miðvikudagur, október 29, 2003

Afmælistertan

Útvarpsleikhúsið
Frumflutt 23. október, endurtekið 30. október.

Höfundur: Kristín Ómarsdóttir

Leikstjóri: Ingólfur Níels
Hljóðvinnsla: Hjörtur Svavarsson
Leikendur: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Gísli Páll Hinriksson, Jón Páll Eyjólfsson og Pálmi Gestsson.

Hvað viltu fá í afmælisgjöf?

Í þeim verkum hennar sem ég þekki til fjallar Kristín Ómarsdóttir gjarnan um ástina, kynlífið og hvernig þessu tvennu reiðir af í heimi þar sem allt er til sölu. Kristín fellur ekki í þá gryfju að predika eða bregða sér í hlutverk heimsósómaskáldsins, heldur horfir á atgang mannskepnunnar á þessu sviði með hlutlausum, og á stundum nokkuð háðskum, augum. Kynímyndir, kyngerfi og hið fljótandi eðli kynhneigðarinnar er í forgrunni í Ástarsögu þrjú, en kynlíf og ást sem neysluvara áberandi þáttur í Vini mínum heimsenda. Afmælistertan er lítil stúdía sem snertir báða þessa þætti.

Sálfræðingurinn Quintin heldur upp á fimmtugsafmælið sitt og býður gamalli vinkonu sinni og starfssystur, Marilyn, ásamt tveimur yngri mönnum, þeim Wolf og Olaf. Eftir því sem boðinu vindur fram skýrist hverra erinda þeir eru þarna, Wolf er kominn til að sofa hjá afmælisbarninu, kannski fyrir borgun, kannski ekki. Því að sjálfsögðu hefur Kristín engan áhuga á að skrifa ádeiluverk um vændi og félagslegar ástæður þess, enda er samband Quintins og Wolfs flóknara en það. Sama má segja um tengslin sem skapast milli Olafs og Marilyn, sem hann heillast af - að því er virðist einlæglega - og fölnandi kvenleiki hennar og viðhorf til hlutskiptis síns er kannski veigamesti þáttur verksins. Marilyn birtist sem yfirborðörugg og veraldarvön, en fljótlega brjótast fram biturð og einmanaleiki hennar. Quintin er hins vegar augljóslega óöruggur með sig og samband sitt við Wolf, hann er þiggjandi og upp á Wolf kominn, sem nýtur þess að leika sér að honum. Wolf er líka valdaaðilinn í sambandi sínu við Olaf. Þetta valda- og kynjatafl er efni verksins.

Hófstilling einkennir stíl Afmælistertunnar og á það bæði við um efnistök Kristínar, framgöngu leikaranna og stíl uppfærslunnar. Það hefur áhrif bæði til góðs og ills fyrir áhrifamátt verksins. Hvörf og sumar setningar verða sterkari fyrir það að falla að því er virðist umhugsunarlaust og kæruleysislega. En á móti kemur að það er auðvelt að láta sér fátt um finnast um vandamál og örlög þessa fólks sem virðist varla hafa áhuga á þeim sjálft. Anna Kristín Arngrímsdóttir kemst einna lengst með að komast að áheyrandanum sem Marilyn. Einnig voru tvíleikssamtöl hennar og Gísla Páls Hinrikssonar sum sterk, og hann gerði skýra persónu úr hinum barnalega og ósjálfstæða Olaf sem vill verða eins og Marilyn. Þeim Pálma Gestsyni og Jóni Páli Eyjólfssyni lét ekki eins vel að teikna hinn taugaveiklaða Quintin og þann kaldlynda Wolf með raddirnar einar að vopni.

Mér þykir líka heldur verra hvað Kristín heldur rækilega aftur af óstýrlátu ímyndunarafli sínu í þessari smámynd, helstu kostir hennar sem leikskálds njóta sín lítið hér. Leikstjórn og hljóðumgjörð er einnig einföld sem mest má vera. Ef til vill hefði verið meira gaman ef allir aðstandendur Afmælistertunnar hefðu leyft sér örlítið meira flug. Allt um það þá heldur Afmælistertan athyglinni og kveikir hugsanir um kynhlutverk, ást og girnd.

föstudagur, október 24, 2003

Ástarbréf

Leikfélag Akureyrar
Ketilhúsinu á Akureyri 24. október 2003.

Höfundur: A.R. Gurney
Þýðandi: Úlfur Hjörvar
Leikendur: Saga Jónsdóttir og Þráinn Karlsson
Listrænn ábyrgðarmaður: Þorsteinn Bachmann
Tónlist: Arnór Vilbergsson
Lýsing: Ingvar Björnsson.

Ameríkubréf

FYRIRFRAM væri sjálfsagt hægt að kalla Ástarbréf A.R. Gurneys formtilraun. Texti verksins er stílaður sem sendibréf milli persónanna tveggja, og spanna þau samskipti nánast alla þeirra ævi, eða allavega frá því þau læra að draga til stafs og þar til annað þeirra stendur eftir að hinu látnu og neyðist til að horfast í augu við þá staðreynd að hafa séð á eftir stóru ástinni í gröfina án þess að hafa gefið sambandinu annað tækifæri en bréfaskipti, með örfáum undantekningum. Vissulega læðist samt að áhorfandanum sá illi grunur að meiri nálægð, þó ekki hefði verið nema nokkrum sinnum hefði gengið af parinu, eða allavega sambandinu, dauðu á stuttum tíma. Svo ólík eru þau, hin “listræna”, en óstöðuga Melissa Gardner og hinn stefnufasti, kaldi en í grundvallaratriðum góði, Andrew Makepeace Ladd III.

En þó formið sé frumlegt hefur það ekki kallað á frekari frumleika hjá höfundinum. Persónurnar eru klisjulegar sem mest má verða, og verkið er rígbundið þeim menningarheimi sem það er sprottið úr án þess að hafa neina þá kosti sem gera það sammannlega áhugavert. Líklega myndi engu leíkhúsi utan þess sem stílar upp á markhóp bandarískrar efri millistéttar detta í hug að snerta á því nema fyrir það hvað það er einfalt, ódýrt og þægilegt í uppsetningu. Og gefur þrátt fyrir allt tveimur stjörnuleikurum á besta aldri ágætis tækifæri til að blómstra og njóta sín, án þeirra óþæginda sem gjarnan fylgja því að setja upp nýja leiksýningu. Höfundur leggur meira að segja áherslu á þennan “sölupunkt” í handritinu og telur enga þörf á leikmynd, ströngum æfingum né heldur að leikarar læri textann sinn. Það er næstum eins og verkið sé skrifað með þá listamenn í huga sem finnst starf sitt ekki lengur ómaksins vert. En þó sjálfsagt sé hægt að komast í gegnum verkið á þennan hátt er það nú einu sinni svo að það er eldmóður listamannanna sem kveikir í áhorfendum. Og ef hvorki höfundur, leikendur né leikstjóri sjá ástæðu til að henda sér af fullum krafti í verkefnið er eins víst að áhorfendur láti sér fátt um finnast. Og það er ekki fyrr en undir lokin sem sýning Leikfélags Akureyrar nær þeim áhrifum. Þangað til vekur hún fyrst og fremst undrun yfir því hvað tveir svona frábærir leikarar eru að leggja sig niður við svona nokkuð.

Það er nefnilega ein grundvallarvilla innbyggð í fyrrnefnda athugasemd höfundar, og sem höfundar sýningarinnar hafa gleypt hráa. Fólk les ekki eigin sendibréf. Það að standa á sviði og fara með texta úr eigin sendibréfum eins og maður sé að lesa þau upp úr bréfi er aldeilis fráleit nálgun, og stendur í vegi fyrir innlifun, blæbrigðum, að ekki sé talað um sambandið við áhorfendur, sem ætti að vera grundvallaratriði í svona skemmtunarleik, því ekki er tengslum milli persónanna eða samspili fyrir að fara. Ef sendibréf eru tjáningarform þá verður að flytja texta þeirra eins og um tjáningu sé að ræða, en ekki eitthvað sem persónan uppgötvar þegar hún sér orðin á blaði.

Reyndar voru þau Saga Jónsdóttir og Þráinn Karlsson alls ekki sammála um hvaða stílsmáta ætti að hafa á sýningunni, sérstaklega framan af. Saga gerði sér far um að bregða sér í gervi Melissu og túlka aldursskeið hennar og gerði það reyndar vel. En sú staðreynd að hennar “bréf” voru greinilega handrit í plastmöppu dró óneitanlega úr áhrifamættinum. Bréf Þráins voru hins vegar óumdeilanlega bréf, en hann gætti þess hins vegar vandlega að lesa upp úr þeim með tilheyrandi lestóni og gerði enga tilraun til að verða barn eða unglingur. Hvort sem þessi munur er meðvituð ákvörðun leikaranna og “listræns ábyrgðarmanns” sýningarinnar eða einfaldlega til marks um að engin skýr listræn lína var lögð er ekki gott að segja. Áhrifin, fyrir utan þau að rugla áhorfandann í ríminu, eru á hinn bóginn þau að verkið verður eins og upprifjun Andrews, og gerir Melissu að hálfgerðri aukapersónu, gerir mynd hennar að hugmynd Andrews um hana. Og það er alveg áreiðanlega óheppileg leið.

Það er síðan til marks um það úr hverju þau Þráinn og Saga eru gerð sem leikarar að undir lokin ná þau að yfirvinna ágalla formsins, verksins og grunnhugmyndar sýningarinnar og ná tilfinningalegu taki á áhorfendum. Og annað gera þau líka svo vel að undrum sætir. Þau hlusta bæði með afbrigðum fallega. Sterkustu stundir sýningarinnar fyrir utan endinn er að finna hjá þeirri persónu sem ekki talar heldur hlustar og upplifir viðbrögð við því sem hinn segir. Þetta er afar fínlega unnið, aldrei ofgert en alltaf satt.

Umgjörðin í Ketilhúsinu er raunsæisleg, og ýtir undir þann skilning að allt gerist þetta í endurliti. Það hefði verið ómaksins vert að leita að leið til að sýna betur breytingar á aldri, tíðaranda og þjóðfélagsstöðu persónanna, samkvæmisföt Melissu og jakkaföt Andys gerðu hvorki gagn né ógagn. Tónlistin er líka notuð á óþarflega ómarkvissan hátt, einstaka sinnum kallast hún skemmtilega á við efnið, en of oft er hún eins og frekar hvimleið dinnertónlist, sem er auðvitað ágætis tákn fyrir innihaldsleysi, skyldi það hafa verið ætlunin.

Ástarbréf er þunnildi. Ekki leiðinleg nema að svo miklu leyti sem það er leiðinlegt að sjá hæfileika vannýtta og möguleikum kastað á glæ. En ekki skil ég hvað fékk Leikfélag Akureyrar til að finnast þetta verk eiga erindi við sitt fólk.

sunnudagur, október 19, 2003

Hættuleg kynni

Dansleikhús með ekka
Borgarleikhúsinu 19. október 2003.

Byggt á Les Liasons Dangereuses eftir C. de Laclos
Leikstjóri: Aino Freyja Järvelä
Aðstoðaleikstjóri: Hrefna Hallgrímsdóttir
Tónlist: Ingibjörg Stefánsdóttir og Hallur Ingólfsson
Hreyfingar: Jóhann Freyr Björgvinsson
Búningar: Guðrún Lárusdóttir
Lýsing: Alfreð Sturla Böðvarsson
Förðun: Elín Reynisdóttir
Hár: Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir.

Leikendur: Agnar Jón Egilsson, Jón Páll Eyjólfsson, Kolbrún Anna Björnsdóttir, Kristjana Skúladóttir og Vala Þórsdóttir.

Ekkert pláss fyrir ást

LES Liasons Dangereuses virðist vera nútímanum hugleikin þó þessi bréfaskáldsaga hafi verið rituð á síðari hluta átjándu aldar af frönskum liðsforingja og segi frá heimi sem orðinn er okkur næsta fjarlægur, heimi siðspilltra og miskunnarlausra samkvæmisljóna Parísarborgar. Sagan hefur að minnsta kosti tvisvar verið kvikmynduð, rómuð leikgerð Christopher Hampton sló í gegn og var meira að segja leikin í Þjóðleikhúsinu. Jafnvel markaðsfræðingar Hollywoodmaskínunnar sáu eitthvað í sögunni sem þeir töldu geta dregið markhóp sinn í bíó og gerðu unglingamyndina Cruel Intentions, þar sem sagan er látin í heimi forríkra New York búa. Og gekk algerlega upp. Og nú hafa forsprakkar Dansleikhúss með ekka kveikt á sögunni og gert sína eigin sviðsgerð.

Sagan segir frá glaumgosanum Valmont og samkvæmisdrottningunni frú Merteuil, og hvernig þau eyðileggja líf tveggja kvenna, sakleysingjans Cecile og hinnar dyggðum prýddu frú Tourvel. En Valmont seilist of langt í sókn sinni eftir að leggja þá síðarnefndu, verður ástfanginn - og ferst. Það er ekkert pláss fyrir ást í þessum heimi, hún er veikleiki sem kostar þig lífið. Sá sem er miskunnarlausastur og kaldastur vinnur, aðrir farast.

Aðferð hópsins við smíð sýningarinnar er athyglisverð og er lýst í einfaldri en smekklega hannaðri leikskrá. Hver leikari fékk einungis í hendur þau bréf úr bókinni sem þeirra persóna skrifaði eða fékk send. Þannig eru það fyrst og fremst afstaða og viðfangsefni viðkomandi persónu sem leikarinn hefur yfirsýn yfir. Síðan var spunnið og unnið upp úr bréfunum. Þessi aðferð minnir að vissu leyti á þann gamla sið að handrit leikara innihaldi einungis þeirra eigin texta og nauðsynleg markorð, og til eru þeir fræðimenn sem telja að það sé hin eina rétta aðferð við æfingar. Ekki er gott að átta sig á hverju þessi leið hefur skilað í sýningu Dansleikhúss með ekka, sem virkar sem næsta hefðbundin vel smíðuð skáldsöguleikgerð, og hefur ekki hópvinnuyfirbragð. Líklega hefur þetta þó fyrst og fremst hjálpað leikurunum til að vera trúir sinni persónu, nokkuð sem skilar sér vissulega í sýningunni.

Einnig er athyglisvert hvað hlutur danslistarinnar er lítill en texti að sama skapi fyrirferðarmikill. Það er snjöll hugmynd að nota samkvæmisdansa í danskeppnisstíl, enda ýmsar hliðstæður milli þess heims og verksins, með allri sinni yfirborðsfágun sem byggir á blóði svita og tárum. Í leikgerð Hamptons segir frú Merteuil frá því hvernig hún æfði sjálfstjórn með því að sitja brosandi í matarboðum meðan hún rak gaffal í lærið á sér. Í danskeppnum tapast stig ef gleymist að brosa. En þó hugmyndin um samkvæmisdansana sé góð þá er hún tæpast nógu gegnumfærð til að dansinn verði lífrænn hluti sýningarinnar. Það er of lítið dansað og dansinum vandlega haldið utan við atburðarásina. Eins er með speglana sem einkenna einfalda leikmyndina. Notkun þeirra er er of takmörkuð miðað við hvað þeir eru afgerandi í rýminu.

Búningarnir eru sóttir í samkvæmisdansaheiminn og þar nýtur sú grunnhugmynd sín vel - býr til fjarlægð án þess að elta ritunartímann. Kannski einna helst að erfitt sé að sætta sig við að púrítaninn frú Tourvel eigi heima í svona múnderingu, en hennar kjóll er þó hvítur, sem segir eitthvað.

Fimm leikarar taka þátt í sýningunni. Samkvæmisflagðið frú Merteuil er leikið af Völu Þórsdóttur sem nær firnasterkum tökum á þessu óræða en bitastæða hlutverki. Ekki dró það heldur úr áhrifunum að fyrirfram hefði ég ekkert endilega búist við því að verkefnið lægi vel fyrir henni. En hún nær að beisla krafta sína og gefa mjög sannfærandi mynd af þessari konu. Við vissum alltaf hvað hún var að hugsa, en skildum jafnframt vel hvers vegna aðrar persónur létu blekkjast af yfirborðinu. Undir lokin sýnir Vala okkur svo í eitt andartak hverju frú Merteuil hefur fórnað til að verða sá ótvíræði sigurvegari sem hún er í samkvæmisleiknum. Því þó þú getir brosað með gaffal í lærinu þá breytir það því ekki að hann skilur eftir sár, og ef þú telur þér trú um að blekkingin sé raunveruleikinn og vanrækir sárið er sýking á næsta leyti. Hversu dýrmæt eru stigin sem þú færð fyrir að missa ekki brosið?

Ungu elskendurnir Danceny og Cecile eru prýðilega teiknuð af Agnari Jóni Egilssyni og Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, og eins og hæfir á okkar kaldhæðnu öld voru þau helsta uppspretta fyndi í sýningunni, ekki síst ástarljóð þau sem Danceny hafði sótt í íslenska dægurlagatexta og þuldi yfir ungmeynni.

Jón Páll Eyjólfsson er Valmont og er sannfærandi flagari, geislar af sjálfsöryggi og skeytingarleysi um aðra. Ekki náði Jón eins vel utan um umskipti persónunnar, hvernig hann flækist sjálfur í neti því sem hann leggur fyrir frú Tourvel. Að sumu leyti er þetta leikgerðarinnar sök, þau tvö fá mögulega of lítið pláss til að sýna þróun sambandsins. Þetta bitnar enn frekar á Kristjönu Skúladóttur í vanþakklátu hlutverki hennar, frú Tourvel verður ekki skýr persóna að þessu sinni. Sterkust var Kristjana þó þegar mest á reyndi, þegar hún gefst upp fyrir Valmont. Hið óbærilega atriði þegar hann segir skilið við hana var hins vegar þannig staðsett í rýminu og lýst að erfitt var að njóta þess eða átta sig á viðbrögðum hennar við makalausri ræðu elskhugans.

Hættuleg kynni segir spennandi og áhrifaríka sögu sem heldur áhorfendanum við efnið. Fram hefur komið að sýningin er sprottin úr ástríðuþrunginni þörf aðstandenda til að segja þessa sögu, en herslumuninn vantar til að þessari ástríðu sjáist stað í sýningunni. Maður saknar ferskari sýnar á efnið, róttækari lausna og meiri kynferðislegri spennu. Útkoman er prýðileg skemmtun, ágæt kvöldstund í leikhúsinu, en sálarháskann skortir.

föstudagur, október 17, 2003

Ríkarður III- harmrænt gleðispil byggt á leikriti Williams Shakespeares

Þjóðleikhúsið
Þjóðleikhúsinu 17. október 2003.

Höfundur: William Shakespeare
Þýðing: Helgi Hálfdanarson
Tónlist: Faustas Latenas
Lýsing: Páll Ragnarsson
Búningar: Vytautas Narbutas og Filippía I. Elísdóttir
Leikmynd Vytautas Narbutas
Aðstoðarleikstjóri og túlkur: Ásdís Þórhallsdóttir
Leikstjórn: Rimas Tuminas

Leikendur: Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Björgvin Franz Gíslason, Björn Thors, Brynhildur Guðjónsdóttir, Edda Heiðrún Backman, Friðrik Friðriksson, Guðrún S. Gísladóttir, Hilmir Snær Guðnason, Hjalti Rögnvaldsson, Ívar Örn Sverrisson, Jóhann Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Pálmi Gestson, Randver Þorláksson, Rúnar Freyr Gíslason, Sigurður Skúlason, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Valdimar Örn Flygenring,

Grálynt gleðispil

SHAKESPEARE skrifar Ríkarð þriðja um það leyti sem hann er að ná fullum þroska sem höfundur, búinn að ná vopnum sínum eins og stjórnmálamennirnir segja gjarnan, og Ríkarður þriðji er leikrit um stjórnmál og völd. Shakespeare er þegar þarna er komið sögu búinn að ná valdi á ritun söguleikja, búinn að hita sig upp með þremur leikritum um Rósastríðin, og nær sú sería hámarki með Ríkarði.

En fleira bætist í púkkið en tæknileg fullkomnun. Shakespeare sækir líka aftur í helgileiki miðalda, og í þá merku bók furstann eftir Machiavelli og skapar með Ríkarði algerlega nýja tegund leikpersónu. Illskan er tempruð með skopskyni, ófélegt útlitið með persónutöfrum og leikhæfileikum, og gegnum þykkt og þunnt heldur Ríkarður trúnaðarsambandi við vini sína - áhorfendur, sem geta ekki annað en hrifist með, fylgt honum inn í martröðina. Því grimmileg sigurgangan, martröð andstæðinganna, breytist fyrr en varir í martröð Ríkarðs. Að lokum stendur hann einn og áttar sig á að einn húðarjálkur er dýrmætari en krúnan sjálf. Og þó. Líklega hatar hann sjálfan sig nóg til þess að flótti er ekki rétta lausnin.

Að sumu leyti er Ríkarður alveg hreint ótrúlega tímabært verk að sýna. Verk um pólitíska kaldhæðni, skeytingarleysi um meðölin í blindri sókn að tilganginum. Leikrit um ímynd, um vald, sem byggir á endanum ekki á neinu öðru en óljósri ógn. Hvort sem horft er til Washington eða Borgarness virðast hliðstæðurnar sláandi. En þetta eru ekki þeir þættir verksins sem heilla Rimas Tuminas. Stjórnmál, valdabrölt og hversdagslegar hvatir sem hreyfiafl atburða eru ekki eitthvað sem vekur áhuga hans og þeir sem sækja sýningu Þjóðleikhússins með þær væntingar munu verða fyrir vonbrigðum.

Þessi í stað fá þeir hreina og ómengaða martröð. Heimur sýningarinnar er heimur ógna og skelfinga, rúst sem enginn virðist megna að byrja að byggja á. Speglarnir eru byrgðir, og tilfinningin er sú að það sé ekki einungis af spéhræðslu Ríkarðs, heldur vegna þess að í þessum heimi getur enginn horfst í augu við neitt. Og yfir atburðunum gnæfir sá hestur sem á endanum skiptir öllu máli, þegar allt er orðið um seinan. Martröðin er framan af í tóntegund trúðleiksins, en um leið og Ríkarður hefur náð markmiði sínu og halla tekur undan fæti færist drungi yfir þar til sýningin stöðvast, nánast eins og leikfang með útrunna rafhlöðu. Djörf og áhrifarík leikslok.

Hin trúðska martröð er vitaskuld ein leið að Ríkarði þriðja, og á sér fyllilega stoð í textanum. En með því að einblína á hana tapast vissulega margt sem er heillandi við verkið. Ætlun og samspil persónanna fletjast út og valdataflið verður aldrei spennandi. Þá eru styttingar og senutilfæringar sýningarhöfunda með þeim hætti að flókin sagan verður aldeilis óskýr, auk þess sem útsmogin uppbygging Shakespeares fellur saman. Segja má að höfundar sýningarinnar neiti sér um ansi margt af þeim meðölum sem þeim eru rétt til að hafa áhrif á áhorfendur. Útkoman verður einhverskonar ljóðrænn Bubbi Kóngur, Og sem slík þá heldur sýningin, enda leikhúslegt ímyndunarafl höfunda hennar óumdeilt.

Ríkarður sjálfur er andstyggilegt illfygli - annað hvort væri nú - en Rimas hefur þann áhuga á persónunni sem á endanum kveikir samúð. Sú sýn sem sýningin miðlar af kvöl Ríkarðs er ekki sótt í leikritið, heldur í sköpun leikstjórans og aðalleikara hans.

Hilmir Snær Guðnason er óviðjafnanlegur leikari. Hann hefur bæði það sem kallað er “star quality”, þann eiginleika að áhorfandinn hefur alltaf og ævinlega áhuga á því sem hann segir og löngun til að reyna að skilja hvað hann er að hugsa, og svo leikhæfileika til að miðla því sem hann þarf og vill. Enda verður hinn dýrslegi, aumkunarverði og viðbjóðslegi Ríkarður sem hann skapar að algerri þungamiðju sýningarinnar. Hilmir hefur sjúklegt skopið í fyrri hlutanum á valdi sínu og nær síðan í skottið á harmrænunni undir lokin. Glæsilegt. Þó verð ég að játa að eftir að hafa séð Hilmi í þessari róttæku leikgerð á Ríkarði, og í köflóttum uppfærslum Baltasars Kormáks á Hamlet og Draumi á Jónsmessunótt, þá er mig farið að langa að sjá hann leika bitastæðan Shakespeare án þess að eiga það sífellt á hættu að leikstjórakonseptin drekki túlkun hans.

Kvenhlutverkin hafa mikið vægi í verkinu og sýningin heldur því vel til haga. Það er hins vegar gegnumgangandi að kveinstafir kvennanna, sem eðli atburðanna samkvæmt er þeirra helsta hlutskipti, eru skopfærðir með ýmsum hætti. Þetta birtist t.a.m í óhemjuleik Nönnu Kristínar Magnúsdóttur í bónorðsatriðinu, sem fyrir vikið verður næsta áhrifasnautt, og því hvernig Margrét drottning Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur dettur inn í að flytja texta sinn á ítölsku og ensku. Þessi uppátæki þóttu mér heldur lítilfjörleg fyndni, og tilgangurinn er mér hulinn. Edda Heiðrún Backmann er Elsabet drottning og afar sterk, ekki síst í atriðinu þar sem Ríkarður biður dóttur hennar eftir að hafa látið myrða syni hennar tvo. Guðrún Gísladóttir teiknar skýra mynd af móður Ríkarðs.

Mörg smærri hlutverkanna eru vel af hendi leyst. Pálmi Gestson er það flottur sem Hertoginn af Bokkinham að mann langar að sjá meira af samskiptum hans og Ríkarðs en þessi sýning hefur að geyma. Hertoginn af Klarens, bróðir Ríkarðs er á hinn bóginn næsta óstyttur og glæsilega leikinn af Sigurði Skúlasyni. Þriðji bróðirinn, Játvarður konungur er örsmátt hlutverk, en Jóhann Sigurðarson gerði það eftirminnilegt með gróteskri mynd af dauðvona óbermi. Þá nær Hjalti Rögnvaldsson að verða eftirminnilegur sem vandræðalegur Rípajarl.

Rúnar Freyr Gíslason er Ríkmond, sá sem kemur og sigrar Ríkarð og verður síðar Hinrik sjöundi. Meðferðin á hlutverkinu er afar afkáraleg, Ríkmond er gerður að hreinni skopfígúru og mig grunar að Rúnari sé margt betur gefið en trúðleikur. Katbæingur Baldurs Trausta Hreinssonar og Þyrill Randvers Þorlákssonar voru að sama skapi meira skrítnir en áhrifaríkir. Valdimar Örn Flygenring er síðan hárréttur sem varðmaðurinn Hróbjartur.

Þrír ungir leikarar fara með hlutverk skósveina Ríkarðs, stundum eru þeir hundar, stundum trúðar, stundum jafnvel bara almúgamenn. Allt þetta leystu þeir Björgvin Franz Gíslason, Björn Thors og Ívar Örn Sverrisson prýðilega og voru hlægilegir mjög þegar á þurfti að halda.

Leikmynd Vytautasar Narbutas og búningar hans og Filippíu I. Elísdóttur eru flott verk, búningarnir sannfærandi og leikmyndin framkallar margar sterkar myndir í sviðsetningunni. Lýsing Páls Ragnarssonar styður þetta rækilega. Verra á ég með að fella mig við tónlist Faustas Latenas. Bæði finnst mér hún notuð allt of mikið og á óviðeigandi stöðum, nokkuð sem hefur löngum pirrað mig við uppfærslur Litháanna, og svo er ég ekki sáttur við tónlistina sem slíka. Notkun á tangótónlist er við það að verða klisja í leikhúsi, og hér er hún einkennilega óviðeigandi.

Ríkarður þriðji er óhefðbundin Shakespearesýning. Svo mjög reyndar að yfirskrift hennar er “harmrænt gleðispil byggt á leikverki Williams Shakespeares”. Sem slík er hún um margt áhrifarík, mikil sjónræn og hugmyndaleg veisla eins og við var að búast. Það er kjánalegt að tala eins og það sé bannað að fara slíkar leiðir, þó sumir freistist til þess þegar tilraunirnar keyra úr hófi. En Shakespeare er enginn greiði gerður af hreintrúarmönnum. Samt er dálítið leiðinlegt til þess að vita að eiga þess ekki kost að sjá “Ríkarð þriðja eftir Shakespeare” á íslensku fyrr en kannski eftir tuttugu ár eða svo. Það er nefnilega skrambi gott leikrit.

Rimas Tuminas hefur sagt að Ríkarður verði hans síðasta sýning á Íslandi. Sjálfur hef ég ekki alltaf hrifist af sýningum hans hér, þó ástæðulaust sé að efast um að áhrif hans séu mikil og jákvæð við eflingu djörfungar og listræns hugrekkis í íslensku leikhúsi. Þegar á heildina er litið þykir mér kannski mest til þessarar sýningar koma af þeim sem ég hef séð, þrátt fyrir þá annmarka sem hún hefur fyrir minn smekk. Um leið og honum eru þökkuð störfin langar mig að ljóstra því upp að allt síðan ég sá uppfærslu hans á Þremur systrum og áttaði mig á að Máfurinn hafði ekki verið neitt sértilfelli þá hefur mig dreymt um að sjá hann setja upp Skugga-Svein.

Þar eru nú aldeilis kóngulóarvefir fyrir róttæka leikhúshugsun að blása í burtu.
Eitt lag enn, hr. Tuminas.

þriðjudagur, október 14, 2003

Dýrin í Hálsaskógi

Þjóðleikhúsið
14.10.2003

Höfundur: Torbjörn Egner
Þýðendur: Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Leikmynd; Brian Pilkington
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Tónlist: Jóhann G. Jóhannson
Dansar: Ástrós Gunnarsdóttir


Fersk sýn

"sígilt" er eitt af þessum marghliða hugtökum sem engin leið er að fá botn í hvað nákvæmlega þýðir, en gegnir samt mikilvægu hlutverki í umfjöllun um listir. Og það sem meira er: þó það sé ill- eða óskilgreinanlegt þá fer því fjarri að það sé gagnslaust eða villandi. Meðan ekki er spurt um nákvæma merkingu sem er sameiginleg í allri notkun þess getur það nýst við að skýra og skilgreina það sem við viljum að það skýri og skilgreini.

Þessvegna veldur það engum vandræðum að tala um Hamlet, Fiðlarann á þakinu, Skugga-Svein og Dýrin í Hálsaskógi sem sígild verk þó ekki verði í fljótu bragði fundnir margir sameiginlegir fletir með þessum verkum. Nema þá kannski sá eini að með reglulegu millibili koma þau til kasta leikhússfólks, eru sett upp á nýjan leik, og - vegna þess að við lifum þá tíma sem við lifum - eru tekin til endurmats.

Endurmat
Að vanhugsuðu máli mætti í sjálfu sér efast um nauðsyn þess að endurmeta Dýrin á nokkurn hátt. Markhópurinn er eðli málsins jú alltaf nýr, það er engin hætta á að börnin verði leið á verkinu. En lifandi leiklist verður ekki sköpuð nema með því að horfa á viðfangsefnin upp á nýtt í hvert skipti, þó ekki sé nema fyrir flytjendurna. Þó börnin geti kannski ekki borið saman sýningar má slá því föstu að þau misstu fljótt áhugann á því sem fram fer á sviðinu ef þeir sem þar standa eru einungis að troða af gömlum vana sömu slóð og alltaf hefur verið gengin. Nei, endurmat er hreinlega innbyggt í sköpun lifandi leikhúss.

Það er ekki þar með sagt að frumleiki og leit að nýjum leiðum að sígildum verkum sé forsenda þess að skapa góða leiklist. Sú leit leiðir oftar en ekki listamennina á villigötur og útkoman er sýning þar sem form og innihald vinna hvort gegn öðru. Það að horfa á ferskan hátt á viðfangsefnið, eins og handritið hafi dottið inn um lúguna þá um morgunin og enginn kannist við höfundinn, er miklu fremur leiðin að sönnum ferskleika í framsetningu og uppskrift að því að sýningin þjóni verkinu og verkið vinni með sýningunni.

Dýrin
Undanfarin ár hef ég séð þó nokkrar sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi og vitna sumar þeirra um gildi þessa síðarnefnda. Aðrar voru jafnvel prýðilegar, en báru þess nokkur merki að taka “hefðina” sem gefna. Svo rammt kveður stundum að þessu að nær er að segja að leikararnir séu að leika Árna Tryggvason og Bessa Bjarna en þá Lilla og Mikka. Tvær sýningar af fyrrnefnda taginu verðskulda að á þær sé minnst. Uppfærsla Björns Gunnlaugssonar með Leikhópnum Veru á Fáskrúðsfirði í mars 2001 bar þess vitaskuld merki að börn og unglingar voru í flestum hlutverkum og fæst með mikla leikreynslu. En þar sá ég í fyrsta sinn samband Lilla og Marteins Skógarmúsar, og raunar allt hlutverk Marteins, skoðað á ferskan hátt með opnum augum. Þannig var ljóst í sýningunni að upphaflega voru lagagreinar Marteins aðeins tvær. Sú þriðja varð til á staðnum þegar honum ofbauð tilætlunarsemi og snýkjudýrsháttur vinar síns Lilla.
Þetta atriði rifjaðist síðan upp fyrir mér í sýningu Þjóðleikhússins núna, þar sem þessi ferska sýn á aðalhlutverkin á stóran þátt í að gera hana jafn vel heppnaða og raun ber vitni.

Allt á hvolf
Hin eftirminnilega sýningin er síðan hin óborganlega uppfærsla Leikfélags Flensborgarskólans í Hafnarfirði sem Stefán Jónsson setti á svið vorið 2000. Þar var öllu því sem við teljum boðskap verksins snúið á haus, verkið varð að sögu um einelti það sem Mikki verður fyrir vegna þess að hann er öðruvísi en meirihlutinn. Þessi túlkun gekk fullkomlega upp, þrátt fyrir að ekki væri hróflað við textanum, nokkuð sem er eitt af mörgum einkennum sígildra verka. Reyndar er boðskapur Dýranna vandræðalegasti þáttur verksins, ef undan er skilinn fráleitur lokasöngurinn. Ef Egner er tekinn á orðinu er nánast hægt að saka hann um sjúklega áráttu til að hafna náttúrunni, og frekar andstyggilega trú á að hægt sé að sveigja eðli fólks með boðum og bönnum. Horfi maður framhjá þessu og líti á erindi Dýranna sem almennan boðskap um gildi vináttu og samvinnu þá verður samt ekki horft framhjá því að hann kemur þessum boðskap til skila á einkar langsóttan hátt. Í sýningu Flensborgarskólans stóð allur leikhópurinn að Mikka frátöldum og öskraði grænmetissönginn fram í sal, og heilsaði síðan með nasistakveðju í endann, svo ekki færi nú framhjá neinum að hér væri múgur á ferð sem léti engin frávik óátalin. Eiginlega hefði fyrsta lagagreinin í þeirri sýningu átt að hljóma. “Öll dýrin í skóginum eiga að vera eins”.

Þjóðleikhúsið
Boðskapurinn er loðinn já, en skemmtigildið er ótvírætt. Og það er óhætt að segja að Sigurður Sigurjónsson og hans lið í Þjóðleikhúsinu láti sitt ekki eftir liggja hvað það varðar. Sýningin er uppfull af snjöllum hugmyndum sem krydda efnið, og er þeim viðbótum trúlega ekki síst beint til foreldranna, sem eru mögulega að sjá sýna þriðju uppfærslu. Sýningin hefur líka þann augljósa kost að vera fersk. Það er aldrei tilfinning áhorfandans að verið sé að fylgja einhverri hefð, eða elta erfðavenjur umhugsunarlaust. En á sama tíma er trúnaðurinn við efnið þannig að niðurstaðan verður ekkert langt frá fyrri túlkunum. Þannig er hinn óborganlegi refur Þrastar Leó Gunnarssonar ekkert víðs fjarri þeim sem Bessi Bjarnason skóp, en það fer samt aldrei á milli mála að hann er sköpunarverk Þrastar. Það sama má segja um Lilla Atla Rafns Sigurðssonar og Martein í meðförum Kjartans Guðjónssonar, þó trúlega sé þeirra sköpun lengra frá því sem við þekkjum, og gallarnir í persónuleika þeirra skýrar mótaðir en áður hefur þótt hæfa. Við lifum jú á tímum íróníunnar.

Umgjörð Brians Pilkington og búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur eru þessu sama marki brennd. Fersk sýn á viðfangsefnið en tilfinning fyrir því sem áður hefur verið gert. Leikhópurinn tekur sér víða frelsi til að bæta við, skjóta inn hlægilegum vísunum í nútímann og leika á áhorfendur og hljómsveit. Allt hjálpar þetta til að gera sýninguna að lifandi skemmtun og draga áhorfendur á öllum aldri með í gamanið.

Niðurstaðan er því sú að Dýrin lifa sem aldrei fyrr. Sígild - ekki veit ég af hverju.

laugardagur, október 11, 2003

Riddarar hringborðsins - með veskið að vopni

Kvenfélagið Garpur
Listasafni Reykjavíkur 11. október 2003.

Hópvinnuverkefni í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur.

Leikendur: Ester Talia Casey, Margrét Eir Hjartardóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Maríanna Clara Lútersdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Útlitshönnuður: Kristína Berman
Dramatúrg: Gréta María Bergsdóttir
Hljóð: Margrét Eir Hjartardóttir og Birgir Jón Birgisson
Ljós: Halldór Örn Óskarsson
Aðstoð við útlitshönnun: Móeiður Helgdóttir.

Hið sanna ástand heimsins?

RIDDARAR hringborðsins - með veskið að vopni sprettur af löngun hópsins til að skoða og tjá sig um ástand heimsins, en sérstaklega um það viðvarandi ofbeldis- og stríðsástand sem einkennir okka tíma. Það er vissulega tímabær og ánægjuleg þróun ef ungt leikhúslistafólk finnur sig knúið til að nota sín tæki og meðul til að taka þátt í umræðunni um ástand heimsins, orsakir þess og leiðir út úr vandanum. Og þar sem Kvenfélagið Garpur er ekki eitt um þessa stefnu - Hið lifandi leikhús rær á svipuð mið - er ekki langt í að hægt sé að tala um marktækt og vonandi varanlegt andsvar við hinu illræmda markaðsleikhúsi sem sumir hafa óttast að gengi af alvarlega þenkjandi og ábyrgu leikhúsi dauðu í eftirsókn sinni eftir innhaldslausri og auðseljanlegri skemmtun.

Hópurinn smíðar sýningu sína úr efnivið úr þremur áttum. Kjarni hennar og hryggjarstykki er Wannsee-fundurinn, þar sem háttsettir nasistar tóku ákvörðun um og útfærðu tæknilega Lokalausnina, útrýmingu gyðinga í Evrópu. Síðan fléttast inn í hana bútar úr tveimur sígildum leikritum, Lýsiströtu eftir Aristófanes og Ríkharði III eftir Shakespeare. Þessir þrír efnisþættir hafa í raun víðari skírskotun en svo að hægt sé að líta á stríð sem þema verksins. Einungis Lýsistrata er með stríð og afstöðu kvenna í forgrunni, Ríkharður III snýst um miskunarlaust valdatafl og fórnarlömb þess en það gerist einmitt á friðartíma, og það er friðurinn sem gerir Ríkharði kleift að ræna völdum á þann hátt sem hann gerir. Og Lokalausnin er svo einstakur viðburður í mannkynssöguni að skírskotuninn til ástands heimsins í dag verður langsóttari fyrir vikið. Þetta efnisval verður til þess að sýningin verður ekki sérlega beinskeytt eða sláandi, en víkkar um leið umfjöllunarefnið og skilur eftir fleiri vangaveltur en einbeittara efnisval hefði gert. Allir þrír efnisþættirnir eru þó sterkir, enda ekki að ástæðulausu að Lýsistrata talar enn til okkar eftir tvö þúsund og fjögur hundruð ár, og Ríkharður III eftir rúm fjögur hundruð. Og hin ískalda skynsemi og hversdagsleiki sem einkennir endursköpun Wannse-fundarins, og hópurinn sækir í kvikmyndina Conspiracy, færir hrylling helfararinnar óþægilega nálægt okkur sem lítum á okkur sem venjulegt fólk, en Heydrich og félaga sem ómennsk skrímsli.

Annað sem setur sterkan svip á sýninguna er síðan tenging efnisins við konur, kvenleika og ímyndir hans. Þannig eru það átta konur sem taka ákvörðun um útrýmingu hins óæskilega kynstofns, eða hvað? Hópurinn leikur sér afar skemmtilega með ímyndir valds og kynferðis, með frábærlega agðari vinnu með líkamsmál og leikmuni, einkum kvenveski og vindla. Öðru hverju bresta þó öll agabönd og hin óstýrláta orka Aristófanesar tekur völdin, ellegar hljóma innblásnar bölbænir fórnarlamba Ríkharðs af Glostri. Frá leikhúslegum sjónarhóli er samfléttun efnisþráðanna verulega vel heppnuð þrátt fyrir fyrrnefndar innihaldslegar efasemdir mínar.

Leikhópurinn er stjarna sýningarinnar. Hér er unnið mjög markvisst með hópinn sem heild, bæði í stílfærðum upphafs- og lokaatriðunum sem nálgast dansinn, í uppbrotunum, en einnig í þeim hlutum þar sem einstaklingsbundin persónusköpun er í forgrunni. Það er ekki oft sem þessi vinnubrögð eru viðhöfð á jafn afgerandi hátt í íslensku atvinnuleikhúsi, en skila hér eftirminnilegum atriðum í minnisbankann. Og þar sem þessi leið kallar á sérlega þjála og áreynslulausa samvinnu leikaranna er aðdáunarvert hvað hópurinn kemst langt með stílinn þrátt fyrir að vera svo nýr af nálinni, og haft lítinn tíma til að móta sitt sameiginlega listræna tungutak. Þarna hafa hæfileikar og reynsla Þórhildar Þorleifsdóttur án efa skipt sköpum. Sviðssetningin öll er fumlaus og sterk, og einfalt rýmið notað hugvitsamlega. Leikmynd og búningar, lýsing og hljóðmynd styðja það sem verið er að gera án þess að taka völdin. Sérstaklega var tónlist notuð á sterkan hátt til að ýmist undirstrika eða varpa írónísku ljósi á það sem sagt er og gert.

Tvær leikkonur vil ég nefna sérstaklega. María Heba Þorkelsdóttir náði sterkum tökum á hlutverki yfirarkitekts Lokalausnarinnar og gestgjafa fundarins. Sterkasta atriði sýningarinnar er trúlega þar sem hún stendur gagntekin af fegurð strengjakvartetts eftir Schubert, og dregur okkur með hlustun sinni inn í þá upplifun, sem kallast síðan á við hinar ómennsku ákvarðanir sem hún knýr fram. Þá var Unnur Ösp Stefánsdóttir sérlega kröftug Lýsistrata, eldmóðurinn gagntók hana og stýrði bæði tungu og líkama.

Riddarar Hringborðsins - með veskið að vopni er kannski meira athyglisverð leikhústilraun en áhrifamikið andófsverk. Hafi það verið ætlun hópsins að senda áhorfendur út með eld í hjarta þá hafa þau markmið ekki náðst. En fullt af spurningum hafa þær náð að kveikja - um karl- og kvenleika, um stríð og vald, og um möguleika leikhússins til að gera sig gildandi í samfélagsumræðunni. Allnokkur árangur það.

sunnudagur, október 05, 2003

Tenórinn

Iðnó 5. október 2003.

Höfundur: Guðmundur Ólafsson
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikendur: Guðmundur Ólafsson, Sigursveinn Magnússon og Sigrún Edda Björnsdóttir.

Söngskemmtun í Iðnó

ÞAÐ er eitthvað hlægilegt við tenóra. Eða kannski öllu heldur - við þá staðalmynd sem við höfum af þeim. Sjálfsupptekknir, hávaðasamir og hégómlegir loftbelgir. Og svo bætist alltaf við, ef þeir eru heimsfrægir í útlöndum, sú tilfinning að eitthvað sé málum blandið með þá heimsfrægð. Halldór Laxness hefur mikið á samviskunni gagnvart þessari stétt listamanna. Nú hefur Guðmundur Ólafsson skrifað leikrit þar sem þessar klisjur eru nýttar sem skopefni og fléttað saman við nokkuð alvarlega lífshlaupssögu. Útkoman er verulega skemmtileg sýning.

Aðalpersónan hefur ekkert nafn, sem er ákaflega viðeigandi, enda er hér mættur Tenórinn. Klæðskerasaumaður upp úr öllum hugmyndunum sem við höfum um svoleiðis hljóðabelgi. Heimsfrægur, eigingjarn, aðfinnslusamur, hégómlegur og yfirborðskenndur. Stjarna. Eða það finnst allavega honum sjálfum. En bæði er síðan flett ofan af því hversu lítið númer hann er, og svo er líka manneskjan sýnd, fortíð hennar og fjölskyldulíf í upplausn, einmanaleikinn, maðurinn á bak við tenórinn. Þessa mynd dregur höfundurinn Guðmundur að mestu leyti afar vel, er bráðfyndinn þegar það á við og nær líka að gefa skýrt til kynna raunveruleika fólksins sem hann fjallar um. Tenórinn kemur víða við og hefur skoðun á öllu því sem svona tenórar eiga að hafa skoðun á. Óréttlátur frami kolleganna, fálæti fjölmiðla, holdafar sópransöngkvenna, hið tenórfjandsamlega veðurlag á Íslandi, hið áreynslulausa og ljúfa líf poppsöngvara, draumurinn um að vera bara "hversdagslegur maður", pípari - eða jafnvel undirleikari.

Því Tenórinn er ekki einleikur. Þarna er líka píanóleikari, og við fylgjumst með þeim undirbúa tónleika í subbulegu búningsherbergi í ótilteknu (tónlistar)húsi á Íslandi. Þessi návist undirleikarans er uppspretta allskyns skemmtilegheita og vitaskuld tæknilega nauðsynleg, því í verkinu eru flutt nokkur lög. Á hinn bóginn veldur hún nokkrum formlegum vandræðum fyrir verkið. Tenórinn er ekki einleikur en hlutverk tenórsins er skrifað eins og einleikshlutverk. Þannig lætur Guðmundur hann játa hluti fyrir píanóleikaranum sem virkar ótrúverðugt, en væri fullkomlega eðlilegt að játa fyrir salnum í eiginlegum einleik, sem er trúnaðarsamtal við áhorfendur. Undirleikarinn fær ekki að verða persóna, það er nánast ekki pláss fyrir hann í verkinu. En hann er þarna samt, og skapar óróleika í forminu. Annar galli á verkinu er að mínu mati notkun á rödd af bandi til að miðla ákveðnum upplýsingum sem skapa tilfinningalegan hápunkt verksins. Þetta er skiljanleg lausn, en virkar eins og þrautalending.

Fyrir utan þessa aðfinnslupunkta er rétt að ítreka að texti verksins er góður, og það heldur athyglinni og skemmtir áhorfendum frá upphafi til enda. Leikstjórinn, Oddur Bjarni Þorkelsson, hefur líka unnið gott starf og mótað flæði sýningarinnar vel. Enginn er skrifaður fyrir raunsæislegri og ágætlega heppnaðri leikmynd sýningarinnar, en gera má ráð fyrir að hún sé samvinnuverkefni hópsins.

Guðmundur er bráðgóður í hlutverki tenórsins. Hann hefur áður sýnt að hann býr yfir afar næmri tilfinningu fyrir kómískri tímasetningu og nýtir hana óspart hér, ísmeygileg hæðnin í afstöðu tenórsins til alls í kringum sig kemst vel til skila, svo og hégómleiki hans og innistæðulaus mikilmennskan. En Guðmundur nær líka inn að kvikunni, miðlar óörygginu sem undir býr og tenórinn flýtur á eins og korktappi. Og svo syngur hann hreint ljómandi vel, leikur sér að hefðbundnum tenórlögum á borð við Draumalandið og Una Furtiva Lagrima úr Ástardrykknum. Þá verður mjög svo frumlegur flutningurinn á Söng villiandarinnar ógleymanlegur og aukalagið sem hann söng á frumsýningunni hreint yndislegt. Áhorfendur eru minntir á að tryggja að Guðmundur sleppi ekki við það. Vitaskuld er sérstök ánægja að heyra þjálfaðan leikara skila hverju einasta atkvæði söngtextanna til áhorfenda, nokkuð sem lendir oft í öðru sæti hjá flytjendum sem fyrst og fremst eru söngmenntaðir.

Sigursveinn Magnússon er píanóleikarinn og skilaði hlutverki sínu af hófstilltu öryggi, og átti sinn ísmeygilega þátt í fyndninni. Samleikur þeirra er áreynslulaus og Sigursveinn komst eins langt með þessa ófullburða persónu og hægt er að fara fram á. Sigrún Edda Björnsdóttir var svo heiðursgesturinn fjarverandi, rödd af bandi sem tenórinn átti samtal við í gegnum síma. Þetta tókst snurðulítið tæknilega séð, en hefur leiklistarlega vankanta eins og áður segir.

Tenórinn er þegar á heildina er litið góð kvöldskemmtun, skýr mynd af staðlaðri týpu með undirtóna af einstaklingsbundinni mannlýsingu og rós í hnappagat höfundar, leikstjóra og flytjenda.

laugardagur, október 04, 2003

Fjóla á ströndinni

Hlöðunni við Litla Garð 4. október 2003

Höfundur: Joan MacLeod
Þýðandi: Sigríður E. Friðriksdóttir
Leikstjóri: Skúli Gautason
Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson
Ljósahönnun: Skúli Gautason.

Leikandi: Sigríður Eyrún Friðriksdóttir.


Sakbitinn áhorfandi

ÞAÐ framtak Skúla Gautasonar að koma upp kammerleikhúsi í hlöðubragga við heimili sitt er þakkarvert sem slíkt, og ánægjuleg viðbót við möguleika leiklistarfólks á Akureyri til að koma á framfæri því sem því liggur á hjarta. Þegar hafa ýmsar uppákomur leik- og tónlistarlegar verið í húsinu, enda strax kominn andi í húsið, auk salernisaðstöðu og hita, eins og fram kom í ræðu leikhússtjórans á undan sýningunni.

Fjóla á ströndinni segir frá Fjólu, sem er uppreisnargjarn unglingur sem neyðist til að endurmeta ákveðna kafla í lífi sínu þegar fregnir berast af hópi unglingsstúlkna sem hafa myrt eina úr sínum hópi. Sambærilegt mál í vinahópi Fjólu er smám saman afhjúpað fyrir okkur, og hvernig henni hefur á endanum tekist að losna út úr því og rétta fram hjálparhönd.

Einelti er mikið tískuböl þessa dagana og að því leyti er auðvelt að láta sér fátt um finnast þó að ungri leikkonu langi að kveða sér hljóðs í þeirri umræðu. En ef verkið hefur eitthvað sérstakt til þeirra mála að leggja er það einna helst að benda á hversu útbreytt, lúmskt og, mér liggur við að segja, eðlilegt þetta samskiptamynstur er. Það þarf mikið átak fyrir aðalpersónu verksins að rífa sig út úr farinu sem hún er komin í sem fylgihnöttur vinsællar stúlku sem kvelur aðra. Og áhrifamáttur verksins er ekki síst sá að sýna okkur hversu “eðlilegar” þessar stúlkur eru. Þær eru ekki siðblindir sadistar, ekki óeðlilegar á nokkurn hátt. Þó ofbeldið verði á endanum nokkuð hrottalegt. Verkið sýnir en dæmir ekki og þeir þættir þess sem lýsa viðburðum og hversdagslegum atvikum og hugsunum unglingsstúlkna eru sterkustu hlutar þess. Höfundi fatast heldur flugið þegar hann kýs að gerast skáldlegur, og auk þess hefur hann að mínu mati flækt fyrir sér málið með að blanda inn í aðalsöguna annari sögu af eineltismáli sem leiddi til dauða fórnarlambsins. Þó svo kveikjan að verkinu liggi í slíku máli átti höfundurinn að sjá að það þjónar ekki erindi hans að hafa þetta með. Ennfremur er form verksins dálítið skrítið, sérstaklega það hve mikið af textanum beinist að bróður persónunnar, sem engum tilgangi þjónar. En það læsist um mann ískaldur hrollur þegar höfundur hittir naglann á höfuðið hvað eftir annað í raunsannri lýsingu sinni á unglingahugsunarhættinum.

Sigríður E. Friðriksdóttir byrjaði frumsýninguna með nokkru óöryggi, auk þess sem leikstjórnarlegar hugmyndir voru óþarflega augljósar og “utanáliggjandi” í upphafi sýningarinnar. Fljótlega náði Sigríður þó tökum á persónunni og þar með áhorfendum og sýndi innlifaðan og sterkan leik. Sigríður náði sérstaklega góðum tökum á að túlka tjáningarmáta og líkamsmál unglingsins, og þar sem lítið hefur sést til þessarar ungu leikkonu áður er ekki auðvelt að ímynda sér annað en hún sé fjórtán ára gelgja með unglingaveiki á háu stigi. Lýsing var einföld en sterk, en hófstilltari notkun á áhrifshljóðum og tónlist hefði að mínu mati verið til bóta. Á stundum var eins og hljóðin ættu að bjarga málunum, þegar augljóst var að engin þörf var á björgunaraðgerðum. Þýðing leikkonunnar er þjál og staðfærsla hefur tekist nokkuð vel.

Fjóla á ströndinni er ágætlega unninn einþáttungur og mun án efa verða betri eftir því sem öryggi leikkonunnar eykst. Ég get vel ímyndað mér að sýningin eigi eftir að orka sterkt á unglinga sem hana sjá, enda er hér ekki á ferðinni spéspegill heldur raunsæisleg skoðun á útbreiddu böli. Verkið sýnir vel hvernig það getur virst nánast ógerningur að spila ekki með í þeim ljóta leik sem einelit er, en jafnframt hvað það er eftir á að hyggja auðvelt að rjúfa vítahringinn. Þetta er ekki áróðurs- eða kennsluverk, heldur áhrifamikið raunsæisleikrit um sammannlega reynslu. Sannur og einlægur leikur leikkonunnar, ásamt brennandi þörf til að miðla innihaldinu skilar sterkri sýningu - enda hljómar þetta tvennt nánast eins og uppskrift að góðu leikhúsi.