þriðjudagur, apríl 10, 2001

Kabarett

Fúría – leikfélag Kvennaskólans
Íslenska Óperan þriðjudaginn 10.apríl 2001

Höfundar: Joe Masteroff, John Kander og Fred Ebb
Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjóri og höfundur leikgerðar: Charlotte Bøving
Útlitshönnun: Salbjörg Rita Jónsdóttir
Danshöfundur: Sigyn Blöndal Kristinsdóttir
Tónlistarstjóri og útsetningar: Hjörleifur Jónsson
Hljómsveitarstjóri: Þóranna Björnsdóttir

Lífið er gullfallegt

VERKEFNAVAL framhaldsskólaleikfélaganna skiptist nokkurn veginn í tvö horn þennan veturinn. Annars vegar glíma við alvarleg, hálfsígild verk, hinsvegar léttúðugar og skrautlegar söngleikjasýningar og stælingar á kvikmyndum. Kabarett fellur þarna svona nokkurn veginn í miðju. Vissulega einn besti söngleikur allra tíma en líka einn sá sem málaður er dekkstum litum og sígildur í þokkabót. Ef sýningum framhaldsskólana væri hins vegar raðað eftir ágæti þeirra er nokkuð ljóst að sýning Fúríu færi talsvert yfir meðallag, væri í toppbaráttunni.

Söngleikir eru mikil endurvinnslustöð fyrir hugmyndir og svo er einnig um Kabarett. Leikrit var skrifað eftir endurminningum/sögum Christopher Isherwood frá Berlín á uppgangstíma nasista. Leikritinu var svo snúið á söngleikjaform, söngleiknum í fræga kvikmynd, sem aftur hefur mikil áhrif á það hvernig sviðsverkið er meðhöndlað í dag.

Þannig nýtir leikgerð Charlotte Bøving lög sem voru samin fyrir kvikmyndina en sleppir öðrum sem tilheyra sviðsgerðinni. Tónlistaratriðin í sýningunni gerast öll í Kit-Kat klúbbnum, í Kabarettinum sem nafnið vísar til, með einni áhrifamikilli undantekningu þó. Það ber vott um dramatúrgíska snyrtimennsku að sleppa lögum þar sem persónur verksins bresta í söng heima hjá sér og úti á götu við undirleik ósýnilegrar hljómsveitar, eins og er í upprunalega verkinu. Mestan partinn gengur þetta upp. Ég og aðrir aðdáendur Kabaretts sakna samt laganna, sérstaklega hins óviðjafnanlega ástardúetts Frau Schneider og Herr Schultz; Einn ananas.

En nóg komið af greiningu. Sýning Fúríu er verulega vel heppnuð. Einföld sviðsmyndin gegnir hlutverki sínu vel og snjöll lýsingin skapar andrúmsloft þar sem henni sleppir. Mestu varðar þó auðvitað frammistaða leikenda. Leikstjóra hefur tekist það sem vefst gjarnan fyrir þeim sem vinna með ungu og lítt reyndu fólki, að skapa jafngott yfirbragð yfir leikinn. Leikstíll er einfaldur, hreyfingar skýrar og afgerandi svo ekkert fer milli mála og allir leikendur ná valdi yfir hlutverkum sínum. Þetta er verulega vel unnið og Charlotte Bøving góð viðbót við leikstjóraúrval landsins. Tónlistarflutningur er prýðilegur, útsetningar skemmtilegar og söngvarar skiluðu meira að segja flestum textum óbrjáluðum til áhorfenda.

Þó svo leikur sé jafngóður þá eru hlutverkin auðvitað misviðamikil í svona verki. Hilmar Guðjónsson fer vel með hið krefjandi hlutverk skemmtanastjóra Kit-Kat klúbbsins, Kári Allansson er trúverðugur sem hinn nýkomni ameríkani Cliff sem leyfir okkur að kynnast Berlín með sér, svo og náttúrulega kabarettstjörnunni lífsreyndu; Sally Bowles. Halla Vilhjálmsdóttir fer frábærlega vel með þetta erfiða hlutverk, leikur, syngur og dansar geislandi af öryggi. Hún gerir hin þrjú stóru söngnúmer Sallyar algerlega að sínum og nær síðan að skila dramatísku lokaatriðinu þannig að gleymist ekki í bráð. Glæsileg frammistaða.

Það má reyndar yfirfæra á hópinn alla. Hér er vel að verki staðið á öllum póstum og útkoman eftir því. Skemmtileg sýning sem nær tilætluðum áhrifum, skemmtir og vekur, hræðir og gleður.