laugardagur, nóvember 22, 2003

Steinn Steinarr

Kómedíuleikhúsið
Hamar, Ísafirði, 22. nóvember 2003

Leikverk byggt á ljóðum og öðrum skrifum Steins Steinarr, sett saman af
Elfari Loga Hannessyni og Guðjóni Sigvaldasyni
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Leikari: Elfar Logi Hannesson

GOTT framtak hjá Elfari Loga og Kómedíuleikhúsi hans að gera verkum Steins Steinarr skil á leiksviði, og sú ákvörðun að nota einungis texta frá skáldinu gerir sýninguna áhugaverðari en ella, en setur vissulega þröngar skorður þeirri sögu sem unnt er að segja.

Dagskrá byggð á verkum Steins Steinarr, ljóðum, viðtölum og skrifum í óbundnu máli, leiðir ýmislegt í ljós sem blasir ekki endilega við við einberan lestur. Eitt af því sem sýning Kómedíuleikhússins kemur sterkt til skila er hversu mikið Reykjavíkurskáld Steinn var, og hvað sýn hans á borgina er mótuð af viðhorfi utanbæjarmannsins. Þetta á Steinn vitaskuld sameiginlegt með Tómasi Guðmundssyni, og munurinn á þeim Reykjavíkum sem þeir skáldbræður lýsa skýrist fyrst og fremst af ólíkum lyndiseinkunnum þeirra. Reyndar er Reykjavík meira áberandi í öðrum skrifum Steins en ljóðunum – þó hún sé þar sífellt nálæg sem leiktjöld fyrir þá kaldhömruðu sálarangist sem mörg þeirra lýsa. Á hinn bóginn er mikið af óbundna málinu sérlega skarpar smámyndir af borgarlífinu og áhrifum þess á Stein, miðlað með þeirri hetjulegu kaldhæðni sem einkennir bæði skrif hans sjálfs og viðtöl sem við hann voru tekin.

Þeim Elfari og Guðjóni tekst á köflum ágætlega að flétta saman líf og skáldskap, og oft koma tengingarnar ánægjulega á óvart. Reyndar þótti mér á stundum teflt á tæpasta vað með hvernig ljóðin eru sett inn í aðra texta, og fyrir kemur að hvorki ljóð né saga græða á samspilinu. Eins setti þessi klippiaðferð svip sinn á textaflutninginn, og fyrir minn smekk fórnaði Elfar of miklu af hrynjandi bundna málsins til að gera ljóðin að eðlilegri hluta framvindunnar. Rím og taktur er órjúfanlegur hluti af merkingu og áhrifum margra ljóðanna, og að láta þessi stíleinkenni lönd og leið í flutningnum er að neita sér um stóran hluta af áhrifamætti þeirra. Þá þótti mér sem dálítið ýkt dramatíkin og sálarangistin sem fyrri hluti sýningarinnar einkennist af undarlega á skjön við efnið og andblæ textans. Í seinni hlutanum er mun meiri kyrrð yfir flutningi Elfars, sem hæfir Steini betur, og dregur betur
fram hæfileika leikarans.

Sviðsetningin er að mörgu leyti vel af hendi leyst. Upphaf sýningarinnar er sérlega áhrifamikið, sá beður sem Steinn rís upp af, og leggst að lokum aftur í, mjög óvanalegur, en jafnframt viðeigandi. Leikmyndin er að öðru leyti nokkuð sérkennileg, og að mínu mati sækir hún myndmál sitt of sterkt í náttúruna, sem er ekki vettvangur Steins í lífi sínu eða list. Lýsing Friðþjófs Þorsteinssonar og Guðjóns Sigvaldasonar er afgerandi hluti sýningarinnar, og á til að mynda stóran hlut í að gera túlkun Elfars á ljóðinu Verkamaður jafn áhrifamikla og raun ber vitni, þó það atriði sé að vissu leyti stílbrot, og komi eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í sýninguna.

Reyndar þykir mér öll notkun á sönglögum við ljóð skáldsins mjög hæpinn þáttur í sýningunni, fyrir utan lag Bergþóru Árnadóttur við fyrrnefndan Verkamann eru þau hvert öðru verra og minna viðeigandi.

Sýning Kómedíuleikússins á Steini Steinarr er ekki allskostar vel heppnuð, en nær þó að teikna spennandi mynd af skáldinu sem fannst hann vera í ævilangri kaupstaðarferð með gleymt erindi. Ágallar hennar eru forvitnilegir, og það sem vel er gert er áhrifaríkt.

laugardagur, nóvember 08, 2003

Í boði leikfélagsins

Leikfélag Hafnarfjarðar
Hafnarfjarðarleikhúsinu 8. nóvember 2003.

Níu stuttverk eftir sex höfunda.

Kraftur í Hafnarfirði

STUTTVERKAVERTÍÐINNI virðist hvergi nærri lokið hjá áhugaleikfélögunum. Þó stuttverkahátíðin í Borgarleikhúsinu, Margt smátt, sé yfirstaðin þá býður Leikfélag Hafnarfjarðar til sinnar eigin stuttverkasýningar og sýnir níu verk, öll nýsmíðar, þar á meðal þau fjögur sem þau sýndu á hátíðinni. Verkin voru sýnd við frumstæðar aðstæður í veitingasal Hafnarfjarðarleikhússins, en það var eftirtektarvert að öll fjögur fyrrnefndu verkin voru sterkari þar en í Borgarleikhúsinu. Skýrist það vafalaust bæði af meiri nánd og frekara öryggi sem leikendur höfðu öðlast í millitíðinni.

Wannabe eftir Jón Stefán Sigurðsson var skondin smámynd, en nokkuð endaslepp. Höfundur flutti verkið ágætlega, en ekki var ég sáttur við þá ákvörðun leikstjórans, Gunnars Björns Guðmudssonar, að láta leikarann ekki tala beint við áhorfendur heldur tala við sjálfan sig, stílbragð sem hentaði ekki verkinu.

Hjartað er bara vöðvi eftir Hildi Þórðardóttur er vel skrifuð raunsæisleg lýsing á endalokum ástarsambands. Lilja Nótt Þórarinsdóttir og Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson voru sannfærandi í hlutverkunum og leikstjórn fyrrnefnds Gunnars Björns nostursamleg.

Óhamingja var kostuleg lýsing á tveimur einföldum sálum, drepfyndinn þáttur eftir Jón Guðmundsson. Aldís G. Davíðsdóttir og Sara Blandon fóru vel með í leikstjórn Halldórs Magnússonar.

Dansað fyrir Svandísi er nærfærin og sterk lýsing á líknarmorði eftir Lárus Húnfjörð sem skilaði þættinum einnig vel ásamt mótleikkonu sinni, Kristínu Helgadóttur. Gunnar Björn leikstýrði. Bæði þessi þáttur og Hjartað er bara vöðvi náðu mun sterkari tökum að þessu sinni en á hátíðinni.

Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson er höfundur og leikstjóri Jóga, sem reyndist vera snjall og vel skrifaður brandari um örvæntingarfulla viðreynslu. Aldís G. Davíðsdóttir og Jón Stefán Sigurðsson stóðu sig prýðilega í hlutverkunum.

í Hver heyrir? Heldur Lárus Húnfjörð áfram að vinna með samband leikara og áhorfenda sem hann hóf í Þið eruð hérna sl. vor. Lilja Nótt fór vel með hlutverk misþyrmdrar konu, en ekki finnst mér þessi rannsókn Lárusar sérlega frjó.

Aðdragandi að glæp eftir Ingvar Bjarnason er einnig verk um heimilisofbeldi, en þau Jón Stefán og Eygló Scheving hefðu þurft sterkari leikstjórn en þá sem höfundur bauð upp á, sem mun vera frumraun hans á því sviði.

Augun sem glóðu af gulli er einnig eftir Ingvar, en hér var boðið upp á hreinræktað frásagnarleikhús. Þau Lilja Nótt, Guðmundur Lúðvík og Stefán Vilhelmsson sýndu stílhreina og fágaða sýningu, sem hefði samt þurft örlítið meiri hugmyndaauðgi til að fá þá lyftingu sem þetta leikhúsform kallar á.

Snorri Engilberts lauk síðan dagskránni með verki sínu, Pálma, og fór vel á þvi, því hér var um algerlega óborganlegan gjörning að ræða. Kostuleg persónusköpun og frábær hugmyndaauðgi. Sýningin hefði grætt á smá leikstjórn, en stóð engu að síður algerlega fyrir sínu.

Þetta framtak Leikfélags Hafnarfjarðar, og það hversu vel tókst þegar á heildina er litið er enn ein sönnun þess að félagið er í mikilli sköpunarlegri uppsveiflu. Hér voru ýmis stílbrigði prófuð og nýir höfundar og leikstjórar stigu sín fyrstu skref. Það er krafur í félaginu, sem flytur nú í nýtt húsnæði og eflist þar vafalaust enn frekar.

föstudagur, nóvember 07, 2003

Sódóma Reykjavík

Leikfélag Verzlunarskóla Íslands Höfundur: Óskar Jónasson; leikstjóri: Ólafur S.K. Þorvaldz; lýsing: Bragi og Andri. Frumsýning í hátíðasal VÍ, 7.nóvember, 2003.

Er gamalt grín gott grín? 

UNDANFARIN ár hafa Verzlunarskólanemar gert garðinn frægan með söngleikjum og glanssýningum. Nú breyta þeir um stefnu, en innan sama geira: Þeir sviðsetja kvikmyndina Sódómu Reykjavík. Það er leitun að því ungmenni sem ekki hefur séð myndina og haft gaman af en það er eimnitt ástæðan fyrir vali krakkanna í samvinnu við leikstjórann: Að taka eitthvað sem allir þekkja, eins og kemur fram í leikskrá. Gamalt grín getur oft verið gott en ekki er hægt að telja það frumlegt að velja verk þar sem eini tilgangurinn er að gefa áhorfendum kost á að hlæja að þekktum bröndurum. 

Það fór þó ekki á milli mála á frumsýningunni að áhorfendur kynnu vel að meta grínið og allra best það sem frægast er úr kvikmyndinni. Leikstjórinn, Ólafur S.K. Þorvaldz, er aðeins 23 ára gamall. Hann er nýútskrifaður úr leiklistarskólanum Arts Ed í London og fyrrverandi Verzlunarskólanemi. Ólafur velur áhugaverða leið til sviðsetningar: Hann notar enga leikmynd og lítið af leikmunum en gerir skemmtilegar tilraunir með lýsingu. Það hefði verið gaman að sjá hann fara alla leið með hugmyndina: Að treysta leikurunum alveg og sleppa öllum leikmunum. Mig grunar að sýningin hefði orðið meira spennandi ef leikurinn hefði verið ýktur til muna ásamt því að einfalda söguþráðinn meira en gert var. Sögumaður fyllti í eyður milli hápunkta úr myndinni og þannig var öll sagan sögð. Þegar lítil reynsla leikaranna er höfð í huga heppnast leið Ólafs þó bærilega. Honum tókst vel að virkja hópinn sinn til að ná fram fjöri og gleði því ekkert vantaði upp á kraftinn sem þarf til drífa áfram sýningu af þessu tagi. 

Tveir leikarar eru eftirminnilegir sem sýndu persónulegan leik, og þar með nýja túlkun á persónum sínum: Maggi í hlutverki hins treggáfaða Ella og Lana sem lék Unni, systur Mola. Auk þeirra var Eyjólfur í aðalhlutverki Axels alveg prýðilegur sakleysingi. 

Þrátt fyrir hina stóru spurningu valið á verkinu er engin spurning um það að leikhópur þessi var efnilegur í heild og spennandi verður að sjá meira til Ólafs leikstjóra í framtíðinnni.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Landnáma

Stoppleikhópurinn
Foldaskóla 4. nóvember 2003.

Höfundur og leikstjóri: Valgeir Skagfjörð
Brúður: Katrín Þorvaldsdóttir
Leikendur: Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir.

Það er leikur að nema

LANDNÁMABÓK virðist í fljótu bragði ekki vera sérlega bitastæður efniviður í leikrit, frekar en til dæmis símaskráin. Enda kom í ljós að það var sagan af þeim fóstbræðrum Ingólfi Arnarsyni og Hjörleifi Hróðmarssyni sem Stoppleikhópurinn ætlaði að segja grunnskólanemum að þessu sinni. Það er vitaskuld ágætis saga, viðburðarík og skemmtileg, og eitthvað sem allir þurfa að kunna einhver skil á. Flest fyrri verka hópsins hafa verið fræðslu- og kennsluverk af ýmsum toga, og hefur hann algera sérstöðu í íslensku leikhúsi hvað þetta varðar. Ég er heldur ekkert frá því að leiklist sé góð viðbót við þær leiðir sem skólakerfið hefur til að miðla og glæða áhuga á menningararfinum. Það er allavega alveg ljóst að nemendur Foldaskóla fengu á frumsýningunni ágætis yfirlit yfir upphaf Reykjavíkur. Íslendingasögurnar, Tyrkjaránið, sjálfstæðisbaráttan, þorskastríðin, þjóðskáldin. Efniviður fyrir Stoppleikhópinn eru ótæmandi.

Hópurinn hefur sérhæft sig í farandsýningum fyrir börn og unglinga, og það var greinilegt að þau Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir voru á heimavelli í Foldaskóla, héldu athygli krakkanna vel, flink að bregða sér í ólík hlutverk og ekkert feimin við að vera groddaleg þegar tækifæri gafst sem vitaskuld féll í frjóan jarðveg. Stíll sýningarinnar er teiknimyndalegur og einfaldur eins og gefur að skilja, en leikmynd og búningar sem hópurinn er skrifaður fyrir sem heild var einfalt og snjallt, og fumleysi einkenndi allar umbreytingar, sem eðli málsins samkvæmt voru allnokkrar.

Handrit Valgeirs Skagfjörð er skemmtilegt, fyrir utan þá ákvörðun hans að ramma frásögnina inn með því að sýningin gerist á æfingu leikhópsins. Leikararnir detta því reglulega út úr sögunni og notar Valgeir þessi atriði til að koma upplýsingum á framfæri, sem verður nokkuð klunnalegt, auk þess sem samtöl leikaranna eru stirðari en svo að það virki trúverðugt. Það vandamál er ekki til staðar í samtölum hins eiginlega leikverks, sem eru skemmtilega fyrnd, en þó (vonandi) skiljanleg markhópnum. Og gaman þótti mér að heyra Harald Hárfagra tala norsku, held reyndar að mér hafi þótt það fyndnara en krökkunum.

Ónefndur er þáttur Katrínar Þorvaldsdóttur, en fáliðaður leikhópurinn var dyggilega studdur af þremur haganlega gerðum brúðum sem léku þá Atlasyni; Hólmstein, Hástein og Herstein. Þetta voru skemmtilegir kallar, og leikararnir léðu þeim skýr persónueinkenni með röddum sínum. Einnig komu við sögu smábrúður, sem mér sýndust vera eintök af hinum ódrepandi “Action-manni”, og fóru þær prýðilega með hlutverk tveggja þræla.

Landnáma stendur fyrir sínu sem endursögn frásagnarinnar um Ingólf Arnarson. Vonandi fær Stoppleikhópurinn tækifæri til að heimsækja sem flesta með þessa fróðlegu skemmtun.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Litla ljót

Leikfélag Vestmannaeyja
Félagsheimilinu í Vestmannaeyjum 2. nóvember 2003.

Leikgerð: Edda Antonsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttir.

Af sálarlífi systra

EKKI þekki ég uppruna sögunnar um indjánastúlkuna Litlu ljót, sem glöð og góð þjónustar fordekraðar og hrokafullar systur sínar þar til dís ein skrýðir hana glitklæðum og kemur í framhaldinum vitinu fyrir systurnar. Sagan hefur yfirbragð ævintýris, en gæti eins verið frumsmíð einhvers sem nýtir sér ævintýrastílinn til að koma boðskapnum um innri og ytri fegurð til skila. Hitt er ljóst að tvær konur í Vestmannaeyjum, þær Edda Antonsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir komu sögunni í leikbúning og þar var verkið sýnt 1981, og aftur nú.

Annars er vel hægt að finnast boðskapurinn tvíbentur í þessu verki eins og mörgum öðrum sem ætlað er að koma afdráttarlausum skilaboðum til yngstu kynslóðarinnar. Vissulega er hér boðuð ást og kærleikur, réttlæti og vinátta. En það er samt sem áður hin ytri fegurð sem er svo eftirsóknarverð, áður en hún er til staðar virðist enginn geta séð hvað Litla ljót er góð. Og auðvitað er hún falleg líka, það bara sá það enginn fyrr en hún er komin í falleg föt.

Sigrúnu Sól lætur greinilega vel að vinna með börnum og unglingum eins og hér eru í flestum hlutverkanna og margir að stíga sín fyrstu skref. Sýningin ber þessa vitaskuld merki, kraftur og gleði er aðalsmerki hennar en minna lagt upp úr fágun og fínlegri tilfinningatúlkun. Þó hefði kannski mátt leggja örlítið meiri rækt við textaflutning, oft vantaði herslumuninn á að allt kæmist til skila. Eins var hlustun ekki alltaf nægilega einbeitt, viðbrögðin komin fram áður en setning mótleikarans var fallin. Á móti kom að hóp- og dansatriði voru prýðilega af hendi leyst, og samspil leikenda og hljómsveitar, sem hafði mikilvægu hlutveki að gegna, snurðulítið.

Skemmtilegar hugmyndir einkenna sýninguna og víða er fært í stílinn, brugðið út af leikgerðinni og skírskotað til nútímans.

Þó Litla Ljót sé titilhlutverkið er það ekki að sama skapi sérlega bitastætt en Dorthy Lisa Woodland fór vel með það. Hinar ótuktarlegu systur voru og prýðilega leiknar af þeim Kolbrúnu Birnu Ebenesardóttur, Guðrúnu Hebu Andrésdóttur og Laufeyju Sigrúnu Sigmarsdóttur. Einnig verður að minnast á hinn kostulega seiðskratta Dulda Seið, sem Hjalti Pálsson gerði öldungis kostulega. Þá var túlkunin á dísinni, sem reyndar eru þrjár í þessari sýningu afar frumleg og skemmtileg, og þær Kristín Grímsdóttir, Drífa Þöll Arnardóttir og Erla Ásmundsdóttir hver annari betri.

Umgjörð og búningar var hefðbundin og rétt, en þó með því skemmtilega tilbrigði að þetta var afar nútímalegt indjánaþorp, trúlega á einu af bandarísku “verndarsvæðunum” sem hýsa það sem eftir lifir af þeim þjóðflokkum. Þetta var vel til fundið, og ágætlega gegnumfært í búningum og leikmunum.

Sýning Leikfélags Vestmannaeyja er ágætis skemmtun, litrík og fjörug. Fullur salur af börnum var einstaklega prúður á sýningunni sem undirritaður sá, fylgdist grannt með því sem fram fór en var líka alveg til í að taka þátt þegar leikendur buðu upp á slíkt samspil. Litla Ljót er ágætlega metnaðarfull barnasýning þar sem Leikfélag Vestmannaeyja leggur jafnt grunn að leikhóp og áhorfendum framtíðarinnar.

Litla Ljót

Leikfélag Vestmannaeyja
Félagsheimilinu í Vestmannaeyjum 2. nóvember 2003

Leikgerð: Edda Antonsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttir

Af sálarlífi systra

EKKI þekki ég uppruna sögunnar um indjánastúlkuna Litlu ljót, sem glöð og góð þjónustar fordekraðar og hrokafullar systur sínar þar til dís ein skrýðir hana glitklæðum og kemur í framhaldinum vitinu fyrir systurnar. Sagan hefur yfirbragð ævintýris, en gæti eins verið frumsmíð einhvers sem nýtir sér ævintýrastílinn til að koma boðskapnum um innri og ytri fegurð til skila. Hitt er ljóst að tvær konur í Vestmannaeyjum, þær Edda Antonsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir komu sögunni í leikbúning og þar var verkið sýnt 1981, og aftur nú.

Annars er vel hægt að finnast boðskapurinn tvíbentur í þessu verki eins og mörgum öðrum sem ætlað er að koma afdráttarlausum skilaboðum til yngstu kynslóðarinnar. Vissulega er hér boðuð ást og kærleikur, réttlæti og vinátta. En það er samt sem áður hin ytri fegurð sem er svo eftirsóknarverð, áður en hún er til staðar virðist enginn geta séð hvað Litla ljót er góð. Og auðvitað er hún falleg líka, það bara sá það enginn fyrr en hún er komin í falleg föt.

Sigrúnu Sól lætur greinilega vel að vinna með börnum og unglingum eins og hér eru í flestum hlutverkanna og margir að stíga sín fyrstu skref. Sýningin ber þessa vitaskuld merki, kraftur og gleði er aðalsmerki hennar en minna lagt upp úr fágun og fínlegri tilfinningatúlkun. Þó hefði kannski mátt leggja örlítið meiri rækt við textaflutning, oft vantaði herslumuninn á að allt kæmist til skila. Eins var hlustun ekki alltaf nægilega einbeitt, viðbrögðin komin fram áður en setning mótleikarans var fallin. Á móti kom að hóp- og dansatriði voru prýðilega af hendi leyst, og samspil leikenda og hljómsveitar, sem hafði mikilvægu hlutveki að gegna, snurðulítið.

Skemmtilegar hugmyndir einkenna sýninguna og víða er fært í stílinn, brugðið út af leikgerðinni og skírskotað til nútímans.

Þó Litla Ljót sé titilhlutverkið er það ekki að sama skapi sérlega bitastætt en Dorthy Lisa Woodland fór vel með það. Hinar ótuktarlegu systur voru og prýðilega leiknar af þeim Kolbrúnu Birnu Ebenesardóttur, Guðrúnu Hebu Andrésdóttur og Laufeyju Sigrúnu Sigmarsdóttur. Einnig verður að minnast á hinn kostulega seiðskratta Dulda Seið, sem Hjalti Pálsson gerði öldungis kostulega. Þá var túlkunin á dísinni, sem reyndar eru þrjár í þessari sýningu afar frumleg og skemmtileg, og þær Kristín Grímsdóttir, Drífa Þöll Arnardóttir og Erla Ásmundsdóttir hver annari betri.

Umgjörð og búningar var hefðbundin og rétt, en þó með því skemmtilega tilbrigði að þetta var afar nútímalegt indjánaþorp, trúlega á einu af bandarísku “verndarsvæðunum” sem hýsa það sem eftir lifir af þeim þjóðflokkum. Þetta var vel til fundið, og ágætlega gegnumfært í búningum og leikmunum.

Sýning Leikfélags Vestmannaeyja er ágætis skemmtun, litrík og fjörug. Fullur salur af börnum var einstaklega prúður á sýningunni sem undirritaður sá, fylgdist grannt með því sem fram fór en var líka alveg til í að taka þátt þegar leikendur buðu upp á slíkt samspil. Litla Ljót er ágætlega metnaðarfull barnasýning þar sem Leikfélag Vestmannaeyja leggur jafnt grunn að leikhóp og áhorfendum framtíðarinnar.

Ýtið tímanlega á stanzrofa

Útvarpsleikhúsið
Frumflutt 2. nóvember 2003

Höfundur: Guðmundur Ólafsson

Leikari: Erlingur Gíslason
Leikstjóri: Helga E. Jónsdóttir
Hljóðvinnsla: Hjörtur Svavarsson

Leiðarkerfi gegnum lífið

EINTAL Guðmundar Ólafssonar um hinn reglufasta strætisvagnstjóra er hefðbundinn afhjúpunartexti, varnarræða þar sem persónan útlistar lífsgildi sín og skreytir dæmum úr lífi sínu. Fljótlega er samt ljóst að líf hans er grámyglan ein, bundið í klafa vana og samskiptin við fjölskylduna drepin af heimilisharðstjórn hans. Strætisvagnaakstur er alveg ógalin líking um það undarlega ferðalag sem lífið er, og persónan hefur fallið í þá gryfju að reyna með öllum ráðum að halda undarlegheitunum í algeru lágmarki.

Tónninn í eintalinu er að mörgu leyti skyldur öðrum einleik Guðmundar, Tenórnum, sama afhjúpandi tækni, þar sem hinn sjálfumglaði Tenór stendur að lokum uppi með allt niðrum sig ef svo mætti segja. Bæð verkin eru lipurlega skrifuð og skemmtileg. Reyndar þykir mér sem spennan slakni nokkuð um miðbikið á því verki sem hér er til umfjöllunar, það bætist lítið við af efni um þennan kall fyrr en í lokin, og þá næst spennan upp aftur, í uppgjörinu við eiginkonuna og ræðunni um mikilvægi strætisvagnabílstjóra og heilagt hlutverk þeirra í sið- og regluvæðingu þjóðfélagsins alls. Það sem Ýtið tímanlega á stansrofa hefur framyfir Tenórinn er þessi táknmynd strætisvagnsins fyrir lífið, og sem betur fer stillir Guðmundur sig um að nudda áheyrandanum upp úr henni, en leyfir henni að tala sjálfri.

Val á leikara á trúlega sinn þátt í þessu spennufalli sem fyrr var nefnt. Erlingur Gíslason gerir bílstjórann frá upphafi að afar sérkennilegu og óaðlaðandi mannkerti með sinni ísmeygilegu raddbeitingu. En með því að mála bílstjórann svona sterkum litum missum við svolítið tengslin við hann, og fáránlegar hugmyndir hans um lífið og tilveruna og fráleit viðbrögð við aðstæðum sem upp koma ná ekki að vekja neina undrun. Sú ákvörðun að fela Erlingi hlutverkið er trúlega stærsta túlkunaratriðið í uppfærslunni og ég er ekki frá því að það hefði orðið sterkara með hófstilltari túlkun og hversdagslegri rödd. Þá hefði lífsskoðun bílstjórans fyrst virkað sem nokkurnvegin eðlileg, en smámsaman afhjúpast sem óþolandi stjórnlyndi gagnvart lífinu. Kannski var það tengingin við Tenórinn en ég heyrði rödd Guðmundar sjálfs fyrir mér.

En vitaskuld gerir Erlingur þetta fantavel með sínu lagi, nær að gera bílstjórann verulega skemmtilega andstyggilegan í sinni vanmáttugu tilraun til að reglubinda lífið. Hljóðvinnsla gaf á hófstilltan og vel heppnaðan hátt tilfinningu fyrir akstrinum án þess að stela athyglinni. Ýtið tímanlega á stansrofa var ágæt skemmtun á að hlýða.

laugardagur, nóvember 01, 2003

Nóttin er móðir dagsins

Þjóðleikhúsið
Leiklestur á Smíðaverkstæðinu 1. 11. 2003.

Höfundur: Lars Norén
Þýðandi: Birgir Sigurðsson
Leikstjóri: Viðar Eggertsson

Leikendur: Atli Rafn Sigurðsson, Baldur Trausti Hreinsson, Hjalti Rögnvaldson og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.

Ársuppgjör

SIR Peter Hall, fyrrum þjóðleikhússtjóri breta skrifaði í dagbók sína 20. febrúar 1979 eitthvað á þá leið að Eugene O’Neill væri án efa besti VONDI leikritahöfundurinn. Með því á hann við að þrátt fyrir klisjur, melódrama, skort á undirtexta og almenn klunnalegheit í byggingu verka sinna nái hann áhrifum með spennunni og heiðarlegri túlkun tilfinninga sem einkennir hans helstu verk. Sömu höfundareinkenni má sjá hjá hans helsta lærisveini á Norðurlöndum, Lars Norén, og Nóttin er móðir dagsins er afar gott dæmi um þetta - kannski það hreinræktaðasta sem hingað hefur rekið hér á fjörur, enda held ég að þessi leiklestur sé þrátt fyrir allt það stefnumót við höfundinn sem hefur sagt mér mest - haft mest áhrif.

VIð fylgjumst með lítilli fjölskyldu, foreldrum og tveimur sonum, sem reka lítið hótel í litlum bæ. Daginn sem við kíkjum í heimsókn er hótelið reyndar lokað, því nú er ársuppgjör - dæmi um yfirborðskenndan symbólisma Noréns og erfðagóss frá O’Neill. Vitaskuld er allt í kaldakoli, og allir hata og elska alla af mikilli sannfæringu.

Fljótlega eru helstu fjölskyldudraugar dregnir út úr skápnum: samkynhneigð yngri sonarins og tilheyrandi andstyggð þess eldri, hið ástlausa samband foreldranna, krabbamein hennar og síðast en ekki síst alkóhólismi hans. Allt þetta og tilheyrandi ofsafengin samskipti er síðan viðrað fyrir áhorfendum í eins og þrjá klukkutíma - enginn undirtexti, engin tilraun til að segja aðra sögu en að lýsa smásmyglislega tilfinningaróti hjá fólki á síðasta snúningi. En vegna þess að Norén er fyllsta alvara, meinar það sem hann segir, þá snýst efnið ekki upp í hjákátlega sápuóperu - þó það rambi á brúninni - heldur þröngvar áhorfandanum til að horfast í augu við tilfinningarótið sem aðferð höfundar og efni þyrlar upp.

Viðar Eggertsson er ekki sérlega hlýðin leiklestursforminu og fer ansi nálægt því að sviðsetja einfaldlega verkið. Og það töluvert áhrifamikið. Þá er athyglisvert hvernig hann snýr ágöllum leiklestursins upp í merkingarbæra þætti í því sem fyrir augu ber. Þannig var upphaf sýningarinnar til marks um það að það voru PERSÓNURNAR sem komu inn með handritin, ekki leikararnir - með öðrum orðum - persónurnar fóru eftir handriti í brölti sínu. Annað stílbragð sömu ættar var beiting blýantanna, hjálpartækis leikaranna, við ýmis tækifæri. Allt hjálpaði þett við að sætta áhorfandann við frumstæðar kringumstæðurnar og nálgast þannig sanna leikhúsupplifun en losna undan dauðri hönd bókmenntakynningarinnar.

Leikhópurinn var vel skipaður og kemur ekki á óvart að hann náði firnatökum á efninu. Sjálfum þótti mér kannski mest spennandi að sjá Baldur Trausta Hreinsson ná þeim áhrifum sem hann náði með jafn hófstilltum leik en kraftmikill nærveru í hlutverki eldri sonarins. Þá naut Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir sín vel í hlutverki móðurinnar. Atli Rafn Sigurðarson var kannski dálítið óræður sem yngri sonurinn, hann náði ekki alveg að gera æsku hans og því sem henni fylgir nægilega skýra. Hjalti Rögnvaldsson var fantagóður sem hinn drykkfelldi heimilisfaðir.

Þetta var vel heppnuð kynning á Lars Norén. Hún náði kannski ekki að sannfæra mig um að hann sé óviðjafnanlegur snillingur, en gerði stöðu hans sem óvægins og heiðarlegs listamanns algerlega skýra með skarpri og sterkri allt-að-því sviðssetningu á áleitnu verki.