miðvikudagur, mars 31, 2004

Stone Free

Sauðkindin, leikfélag Mennaskólans í Kópavogi
Félagsheimili Kópavogs miðvikudaginn 31. mars 2004

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Magnús Geir Þórðarson
Leikstjórn: Sverrir Árnason og Arnar Ingvarsson

Öld sakleysisins

AÐDRÁTTARAFL hippatímans er ótvírætt, og það birtist meðal annars í tíðum uppfærslum á leikritum, eða allavega söngleikjum, sem sýna tíðaranda tímabilsins. Sýning Sauðkindarinnar er önnur uppfærslan á hinu gallaða verki Cartwrights á nokkrum vikum, og Hárið bíður handan vorsins. Það er einhver háði blandin fortíðarþrá sem stýrir þessu verkefnavali, og ef hægt er að segja að einhver kjarni sé í lausbeislaðri revíu á borð við Stone Free þá er það einmitt svolítið angurvær söknuður eftir sakleysi hippatímans, meðan enn var hægt að tala um Ást og Frið með stórum stöfum, og trúa því að heimurinn hefði í raun breyst til hins betra. Þessi skilningur kemur alveg skýrt fram í sýningu Kópavogsmanna, jafnvel svo að boðskapnum var á köflum ýtt óþarflega kröftuglega að áhorfandanum.
Sauðkindin tekur djarfa ákvörðun þegar leikstjórn sýningarinnar er falin tveimur jafnöldrum hópsins sem hafa enga leikstjórnarreynslu, og varla mikla leikreynslu heldur. Því miður eru vankantar sýningarinnar augljósir og skrifast að miklu á reikning þessarar stefnu. Reyndar komast þeir vel frá umferðarstjórn verksins, mikill fjöldi aukaleikara er ágætlega nýttur til að skapa útihátíðarstemmningu og staðsetningar almennt fumlausar. Hins vegar hafa þeir ekki haft forsendur til að styðja leikarana við að skapa sterkar persónur eða hjálpa þeim sem minnsta reynslu hafa til að stíga sín fyrstu skref. Fyrir vikið verða fæstar persónurnar eftirminnilegar eða skýrar hjá hópnum. Einna best koma þau út Unnur Einarsdóttir Blandon sem hefur sterka sviðsnærveru sem nýttist henni vel í hlutverki kynnisins og Egill Viðarsson sem hinn ungi og ástfangni Al.

Tónlistin er í forgrunni í verkinu, enda gerist það á tónlistarhátíð. Hljómsveitin var kröftug og vel heima í þyngri hluta efnisskrárinnar, Steppenwolf og Jimi Hendrix, en tókst ekki að bregða sér á sannfærandi hátt í hlutverk mýkri spámanna á borð við Bítlana eða Small Faces, heldur bræddi þá í sama þungarokksmótið.

Stone Free er kröftug og litrík sýning hjá Sauðkindinni, en fer ekki á flug í meðförum hópsins, sem skrifast einkum á reikning reynsluleysis leikstjóranna. Þeir hafa vafalaust lært manna mest af þessari vinnu, og ekki annað að ætla en að næsta verkefni þeirra verði betur af hendi leyst, enda benda kostir sýningarinnar til þess að þeir hafi ýmislegt til brunns að bera.

föstudagur, mars 19, 2004

Stone Free

Leikfélag Vestmannaeyja og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum
Félagsheimili Vestmannaeyja föstudaginn 19. mars. 2004

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Magnús Geir Þórðarson
Leikstjóri: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson
Tónlistarstjóri: Sæþór Þorbjarnarson
Ljósahönnum: Hjálmar Brynjúlfsson
Leikmynd: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson
Búningar: Katrín Sjöfn Sigurbjörnsdóttir.

Á útihátíð í Eyjum

ÞAÐ er kraftur í Leikfélagi Vestmannaeyja þetta árið. Stone Free er önnur frumsýning leikársins og er bæði viðamikil, mannmörg og ágætlega heppnuð.

Reyndar stenst verkið alls ekki samanburð við helstu verk þessa vinsæla höfundar, það er nánast eins og það sé ekki alveg tilbúið af hans hendi. Höfundareinkennin eru þarna; kaldhamraður húmorinn, samúðin með smælingjunum og næm tilfinning fyrir því ljóðræna og skáldlega í tilraunum minnipokamannsins til að tjá sig. En verkið er svo brotakennt að það verður aldrei annað en röð af ósamstæðum sólónúmerum milli tónlistaratriða. Heildartilfinningin er ljúfsár söknuður eftir öld sakleysisins. Á útihátíðinni sem er rammi sýningarinnar eru allir glaðir, svífa um í bláum skugga eða hreiðra um sig með sælubros á flöskubotni. Ást, frjálst kynlíf, æska og sakleysi eru allsráðandi. Það er ekki fyrr en kynnir hátíðarinnar, yfirkominn af gleði, lýsir því yfir að héðan í frá geti lífið ekki annað en batnað og batnað sem við áttum okkur á því að þessi veröld er dæmd til að farast. John Lennon verður myrtur og önnur helstu goðin falla fyrir eitrinu eða mammoni. Heimurinn verður aftur harður og kaldur. Og nú er skollið á Víetnamstríð á nýjum stað.

Uppfærsla Guðmundar Lúðvíks er ágætlega af hendi leyst. Hann velur þá leið að leggja áherslu á léttleikann og grínið og verður það að teljast skynsamleg ákvörðun, þótt stundum sé ekki laust við að verið sé að skopast með einlægnina sem kemur niður á heildaráhrifunum þótt það skili skammtímagróða í hlátri. Eins velur hann að hafa hóp af hátíðargestum í þöglum (eða því sem næst) hlutverkum, en nýtir þennan hóp ekki sem skyldi. Á hinn bóginn er vel skipað í stöður í talhlutverkum og enginn sem veldur ekki því sem hann þarf að gera. Hljómsveit sýningarinnar stendur sig mjög vel og bregður sér í gervi hinna ýmsu hippabanda með sóma.

Af leikurum er ófært annað en að vekja sérstaka athygli á frammistöðu Zindra Freys Ragnarssonar, sem fer með tvö viðamikil hlutverk. Hann er hlægilegur (jafnvel um of) sem skakkur og skældur kynnir, en fer á algjörum kostum sem ferðalangurinn sem segir sögu hippatímans með sinni eigin ferðasögu frá Lancashire til Himalæjafjallanna og aftur til baka. Verulega eftirminnileg frammistaða. Þær Astrid Lisa Ingvadóttir og Kristín Grímsdóttir geisla af ást og friði sem Lola og Patsy og Vilhjálmur Bergsteinsson er bráðhlægilegur vítisengill, en þyrfti að taka sér tak í framsagnarmálum.

Heilt yfir er Stone Free eins góð sýning og efnið og aðstæðurnar leyfa og aðstandendum sínum á öllum póstum til sóma. Vera má að þessum kröftum hefði verið betur beint að verðugra efni, en það þýðir ekkert að fást um það. Þetta var vel af hendi leyst.

föstudagur, mars 12, 2004

Lodd

Á Herranótt
Tjarnarbíói föstudaginn 12. mars 2004

Sýning unnin af hópnum með hliðsjón af kvikmyndinni "The Impostors".
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson.

Á sjó

SKIPULAGT kaos er helsta höfundareinkenni sýninga Agnars Jóns Egilssonar með áhugaleikfélögum landsins. Reyndar á óreiðan það til að taka yfir þannig að efni og skemmtunin hverfur á bak við fyrirgang og hávaða. En þegar hann hittir á rétta jafnvægið milli skipulags og taumleysis þá er útkoman ansi mögnuð, og Lodd hjá Herranótt er að langmestu leyti á réttu róli hvað þetta varðar.

Sagan er sótt í kvikmyndina The Impostors, sem ég þekki hvorki haus né sporð á en á því mun ég ráða bót hið bráðasta, því atburðarásin er skemmtileg, persónugalleríið skrautlegt, og svo er náttúrulega mikil skemmtun fólgin í að bera saman aðferðir og árangur Agnars og hans fólks við frammistöðu Stanley Tucci og liðsmanna hans.

Hér segir frá tveimur atvinnulausum leikurum í lauslega skilgreindri fortíð, sem lenda sem laumufarþegar á millilandaskipi eftir að hafa ranglega verið sakaðir um að reyna að nauðga frægri leikkonu, sem að sjálfsögðu er um borð ásamt með endalausu safni af furðufuglum sem flestir hafa eitthvað misjafnt á prjónunum. Leikararnir tveir hringsnúast síðan í iðuköstum þessara áforma, á stöðugum flótta undan hinni illvígu dívu og áhöfninni sem helst vill skjóta þá á færi.

Það gengur mikið á í Lodd eins og gefur að skilja, en umferðarstjórn og sviðsetningin er afbragðsvel skipulögð án þess að það setji of strangar hömlur á kraftinn og fjörið í leikhópnum. Það eina sem dregur úr ánægjunni er að hraðinn er eiginlega of mikill og jafn, það er aldrei tími til að draga andann, hvorki fyrir leikhópinn né áhorfendur og því missum við svolítið sambandið við persónurnar, samúðin með leikurunum tveimur myndast ekki, og við það glatast nokkuð af áhrifunum.

Leikhópurinn er afar vel skipaður þó fjölmennur sé og margir glansa. Hilmir Jensson og Sigurður Arent Jónsson eru hreint afbragð sem leikararnir tveir og Sunna María Schram dýrðleg í hlutverki stórstjörnunnar. Aðrir sem lifa í minninu eru til dæmis Margrét Erla Mack sem leiklistarkennari frá helvíti og ofdekruð prinsessa frá sömu slóðum. Þá var Ásgeir Pétur Þorvaldsson öflugur sem yfirþjónn með kvalalosta.

Hljómsveitin Dixielanddvergarnir bjó sýningunni lifandi og skemmtilega hljóðmynd.

Lodd hjá Herranótt er mikið sjónarspil, framreitt af krafti leikhópsins og skapað af hugmyndaauðgi hans og leikstjórans. Útkoman er lifandi leikhús, og bráðskemmtilegt.

fimmtudagur, mars 11, 2004

Korter

Höfundaleikhús Dramasmiðjunnar
Iðnó, mars 2004

Höfundur: Kristín Elva Guðnadóttir, leikstjóri: Þórunn Sigþórsdóttir, útlit: Rebekka A. Ingimundardóttir, leikendur: Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Hjalti Rögnvaldsson og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.

Ólifað líf

HÖFUNDASMÍÐI hefur lengi verið ein af ástríðum Hlínar Agnarsdóttur. Hún hefur stýrt höfundastarfi í báðum stóru leikhúsunum en er nú flutt í sitt eigið, hlúir að nýgræðingum í leikritaskrifum í Dramasmiðjunni, sem þær Margrét Ákadóttir starfrækja og bjóða upp á námskeið í flestum greinum leiklistar og aðra leiklistartengda þjónustu. Nú stendur Dramasmiðjan fyrir höfundaleikhúsi í Iðnó sem er vitaskuld frábært framtak og kærkomin viðbót við þær leiðir sem íslensk leikskáldaefni hafa til að þjálfa sig og koma verkum sínum á framfæri.

Korter eftir Kristínu Elfu Guðnadóttur er það fyrsta af fimm verkum sem verða sýnd í Iðnó fram á vor og eru afrakstur starfsins í Dramasmiðjunni. Það er einnig fyrsta verk höfundar í þessu formi og ber þess nokkur merki, bæði í jákvæðri og neikvæðri merkingu.

Í verkinu eiga áhorfendur stefnumót við miðaldra karlmann í tilvistarkreppu. Hann dreymir um hetjulegt líf, frægð, sitt "korter", en hefur ekki einu sinni staðið undir þeim lágmarkskröfum að bregðast ekki sínum nánustu. Drykkja og ofbeldi hröktu konuna frá honum, dóttirin sem býr hjá honum nýtur engrar ástar eða athygli. Á þeim þremur korterum (eða þar um bil) sem sýningin tekur veltir maðurinn sér upp úr lífskrísu sinni með hjálp annarrar leikpersónu sem trúlega er bæði hann sjálfur áður en lífið sneri hann niður og hans innri maður, krafturinn og lífsviljinn sem hann er ekki í snertingu við.

Kristín Elfa er eins og nýgræðingum er tamt ófeimin við að beita öllum brögðum til að koma efni sínu til skila. Framvindan er óbundin tíma og rúmi á skyldan hátt og Arthur Miller beitti í Sölumaður deyr, áreiðanlega ekki tilviljun, svo mjög sem aðalpersóna Korters er af ætt og kyni Willy Loman. Hér er líka beitt röddum af bandi til að tjá hugsanir, atlögu að skáldlegu líkingamáli í tali um aspir og rótarkerfi þeirra og ránfugla á músaveiðum. Og í dramatískum hápunkti verksins hikar Kristín ekki við að beita melódramatískum brellum til að láta persónu sína loksins horfast í augu við afleiðingar skeytingarleysis síns. Öllum þessum meðölum beitir höfundurinn af þónokkru öryggi, þó deila megi um hvort svo stutt leikrit græði á svo mörgum vopnum á lofti.

Verra er að þrátt fyrir hvað höfundinum liggi augljóslega mikið á hjarta og komi því á framfæri af öllum kröftum þá vantar að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir aðalpersónunni. Þetta stafar sumpart af því hve meðvituð persónan er um lífskrísu sína og hve viljug hún er að ræða hana opinskátt og hispurslaust við sinn innri mann, verkið verður því engin opinberun fyrir manninn. Annað sem stendur Korteri fyrir þrifum er að vandamálin eru rædd á almennum nótum, en verða aldrei að sértæku persónulegu stríði mannsins við sjálfan sig. Efni Korters er ágætlega fært í leikbúning, en efnistökin eru hvað varðar innihaldið óleikræn. Án efa mun þessi fyrsta reynsla Kristínar Elfu af vinnu í leikhúsinu hjálpa henni í átt að lífrænni leikritun, því það er ekki fyrr en á sviðinu sem efnið lifnar við, eða ekki.

Sviðssetning Þórunnar Sigþórsdóttur er ágætlega af hendi leyst og meira í hana og útlit sýningarinnar lagt en strangt tekið er hægt að ætlast til af svona útgerð. Hjalti Rögnvaldsson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson flytja texta Kristínar af myndugleik, en tekst ekki að gera hann að sértækri persónulegri tjáningu. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir komst í raun miklu nær því í smámyndum sínum af eiginkonu og dóttur, og hellti sér inn í tilfinninguna á fyrrnefndum melódramatískum hápunkti af miklu örlæti, sem vitaskuld er eina leiðin í þess háttar atriðum.

Kristínu Elvu Guðnadóttur er óskað til hamingju með frumburðinn og velfarnaðar í áframhaldandi glímu við form og innihald. Annmarkar eða ekki, Korter hefur ært upp í manni sultinn og forvitnina. Það er önnur frumsýning í höfundaleikhúsi Dramasmiðjunnar um næstu helgi.

laugardagur, mars 06, 2004

Þrjár Maríur

Strengjaleikhúsið, í samvinnu við Borgarleikhúsið
Litla svið Borgarleikhússins laugardaginn 6. mars 2004

Höfundur: Sigurbjörg Þrastardóttir
Leikstjóri: Catriona Macphie
Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir
Tónlist og leikhljóð: Kjartan Ólafsson
Lýsing: David Walters,
Kórsöngur: börn úr Skólakór Kársness
Leikari: Kristjana Skúladóttir
Rödd af bandi: Björn Hlynur Haraldsson.

María, María...

SIGURBJÖRG Þrastardóttir vakti fyrst athygli mína þegar ég sá sýninguna Uppistand um jafnréttismál hjá Leikfélagi Akureyrar, en þar skar þáttur hennar, Maður & kona: Egglos, sig úr fyrir frumlega notkun á meðulum leiksviðsins og var í raun sá eini þar sem bauð upp á annað og meira en skemmtilegan textaflutning. Í þessu nýja verki heldur hún áfram með leik að eintalsforminu og efnið er líka á svipuðum miðum: ástin á okkar tímum, barneignir og staða konunnar í þeirri kynjaveröld sem við búum í.

Hér er þó öllu meira efni dregið saman. Í verkinu er Maja Storm, ung leikkona, að búa sig undir að leika Maríu Stúart í samnefndum harmleik Schillers. Hin ógæfusama Skotadrottning sækir vitaskuld mjög á leikkonuna, en það gerir líka nafnmóðir hennar María Magdalena og svo díva aldarinnar, María Callas, en elskhugi Maju, leikstjórinn Will, er einmitt með kvikmynd um Callas á prjónunum. Maja hefur einangrað sig frá heiminum með hlutverkið en hún er samt langt í frá einsömul, hún ber barn þeirra Wills undir belti. Hann er hins vegar fjarri góðu gamni, er heima að sinna fársjúkri og mögulega dauðvona eiginkonu sinni meðan Maja veltir fyrir sér möguleikum sínum, hvort hún geti eða vilji eiga barnið, hvort og hvað hún segi Will, og skoðar sig og líf sitt í þeim speglasal sem Maríurnar þrjár og líf þeirra verður henni.

Verk með slíku efni setur leikhúsgestinn í ákveðnar stellingar sem kannski eru ekki sérlega hollar fyrir samband leikara og áhorfanda. Hér er verið að vinna með bókmenntalegar, trúarlegar og menningarsögulegar vísanir á hugmyndalegu plani sem getur auðveldlega sett vitsmunina í öndvegi, gert þeim að stýra upplifuninni. Þessi grundvallarhugmynd um Maríurnar þrjár hefur við sig snert af tilgerð sem sýningunni tekst ekki alveg að kveða niður. Og þótt saga, reynsla og söguleg og félagsleg umgjörð þeirra varpi að einhverju leyti ljósi á ungfrú Storm þá þvælist hún líka fyrir og þegar upp er staðið er það einkum aðalpersónan sem er óljós; hvernig hún hugsar, hvað hún vill, hvernig henni líður. Og einhver hugmyndaleg hreinlífisstefna hefur fengið Sigurbjörgu til að þurrka út allt sem gæti sagt okkur eitthvað um bakgrunn hennar. Við vitum ekki hvort hún er góð leikkona, hvort hún er vel eða illa stæð, við hvaða aðstæður hún er að fara að leika Maríu Stúart. Við vitum ekki einu sinni hvar í heiminum hún býr, eins og það skipti engu máli í þeirri ákvörðun hennar hvort hún vilji eignast barn eða eyða fóstri. Við vitum meira um hina ósnertanlegu dívu Maríu Callas, og jafnvel um hina ósýnilegu Maríu Magdalenu en þessa samtímakonu okkar sem allt snýst þó um. Afleiðingin er sú að okkur er sama um hana, hvaða ákvarðanir hún tekur og hvers vegna.

Góðu fréttirnar eru svo aftur þær að þótt Sigurbjörg velji að færa okkur efni sitt á þennan hátt þá er texti hennar firnagóður. Hún er mikið prýðisskáld og kann líka að byggja upp, skapa spennu og tryggja fjölbreytni sem ekki er alltaf einfalt í einleikjum af þessari stærðargráðu. Sigurlaug hefur aðdáunarvert vald á eintalsforminu. Sýningin heldur enda algerlega athygli, skemmtir og fræðir og getur örugglega líka kveikt ólíklegustu hugsanir. Þetta er sýning sem gaman er að tala um, full af hugmyndum og álitamálum.

Kristjana Skúladóttir vinnur sigur með flutningi sínum á verkinu, kemur því til skila með að því er virðist áreynslulausu öryggi. Allt stendur og fellur með henni. Best er hún í þeim atriðum þar sem hún bregður sér í gervi Maríanna þriggja og samferðamanna hennar, hvort sem það er nýupprisinn Kristur eða fimmtán ára franskur prins á brúðkaupsnóttina. Frásagnarmáti þessara atriða og skopið í þeim hentar Kristjönu greinilega vel. Það var göldrum líkast að sjá hana breytast í Maríu Callas, sem ég held að hún líkist ekkert sérstaklega. Hefði þó kosið að hún léti vera að búa sér til hreim til að flytja ráðleggingar sóprennunnar um börn sem hraðahindranir á framabrautinni. Leikstjórnarvinna Catrionu Macpie hefur greinilega stutt Kristjönu til að skila sinni bestu frammistöðu núna þegar hún glímir við sitt stærsta hlutverk til þessa.

Björn Hlynur Haraldsson er rödd Wills, en tölvuskeyti hans berast Maju með reglulegu millibili. Þau eru því miður alveg sérlega flatneskjuleg, sem hægt er að fyrirgefa, en óskýr framsögn lýtir þau líka, sem er ekki í lagi.

Umgjörð sýningarinnar er ákaflega vel heppnuð, stílhrein og tjáningarrík. Á það bæði við um útlitshönnun Messíönu Tómasdóttur með sínum fallegu formum og gegnsæju hlutum, magnaða lýsingu Davids Walters og áhrifaríka hljóðmynd Kjartans Ólafssonar. Hér hefur verið nostrað við hvert smáatriði og allt styður þetta skýrleikann og fágunina sem einkennir framgöngu leikkonunnar.

Sýning Strengjaleikhússins vinnur með því einkenni verksins að vera hreint, vitsmunalegt og hugmyndabundið. Útkoman er skýr sýning á verki sem vinnur sér sess í hugsuninni en nær því miður ekki til hjartans. Það skrítna er að það er eins og hún hafi ekki áhuga á því.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi

Möguleikhúsið
Möguleikhúsinu við Hlemm fimmtudaginn 4. mars 2004.

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Bjarni Ingvarsson
Búningar: Helga Rún Pálsdóttir
Leikmynd og leikmunir: Bjarni Ingvarsson og Helga Rún Pálsdóttir
Leikarar: Alda Arnardóttir, Pétur Eggerz og Valur Freyr Einarsson.

Hvað er best að borða?

Á STUTTUM og fáskrúðugum ferli mínum sem áhorfandi að barnasýningum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að börn koma ekki í leikhús til að hlæja. Samt eru nánast öll barnaleikrit útötuð í bröndurum: orðaleikjum, farsakenndri atburðarás og trúðskum uppátækjum af ölllu tagi. Alla jafnan sitja börnin bara og gapa, eða öskra og æpa þegar spennan verður illbærileg. Stundum gráta þau. En fullorðna fólkið hlær. Ég held reyndar að margir barnaleikritahöfundar séu búnir að átta sig á þessu og matreiða grínið fyrst og fremst með foreldrana í huga, skrifa þá til að hafa ofan af fyrir þeim eldri meðan börnin einbeita sér að því sem þau vita að skiptir mestu máli: sögunni.

Þessi tilfinning var mjög sterk á frumsýningunni á Hatti, Fatti og Siggu sjoppuræningja. Prýðilegir orðaleikirnir sem Ólafur hefur útbúið handa þeim félögum skemmtu foreldrunum meðan börnin fylgdust með framvindunni og lærðu um raunir þeirra sem ekkert éta nema sætindi. Ekkert í ólíkindalegum búskap hinna geimversku sígauna kom þeim þannig séð á óvart, allt er samþykkt um leið og það er borið fram. Þeir borða krókódílahala og engisprettur, hvað með það? Áfram með söguna! Það var helst þegar gosþamb Siggu sjoppuræningja fór að valda henni alvarlegum vindverkjum að ungviðið skellti upp úr. Hvaða lærdóm má draga af því? Jú: enginn stenst kúk- og pisshúmor, ekki einu sinni börnin.

Þetta leikrit um Hatt og Fatt er mun betra en en hitt sem ég hef séð og er að því ég best veit það eina annað sem Ólafur hefur skrifað fyrir svið um þessa ágætu menn. Þar var verkið lítið annað en afsökun fyrir því að syngja nokkur af þekktustu lögum félaganna. Hér er hins vegar bæði saga, ný lög og boðskapur. Þessir sjálfsþurftartrúðar fá nefnilega í heimsókn Siggu nokkra sjoppuræningja, sælgætisgrís á flótta undan réttvísinni. Löggan nær henni ekki, en fylgifiskar sætindaátsins grípa hana og Hattur og Fattur þurfa að leysa hana úr klóm þeirra, sem ekki er þrautalaust fyrir aumingja Siggu. Mórallinn: barnið lifir ekki á mæru einni saman. Ágætis boðskapur það þó honum sé kannski haldið á lofti af fullmiklu offorsi hér.

Pétur og Valur Freyr eru ágætlega sniðnir í hlutverk Hatts og Fatts. Pétur sem stór og valdsmannslegur Hattur, Valur sem hlægilega einfaldur Fattur. Alda Arnardóttir fær ekki eins traustan efnivið sem hin einæðingslega Sigga, gaf okkur líka kannski of snemma upp að hún væri fremur lítil í sér. Best var hún í lokagervinu þegar Sigga er búin að dulbúa sig sem tröll, en verður að játa sig sigraða af tannpínunni.

Umgjörð, gervi og leikmunir eru falleg og hugvitsamleg og bættu miklu við upplifunina.

Hattur og Fattur og Sigga sjoppuræningi er snotur lítil sýning sem gleður augað, heldur börnunum, innprentar þeim góða siði og hlægir foreldrana. Ágætis dagsverk hjá tveimur auðnuleysingjum og einum afbrotaunglingi.