föstudagur, mars 22, 2002

Gísl

Leikfélag Hornafjarðar
Mánagarði 12. mars 2002

Höfundur: Brendan Behan
Þýðandi: Jónas Árnason
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson

Afmælissýning í Hornafirði

SÝNING Leikfélags Hornafjarðar á Gísl eftir Brendan Behan er sett á svið í tilefni af fjörutíu ára afmæli félagsins. Það er allnokkur starfsaldur hjá einu leikfélagi og ástæða til að óska félaginu til hamingju með áfangann.

Gísl hefur orðið vinsælt viðfangsefni meðal leikfélaga okkar, og kemur þar margt til. Fyrst og fremst er verkið auðvitað bráðskemmtilegt, fullt af dýrðlegum söngvum, og svo er þýðandinn náttúrulega ástmögur íslenskra áhugaleikara, Jónas Árnason, sem setur sinn elskulega svip á textann. Verkið greinir frá nokkrum örlagaríkum klukkustundum í lífi írsks neðanmálsfólks sem lendir í miðju vitskerta (eða vitgrannra, eins og verkið gefur í skyn) illdeilna Englendinga og írska lýðveldishersins. Atburðarásin hverfist um enskan hermann sem tekinn er í gíslingu og komið fyrir í leiguhjalli sem hýsir söguhetjurnar. Góð kynni takast með íbúunum og gíslinum milli þess sem er þrasað, drukkið, hórast og sungið. En alvara lífsins lætur ekki hlægja sig í burtu, eins og IRA-maðurinn Behan vissi vel, enda kaus hann að drekka sig út úr heiminum, fyrst óeiginlega síðan bókstaflega.

Sýning Hornfirðinga hefur ýmislegt sér til ágætis. Félagið býr að prýðilegum kröftum á ýmsum sviðum. Leikmyndin er verulega vel heppnuð, og tókst í senn að gefa í skyn að húsið væri rétt fokhelt og að hruni komið. Hljómsveitin var ánægjulega írsk með sína tinflautu og mandólín. Ýmsir leikarar eiga góðan dag. Þó verð ég að segja að sá áhrifamáttur sem í verkinu býr nær ekki að blómstra til fulls og verður það að skrifast á reikning leikstjóra. Hann hefur kosið að leggja rækt við og skreyta hið furðulega samfélag sem þarna er saman komið, en gengur að mínu viti of langt í gríninu og missir jarðsambandið. Á köflum eru uppátækin svo afkáraleg að það skyggir á mannlýsingar verksins, skrumskælir þær úr hófi. Enda kemur í ljós að það eru raunsæislegustu mannlýsingarnar sem skila mestum hlátrinum, þau Kristín Gestsdóttir og Ingvar Þórðarson sem Pat og Meg. Kristín er oft óborganleg og í söngnum um páskauppreisnina nær hún inn að kvikunni, sem að öðru leyti er alltof djúpt á. Sigurður Kr. Sigurðsson sem hinn elliæri Monsjúr og Margrét Jóhannesdóttir í hlutverki offiserans gefa síðan skemmtileg dæmi um hvernig hægt er að skopfæra án þess að afskræma. Þrúðmar Kárin Ragnarsson og Þóra Kristín Ludwigsdóttir eru gíslinn og þjónustustúlkan sem ná saman þessa örlaganótt. Eftir dálítinn frumsýningarskjálfta í byrjun urðu þau trúverðug og hefðu náð að hreyfa betur við manni ef sýningin hefði tekið örlög þeirra alvarlegar.

Það má vissulega hafa skemmtun af sýningu Leikfélags Hornafjarðar á Gísl, enda er leikurinn greinilega til þess gerður. En sem túlkun á verkinu er hún of einhliða, það á að skemmta manni hvað sem það kostar. Og það kostar of mikið, finnst mér.