laugardagur, október 13, 2001

Dýrin í Hálsaskógi

Leikfélag Hveragerðis
Sýnt í Völundi í Hveragerði Laugardaginn 13. október 2001

Höfundur: Thorbjörn Egner
Þýðandi: Hulda Valtýsdóttir
Þýðandi: Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Sigurður Blöndal

Líf í skóginum

ÞAÐ er líklega alveg sama hvað maður sér margar uppfærslur á þessu leikriti; alltaf kemur eitthvað nýtt í ljós, jafnvel á eins strang-hefðbundinni sýningu og þeirri sem frumsýnd var í Hveragerði á laugardaginn var. Í þetta sinn festist hugurinn við það hvernig skógarbúarnir eru í grundvallaratriðum sáttir við stöðu mála í lífríkinu þangað til Marteinn skógarmús upphefur raust sína gegn ofbeldinu og óréttlætinu í fæðukeðjunni. "Gera þau það?" spyr forviða Bangsapabbi þegar Marteinn minnist á að dýrin éti hvert annað. En um leið og bent hefur verið á ástandið verður það samstundis óþolandi. Eitthvað verður að gera.
Sýning Hvergerðinga er hefðbundin eins og áður segir. Það birtist í sviðsmynd, gerfum og búningum sem taka nokkuð nákvæmt mið af teikningum höfundar. Vel hefur verið vandað til þessara þátta, allt útlit smekklegt og stílhreint. Þó hefði þurft að beita meiri hugkvæmni til að leysa skiptingar, sérstaklega undir lokin þegar Egner gerir greinilega ráð fyrir hringsviði og atburðarásin þarf að vera hröð og spennandi. Snjöll lausn á flugi Ömmu músar sýnir að hugmyndaflugið er til staðar. En hefðin birtist líka í "lögn" persónanna, látbragði þeirra og jafnvel raddbeitingu. Þó gagnrýnendur geti óskað sér frumlegri efnistök og sjálfstæðari lestur á leikritinu er það kannski frekar af eigingjörnum hvötum heldur en að það sé nauðsynlegt upp á að skemmta ungum áhorfendum og vekja þá til umhugsunar. Enda er sýning Leikfélag Hveragerðis að þessu sinni langt í frá að vera andlaus og dauðyflisleg. Öðru nær.
Sigurði Blöndal hefur tekist að laða fram og nýta hæfileika alls hópsins með þeim afleiðingum að sýningin er jöfn og áferðarfalleg. Eins hefur hann greinilega næmt gríneyra og -auga og víða brá fyrir leiftrandi skopleikjatöktum. Þar bar vitaskuld mest á þríeykinu Lilla, Marteini og Mikka ref sem allir voru í öruggum höndum. Hjörtur Már Benediktsson var kraftmikill og skemmtilega vitgrannur refur, vakti fremur kátínu en óhug og framkallaði marga hláturgusuna hjá ungum sem öldnum. Steindór Gestson er einn hæfileikaríkasti leikari í íslensku áhugaleikhúsi og þó víðar væri leitað og gerði bóhem-músinni Lilla óaðfinnanleg skil. Þó var kannski mest um vert að sjá hinn unga Óðin Davíðsson Löve standa þessum gamalreyndu "leikhúsrefum" síst að baki. Marteinn skógarmús var sprelllifandi í meðförum hans. Tónlistarflutningur var lýtalítill og oft hreint ágætur.
Leikfélag Hveragerðis hefur eftir nokkra ára vist á hrakhólum eignast fastan samastað. Það er vitaskuld gleðilegt en enn sem komið er hefur Völundur ansi stóra vankanta sem leikhús. Flatt gólf og langt og mjótt áhorfendarými takmarkar mjög útsýni af aftari bekkjum, sem er sérstaklega bagalegt fyrir áhorfendur sem ekki eru háir í loftinu. Það er gremjulegt að missa af því sem fram fer á sviðinu í svona skemmtilegri sýningu.