sunnudagur, febrúar 25, 2007

Bar Par

NASA
Nasa 25. febrúar 2007

Höfundur: Jim Cartwright, þýðandi: Guðrún J. Bachmann, leikstjóri: Gunnar Gunnsteinsson, leikmynd: Vignir Jóhannsson, búningar: María Ólafsdóttir.
Leikendur: Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og Steinn Ármann Magnússon.

Kráarsamfélag


VIÐ fyrstu sýn gæti Bar Par virkað sem hið fullkomna viðfangsefni fyrir þessa leikara, og þessar forsendur. Tveir dáðir grínistar, fullt af skrítnum týpum, fyndinn texti, gerist á bar, tækifæri til að „fara á kostum“.

Verkið segir semsagt frá hjónum sem reka bar, eða réttara sagt enskan pöbb, og gestunum sem þangað reka inn nefið. Mikið og skrautlegt gallerí kemur fram, og svo er greinilega eitthvað í fortíð bar-parsins sjálfs sem hefur eitrað samband þeirra árum saman, og hlýtur að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Og allt er þetta leikið af tveimur leikurum.

En ekkert gerist af sjálfu sér, og því miður eru þess of skýr merki í sýningunni að hér hafi bæði verið kastað til höndum og dómgreindarskortur ráðið för.

Fyrir það fyrsta þá liggur styrkur þeirra Steins Ármanns og Guðlaugar sem gamanleikara að mínu mati alls ekki í því að skapa fjölbreyttar persónur á skýran og trúverðugan hátt. Sem er grundvallaratriði. Þau hafa ýmislegt með sér sem gamanleikarar. Tímasetningu, sviðssjarma og tækni. En þetta geta þau ekki. Guðlaug er skondin sem fávís ljóska með fjölþreifinn mann, en gamlar kellingar og kúgaðar konur eru ekki í galleríinu hennar. Og auðvitað er hlægilegt að sjá Stein taka töffaratakta, eða láta sem hann, erkitöffarinn, sé pínulítill kall. En hann getur ekki stillt sig um að reyna líka að vera fyndinn sem ofbeldismaðurinn, og drepur þá mögnuðu senu fyrir vikið.

Bæði eru þau síðan úti að aka í hinum dásamlega tvíleik geðfötluðu fitukeppanna. Fráleit gervin hjálpuðu vitaskuld ekki neitt.

En verst er þó að það er meira í verkinu en tóm fíflalæti, og á því prófi falla þau bæði, en þó einkum leikstjórinn. Hér er áreynslan við að skemmta áhorfendum alltof sýnileg, sem sprengir botninn á verkinu, sem fyrir vikið verður hvorki áhugavert né fyndið. Áreynslan verður of mikil. Þetta kemur verst niður á hinum klisjulega dramatíska hápunkti, helstu synd höfundarins. Afhjúpun fjölskylduleyndarmálsins mikla í lífi parsins sem rekur barinn krefst þess af leikurunum að þau lifi þjáninguna í botn, séu einlæg og heit í túlkun sinni á melódramanu. Allt annað mun virka eins og svik.

Og þannig virkaði uppgjörið á frumsýningunni. Lengst af stóðu leikararnir ekki með persónunum sínum, heldur vildu fyrst og fremst sýna okkur hvað þær væru hlægilegar. Og þegar til átti að taka voru engar persónur til að túlka, heldur bara skopmyndir sem enginn leið var að finna til með.

Hráslagaleg og vanhugsuð umgjörðin hjálpaði ekki, né heldur skortur á snerpu í skiptingum sem vel má vera að náist að laga síðar.

Ég efast samt um að rútínering sýningarinnar nái að eyða þeirri óþægilegu tilfinningu að hér hafi verið kastað til höndunum listrænt séð, í von um að búa til kassavænt skemmtiefni. Sem lýsir aftur ótrúlegri glámskyggni á hina húmanísku ljóðrænu í verkinu sem hér mistekst að miðla áhorfendum.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Sextán

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands. Höfundur: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjóri: Selma Björnsdóttir. Aðstoðarleikstjórar: Rúnar Freyr Gíslason og Nanna Kristín Magnúsdóttir. Tónlistarstjórar: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Vignir Snær Vigfússon. Austurbæ 21. febrúar 2007.

Gelgja


ÞAÐ GÓÐA við nýjustu stórsýningu Verzlunarskólans er að helstu einkenni þessa merka menningarfyrirbæris eru á sínum stað. Hér er söngur og dans af þeim gæðastaðli að undrun og aðdáun vekur í hvert sinn, sérstaklega þegar mannmergðin á sviðinu er skoðuð. Þá bætir leikurinn það upp með krafti og skýrleika sem hann skortir kannski í dýpt og innlifun, og svei mér þá ef þetta er ekki jafnbest leikna Verzlósýning sem ég hef séð og á að auki sína stjörnu í Ólöfu Jöru S. Valgeirsdóttur, sem fer með aðalhlutverkið af miklu öryggi og sviðssjarma. Verzlingar hafa hins vegar aldrei komist upp á lag með að gera nothæfar leikskrár, þannig að ekki verður gerð tilraun til að ráða í leikaramyndir til að útdeila frekara lofi. Nema þá til leikstjórans sem hefur unnið gott verk. Þó verðskuldar hrós drengurinn sem lék hin síbjartsýna lúða Gogga, hvað sem hann heitir.

Það sem helst reynist sýningunni mótdrægt í að heilla mann er því miður handritið. Það fylgir að sönnu þeirri formúlu sem hefur verið brúkuð undanfarin ár, að flétta sögu í kringum nokkur vinsæl lög, gjarnan þematengd. Vinnubrögð sem ættu að henta skopskyni og hæfileikum Gísla Rúnars einkar vel. En því miður er fléttan svo losaraleg að sagan vekur aldrei áhuga og söngtextarnir við lögin (íslensk dægurlög að þessu sinni) ýmist látnir óbreyttir, sem oft verður ankannalegt, eða þá skortir þá hugkvæmni sem ætlast má til af jafnsnjöllum textasmið.

Verst er þó að persónurnar eru nánast undantekningarlaust svo grunnhyggnar, sjálfhverfar, fordómafullar og jafnvel illgjarnar að það er erfitt að hafa með þeim samúð eða á þeim áhuga. Húmorinn í samtölunum stígur of oft niður úr leyfilegri lágkúrunni og verður óþægilega andstyggilegur. Kannski er ég að verða gamall. En hvað, ég er yngri en Gísli.

Þessi glæsilegi og hæfileikaríki hópur á betra skilið. Sérstaklega þegar litið er til þess hvað þeim tekst að skila gölluðum efnivið af miklum sannfæringarkrafti sem fleytir sýningunni upp í það að vera ágætis skemmtun, einkum í söng- og dansatriðum.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Einn voða ástsæll


20. feb 2007


Þórhallur Sigurðsson, Laddi, heldur upp á sextugsafmæli sitt á viðeigandi hátt í Borgarleikhúsinu um þessar mundir; með yfirlitssýningu frá sínum einstaka grínferli.

Laddi er auðvitað þjóðargersemi og stemningin var þannig á frumsýningunni á Laddi 6-tugur. Þangað voru gestir komnir til að hylla hann og samfagna honum. Það að hann næði að kitla hláturtaugarnar einu sinni enn var nánast eins og aukageta. Svona sýning er nánast óhjákvæmilega byggð upp af eldra efni (þó undirritaður hafi reyndar ekki nægilega yfirsýn yfir smáatriði í ferli Ladda til að fullyrða um það), og grín er yfirleitt ekki ýkja fjölnota. En auðvitað var líka hlegið, og það nánast uppstyttulaust. Enda er maðurinn meistari.

Fyrst og fremst er hann auðvitað meistari persónusköpunar enda voru þau öll mætt, Elsa Lund, Marteinn Mosdal, Hallgrímur ormur, Denni, Þórður húsvörður, Stefán á Útistöðum, Saxi læknir, séra Svavar og meistarastykkið Eiríkur Fjalar. Það er umhugsunarefni að Laddi virðist ekki eiga sér neinn augljósan arftaka í þessu formi, þó grínframleiðsla standi í sjaldgæfum blóma nú um stundir. Sigurður Sigurjónsson er svo til eini maðurinn sem hefur viðlíka tök á persónusmíðinni. Vonandi hverfur þessi list samt ekki alveg úr flórunni þegar þeir tveir draga sig í hlé. Þetta er nefnilega mikil og skemmtileg kúnst og gefur þegar best lætur ýkta og eftirminnilega mynd af persónueinkennum sem allir kannast við, ef ekki hjá sjálfum sér þá örugglega í samferðamönnum sínum.

Það sést best í síðari hluta dagskrárinnar þegar Laddi birtist loksins „sem hann sjálfur“, með hefðbundið en vel útfært uppistand. Þá gerist það í tvígang að hann bregður sér í annað hlutverk fyrir framan áhorfendur og sú umbreyting er mögnuð. Ég get svarið það að hann bætti á sig tíu kílóum af vöðvamassa á fimm sekúndum sléttum, við það að taka á sig mynd Bubba Morthens.

Samverkamenn hans í sýningunni skila sínu líka vel. Steinn Ármann er verulega flinkur „straight man“, gaman er að sjá Halla aftur og tveggja manna sena með Ladda og Eggerti Þorleifssyni er eins og nærri má geta ekkert slor.

Þetta er sem sagt ansi hreint skemmtilegt. Og fyrir utan það hvað Laddi er frábær þá vakti kabarettformið spurninguna: hvers vegna er ekki meira af svona sýningum? Laustengdum og einföldum með stuttum leikatriðum, tónlist og öðru gríni? Mætti meira að segja gjarnan innihalda ádeilubrodda. Þetta er vitaskuld mun handhægara og sveigjanlegra form til að taka á samtímanum en þungskreiðar leiksýningar sem taka óratíma í vinnslu og leikrit í hefðbundnum stíl sem lítill vegur er að breyta til að bregðast við viðburðum. Ég sá því miður ekki „Best í heimi“ en af lýsingum að dæma var það sýning af skyldum toga og vel heppnuð sem slík. En það ætti að vera regla fremur en undantekning að kabarett sé á fjölunum í borginni.

Auglýsi hér með eftir því að einhverjir framtakssamir leikhúsfrömuðir kalli saman svona hóp og við fáum sprellfjörugan kabarett um ástandið í þjóðarsálinni á vordögum. Þangað til er um að gera að heimsækja Borgarleikhúsið og samfagna Ladda 6-tugum. Takk fyrir mig.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Abbababb

Á senunni og Hafnarfjarðarleikhúsið. Höfundur: Gunnar Lárus Hjálmarsson. Leikstjóri: María Reyndal. Dansar: Lára Stefánsdóttir. Leikmynd: Linda Stefánsdóttir. Búningar: Dýrleif Ýr Örlygsdóttir og Margrét Einarsdóttir. Lýsing: Lárus Björnsson og Garðar Borgþórsson. Hljómsveit: Gunnar Lárus Hjálmarsson, Birgir Baldursson og Elvar Geir Sævarsson. Leikendur: Atli Þór Albertsson, Álfrún Örnólfsdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson, Orri Huginn Ágústsson, Sigurjón Kjartansson og Sveinn Geirsson. Hafnarfjarðarleikhúsinu 14. febrúar 2007.

Gleðiefni 


SÝNINGAR eins og Abbababb eru eins og pönkið. Þær afvopna alvarlega þenkjandi gagnrýnendur, hrifsa af þeim fagurfræðileg og fagleg viðmið og neyða þá til að einbeita sér að því sem á endanum skiptir auðvitað mestu máli í listum: að njóta þess sem í boði er.

Þannig að það verður algert aukaatriði að sagan sem Dr. Gunni hefur soðið saman til að tengja helstu lög af hinni vinsælu samnefndu barnaplötu er á köflum svolítið bláþráðótt, einkum í lokin þegar þarf að hnýta lausu endana hratt og vel. Miklu meira máli skiptir að hinar ýmsu aðstæður sem söguhetjurnar lenda í eru sniðugar hver fyrir sig. Og þó hinn ofvirki leikstíll sem María Reyndal leggur til grundvallar geti tekið á taugarnar þá yfirvinnur sjarmi persónanna og túlkenda þeirra þau vandkvæði.

Abbababb færir gesti sína aftur í (diskó) tímann og segir frá vinahópi lítilla krakka og árekstrum þeirra við helstu ógnvalda tímans: sovéska heimsveldið og stóru strákana. Það er gaman að rifja upp tíðarandann og ætti að hafa ofan af fyrir foreldrunum meðan börnin einbeita sér að ævintýrum krakkanna. Þau ganga að mestu út á að hafa uppi á stolnu dínamíti áður en þjófar þess ná að fremja hryðjuverk í hverfinu. Svo laumast lítil ástarsaga inn í fléttuna og er kannski snotrasti partur sýningarinnar frá leikritunarsjónarhólnum.

Tónlistin er síðan kveikjan að öllu saman. Dr. Gunni hefur afar persónulegan stíl sem lagahöfundur, bestur að mínu mati þegar hann er hvað melódískastur og rambar á klisjubrúninni. Lokasöngur sýningarinnar þykir mér til dæmis til mikillar fyrirmyndar. Mér þykir doktorinn hins vegar betri textahöfundur en svo að hann þurfi að ofnota það stílbragð að láta áherslur falla vitlaust í orðum eins og hann gerir mikið af og að því er virðist vísvitandi.

Hljómsveitin er þétt og skemmtileg og söngur kraftmikill og lifandi. Ekki veikur hlekkur þar. Eins þóttu mér dansar Láru Stefánsdóttur bráðskemmtilegir.

Aðalhlutverk sýningarinnar eru í höndum þriggja leikara sem öll standa sig vel. Fyrrnefnd ofvirkni er reyndar dálítill ljóður á ráði Jóhanns G. Jóhannssonar og Álfrúnar Örnólfsdóttur, síður áberandi hjá Orra Hugin Ágústssyni enda persónan kannski aðeins bitastæðari en hinar og því aðeins minni ástæða til að vera á sífelldu iði.

Sjoppukallinn Herra Rokk er svo sannarlega í öruggum höndum hjá Sigurjóni Kjartanssyni, en hann bregður sér líka í hlutverk bleiubarns og hunds og leysir það líka vel þó hinn góðhjartaði rokkari sé meiri heimavöllur fyrir þennan flinka grínista.

Einhver besta hugmynd verksins er að gera ógnvaldana miklu, stóru strákana, að diskóboltum þegar klisjan kallaði á skítuga pönkara. Enda leiðist þeim Atla Þór Albertssyni og Sveini Geirssyni ekki hætishót að leika þá Steindór og Gulla. Þá er Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir einkar sannfærandi sem hin gelgjulega Systa, í raddbeitingu og líkamstjáningu sem er vel studd af sennilega best heppnaða búningi sýningarinnar. Búningar þeirra Dýrleifar og Margrétar eiga stóran þátt í að búa til kæruleysisblæinn á sýningunni, en á heildina litið þótti mér nú óþarflega klasturslegur blær á þeim. Aukapersónurnar sem þau Atli, Sveinn og Jóhanna túlka liðu svolítið fyrir þetta, en kom ekki svo að sök.

Leikmynd Lindu Stefánsdóttur sýndist mér þénug, einkum kofi krakkanna og ruslahaugurinn, sjoppan og skólinn kannski aðeins minna skemmtileg.

En vankantar skipta ekki máli í þessu samhengi. Abbababb er fjörug stuðsýning sem ætti að kæta bæði börn og fullorðna. Sniðuglega samin utan um skemmtileg lög og ágætlega framreidd af leikurum og aðstandendum öllum.

föstudagur, febrúar 02, 2007

50 Ways to Leave your Lover

Austurbær. Höfundur og leikari: Ólafur S.K. Þorvaldz. Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson. Austurbæ 2. febrúar. 2007

Niður til heljar, hérumbil 


ÓLAFUR S.K. Þorvaldz hefur ýmislegt með sér. Hann er til dæmis talsvert sannfærandi leikari, allavega í þessari sýningu. Hann greinir skýrt á milli persónanna tveggja, hins látna og þess lifandi. Kortleggur ágætlega ferð hins seinheppna unglings niður í martröð dóms og fangavistar og hefur líka skemmtileg lausatök á samskiptum við áhorfendur í hlutverki sama manns framliðins. Skematísk teikning leikstjórans á aðgreiningu þessara hlutverka er næsta óþörf þegar leikarinn sinnir því verkefni jafn skýrt og hér er raunin.

Og svo er hann að ég held bara nokkuð efnilegur leiktextahöfundur. Það birtist einna helst í upphafinu, þar sem teikning hans á persónunni og lýsingin á samdrætti söguhetjunnar og hinnar örlagaríku hjásvæfu er alveg afbragð. Skýrt, sérkennilegt og skáldlegt. Ég vona að Ólafur haldi áfram að skrifa. Gott ef það er ekki sjónarmun mikilvægara en að hann haldi áfram að leika.

En svo hallar dálítið undan fæti. Hin efnilega saga um ungmennið á útihátíðinni glutrast niður í gelgjulega fangelsisfantasíu með tilheyrandi þráhyggju um endaþarmsnauðganir, geðlyfjarúss og klisjukennda einsemd. Það verður lítið annað úr framvindu. Og vafalaust þykir höfundinum djarft af sér að láta stóru spurningunni ósvarað: hver drap stúlkuna? Nema hvað hann ljóstrar því upp í leikskránni að það var ekki söguhetjan, sem er ennþá í leikslok einna grunsamlegastur.

Sjálfsagt er það lítilmótlegt að vænta svars við því hver framdi glæpinn. Hinsvegar er sanngjarnt að krefjast áhugaverðari útkomu af ferðalagi hetjunnar niður til heljar. Sérstaklega þegar glefsur af textanum eru jafn lofandi og hér, og leikarinn jafn augljósum hæfileikum gæddur.