laugardagur, mars 23, 2002

Upprisa holdsins

Stúdentaleikhúsið
Stúdentakjallaranum 23. mars. 2002

Höfundar: Aðalsteinn Smárason og Hildur Þórðardóttir
Leikstjóri Sigurður Eyberg Jóhannesson

Tveggja penna tal

FORSAGA sýningar Stúdentaleikhússins að þessu sinni er harla óvenjuleg. Haldin var leikritasamkeppni, en að lokum tókst dómnefnd ekki að komast að niðurstöðu um einn sigurvegara, heldur stóðu tvö handrit eftir. Höfundarnir þeirra eru fengnir til að vinna með leikhópnum og útkoman er Upprisa holdsins, sýning byggð á tveimur handritum sem geta af sér hið þriðja.

Eins og nærri má geta er Upprisan æði brotakennd sýning. Rauði þráðurinn, eina sýnilega fléttan, er þjóðsagnakennd saga af tveimur prestdætrum og tilraunum annarrar þeirra til að fleka vinnumanninn, en forverar hans hafa farist á voveiflegan hátt hver af öðrum. Innanum og saman við getur síðan að líta revíukennd atriði úr stjórnmála- og hugmyndasögu Vesturlanda á síðustu öld. Þar ægir öllu saman; Þórbergur Þórðarson fer á fjörurnar við Guð, Fidel Castro verður forseti Íslands að undirlagi Sjálfstæðisflokksins, helför gyðinga verður að grótesku gríni. Þriðji vinkillin er síðan sögumaður eða kannski öllu heldur málpípa sem heldur þrumandi ræður um ástand heimsins, stríð gegn hryðjuverkum, alþjóðavæðingu, spillingu og annað böl sem er ofarlega í hugum margra nú um stundir.

Það er vandasamt að setja saman sýningu af þessu tagi. Hægt er að fara þá leið að láta atriðin kallast á, láta eitt atriði leiða af öðru, tengjast eða mynda andstæður og spennu. Einnig má ganga alla leið í hina áttina og gera hvert atriði að örverki með upphafi, miðju og endi, merkingarbærum bút í sjálfum sér. Að vissu leyti fellur Upprisa holdsins milli þessara tveggja stóla. Engan greinanlegan þráð er að finna ef undan er skilin þjóðsagan, sem er snertipunktalaus við önnur atriði, og fæst atriðin ná að verða sterk í sjálfum sér.

Það er síðan aðdáunarvert hvað hópurinn skilar þessu brotkennda verki af miklum sannfæringarkrafti. Sýningin nær að vera fáguð og gróf í senn og engir dauðir punktar í leikrænni útfærslu efnisins. Sigurður Eyberg skilar því ágætu verki, þó hann hefði reyndar að ósekju mátt hnippa í nokkra þá óskýrmæltustu. Leiklega er hún sterk, eins og við var að búast og nokkur atriði verða eftirminnileg: samskipti tannlæknis og Goth-stelpu, valdarán Che Guevara í glugganum og eftirmálar þess, hin vergjarna Bergþóra á höttunum eftir sauðamanninum dularfulla. Yfirgengilega ósmekklegt nasistagrínið þótti undirrituðum dálítið sniðugt, en gat einhvern veginn ekki alveg bægt burtu hugsuninni: “má þetta?”. Predikun málpípunar var síðan pirrandi, eins og predikun í leikhúsi alltaf er, ekki síst þegar vel er messað og skörulega eins og hér er raunin.

Stúdentaleikhúsið er öflugt leikhús þessi misserin og hefur á að skipa hæfileikaríkri áhöfn sem tekur starfsemina bersýnilega alvarlega. Með Upprisu holdsins gera þau djarfa tilraun sem, eins og títt er með tilraunir, heppnast ekki fullkomlega. Sú reynsla fer í sarpinn hjá Stúdentaleikhúsinu og það er hreint engin tímasóun að mæta í Stúdentakjallaranum og deila henni með þeim.