föstudagur, nóvember 02, 2001

Bar Par

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu í Keflavík 2. nóvember 2001

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Guðrún J. Bachmann
Leikstjóri: Steinn Ármann Magnússon
Leikmynd: Úlfur Grönvold
Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason
Leikendur: Anna Þóra Þórhallsdóttir, Atli Kristjánsson, Guðmundur Hreinsson, Guðný Kristjánsdóttir, Halla Sverrisdóttir, Hildur Hermannsdóttir, Ómar Ólafsson, Sólrún Steinsdóttir, Tinna Kristjánsdóttir, Víðir Guðmundsson, Þóra Jónsdóttir ofl.

Skrautlegt kvöld á kránni

JIM Cartwright skrifaði Bar Par, eða To eins og það kallast á frummálinu, fyrir tvo leikara sem fara með hlutverk hjónanna, sem reka krána þar sem verkið gerist, og allra gestanna. Þegar þeim leiðbeiningum höfundarins er fylgt verður íþrótt leikaranna límið sem heldur sýningunni saman. Án þess verður verkið óneitanlega nokkuð sundurlaust og eini rauði þráðurinn, hin óuppgerða harmsaga í fortíð bar-parsins, megnar ekki að skapa þá framvindu sem áhorfendur vænta í hefðbundnu leikverki. Þá stendur sýningin og fellur með frammistöðu einstakra leikenda og hvernig þeir skila hinum litríku “aríum” og “dúettum” sem verkið samanstendur af. Í uppfærslum íslenskra áhugaleikhópa á verkinu, sem orðnar eru nokkrar, hefur þessi leið að ég held alltaf verið farin. Óneitanlega koma þó nokkrir “þúsundkallasmiðir” víðsvegar um landið upp í hugann sem gaman væri að sjá glíma við hina fyrri leið. Keflvíkingar fara bil beggja í sinni sýningu og nokkrir leikaranna eru í tveimur hlutverkum.

Sýning Leikfélags Keflavíkur er afar vel heppnuð. Fagmannleg og falleg leikmynd Úlfs Grönvold heldur utan um hana og sem frumraun Steins Ármanns í leikstjórastólnum er hún sigur. Vonandi eiga fleiri leikfélög eftir að njóta krafta hans. Sýningin er bæði kraftmikil og innlifuð og leikstjórinn kann þá list að spila á samband leikara við áhorfendur. Það er ómetanlegt í verki þar sem stór hluti textans eru eintöl þar sem persónurnar ávarpa viðstadda beint.

Allt veltur þó á endanum á frammistöðu leikendanna, eins og fyrr sagði. Hún er í stórum dráttum góð, og á köflum frábær. Ég verð að byrja á að nefna nokkur uppáhaldsatriði. Sterk mynd Höllu Sverrisdóttur af gamalli konu og enn sterkari mynd hennar af karlinum sem beið hennar heima, rúmliggjandi og upp á hana kominn með allar búksorgir. Hvað Tinna Kristjánsdóttir náði að verða ótrúlega ófrýnileg af drykkju áður en hún hún lagði í að krefjast þess af viðhaldinu að hann veldi milli sín og konunnar sinnar. Víðir Guðmundsson í báðum sínum hlutverkum, sem kúgari og hinn kúgaði. Guðný Kristjánsdóttir og Ómar Ólafsson í óborganlegu Beckett-skotnu atriði um feita fólkið sem á hvert annað en hefur ekki almennilega komist yfir dauða Presleys.

Hlutverk hjónanna, bar-parsins, eru líklega vandasömustu og vanþakklátustu hlutverk verksins. Ekki hjálpar að innkomur þeirra og útgöngur virka fremur tilviljanakenndar þegar verkið er leikið af mörgum leikendum, því ferð hjónanna gegnum verkið ræðst mikið til af þörfum fyrir tíma til skiptinga á búningum og gerfum. Anna Þóra Þórhallsdóttir og Guðmundur Hreinsson stóðu sig eftir þeim atvikum vel. Í heildina er sýningin vel leikin og til skila haldið af sterkum leikhópi. Þeim var verðskuldað klappað hraustlegt lof í lófa af frumsýningargestum í Frumleikhúsinu og hafa svo sannarlega upp á að bjóða góða skemmtun fyrir Suðurnesjamenn og aðra næstu vikurnar.