mánudagur, apríl 09, 2001

Gauragangur

Leiklistarklúbbur NFFA
Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi mánudaginn 9.4.2001

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Tónlist: Ný Dönsk
Leikstjóri: Ólafur Guðmundsson
Tónlistarstjóri: Flosi Einarsson
Danshöfundur: Belinda Eir Engilbertsdóttir

Glampar á gullið

MANNDÓMSVÍGSLA orðháksins Orms Óðinssonar var á sínum tíma frábært og löngu tímabært innlegg í sápuóperulegan heim íslenskra unglingabókmennta. Loksins trúverðug og heiðarleg lýsing á efnilegum gallagrip án þess að tiltæki hans, hrasanir og glíma við ókunnuglegan heim væru skoðuð sem “vandamál”. Vissulega tekur Ormur út þroska, annað hvort væri nú, en einhverjir höfundar hefðu ekki látið sér það nægja heldur hefðu látið Orm snúa “af villu síns vegar”, gott ef ekki taka að stunda líkamsrækt og hætta að reykja og drekka.

Leikgerðin fylgir sögunni nokkuð nákvæmlega, sem gerir hana dálítið óþjála í sviðsetningu. Ótal senur á ólíkum stöðum sem kalla annaðhvort á tæknilega fullkomið leiksvið eða mikla hugkvæmni leikstjóra og leikmyndarhönnuðar. Hér hefur verið farin sú óvenjulega leið að smíða hringsvið. Að sumu leyti snjöll lausn, en þvælist líka dálítið fyrir, tekur tíma að snúast og þrengir sviðið stundum svo að hópatriði ná ekki að lifna við. En að láta sér detta þetta í hug og framkvæma það síðan – það hefði Ormur Óðinsson kalla ofurraunsæi með aðdáunarróm í röddinni. Við tökum undir það.

Tónlist var vel flutt af hljómsveit og söngvurum, stundum smá jafnvægisvandamál svo texti fór forgörðum og hljóðnemar settu leiktúlkun skorður. Reyndar þykir mér tónlistin síst heppnaði hluti verksins. Of mörg laganna gera lítið fyrir verkið, dýpka hvorki persónulýsingar né fleyta sögunni áfram. Þá hefur Ný dönsk afgerandi lagasmíðastíl, frekar hæggengan og ekki alltaf auðgrípanlgan við fyrstu hlustun, sem hentar misvel í leikhúsi. Bestu númerin eru auðvitað löngu orðin sígild óháð því hvort þau eru vel lukkuð leikhústónlist: Söngur skólastjórans – Ský í buxum, partírokkarinn Málum bæinn rauðan og svo náttúrulega framadraumaástarballaðan Er hann sá rétti?

Sýning Leiklistarklúbbs NFFA er góð skemmtun. Best er hún þar sem grínið er í algleymingi, fatast ögn flugið þegar alvaran brýst í gegn. Almennt gekk hópnum betur að sýna unglingana en eldri kynslóðina sem vonlegt er. Stíll verksins er það raunsæislegur að sú skopstæling sem ævinlega felst í að “leika upp fyrir sig” á varla við, jafnvel þó sumt væri þar vel gert. Ég er samt ekki frá því að Ólafi Guðmundssyni, leikstjóra, hefði átt að takast að skapa fleiri trúverðuga fullorðna með styrkari leikstjórnarhönd.

Það tæpast á neinn hallað þó Sindri Birgisson sé tilnefndur hetja sýningarinnar. Hann hvílir fullkomlega í hlutverki Orms og skilar jafnt söngvum sem endalausum snjallyrðum hans áreynslulaust til áhorfenda. Glæsileg frammistaða. Af öðrum finnst mér rétt að nefna Bjarka Þór Guðmundsson sem var stórfínn Ranúr bestivinur, Sigríði Hrund Snorradóttur sem var skemmtileg Halla bestavinkona og Sylvíu Rún Ómarsdóttur sem var Linda, draumadísin sem sér “glampa á gullið í drengnum” en telur það síðar vera glópagull eitt. Það er vel þess virði að eyða kvöldinu með Ormi, þessum illþolandi gullmola sem telur sig vera frá annari plánetu og virðist stundum hafa nokkuð til síns máls.