skjólstæðingum sínum ótæpilega.
Leikritið Á svið er nánast fléttulaust. Leikhópur æfir nýtt leikrit og stríðir við höfund þess sem sífellt breytir og bætir við. Að lokum sjáum við frumsýningu þess, sem fer að sjálfsögðu í handaskolun. Verkið er sundurlaust og varla hægt að segja að samskipti og afstaða persónanna þróist á nokkurn hátt, hvað þá heldur hafi áhrif á hvernig verkinu vindur fram. Leikritið í leikritinu, Hið fúla fólskumorð, er síðan eins og móðir allra sakamálaleikja; bilaðir símar, enskt yfirstéttarlið og gríðarlega flókin flétta sem gengur auk þess ekki upp.
Ingrid Jónsdóttir, sem að því ég best fæ vitað hefur ekki lagt stund á leikstjórn fyrr, fer þá leið að keyra sýninguna áfram með miklum krafti og hraða, og stílfæra síðan uppfærsluna á Hinu fúla fólskumorði út fyrir öll skynsamleg mörk. Þessi nálgun gengur algerlega upp. Krafturinn skapar spennuna sem leikritið skortir og stílfærslan er hlægileg í sjálfri sér. Ef verkið væri betra væru lætin líklega einum of mikil en hér dugar ekkert elsku mamma ef á að skemmta áhorfendum.
Allt væri þetta þó til lítils ef leikhópurinn réði ekki við verkefnið. Hér er hins vegar valinn maður í hverju rúmi sem nær að halda kraftinum til enda og skapa ótal skopleg augnablik á meðan. Vaka Ágústsdóttir var yndislega vitgrannur nýliði í hlutverki þernunnar Doris og Grétari Snæ Hjartarsyni tekst einhvernveginn að tala íslensku með enskum yfirstéttarhreim. Dóra Wild og Hrefna Vestmann voru hlægilegar vondar leikkonur, hvor með sínu lagi, og það sama má segja um Hjalta Kristjánsson og Stefán Bjarnason sem mótleikara þeirra. Harpa Svavarsdóttir var eitilharður sviðsstjóri og Ólafur Haraldsson hlægilega vanhæfur tæknimaður. María Guðmundsdóttir var síðan óborganleg sem höfundurinn, ofvirk og handóð og nóg efni í margra vikna martraðir fyrir taugaveiklaða leikstjóra á borð við þann sem Gunnhildur Sigurðardóttir gerir hér pottþétt skil.
Þrír leikaranna, Grétar Snær, Ólafur og Hjalti, grípa í hljóðfæri og skapa með því stemmningu á nokkrum stöðum og ferst öllum vel úr hendi. Auðvitað ræðst rithöfundurinn líka á píanóið á einum stað, en er sem betur fer stöðvuð fljótlega.
Það þarf hugkvæmni, hæfileika og hugrekki til að skapa svona skemmtilega sýningu úr jafn rýrum efnivið. Vonandi flykkjast bæjarbúar og aðrir í Bæjarleikhúsið til að hlægja og dást að.