miðvikudagur, apríl 04, 2001

Glórulaus

Sauðkindin, leikfélag Menntaskólans í Kópavogi
Félagsheimili Kópavogs 4. apríl 2001

Leikstjóri: Gunnar Hanson
Byggt á kvikmyndinni Clueless eftir Amy Heckerling og skáldsögunni Emmu eftir Jane Austen.
Leikendur: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Arnar Ingi Richardsson, Ásgerður Drífa Stefánsdóttir, Guðlaug Björk Eiríksdóttir, Hans Aðalsteinn gunnarsson, Hjálmar Ásbjörnsson, Hrebbna Þórisdóttir, Jóhann V. Gíslason, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Lilja Kristín Ólafsdóttir, María Rut Beck, Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, Rannveig Alda Haraldsdóttir, Sandra Björg Stefánsdóttir, Sara Valný Sigurjónsdóttir, Sverrir Árnason, Tinna Eiríksdóttir, Þóra K. Kristinsdóttir og Þórður Ingi Guðmundsson.


Víst er glóra

AÐALPERSÓNUR Glórulaus eru sjálfsuppteknar, þröngsýnar, fordómafullar, grunnhyggnar, fáfróðar, hrokafullar, yfirborðskenndar. Og algerlega ómótstæðilegar. Í þessar andstæður sækir verkið skemmtilegheitin og fjörið, sem nóg er af í sýningu Sauðkindarinnar.

Sýningin er byggð á bandarískri kvikmynd, Clueless, sem aftur er byggð á skáldsögu Jane Austen, Emmu, sem einnig hefur verið kvikmynduð. Það er að vísu orðið nokkuð langt síðan ég sá Clueless og sögu Austen hef ég ekki lesið, en samt er ég nokkuð viss um að handrit Kópavogskrakkanna fer ansi nálægt myndinni, þó þau vísi á söguna í leikskrá. Allavega voru kunnugleg tilsvör ansi algeng, og líklega styttra til Íslands í dag úr heimi ríkramannabarna í Los Angeles en enskrar yfirstéttar á dögum Austen.

Ofurgellan Ellý og vinkonan Diddú eru vinsælustu og hamingjusömustu stúlkurnar í Versló. Þær taka upp á arma sína hina lúðalegu og norðfirsku Tönju með það að göfugu markmiði að gera hana jafn hamingjusama og vinsæla og þær eru. En lífið er ekki alveg eins einfalt og þær hafa fyrir satt, sem betur fer og Ellý lærir og þroskast á leiðinni gegnum verkið, enda enginn hálfviti.

Að láta verkið gerast í Versló er jafn fyndið og það er áreiðanlega ósanngjarnt gagnvart Verslingum, en það verður að hafa það. Annars gengur staðfærslan auðvitað misvel upp, sumt algerlega, annað síður.

Glórulaus minnir reyndar meira á annan enskan snilling en Jane Austen. Hin endalausa runa af "einlínum", hnyttnum setningum sem persónurnar dæla út úr sér og eiga að tjá sjálfsöryggi og traust tök á tilverunni minnir einna mest á Oscar Wilde, Og líkt og hjá honum eru það einmitt þessar setningar sem afhjúpa persónurnar, eru fyndnar bæði vegna þess að þær eru vel orðaðar og af því þær opinbera okkur fráleit lífsviðhorf persónanna.

Texti af þessum toga er kannski sá erfiðasti að láta lifna í munni leikara og það tókst ekki alltaf hjá Kindinni að þessu sinni. Það er allavega algert grundvallaratriði að greina orðaskil, sem stundum var misbrestur á. En nóg skildist til að halda uppi góðri skemmtun og segja söguna.

Það er eilífðarvandamál þess sem vill sviðsetja kvikmyndahandrit að klippitækni leikhússins stendur bíóinu nokkuð að baki. Hér fer Gunnar Hansson þá skynsamlegu leið að halda sviðsmynd í lágmarki og gefa senuskipti í skyn með allra einföldustu ráðum. Þetta gengur fullkomlega upp og skapar frábært flæði og mikinn kraft sem einkennir nánast alla sýninguna. Undir lokin dalar aðeins stuðið, enda persónurnar teknar að þroskast smá.

Ég ætla ekki að tilgreina einstaka leikara, enda er sýningin mikið hópverk. Aðalatriðið er að hún er kraftmikil, skemmtileg og þrátt fyrir glóruleysi flestra persóna hreint ekki innantóm.