miðvikudagur, maí 09, 2001

Ímyndunarveikin

Leikfélag Sauðárkróks
Bifröst á Sauðárkróki 9. maí 2001

Höfundur: Moliére
Þýðandi: Lárus Sigurbjörnsson
Bundið mál: Tómas Guðmundsson
Leikstjóri: Eggert Kaaber
Leikendur: Dagbjört Elva Jóhannesdóttir, Gísli Þór Ólafsson, Guðbrandur J. Guðbrandsson, Gunnar Þór Andrésson, Ingimar Heiðar Eiríksson, María Markovic, Sigrún Hrönn Pálmadóttir, Sigurður Halldórsson, Sigurður Ingi Ragnarsson, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Styrmir Gíslason.

Þessi hæga snerpa

AUÐVITAÐ er hin efnislega ádeila Moliéres í Ímyndunarveikinni óskiljanleg og þarafleiðandi algerlega ófyndin fyrir nútímamenn. Læknastéttin í dag nýtur óskoraðs trausts, læknar eru í efstu stétt þjóðfélagsins, allur þorri fólks trúir orðum þeirra eins og nýju neti og allir treysta því að þeir sæki myndugleik sinn í traustustu vísindi samtímans. Moliére gerir á hinn bóginn ráð fyrir að fínt fólk gifti dætur sínar ekki læknum, hvað þá heldur að orðum þeirra sé ósjálfrátt trúað af skynsömum góðborgurum. Það merkilega er að skopleikur á borð við Ímyndunarveikina skuli lifa af aðra eins umpólun á forsendum sínum og teljast eftir sem áður til klassískra gamanleikja. Og víst um það, enn vekja uppátæki hins ímyndunarveika Argans, hinir fráleitu fulltrúar læknastéttarinnar, alvitrar þjónustustúlkur, ástfangin ungmenni og gráðugar eiginkonur, hlátur í samkomuhúsi norður í Skagafirði eins og forðum var við hirð sólkonungsins.

Leikstjóri sýningarinnar velur að staðsetja hana í einhverskonar enskum stofuleikhúsheimi með leikmynd af því tagi. Hreint ekki galin hugmynd, því verkið gerir jú ráð fyrir hefðafreðnu samfélagi og stéttaskiptingu. Leikstíllinn er einnig nokkuð skýr. Mikill hraði, skýrar línur og viss tilfinningakuldi. Hraðinn nýtist vel og leikhópurinn hefur hann á valdi sínu, Þó svo einstaka leikarar þurfi að taka framsögnina fastari tökum. Krafturinn sem skapast nýtist oft til að vekja kátínu. Hitt er verra hvað lítt hefur verið vandað til að skila afstöðu persónanna hverrar til annarrar. Ástfangna parið var of lítið ástfangið, húsbóndinn lét yfirgang þernunnar fara of lítið í taugarnar á sér, og svo framvegis. Ef betur hefði verið nostrað við þessa þætti hefði áhorfendum verið enn betur skemmt en raun varð á.

Af einstökum leikendum þykir mér rétt að minnast á Guðbrand J. Guðbrandsson, sem var traustur Argan. Ingimar Heiðar Eiríksson var hlægilegur sem læknissonurinn og vonbiðillinn Tómas Diaforus, þó betra hefði verið að skilja fleira sem hann sagði. Næst því að skila þeim stíl sem best hefði hentað sýningunni sem heild var að mínu viti Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir í hlutverki konu Argans. Aldrei velktust áhorfendur í vafa um ætlan hennar eða innræti, glæsileg frammistaða.

Sígildir gamanleikir eru vandmeðfarin viðfangsefni. Leikfélag Sauðárkróks og leikstjórinn falla ekki í þá algengu gryfju að fyllast lotningu og gleyma þeim tilgangin gleðileiksins að vekja hlátur. Það tekst þeim bærilega, en hefðu náð enn betri árangri ef meira hefði verið nostrað við að sýna okkur hvað rekur fólkið í leikritinu áfram, bresti þess og þar með mannlegt eðli.