laugardagur, október 28, 2006

Herra Kolbert

Leikfélag Akureyrar. Höfundur: David Gieselmann, þýðandi Bjarni Jónsson. Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson, leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir, lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson, tónlist og hljóðmynd: Hallur Ingólfsson, gervi: Ragna Fossberg. Leikendur: Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gísli Pétur Hinriksson, Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Steinn Ingunnarson og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Samkomuhúsinu á Akureyri 28. október 2006.

Ef þú hefur ekki drepið þá hefurðu ekki lifað 


UNGT par býður öðru ungu pari í mat. Fljótlega kemur í ljós að heimilisfólkið hefur gaman af valdataflsleikjum og sálfræðistríði og láta sem þau hafi myrt samstarfsmann stúlknanna sér til afþreyingar og lífsfyllingar og komið líkamsleifum hans fyrir í kistu í stofunni. Er það satt eða ekki? Af þessu spinnst atburðarás þar sem ofbeldi og ólíkindalegur húmor eru í brennipunkti og væri engum greiði gerður ef hún væri rakin frekar.

Herra Kolbert á sér marga forfeður og sækir til þeirra ýmis einkenni, atburði og afstöðu. Dauður maður í kistu vekur upp hugrenningatengsl við Rope eftir Hitchcock, bernsk siðblindan á sér forföður í absúrdistanum Fernando Arrabal og húmorinn sækir svarta litinn og sitthvað fleira í smiðju meistara Joe Orton. Og ekki má gleyma einu leiðarstefi verksins, upprifjun firrta kærustuparsins á þeirri vanmetnu kvikmynd Falling Down, um rangskreiðan réttlætisriddara sem fær nóg af mótlætinu í umferðarteppunni einn daginn og leggur upp í blóði drifið ferðalag. En þau Ralf og Sara hafa ekki áhuga á innihaldi, lærdómum eða boðskap. Það eina sem pirrar þau við framgöngu Michaels Douglas í myndinni (eða persónunnar réttara sagt) er sá dramatúrgíski tæknifeill að hann var með óútskýrða byssu í bílnum. Í sjálfu sér mætti taka Herra Kolbert sömu tökum og finna því það eitt til foráttu að tiltekið bank frá tilteknum stað sem gegnir lykilhlutverki í fléttunni á sér enga rökræna skýringu. Er galli, nánar tiltekið. En við ætlum ekki að stoppa við það.

Byrjum frekar á að segja að sýningin er frábærlega vel unnin. Leikmyndin og lýsingin eru rosalega flottar á sinn klisjulega Innlit-útlithátt, tónlistin sömuleiðis. Allt ferli og leikaranna í rýminu lipurt og eðlilegt, gervi, slagsmál og aðrar tæknibrellur fullkomlega heppnaðar. Leikararnir hver öðrum öruggari í rullum sínum og þó þær kalli fæstar á einlægni eða djúpa innlifun, nema þá eins og fyrir tilviljun eða sem markvisst og írónískt stílbragð, þá verður að taka ofan af fyrir hópnum fyrir að skila því sem í verkinu býr svona vel og áreynslulaust.

En hvað býr í verkinu? Ekki eins mikið og það heldur, myndi vera stutta svarið frá mér. Til þess er það of stílfært, persónurnar of einhliða og löngunin til að skemmta og ganga fram af áhorfendum of oft í ekilssætinu. Til þess að við höfum eitthvað gagn af því að sjá venjulegt fólk missa stjórn á villidýrinu í sér af einskærum lífsleiða þarf fólkið nefnilega helst að vera – venjulegt fólk. Að öðrum kosti er svo sem ekki meira að sækja þangað um firringu nútímamannsins en í Tomma og Jenna. Sjálfsagðir hlutir. En fyndið er það. Þó það nú væri. Drepfyndið á köflum. Bæði er nú alltaf gaman af taumleysi og óskammfeilni, og svo eru tímasetningar leikaranna afbragð. Reyndar væri verkið enn fyndnara ef það styddist ekki bara við þessi element, heldur hefði líka sterka fléttu sem hryggjarstykki. En því er ekki að heilsa, of oft er eins og það sem kveikir næsta samtal sé ekki ætlan eða vilji persónanna heldur þörf leikskáldsins til að fylla upp í kvöldstundina.

Flottur leikur. Og bitastæðasta hlutverkið kannski það sem á sterkasta enduróminn, en ekki hvað. Gísli Pétur er framúrskarandi sem vitgranni skapofsamaðurinn með siðferðiskenndina. Guðjón Davíð algerlega á heimavelli sem gestgjafinn. Það sama má segja um Eddu Björgu og Unni Ösp, þó það sæki nú reyndar að mér sú hugsun að báðar mættu fara að gæta sín á að festast ekki um of í kækjum og stílbrögðum, Edda sem þunna ljóskan og Unnur sem pósandi tálkvendi. En það hentar hér og allt í góðu. Ólaf Stein hef ég ekki séð gera betur en fínlega unnið hlutverk pizzusendilsins.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að hér hafi Leíkfélag Akureyrar hitt í mark og eignast fyndna og hæfilega ögrandi sýningu sem gaman er að spjalla um í góðra vina hópi að henni lokinni. Bara ekki búast við að hún kveiki nýjar hugsanir, eða segi ferskan sannleika um samfélag okkar. Þó hún þykist gera það. Það er ekki allt sem sýnist á þessu heimili.

laugardagur, október 21, 2006

Amadeus

Höfundur: Peter Shaffer, þýðing: Valgarður Egilsson og Katrín Fjeldsted. Leikstjóri: Stefán Baldursson, leikmynd: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, búningar: Helga I. Stefánsdóttir, lýsing: Halldór Örn Óskarson, hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen, leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Leikendur: Birgitta Birgisdóttir, Ellert A. Ingimundarson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Hilmir Snær Guðnason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Orri Huginn Ágústsson, Pétur Einarsson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Theódór Júlíusson ogVíðir Guðmundsson. Borgarleikhúsinu 21. október 2006.

Verndardýrlingur meðalmennskunnar 


EITTHVAÐ er um það að leikhúsáhugafólk og menningarvitar furði sig á verkefnavali Leikfélags Reykjavíkur þetta leikárið. Það er að sönnu óvanalegt að jafn hátt hlutfall fyrirhugaðra sýninga séu verk sem áður hafa sést hér á fjölum án þess að vera óumdeild klassík. En þetta þarf vitaskuld ekki að tákna ófrumleika eða listrænan kveifarskap. Og sjálfum þykir mér sérlega lofsvert þegar íslensk verk eru tekin til alvarlegrar endurskoðunar og bíð spenntur eftir því að sjá hvernig tíminn hefur leikið Dag vonar og söngleikinn Gretti, og ekki síður hvaða tökum nýtt fólk tekur þessi verk sem bæði þóttu spennandi á sinni tíð.

Sama má segja um Amadeus, sem fór mikla sigurför um heiminn árin eftir frumsýninguna í London 1979. Peter Shaffer var þá þegar mikilsmetinn og gríðarvinsæll höfundur, sem hafði sérhæft sig í að koma alvarlegu og oft næsta heimspekilegu efni fyrir í alþýðlegum sviðsbúningi sem sótti jöfnum höndum í smiðju hins vel smíðaða stofuleikrits og epíska leikhússins hans Brechts. Shaffer málar á stóra striga, spyr stórra spurninga um stöðu mannsins í heiminum, um trúarþörfina, snilligáfuna en þó einkum um þögn Guðs. Og hann kemur efni sínu til skila með spennandi sögum, skýrri framsetningu og án þess að fela sig bak við torræðni eða tilraunamennsku. Framúrskarandi handverksmaður, kannski meira hrað- en djúpskreiður.

Amadeus er skýrt dæmi um list Shaffers. Gamlar kjaftasögur um aðdraganda að dauða Mozarts verða honum innblástur í verk um hinn skyldurækna miðlungsmann Salieri, sem þarf að bregðast við því áfalli sem snilligáfan sem býr í hinum óverðuga unglingi verður honum. Hvernig getur Guð gengið framhjá sínum dyggðuga þjóni og snert í hans stað jafn óuppdreginn og orðljótan náunga og Wolfgang þennan, sem aukinheldur umgengst snilligáfu sína eins og sjálfsagðan hlut? Svar Salieris er að rifta þeim sáttmála sem hann taldi sig hafa við almættið og helga sig því að leggja stein í götu Mozarts, og verða þannig óbeinn valdur að ótímabærum dauða hans. Fánýtt að sjálfsögðu, þar sem tónlistin lifir en sú sem Salieri setti saman gleymdist.

Það verður að segjast eins og er að Amadeus hefur ekki elst vel. Vera má að þar spili inn í ósanngjarn en óumflýjanlegur samanburður við kvikmyndaútgáfuna, en verkið virkar þunglamalegt og óþarflega langt. Þá er innbyggð þverstæða í formhugmynd verksins sem tekst a.m.k. ekki að leysa farsællega í þessari sýningu. Salieri er bæði aðalpersóna verksins, sá sem upplifir atburði þess og mótast af þeim, og jafnframt sögumaður sem segir frá þessum sömu atburðum í endurliti með tilheyrandi fjarlægð frá þeim.

Hilmir Snær Guðnason nær sterkari tökum á sögumanninum en leikpersónunni í þessari uppfærslu, og sýningin rís hæst í flutningi hans á mögnuðu eintalinu þar sem Salieri segir Guði stríð á hendur fyrir svik hans við þjón sinn. Í blábyrjun heyrði ég reyndar ekki betur en það eimdi örlítið eftir af þýska hreimnum úr Ég er mín eigin kona í máli Hilmis, en það hvarf nú fljótt sem betur fer. Hins vegar þótti mér grunntúlkunin á persónunni, lögnin, ekki vera nógu hugsuð. Salieri er hér frá byrjun lýst sem frekar grunnhyggnum og hégómlegum manni, ekki því dyggðatrölli sem umhverfist í andstæðu sína. Dæmi: Þegar Salieri afræður að neyða Konstönsu konu Mozarts til að ljá sér blíðu sína var ekki annað að sjá á lögn senunnar en þar færi alvanur flagari, sem hann á ekki að vera. Mér þykir sem Stefán Baldursson hefði átt að gefa aðalleikaranum sínum færi á meira ferðalagi en hér er boðið upp á.

Tveir nýliðar fást við hin stóru hlutverkin tvö. Víðir Guðmundsson gerir margt fallega í hlutverki Mozarts, sérstaklega í síðari hlutanum þegar halla tekur undan fæti heilsufars- og fjárhagslega. Frá fyrstu tíð hefur það reynst leikurum sem glíma við þetta hlutverk erfitt að sannfæra leikhúsgesti um að þessi óþekktarormur með smábarnahúmorinn sé höfundur tónlistarinnar óviðjafnanlegu, en það tekst Víði. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á hvort stífnin í hreyfingum hans framanaf var hluti af persónusköpuninni eða stafaði af óöryggi, en hvort heldur sem er þá var mér truflun af henni.

Birgitta Birgisdóttir þótti mér sannfærandi Konstansa, með sterka nærveru og fallega innlifun. Samleikur þessara þriggja var heilt yfir prýðilegur.

Ellert A. Ingimundarson gerði hreinræktaða skopfígúru úr keisaranum, og ekkert nema gott um það að segja. Hirðmennirnir allir voru líka fremur skrípalegir, og það var einna helst Theodór Júlíusson í hlutverki hins hjartagóða og þolinmóða frímúrara Van Swieten sem náði að skapa fullgilda persónu.

Leikmynd Þórunnar S. Þorgrímsdóttur er þénug fyrir þetta flókna verk sem gerist á ótal stöðum þar sem hver senan flæðir inn í aðra, og staðsetningar og flæði sýningarinnar er myndrænt og kraftmikið hjá Stefáni. Um áferð, litaskala og efnisval í leikmynd er ég ekki eins viss, hún minnti að þessu leyti stundum óþyrmilega á sviðsmynd úr Evróvisjón-forkeppni um miðjan níunda áratuginn. Búningar eru klassískir, en heldur þótti mér hinn frómi guðsmaður Salieri vera mikill sundurgerðarmaður hér.

Amadeus er ekki snilldarverk, hvorki leikritið sjálft né þessi uppfærsla. En það er þrátt fyrir allt forvitnileg saga sem fjallar um mikilvæga hluti á aðgengilegan hátt, sögð af flinku fólki með öllum leikhúsmeðulunum. Ég er ekki viss um að leikritið hafi verðskuldað þessa endurskoðun, en vitaskuld var aðeins ein leið fær til að ganga úr skugga um það.

fimmtudagur, október 19, 2006

Suzannah

Cinnober Teater. Texti: Jon Fosse. Þýðandi: Svante Aulis Löwenborg. Tónlist: Atli Ingólfsson. Leikmynd: Råger Johannsson. Búningar: Liselotte Zetterlund. Lýsing: Anna Wemmert Clausen. Förðun: Ylva Brodin. Hljóðhönnun: Lars Indrek Hansson. Hljómsveit: Christian Berg, Marcus Alexandersson, Ann Elkjär Gustafson, David Hansson, Anna Svensdotter, David Kangasniemi, Joar Skorpen og Amund Sjølie Sveen. Leikendur: Sara Estling, Anna Forsell og Lena Nordberg. Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins 19. október 2006.

Tónleikur 


VERKIÐ Suzannah sem hér er til umfjöllunar er byggt á samnefndum þríþættum einleik norska leikskáldsins Jon Fosse um skörunginn og bakhjarlinn Suzanne Ibsen, eiginkonu skáldjöfursins með skeggið. Ekki verður ráðið af leikskrá eða sýningunni sjálfri hversu mikið stendur eftir af texta Fosse, né þá heldur hvort einhver róttækari umstöflun hafi átt sér stað en stytting.

Hér hefur verið gerð tilraun með sambræðslu tónlistar og leiktexta á öðrum forsendum en vanalegt er. Tónlistin hefur meira vægi en ef um einbera áhrifstónlist við að öðru leyti „hefðbundna“ uppfærslu verksins væri að ræða. Kannski stendur afraksturinn óstyrkum fótum einhvers staðar mitt á milli slíkrar nálgunar og óperu, þar sem texti er tónsettur fyrir hljómsveit og söngvara. Fyrir utan andrúmsloftið sem skapast í sýningunni er klárlega aðdáunarverðast hve vel hefur tekist við að stilla saman þessa þætti, list leikkvennanna og textaflutning þeirra við brothætta og tætingslega tónlist Atla Ingólfssonar. Það virðist nokkuð ljóst að hér er ekki mikið svigrúm fyrir mistök eða frelsi til einstaklingsbundinna tilþrifa. Merkilega lifandi samt.

Hér hefur verið gerð tilraun. Leit að nýrri aðferð til að tala við áhorfendur, snerta þá og hreyfa við þeim. Það er virðingarvert sem slíkt. En það vekur óneitanlega athygli hvað útkoman er gamaldags.

Það botnar að sumu leyti í textanum, sem er alveg sérdeilis lítilsigld uppsuða úr leikhúsi fáránleikans og kannski einkum og sér í lagi Beckett. Endurtekningar, minningabrot, lífsþreyta, textaáminning af segulbandi eða úr hljómsveit. Og aðalpersónan jafn fjarverandi og Godot, því vitaskuld hefur enginn, hvorki höfundurinn né áhorfendur, nokkurn áhuga á Súsönnu nema fyrir Henrik, sem hún talar um látlaust, elskar, hatar og samsamar sig með. Þessi stíll hefur frá upphafi verið alls kyns höfundum, góðum og slæmum, tilvalin afsökun fyrir því að vera óræðir, fjarlægir, almennir. Því miður þýðir það gjarnan að útkoman verður flöt, ófrjó.

Og þótt ég hafi aðeins lítilsiglda leikmannsþekkingu á samtímatónlist þá grunar mig að einnig hún hefði ekki þótt nema álíka frumleg og önnur framúrstefna fyrir fimmtíu árum eða svo. En alls ekki leiðinleg sem slík. Og ekkert er eins gott og tónlist til að breiða yfir dramatíska ágalla í leikhúsi. Hennar má alltaf njóta, en taki hún athyglina þá er úti um leikræn áhrif, því tónlistin, abstrakt og almenn, er andstæða leiklistarinnar, mannlegrar og sértækrar.

Sjálf sambræðslan virkaði líka eins og gömul framúrstefna, módernísk blindgata sem óþarfi var að aka aftur. Flott vinna, leikkonurnar nákvæmar en samt trúverðugar persónur þótt ekki kalli formið eða textinn á mikla dýpt, tilþrif eða nærveru. Samskipti við hljómsveitina og uppbrot hljómsveitarmeðlimanna virkuðu svo aftur ýmist eins og lélegir brandarar í hámenningarlegum hátíðleikanum, eða þá vanhugsuð en samt áreynslukennd tilraun til að tengja þá sterkar inn í leikhluta sýningarinnar.

Suzannah er sýning sem hreyfir við skilningarvitunum, þreytir vitsmunina og snertir ekki hjartað. Það er ekki nóg.

Skoppa og Skrítla í Þjóðleikhúsinu.

Þjóðleikhúsið og Skopp sf. Handrit: Hrefna Hallgrímsdóttir, leikstjórn: Þórhallur Sigurðsson, leikmynd og búningar: Katrín Þorvaldsdóttir, tónlist: Hallur Ingólfsson, lýsing: Ásmundur Karlsson. Leikendur: Hrefna Hallgrímsdóttir, Linda Ásgeirsdóttir og Katrín Þorvaldsdóttir. 19. október 2006.

Leikhús fyrir byrjendur 


EF MARKA má frásögn í leikskrá Skoppu og Skrítlu í Þjóðleikhúsinu þá er hér á ferðinni afrakstur þess hugsjónastarfs að búa til leikið efni fyrir yngstu börnin, eða frá 9 mánaða aldri. Það var ekki annað að sjá á barnaskaranum á sýningunni á sunnudaginn en að það gengi mætavel. Börnin hæfilega stillt og með á nótunum undir lipurri leiðsögn Skoppu og Skrítlu.

Þær stöllur hafa birst á ýmsum sviðum, í Fjölskyldugarðinum og nú í vetur í Sjónvarpinu, svo það var vel til fundið hjá þeim að ramma Þjóðleikhússýninguna sína inn í kennslustund í því að fara í leikhús.

Kannski hefði sá þráður mátt jafnvel vera fyrirferðarmeiri og stýra betur því sem gerist, sýningin er dálítið tætingsleg með atriðum úr ýmsum áttum og brýrnar milli þeirra oft nokkuð veikburða. En ekki truflaði það þá sem henni var beint að, svo hvað er ég að kvarta?

Það er hlý og notaleg stemming í þessari samverustund. Þær Hrefna og Linda hafa greinilega gott lag á samskiptum við börnin og þó þær bregði stundum fyrir sig þessum sérkennilega leikstíl sem viðtekinn er í smábarnaleikritum þá kemur það greinilega ekkert að sök þó svo miðaldra leikrýnir með fullorðinsskráp geti látið það fara í taugarnar á sér.

Skoppa og Skrítla leiða skarann úr anddyri Þjóðleikhússins inn í fagurlega skreytt rými sitt uppi undir rjáfri og hefja sína fjölbreyttu dagskrá. Þær segja frá leikhúsinu, syngja, bregða sér í ólík gervi og hefja að lokum leitina að Lúsí vinkonu sinni, en það atriði er hryggjarstykkið í sýningunni.

Fljótlega kemur í ljós að hinir ungu áhorfendur hafa mest gaman af nákvæmlega sambærilegum hlutum og við hin. Þau skríkja af gleði þegar Skoppa og Skrítla eru vitlausari en þau. Þau springa úr hlátri þegar prump og annað þessháttar ber á góma. Og þau taka andköf þegar óvæntir hlutir gerast. Það sem vantar í sýninguna af grunnþáttum leikhússins: framvinda, persónuþróun, andlegt ferðalag þátttakendanna, kemur væntanlega síðar inn í leikhúsreynslu barnanna. Þessi sýning gerir vel það sem hún gerir, og sennilega ósanngjarnt að krefjast þess að hún geri meira en það. Frumsamin lög Halls Ingólfssonar eru ljúf í eyrum, flutningur þeirra ágætur, leikmyndin töfrum slungin. Það er fallegt andrúmsloft í sýningunni og vel má vera að hún sé á misskilningi byggð, tilfinning mín um að hér hefði mátt setja meira kjöt og feitari bita í pottinn.

laugardagur, október 14, 2006

Karíus og Baktus

Leikfélag Akureyrar Höfundur: Thorbjørn Egner. Þýðandi: Hulda Valtýsdóttir. Leikstjórn: Ástrós Gunnarsdóttir. Leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir. Tónlistarútsetningar og flutningur: 200.000 naglbítar. Leikendur: Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur Steinn Ingunnarson. Raddir: Esther Thalía Casey, Skúli Helgason og Teitur Helgi Skúlason. Rýmið 14. október 2006.

Svangir bræður 


KLASSÍSK barnaleikrit eru meðhöndluð á nokkuð annan hátt en sígild verk ætluð fullorðnum. Að einhverju leyti er það vegna hraðari endurnýjunar í markhópnum sem það þykir næsta sjálfsagt að fara hefðbundnar leiðir í uppfærslu þeirra, nánast skylda. Þegar kemur að verkum fyrir eldri kynslóðina er hins vegar nánast litið á það sem vörusvik að bjóða ekki upp á nýja sýn í hvert sinn sem slíkt er fært á svið. Og virðist á stundum jafnvel talið mikilvægara en að leita að og miðla kjarna verksins til áhorfenda.

En blessuð börnin þurfa sem sagt ekki að óttast þetta. Til dæmis ekki í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Karíusi og Baktusi, sem er eftir því sem best verður séð í öllum aðalatriðum nema einu trú sýningarhefð verksins, á sviði og hinni víðfrægu sjónvarpsmynd – útlit aðalpersónanna og framganga þeirra öll, leikmynd, rödd sögumanns og útfærsla sögulokanna. Allt eins og það á að vera enda virkar sýningin greinilega ágætlega.

Stærsta og mikilvægasta frávikið er tónlistin. Leikfélagið hefur fengið þá ágætu hugmynd að fá einhverja merkustu rokkhljómsveit sem Akureyri hefur alið til að útsetja tónlistina upp á nýtt eftir sínu höfði og í sínum stíl. 200.000 naglbítum hefur gengið vel að finna rokkið í lögunum og leysa úr læðingi. Útkoman er seigfljótandi hljóðheimur þar sem bassi og trommur eru í algjörum forgrunni, sem er ágætt frá tónlistarlegum sjónarhóli, en þjónar andrúmslofti verksins og umfjöllunarefni síður. Heimur tannanna, tannpínunnar og tólanna hér er hátíðniheimur. Hann er skerandi, ágengur. Vælandi gítarar og óhljóð úr svuntuþeysum hefðu mátt leika meira hlutverk að mínu mati. Sérstaklega í áhrifshljóðum, en tónlistin undir atriðunum með tannburstanum var til að mynda aldeilis áhrifalaus.

Það er heldur ekki eins og það hafi verið vandað nægilega til hugmyndavinnunnar í umgjörð sýningarinnar, en aðstæður í Rýminu krefjast einmitt mikillar hugkvæmni. Tvö atriði kalla sérstaklega á snjalla lausn. Tannburstinn og tannlæknaborinn voru báðir útfærðir með ljósabúnaði, sem er ágætis leið og virkaði prýðilega fyrir borinn. En tannburstinn var hins vegar eins og hann væri ekki enn þá útfærður, heldur væri ljósaróbótunum einfaldlega gefinn laus taumurinn. Útkoman í samspili við fyrrnefnd áhrifshljóð var einkennilega ófullnægjandi og skapaði enga ógn.

Samleikur þeirra Guðjóns Davíðs Karlssonar og Ólafs Steins Ingunnarsonar er lipur, fumlaus og oft fyndinn. Sérstaklega er sykurofvirkni Guðjóns í hlutverki Baktusar afar hlægileg. En hefði hún ekki átt að hverfa þegar sulturinn sverfur að? Eins og við mátti búast eru sviðshreyfingar flottar og skemmtilegar en kannski hefði Ástrós Gunnarsdóttir leikstjóri átt að laða aðeins ólíkari persónur út úr leikurunum sínum – gera varkárni og vit Karíusar skýrara á móti lífsglöðu áhyggjuleysi Baktusar.

Og þrátt fyrir að það sé sögulega sniðugt að fá Skúla Helgason til að lesa texta sögumannsins, þá hefði að mínu mati átt að hjálpa honum við að losna við útvarpsfréttalestóninn og verða þannig meiri karakter, verða félagi barnanna og lifandi leiðsögumaður inn í furðuheim sögunnar. Ester Talía og Teitur Helgi Skúlason fara prýðilega með sínar fáu setningar.

Leikmyndin er þénug fyrir líkamlegan leikmáta drengjanna, en óttalega voru tannfyllingarnar lítilfjörlegar einhvern veginn. Kannski ekki hugmyndin, en útfærslan.

Auðvitað standa Karíus og Baktus fyrir sínu og sýningin er skemmtileg og nær vafalaust tilætluðum áhrifum. En ég saknaði þess að fá á tilfinninguna að sköpunarkraftur allra aðstandenda hefði verið virkjaður til fullnustu, innan þeirra ströngu takmarkana sem hefðbundin sýning verksins setur. Einmitt við þær aðstæður er þess mest þörf.

þriðjudagur, október 10, 2006

Patrekur 1,5

Þjóðleikhúsið Höfundur: Michael Druker, þýðing: Davíð Þór Jónsson. Leikstjóri: Gunnar Helgason. Lýsing: Páll Ragnarsson, leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson. Leikendur: Jóhannes Haukur Jóhannesson, Rúnar Freyr Gíslason og Sigurður Hrannar Hjaltason. Fjölbrautaskóla Suðurlands 10. október 2006.

Sonur prentvillupúkans 

HÚN er ekki féleg forgjöfin sem Patrekur 1,5 hefur til að heilla væntanlega áhorfendur sína, íslenska framhaldsskólanemendur, sem aukinheldur verður seint talinn auðunnasti markhópur fyrir leiklist. Hér er nefnilega á ferðinni eitt af þessum illræmdu sænsku vandamálaleikritum. Það verður ekkert framhjá því litið. Verkið er óumdeilanlega sænskt, og tekur fyrir eitt samfélagsmein, fordóma gagnvart samkynhneigðum, og reynir að eyða þeim meðal áhorfenda sinna, eða draga í það minnsta úr. Í leiðinni fljóta ýmis önnur félagsleg böl með, meðferð samfélagsins á erfiðum unglingum, áfengissýki og fleiri.

Kannski er einn stærsti sigur verksins þá fólginn í því að eyða fordómum gagnvart sænskum vandamálaleikritum. Patrekur 1,5 er nefnilega harla gott.

Grunnhugmyndin er eitursnjöll. Tveir hommar í staðfestri samvist ættleiða barn, en fyrir rangt staðsetta kommu á eyðublaði er það ekki 1,5 ára gamall saklaus sólargeisli sem birtist á dyrahellunni heldur 15 ára gamall vandræðaunglingur með manndráp á samviskunni og vænan skammt af hommahatri í kaupbæti. Verkið sýnir okkur svo hvernig þessir þrír gaurar kynnast mönnnunum á bak við merkimiðana sem þeir bera allir. Fordómar víkja, vinátta kviknar, eða kannski opnast bara hugur og hjarta. Þannig byrjar lærdómsferlið.

Þetta er skemmtilegt leikrit, uppfullt af fyndni, kraftmikið og hratt. Eiginleikar sem styrkjast undir handleiðslu Gunnars Helgasonar, enda ekki lognmollumaður þar á ferð. Samt tekst líka að ná samúð, mynda tengsl við áhorfendur og halda athygli í hljóðlátari köflum sem þarna eru innan um stuðið. Það er smekklega unnið með tónlist í sýningunni og fumlaus samskipti við áhorfendur voru sérlega vel af hendi leyst.

Einn helsti styrkur verksins er fólgin í persónusköpun samkynhneigða parsins. Hér eru staðalmyndir og klisjur víðs fjarri, þetta eru hvorki skrækjandi drottningar né ofursmekkvísir snyrtipinnar heldur einfaldlega tveir karlmenn sem svo vill til að elska hvor annan. Og þeir eru svo sannarlega gallagripir, annar er hálfgerður auðnuleysingi og óttaleg subba, hinn er nokkuð efnilegur alkóhólisti. Hvernig félagsmálayfirvöldum leikritsins datt í hug að treysta þessum mönnum fyrir ungbarni er sennilega erfiðasti hjallinn sem trúgirni áhorfenda þarf að yfirstíga. Jóhannes Haukur Jóhannesson blómstrar í þakklátu hlutverki landeyðunnar Jörundar, með fínar kómískar tímasetningar og kostulegt fas. Sambýlismaðurinn Sveinn er ekki eins skýrt dregin týpa frá höfundarins hendi og Rúnar Freyr Gíslason nær ekki að berja í þá bresti. Samspil þeirra tveggja er afar vel unnið. Sigurður Hrannar Hjaltason er síðan ansi hreint sannfærandi sem Patrekur, sérstaklega líkamsmálið sem gaf bæði skýrt til kynna unglinginn og ofbeldismanninn.

Þýðing Davíðs Þórs er safarík og eðlileg, og erfitt að átta sig á því hvort eini gallinn á málfarinu sem ég kom eyra á – fullvitsmunalegt tungutak Patreks á köflum – væri hans verk eða höfundar.

Umgjörðin raunsæisleg og stýrist greinilega af farandeðli sýningarinnar. Kannski samt brotinu of fátækleg.

Patrekur 1,5 er ágæt skemmtun um alvöru efni. Ekki innantómur fíflagangur, ekki hátimbruð predikun. Gott leikhús.