föstudagur, febrúar 28, 2003

Að eilífu

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði
Menntaskólanum á Ísafirði, 28. febrúar 2003.

Höfundur: Árni Ibsen, leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson.

Ástir samlyndra ungmenna

KANNSKI er hægt að líta á Að eilífu sem einhverskonar viðbrögð Árna Ibsen við rómantískum kómedíum á borð við ofangreint verk, [Hrein mey á leiðinni] eða allavega sem athugun á því hvernig svoleiðis efni reiðir af í íslenskum raunveruleika. Verkið lýsir samdrætti tveggja ungra Íslendinga og leið þeirra í gegnum hakkavél hinna tilbúnu og aðfengnu brúðkaupssiða sem orðnir eru kvöð á hverju því pari sem vill játa ást sína formlega. Þetta er sterkt verk, fyrst og fremst vegna þess að Árni hefur kjark til að ofskrifa ekki, segja aldrei meira en þarf. Atburðirnir tala sínu máli og hér er mikið efni fyrir hugmyndaríkan leikstjóra og kraftmikinn hóp. Og Þröstur Guðbjartsson og hans lið gerir sér svo sannarlega mat úr verkinu.

Hér er stór hópur að störfum og ná allir að leggja sitt af mörkum til að sýningin verði jafn vel heppnuð og raun ber vitni. Í forgrunni eru þau Telma Björg Kristinsdóttir og Benedikt Hreinn Einarsson sem eru prýðileg sem brúðhjónin. Þá er frammistaða Gylfa Ólafssonar í hlutverki prestsins eftirtektarverð skrípamynd.

Sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og Þresti tekst samtímis að ná fram sterkum ýkjustíl og jafnframt að láta krakkana hvíla í hlutverkum sínum. Fyrir vikið verða viðbrögð, tímasetningar og ætlun persónanna sönn og skýr þó mikið gangi á og skrípalætin séu í algleymingi. Og óneitanlega léttir galgopaskapurinn kvöð fágunarinnar af leikurunum, sem er þakklátt fyrir óvana en áhugasama leikara.

Sviðsetningin er vel unnin hjá Þresti og hann nær að snúa erfiðu rými á sal Menntaskólans upp í styrkleika. Umferðarstjórn er með miklum ágætum og fullt af snjöllum hugmyndum sem þessi skemmtilegi hópur skilar vel. Að eilífu er mikil skemmtun og ættu Ísfirðingar og nágrannar þeirra að drífa sig á þær fáu sýningar sem verða á verkinu.

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Hrein mey á leiðinni

Thalía - leikfélag Menntaskólans við Sund
Austurbæ 25. febrúar 2003.

Þýðing og sviðsgerð: Jóhanna Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir.

Ástir samlyndra ungmenna

ÞÓ Hrein mey á leiðinni sé byggt á amerískri unglingamynd (10 Things I Hate About You) sem sækir efni sitt í leikritið Snegla tamin eftir Shakespeare er það í grundvallaratriðum önnur saga. Sem betur fer, því í stað þess að ung og “óþæg” stúlka sé vanin við yfirráð karlmannsins með næsta harkalegum ráðum eins og þar, er hér ung ófélagslynd stúlka vanin við hversdagslega meðalhegðun unglinga: skemmtanir, drykkjuskap, stefnumót - og ást. Miklu ásættanlegra. Eins og í frumverkinu þarf allt þetta að gerast til að yngri og “venjulegri” systur hennar gefist kostur á því sama. Hrein mey á leiðinni er ekki merkilegt verk, en hreint ekki leiðinlegt. Það sem helst vantar er meira kjöt á beinin í samdrætti félagsskítsins og vonbiðilsins. Þar er stiklað á helst til stóru, og hefði verið nær að sleppa fullkomlega tilgangslausum tónlistarnúmerum úr sýningunni, þó vel væru flutt, og gefa aðalpersónunum meira pláss til að taka út þroska sinn í okkar viðurvist.

Aðlögun kvikmyndarinnar að sviðinu hefur tekist dável, og grunar mig að þar ráði úrslitum einföld en hugmyndarík sviðsetning Ingridar Jónsdóttur. Það var hraði í sýningunni og stór leikhópurinn vel nýttur til að skapa andrúmsloft og aðstæður. Það er líka aðdáunarvert jafnvægi í leikhópnum og allir skila hlutverkum sínum af einlægni og margir með ágætum skoptöktum. Þar fara fremst Sólmundur Hólm sem örlagatöffarinn Jói Dan og Þorbjörg H. Dýrfjörð sem var hreint frábær sem fylgihnötturinn og Shakespearegrúppían Melkorka. Elskendapörin tvenn voru í góðum höndum hjá þeim Kára Viðarssyni og Herdísi Steinarsdóttur annarsvegar og Unni Birnu Vilhjálmsdóttur og Arnari Björnssyni hinsvegar. Sýningin er prýðisskemmtun, kraftmikil, hugmyndarík og ekki vitlausari en margt annað, til dæmis Snegla tamin.

mánudagur, febrúar 24, 2003

Örlagasystur

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Austurbæ 14. febrúar 2003

Leikgerð Stephen Briggs á sögu Terry Pratchett
Þýðandi: Gunnar Freyr Steinsson
Leikstjórar: Atli Rafn Sigurðsson og Brynhildur Guðjónsdóttir
Tónlist: Guðmundur Steinn Steinsson
Lýsing: Geir Magnússon.

Þrenns konar heimar

Á ENGAN er hallað þótt fullyrt sé að Herranótt og Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð séu öflugustu framhaldsskólaleikfélögin sem ekki gera út á "stórsjóin", heldur halda sig við "venjulegri" leiklist. Metnaður í verkefnavali og listrænn kraftur er jafnan einkenni á starfsemi þeirra. Að þessu sinni hafa þau bæði valið leikgerðir á skáldsögum, og svo vill til að báðar sögurnar eru af fantasíuætt. [Sjá dóm um "Hundshjarta" annarsstaðar]

Terry Pratchett er afkastamikill höfundur og Diskheimssögur hans eiga sér drjúgan hóp aðdáenda hér á landi, enda mikið hugmyndaflug í gangi og Pratchett leikinn í að láta undur og stórmerki Diskheims kallast á við hinn öllu hversdagslegri raunveruleika okkar jarðarbúa. Örlagasystur er í grunninn nokkuð venjulegt ævintýri, sem er teygt og togað í spéspegli höfundar. Í ríki einu hefur kóngurinn verið myrtur og valdaræningi sest í stól hans. En vitaskuld hefur tekist að koma kornungum syni hans undan og nornirnar þrjár sem nafnið vísar til koma honum í fóstur hjá farandleikflokki. Og auðvitað er nýi stjórnandinn algerlega ómögulegur, og auk þess nagaður af samviskubiti. Og konan hans tík með kvalalosta.

Fljótlega sjá nornirnar að það er ekki um annað að ræða en að koma hinum rétta krónprinsi til manns hið snarasta og gera hann að konungi. Pratchett leikur sér hér með ýmis ævintýraminni og bætir vænum skammti af Shakespeare við. Sumt er það hnyttið, annað frekar þunnt eins og gengur.

Það verður að segjast að ekki skila töfrar Diskheims sér alfarið af pappírnum yfir á leiksviðið. Trúlega er húmorinn of víða bóklegur, og hitt hjálpar ekki að til að skila heilli nýrri heimsmynd þarf íburðarmeiri umgjörð og sviðsetningu en þá sem LFMH hefur á valdi sínu. Allt um það þá gerir stór og kraftmikill leikhópurinn sitt besta til að skemmta áhorfendum og sýningin er full af litlum skemmtilegum hugmyndum sem kalla fram bros og hlátur.

Nornunum þremur er ágætlega skilað af Uglu Jóhönnu Egilsdóttur, Jóhönnu Ósk Baldvinsdóttur og Höllu Ólafsdóttur og Antoine Hrannar Fons og Hildur Helga Kristjánsdóttir eru skemmtileg sem hin siðlausu valdaránshjón. Fíflið er gott hjá Árna Kristjánssyni og samleikur þeirra Höllu Ólafsdóttur einlægur og jafnframt fyndinn.

Örlagasystur eru fyrsta sýningin sem undirritaður sér í Austurbæ og ekki get ég sagt að húsið hafi heillað mig. Fyrir utan stærðina, sem öll er á lengdina, er hljómburðurinn afleitur fyrir óuppmagnað talað mál. Fyrir vikið þurftu óþjálfaðir leikarar sýningarinnar alltof oft að standa á orginu, sem einatt dregur úr áhrifamætti þess sem sagt er. Þar fyrir utan var margt gott um vinnu þeirra og leikstjóraparsins að segja og aðdáendur höfundarins ættu ekki að sleppa þessu tækifæri til að skoða sig um í Diskheimum.

sunnudagur, febrúar 16, 2003

Hundshjarta

Herranótt
Tjarnarbíó 16. febrúar 2003


Leikgerð og þýðing Ólafs Egils Egilssonar á sögu Mikhail Búlgakovs, byggð á leikgerð Alexanders Chervinsky.
Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson
Leikmynd og búningar: Kristína Berman
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Dramatúrg: Hlynur Páll Pálsson
Tónlist: Björn Gauti Björnsson.

Tveir handanheimar

Í Hundshjarta erum við stödd í sæluríki kommúnismans með allri sinni yfirborðsstjórnvisku og undirkraumandi spillingu og valdatafli. Vísindamaður gerir tilraun með að græða hjarta úr smáglæpamanni í flækingshund og öðlast rakkinn þegar ýmsa mannlega eiginleika. Þetta þykja mikil undur og stórmerki, en fljótlega kemur í ljós að afstyrmið sem hann hefur skapað er óþægilega flinkur í lífsbaráttunni í Sovét, eiginleikar hunds og manns nýtast sérlega vel við að koma ár sinni fyrir borð í þessu spillta og ómennska samfélagi.

Leikstjórinn velur þá leið að staðsetja verkið í heimi gamalla hryllingsmynda og tekst sú stílfærsla afar vel, enda gegnumfærð í búningum, leikmynd og tónlistarflutningi. Efnið er líka í anda slíkra mynda svo þetta er vel til fundið hjá Ólafi. Það er helst að leikurinn hefði mátt vera meira gegnumfærður í "þöglumyndastíl", en ef til vill er það til of mikils mælst.

Sviðsetningin er feikivel unnin í einfaldri en snjallri umgjörð Kristínu Berman. Það er mikill hraði í sýningunni, sem er gott, nema þegar mikilvæg augnablik týnast í látunum sem gerist stundum, og þegar hraðinn smitast yfir í talhraða leikenda, sem henti hjá nokkrum, þó síst hjá aðalleikendum, sem er gott. Þá hefur leikstjórinn greinilega það mikið vald á verki sínu að hann leyfir sér að hlaupa út undan stílnum þegar góður brandari er í húfi og uppsker iðulega vel.

Læknarnir tveir eru vel leiknir af Hilmi Jenssyni og Karli Ágústi Þorbergssyni, og sá síðarnefndi var eins og klipptur út úr dr. Caligari.

Helga Lára Haarde og Harpa Viðarsdóttir eru góðar sem eldabuska og hjúkrunarkona/húsfreyja/ritari. Mikið hvílir á Sigurði Arent Jónssyni í stjörnuhlutverki hundsins. Mér fannst hann ekki allskostar finna sig í hinum "hreinræktaða" hundi, en eftir að mannshjartað var komið í hann var hann frábær, hvíldi algerlega í sínum siðblinda skíthæl og stóð með honum allt til enda. Húsfélagsformenn eru einatt afkáraleg mannkerti hjá Búlgakov eftir því sem ég þekki til og Markús Már Efraím var ágætur sem einn slíkur, þó ekki væri hann alfarið laus við fyrrnefndan talhraðavanda.

Hundshjarta er heilsteypt og sterk sýning á skemmtilega súrrealískri martröð með sterkum siðferðilegum undirtóni sem aldrei týnist alveg í uppátækjum og ólíkindalátum hópsins.

laugardagur, febrúar 08, 2003

A fjölum félagsins

Halaleikhópurinn
Halinn 8. febrúar 2003.

Höfundur: Unnur María Sólmundardóttir
Leikstjóri: Edda V. Guðmundsdóttir
Lýsing: Vilhjálmur Hjálmarsson
Búningar Bára Jónsdóttir

Barist um sálir

HINN einstaki Halaleikhópur er tíu ára um þessar mundir, sem er nokkuð hár aldur fyrir áhugaleikhóp í Reykjavík. Starfsemin virðist standa með blóma, Halinn leggur metnað, líf og sál, í hvert einasta verkefni og lætur ekki líkamlegar hindranir sumra félaganna aftra sér að ráðast í þau verkefni sem hugur stendur til, en fyrir þá sem ekki vita er Halaleikhópurinn leikfélag fatlaðra og ófatlaðra og hefur kjörorðin "Leiklist fyrir alla". Á afrekalistanum má sjá verk á borð við Túskildingsóperuna og Gullna hliðið, sem er sú sýning sem er mér eftirminnilegust hjá Halaleikhópnum, ekki síst fyrir ógleymanlega frammistöðu Ómars Walderhaug í hlutverki kerlingar. Þá hefur Halinn í þrígang frumflutt verk sem skrifuð hafa verið fyrir hópinn og bætist nú Unnur María Sólmundardóttir í hóp Þorsteins Guðmundssonar og Eddu V. Guðmundsdóttur sem Halahöfundur með frumraun sinni á sviði leikritunar.

Viðfangsefni Á fjölum félagsins er einkar nærtækt á afmæli leikfélags. Það fjallar um hin aðskiljanlegu vandamál sem mæta fólki sem hefur fengið þá undarlegu flugu í höfuðið að stofna áhugaleikhóp. Rammi sýningarinnar er fyrirlestur sem Frú Þorgerður Kvaran leikhússpekúlant flytur um efnið, en máli sínu til stuðnings og áréttingar sýnir hún atriði úr stofnun slíks félags og viðburði á fyrsta starfsári þess. Þá bresta bæði hún og "leikhópurinn" í söng með reglulegu millibili og leggja út af reynslu sinni í bundnu máli.

Unnur María er lunkinn höfundur og getur greinilega komið efni sínu í leikrænt form. Persónurnar í leikhópnum voru vel mótaðar og fengu örugga meðferð hjá nokkrum helstu sprautum félagsins, þeim Árna Salomonssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Jóni Stefánssyni, Hönnu Margréti Kristleifsdóttur og Ásdísi Úlfarsdóttur. Höfundi hættir dálítið til að festast í aukaatriðum og eyða í þau löngu máli. Dæmi um þetta er mikil áhersla sem hún leggur á smásmyglisleg atriði varðandi fundarsköp og félagslög. Þetta var fyndið í upphafsatriðinu þar sem stofnun félags virðist nánast vonlaus vegna formgalla, en fær á endanum of mikið vægi á kostnað annarra þátta starfsins.

Samdráttur tveggja félagsmanna var skemmtilega kortlagður og dekstur leikstjóra við dyntótta leikara sömuleiðis. Fyrirlestur Frú Þorgerðar þótti mér hins vegar ekki góð hugmynd og bæta litlu við hið eiginlega leikverk. Frábær frammistaða Kolbrúnar D. Kristinsdóttur í hlutverki hennar var samt nokkuð sem ég hefði síður viljað missa af.

Söngtextar eru margir lipurlega gerðir en urðu nokkuð lotulangir og erindin mörg án þess að verið væri að segja eitthvað nýtt. Margar snjallar hugmyndir krydda verkið og skemmtilega er leikið á áhorfendur. Sviðsetning Eddu V. Guðmundsdóttur er ágæt í erfiðu rými Halans, húsnæði leikhópsins.

Það eru hinar leiknu svipmyndir af því hindrunarhlaupi sem stofnun leikhóps og uppsetning leikrits getur verið sem er sterkasti hluti leikritsins og gerir ásamt frammistöðu leikaranna sýninguna að ágætri skemmtun. Unni Maríu hvet ég til að halda áfram við lyklaborðið. Halaleikhópnum óska ég til hamingju með afmælið og langra lífdaga.

föstudagur, febrúar 07, 2003

Þrúgur reiðinnar

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsið á Húsavík 7. febrúar 2003

Höfundur: John Steinbeck
Leikgerð: Frank Galati
Leikstjórn: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Guðni Bragason.

Tveggja drauma sýn*

Tónlist er líka ljáð mikilvægt hlutverk í sýningu Leikfélags Húsavíkur á Þrúgum reiðinnar, stærra hlutverk en í rómaðri uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur. Auk laga KK sem þar urðu til hafa Húsvíkingar bætt við lögum eftir Bubba Morthens, tveimur eftir tónlistarstjórann, Guðna Bragason, og kyrja auk þess hið frábæra Man of Constant Sorrow úr Ó brother, where art thou, sem á einstaklega vel við. Það sama gildir um lög Guðna og svo náttúrulega Fjöllin hafa vakað, sem ég hef hingað til ekki vitað um hvað er, en veit núna. Innblásin hugmynd. Um Manila er ég ekki eins viss. Tónlistarflutningur þriggja manna hljómsveitar er algerlega skotheldur og kontrabassi hljómsveitarstjórans er á við meðal hljóðgervil í áhrifshljóðadeildinni.

Stórvirki Steinbecks um uppflosnun Oklahomabænda vegna kreppu og vélvæðingar og ómennska misnotkun ávaxtaiðnaðarins í Kaliforníu á neyð fólksins snertir greinilega streng í brjóstum Þingeyinga nú á tímum kvótabrasks, fólksflótta og óvissrar framtíðar. Arnór Benónýsson hefur sýnt það í kraftmiklum sýningum sínum hjá Ungmennafélaginu Eflingu að honum er lagið að virkja tilfinningar leikara sinna og þessi sýning er engin undantekning þó annað sé félagið.

Leikgerðin fer eðlilega þá leið að einbeita sér að Joad-fjölskyldunni og ferðalagi hennar og er þeim öllum skilað á einkar trúverðugan og sterkan hátt, og eins og áður í sýningum Arnórs næst hér alger samruni milli Oklaranna úr kreppunni og Húsvíkinganna á sviðinu. Gunnar Jóhannsson og synir hans,Jóhann Kristinn og Hilmar Valur eru verulega góðir sem fjölskyldufaðirinn og tveir sona hans og Anna Ragnarsdóttir sterk og sönn sem móðirin. Þorkell Björnsson er sannfærandi sem hinn samviskubitni bróðir Joads og það sama má segja um aðra fjölskyldumeðlimi sem leiknir eru af Svavari Jónssyni, Guðnýju Þorgeirsdóttur, Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur, Sigurjóni Ármannssyni, Ármanni Erni Gunnlaugssyni og Anítu Guðjónsdóttur. Fyrir utan fjölskylduna mæðir mest á hinum heimspekilega predikara Jim Casy. Hann er í öruggum höndum Sigurðar Illugasonar. Aðrir leikarar fá tækifæri til að skapa persónur sem birtast í svipleiftri og trúlega verða vankaður tjaldbúi Guðnýjar Þorgeirsdóttur og bílasali Guðna Bragasonar eftirminnilegust af þeim.

Þrúgur reiðinnar er stór saga og vitaskuld er stiklað á stóru í leikgerð hennar. Þetta bitnar meira á síðari hluta sögunnar sem verður æði brotakennd og ekki allskostar ljósar þær skelfilegu aðstæður sem Joad-fólkið mætir og hvernig þær eru til komnar. Sýningin missir fyrir vikið flugið eftir hlé, en nær því aftur í tilfinningaþrungnum og dramatískum lokaatriðum sem eru verulega áhrifamiklar í einfaldleik sínum. Fyrri hlutinn er sterkari enda erum við þá að kynnast þessu blóðríka og skemmtilega fólki og draumum þeirra um betra líf, sem okkur og jafnvel þau grunar að sé tálsýn ein.

Það hefur verið firnaerfitt að koma þessu öllu saman fyrir á sviðinu í Samkomuhúsinu á Húsavík en hefur þegar á heildina er litið tekist vel með sáraeinfaldri leikmynd sem leiðir athyglina að aðalatriðunum. Þó voru hvimleiðar myrkvanir alltof tíðar, enda atriðin stutt. Ekki var mikið um snjallar sviðslausnir, enda áherslan á leikarana en þó verð ég að segja að bílalestin er snilldarlega leyst, ég útskýri það ekkert nánar, drífið ykkur í leikhúsið.

*Birtist með dómi um sýningu Versló á Made in USA

miðvikudagur, febrúar 05, 2003

Made in USA

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands
Loftkastalinn 5. febrúar 2003

Höfundur: Jón Gnarr
Leikstjóri: Jóhann G. Jóhannsson
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson
Leikmynd og lýsing: Sigurður Kaiser
Danshöfundur: Ástrós Gunnarsdóttir.

Tveggja drauma sýn

FLJÓTT á litið eiga Nemendamót Verzlunarskólans og Leikfélag Húsavíkur ekki margt sameiginlegt,* og það sama má segja um verkin sem þau hafa ráðist í að þessu sinni. Ef grannt er skoðað fara samt hliðstæðurnar að birtast ein af annarri. Á báðum stöðum ríkir faglegur metnaður og sú tilfinning að það sé sjálfsagður hlutur að leggja sig allan fram og gera eins vel og hægt er. Þessari stemmningu miðla bæði hið hundrað ára gamla félag á Húsavík og hið öllu yngra stórsjóabatterí í Reykjavík til nýrra félaga, en á báðum stöðum er auðvitað stöðug endurnýjun þátttakenda, örari þó hjá Verslingum eðli málsins samkvæmt.

En verkin? Nafnarnir Gnarr og Steinbeck? Já, kannski eru þetta ekki lík verk, en útgangspunktur beggja eru samt Bandaríkin, þau eru eins og tvær hliðar á sama draumnum.

Made in USA segir frá Eltoni Jóni, íslenskum skiptinema í Bandaríkjunum. Hann er gæddur óvenjulegum tónlistarhæfileikum og verður fljótt bitbein samferðamanna sinna í listaháskólanum þar sem hann stundar nám. Hann ánetjast um stund úrkynjuðum og siðspilltum öflum, en hristir þau af sér á endasprettinum og snýr aftur í faðm hjartahreinnar unnustu sinnar og allt endar vel, eins og í ljúfum draumi.

Leikverkið er mjög í anda höfundar síns, vegur salt milli bláeygðs sakleysis og sótsvartrar íróníu. Trúlega er írónían einmitt grimmust þegar einfaldleikinn og sakleysið eru tjáð af (að því er virðist) mestri einlægni. Þessi stíll hentar leikhópnum vel, enda alinn upp við höfundinn í útvarpi, uppistandi, sjónvarpi og kvikmyndum og leikstjórinn hefur haldið vel utan um að koma því til skila. Þetta er átakalaus leikur, allur á yfirborðinu, og bráðhlægilegur, sérstaklega þegar enginn er að reyna að vera fyndinn. Sérstaklega var Hanna Borg Jónsdóttir eins og fiskur í vatni í þessum stíl sem hin hjartahreina Susan Dorothy Parks. Þá var Elton Jón í öruggum höndum hjá Þorvaldi Davíð Kristjánssyni, sem syngur nú á sínu síðasta nemendamóti og verður hæfileika hans og stjörnuútgeislunar vafalítið sárt saknað.

Tónlistarflutningur og dansar eru eins og til er ætlast lýtalausir með öllu en eru samt að mínu mati veikasti hlekkur sýningarinnar og skrifast það á handritshöfundinn. Jóni hefur ekki tekist að nýta lögin sem skyldi í þágu sögunnar eða til að toppa hápunktana. Staðsetning einstakra laga virkar tilviljanakennd og oft er eins og brostið sé í söng bara vegna þess að það er “kominn tími á það”. Þá eru söngtextarnir veikasti hlekkur textans, þar nýtast frábærir hæfileikar og ísmeygileg sýn Jóns Gnarr á fólk og fyrirbæri síst. En aðdáendur nemendamótssýninganna láta þetta trúlega sér í léttu rúmi liggja og njóta hvers númers í botn. Það er í sjálfu sér ekkert að því, enda eru þau eins og áður sagði frábærlega flutt.

*birtist fyrst í grein með dómi um Þrúgur reiðinnar hjá Leikfélagi Húsavíkur

sunnudagur, febrúar 02, 2003

Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur

Leikfélag Reykjavíkur
Borgarleikhúsinu 2. febrúar 2003

Höfundar: Peter Brook og Marie-Hélène Estienne
Þýðandi: Hafliði Arngrímsson
Leikstjóri: Peter Engkvist
Dansar og hreyfingar: Yaron Barani
Leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson
Lýsing: Benedikt Axelsson og Kári Gíslason
Hljóð: Jakob Tryggvason

Leikendur: Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Harpa Arnardóttir, Sóley Elíasdóttir og Þór Tulinius.

Spark í heilabörkinn

MEÐ hæfilegri einföldun má segja að tilraunamennska Peters Brook hafi frá upphafi verið leit að endimörkum. Hvar er það minnsta sem þarf til að koma leikrænum skilaboðum til áhorfenda? Hversu litla þekkingu áhorfenda á lögmálum leiklistarinnar er hægt að komast af með? Hvenær hefur athöfn merkingu og hvenær ekki? Það þarf því engan að undra að hann hafi heillast þegar eiginkona hans gaf honum í jólagjöf bók Oliver Sacks um taugaraskanir. Afraksturinn var þetta verk, rannsókn á endimörkum skynjunar, atferlis og merkingar.

Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur er samansett af stuttum atriðum þar sem læknar afhjúpa tiltekið ástand sjúklings fyrir áhorfendum. Við kynnumst fólki sem hefur misst vald á tungumálinu, tapað skammtímaminninu eða aðgangi á skynjun sinni, eða hefur litla sem enga stjórn á líkamanum. En þó þetta sé heillandi og skelfilegur heimur sem við fáum innsýn í eru það spurningarnar sem vakna um hinn hversdagslega raunveruleika sem lifa með okkur. Hvað með okkar skynjun, erum við ekki jafnmiklir fangar hennar og sjúklingarnir sinnar? Hversu mikið af grundvallaratriðum í atferli okkar og lífi eru frosin mynstur sem við erum föst í? Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur fær mann til að horfa undrunaraugum á sjálfsagða hluti, sjá hversdagsleikann sem heillandi og skelfilegan, og það er dýrmæt gjöf.

Geðveiki og aðrir „dramatískir“ sjúkdómar hafa alltaf heillað leikskáld og leikhússfólk sem viðfangsefni, enda gefur annarlegt ástand jafnan tækifæri til að „fara á kostum“ á svo áberandi hátt að jafnvel daufustu áhorfendur sjá að eitthvað óvenjulegt er á ferðinni. Þetta verk gefur vissulega tilefni til svoleiðis flugeldasýninga, en hópurinn stenst þá freistingu og uppsker ríkulega. Nálgun Peters Enquist er eins og gerilsneydd, öllum óþarfa er ýtt til hliðar, leikarnir sýna okkur birtingarmynd sjúkdómanna án tilfinningasemi, nánast án persónusköpunar. Öll áherslan er á það sem skiptir máli, því sem við eigum að sjá. Á örfáum stöðum er taumhaldinu sleppt, einkum þegar sjúklingum er sýnt fram á röskun sem þeir hafa ekki vitað af. Viðbrögð Halldóru Geirharðsdóttur í hlutverki konu með skynjunartruflun við að líta í spegil eftir að hafa farðað sig skáru í hjartað, enginn skortur á tilfinningalegri innlifun þar. Og á köflum bregður vissulega fyrir „virtúósleik”, eftirminnilegast í Tourette-fyrirlestri Gunnars Hanssonar, sem nær samtímis að vera fullkomlega trúverðugur sem maður á valdi þessa dramatíska heilkennis sem einkennist af stjórnleysi yfir hreyfingum og tali, og jafnframt með algera stjórn á sér við að gefa okkur dæmi af sér og öðrum. Brecht hefði orðið glaður.

Til að brúa bilið milli atriðanna hefur verið settur saman einhverskonar draumkennd dansatriði sem mynda sterka andstæðu við kaldar staðreyndirnar sem bornar eru á borð í verkinu. Kannski er þörf á slíkum uppbrotum, en ekki þótti mér þessi þáttur sýningarinnar bæta miklu við. Það sama má segja um leikmyndina, nytjahlutirnir voru réttir en grunnformin þóttu mér engum tilgangi þjóna. Og hvernig væri að íslensk leikhús tækju höndum saman og settu bann við notkun vatns í leikmyndum í svona tvö til þrjú ár?

Leikararnir glíma hver um sig við að sýna okkur nokkra sjúklinga og bregða sér jafnframt í hlutverk lækna. Öll eiga þau áhrifaríkar senur, og nokkrar lifa sterkar í huganum en aðrar. Lamaða konan hennar Hörpu Arnardóttur sem stjórnar útlimunum með því að horfa á þá. Halldór Gylfason sem maður án skammtímaminnis. Málstola en óðamála Þór Tulinius. Sóley Elíasdóttir sem kona sem getur ekki skrifað bókstafinn “O” en getur teiknað tungl. Þór og Gunnar að glíma árangurslaust við að þekkja hversdagslega hluti á útliti þeirra. Allt óaðfinnanlega gert vegna þess að leikararnir leyfa okkur að horfa framhjá sér að kjarna málsins, viðfangsefninu.

Leikhópurinn á nýja sviðinu eflist við hvert verkefni, sem einstaklingar og hópurinn í heild. Með þessari sýningu taka þau að mínu mati sína stærstu listrænu áhættu og hafa, þegar á heildina er litið, sigur. Maðurinn sem hélt að konan sín væri hattur er ævintýraferð um heilabörkinn, vitsmunaleg skemmtun þar sem tilfinningarnar kvikna þar sem þær eiga heima: í hugum áhorfandans.

laugardagur, febrúar 01, 2003

Uppistand um jafnréttismál

Leikfélag Akureyrar
Samkomuhúsinu á Akureyri 1. febrúar 2003

Þrír einleikir: Olíuþrýstingsmæling dísilvéla eftir Guðmund Kr. Oddsson, Hversu langt er vestur? Eftir Hallgrím Oddsson og Maður og kona: Egglos eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Leikstjóri: Halldór E. Laxness
Leikendur: Hildigunnur Þráinsdóttir, Skúli Gautason og Þorsteinn Bachmann.


Skemmtiferð á vígvöllinn

ÞAÐ gengur á með frumsýningum hjá Leikfélagi Akureyrar. Kvöldið eftir frumsýningu á Leyndarmáli rósanna er afrakstur samkeppni um einleiki frumfluttur á sama sviði. Jafnframt er ein sýning til í fullum gangi á sviði Samkomuhússins, Hversdagslegt kraftaverk. Hvernig þetta gengur allt saman upp er ekki auðvelt að skilja, og gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því.

Leikritasamkeppnir leikhúsanna hafa ekki verið að skila merkilegum sýningum síðustu árin. Val hefur iðulega orkað tvímælis og væntingar áhorfenda til verðlaunaleikrita ekki verið uppfylltar af því sem borið hefur verið á borð. Kannski hefur Leikfélagi Akureyrar tekist að finna eina leið út úr þeim ógöngum sem slíkar samkeppnir hafa ratað í undanfarið. Hér er óskað eftir smærri verkum, lagt upp með ákveðið umfjöllunarefni – hæfilega vítt þó, og síðast en ekki síst kastað upp lykilorðinu uppistand. Útkoman dregur enda dám af því formi, dálítið kæruleysisleg, án alls listræns herpings, engin vandræðaleg tilhlaup að tímamótaverkum. Öll umgjörð sýningarinnar styður þessa upplifun og stuðlar að afslöppuðu andrúmslofti. Leikskráin, tónlistin, grallaralegar kynningar Þráins Karlssonar, viðfangsefnið og samband þess við nýlega viðburði í sögu leikfélagsins. Allt hjálpast að við að fá áhorfendur til að slappa af og búa sig undir skemmtiferð. Og þeir eru heldur ekki sviknir um hana.

Fyrsti þátturinn, Olíuþrýstingsmæling díselvéla, byggir á þeirri skemmtilegu grunnhugmynd að kynjabaráttan sé tapað stríð og hinn sigraði, karlmaðurinn, þurfi að sleikja sár sín og efla baráttuandann í leyni, til dæmis undir yfirskini fyrirlestra um díselvélar. Fyrirlesarinn rekur sögu baráttunnar, greinir hvernig hún tapaðist og reynir að stappa stálinu í kynbræður sína, uppfullur af heilagri vandlætingu og réttlátri reiði hins undirokaða. Verkið er fullt af ísmeygilegu sjálfsháði og kostuleg týpan sem Þorsteinn Bacmann skapaði ýtti mjög undir það. Skemmtileg grunnhugmynd hjá Guðmundi Oddssyni en þáttinn skorti nokkuð stígandi, eftir að afstaðan og aðstæðurnar eru ljósar bætist lítið við, fyrr en í lokin þegar hnittinn endahnútur er bundinn á fyrirlesturinn og þáttinn.

Meira var spunnið í næsta þátt, sem bróðir Guðmundar, Hallgrímur, skrifar. Hversu langt er vestur birtir okkur óborganlega óframfærinn forræðislausan föður sem segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við barnsmóðurina og útlistar kenningar sínar um samskipti kynjanna almennt. Hallgrímur kemst á gott skáldlegt flug í spuna út frá hugmyndina um Guð sem konu, og innskotsatriði um Georg Bush og Saddam Hussein var mjög vel heppnað. Vel skrifaður þáttur en dálítið endasleppur. Skúli Gautason var verulega hlægilegur í hlutverkinu, en sú leið að láta hann teikna með látbragði og leikhljóðum hvert einasta smáatriði í frásögninni rímaði illa við sviðsfælni persónunnar í upphafi. Einnig skil ég ekki þá ákvörðun að láta Skúla flytja þáttinn í hljóðnema. Uppfærslan var mjög leikræn, og þátturinn er hreinræktað leikhúseintal en ekki uppistandsrútína og óþolandi að fela skipbrigði leikarans bak við óþarfan míkrófón.

Sama var upp á teningnum í síðasta þættinum og var jafnvel enn hjákátlegra, þar sem svo mikið var að gera hjá Hildigunni Þráinsdóttur í hlutverki Beru að hún þurfti bæði að hafa hefðbundinn hljóðnema og handfrjálsan búnað. Afhverju í ósköpunum? Að þessu slepptu er Maður & kona: egglos eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur afar vel heppnaður þáttur. Í honum kynnast áhorfendur Beru sem er yfirkomin og undirlögð af þörf sinni eftir að eignast barn, en því miður, ekkert hefur gengið í þeim efnum hjá henni og manni hennar. Nú hefur hún tekið trú á kenningu sem beinir kynlífinu aftur í sinn rétta farveg og helgar það á ný sínu upprunalega hlutverki: getnaði. Hún er full efasemda um heilindi eiginmannsins í þessu efni, og hennar eigin ástríður eiga líka til að setja hana af sporinu. Hildigunnur flutti þáttinn af frábæru öryggi og fítonskrafti. Skemmtilega var unnið með leikmuni, hvort sem það voru egg eða eiginmaðurinn sem stóð bísperrtur á sviðinu í líki gínu. Þessi þáttur er leikrænastur þáttanna og best upp byggður, með stöðugri stígandi og endar með mögnuðum hápunkti. Viðeigandi endir á þessari grallaralegu skoðunarferð um vígvöll kynjasamskiptanna.