laugardagur, mars 02, 2002

Fríða og Dýrið

Leikfélag Mosfellssveitar
Bæjarleikhúsinu í Mosfellssveit 2. mars 2002

Byggt á teiknimynd Disney
Leikstjóri: Bjarney Lúðvíksdóttir
Tónlistarstjóri: Birgir Örn Tryggvason

Gamalt ævintýr á nýlegum belg

LEIKFÉLAG Mosfellssveitar gerir það ekki endasleppt við börnin í sinni sveit. Samkvæmt leikskrá er það stefna félagsins að sýna hið minnsta eitt barnaleikrit á hverju starfsári. Þetta er auðvitað til fyrirmyndar, sérstaklega ef litið er til þess að öflugt námskeiðahald fyrir börn hefur verið fastur liður í starfseminni um nokkurt skeið, og leikstjóri Fríðu og Dýrsins, Bjarney Lúðvíksdóttir, verið þar framarlega í flokki.

Sagan um stúlkuna Fríðu og prinsinn sem hnepptur var í álög fyrir hroka sinn en frelsast þegar hann hefur tekið út tilætlaðan tilfinningaþroska hefur farið nokkuð krókóttan veg að leiksviðinu að þessu sinni. Víðfræg teiknimyndarútfærsla Disneyfabrikkunnar hefur verið tekin og færð upp á svið. Nú hefur undirritaður ekki séð teiknimyndina og því ekki dómbær um hvort miklu eða litlu hefur verið hnikað til við þessa síðustu aðlögun. Hvort heldur sem er þá verður að segjast að handrit það sem liggur sýningunni til grundvallar er nokkuð gallað verk. Sögunni vindur hægt fram, sumir atburðir illa undirbyggðir og óþarflega miklum tíma er eytt í hliðaratburði á kostnað meginefnisins. Þannig er til að mynda mannasiðakennsla dýrsins og samdráttur þess og Fríðu afgreidd í fljótheitum, meðan miklu púðri og tíma eytt í vindbelginn Gaston, vonbiðil Fríðu, og uppátæki hans. Eins virðist tímarammi sögunnar skolast illa til undir lokin og ruglar áhorfendur í ríminu, allavega undirritaðan.

Það mæðir því mikið á leikhópnum og leikstjóranum að skemmta áhorfendum með þennan rýra efnivið. Bjarney hefur lagt upp með nokkuð ýkjulegan leikstíl, sem nýtist sumum leikaranna ágætlega til að skapa kátlegar persónur. Einna lengst komast Pétur Ragnar Pétursson og Bragi Dór Hafþórsson sem Gaston og vikapiltur hans. Þá ná Halldór Halldórsson og Vaka Ágústsdóttir góðum tökum á göldruðum innanstokksmunum á heimili Dýrsins. Í heild hefði sýningin þó grætt á skýrari heildarsvip, bæði hvað varðar leikstíl og umgjörð. Tónlistin er afar vel af hendi leyst, bæði undirleikur og söngur, sem var öruggur og fallegur.

Mest mæðir að sjálfsögðu á titilpersónunum. Guðbjörg Pálsdóttir hefur mikinn sviðsþokka og er sannfærandi Fríða, auk þess sem hún fer fremst í flokki söngkrafta. Hjalti Stefán Kristjánsson er dýrið og fer mikinn í flottu gerfi. Hann líður þó persóna mest fyrir leikgerðina, og eins fékk hann litla hjálp frá mótleikurum sínum í að skapa ógn og skelfingu. Það virðist raunar líka hlaupið í og úr með það í handritinu, hvort allir hræðast hann eður ei. Hápunkturinn, þegar álögunum er létt á síðustu stundu, var síðan afar vel útfærður, bæði hugmyndalega hjá Bjarneyju og leiklega af þeim Hjalta og Guðbjörgu.

Fríða og Dýrið hjá Leikfélagi Mosfellssveitar er viðamikið og flókið viðfangsefni sem líður fyrir gallað handrit. Þó má hafa skemmtun af, sakir kraftmikils leiks og fallegs söngs.