sunnudagur, febrúar 27, 2005

Taktu lagið Lóa!

Freyvangsleikhúsið
Freyvangi 27. febrúar 2005

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson

MEÐ Taktu Lagið Lóa fer Jim Cartwright inn á nokkuð aðrar brautir en þær sem höfðu vakið athygli á honum í verkum á borð við Stræti og Bar Par. Í stað laustengdra atriða þar sem smámyndum af fjölda persóna er brugðið upp af ljóðrænni nákvæmni án þess að framvinda sé áberandi velur hann að skrifa fámennt hefðbundið leikrit, nokkurs konar tilbrigði við Öskubusku, um unga stúlku með einstæða hæfileika sem fólk í kringum hana vill nýta í sína þágu. Persónugalleríið er af sama tagi og áður; ráðalaust, drykkfellt og skemmt lágstéttarfólk. Ritstíllinn er svipaður og í fyrri verkum; myndræn og skáldleg endurvinnsla á orðfæri fólks sem ekki hefur vald á tungu sinni eða tilfinningum. En vegna formsins gefast færri tilefni til fjölbreytni í tjáningu í þessu verki en í þeim fyrri. Færri persónur og meiri saga sem þarf að koma til skila breyta forsendunum og fyrir minn smekk eru þetta ekki alls kostar góð býti. Cartwright spilar af meira öryggi á heimavelli sínum. Hér verður hann of eintóna því þótt persónurnar séu færri en áður er hver og ein dregin jafn fáum dráttum og fyrr. Þá eru forsendur framvindunnar stundum veikbyggðar og verkið er á köflum langdregið. Þetta er ein orsök þess að sýning Freyvangsleikhússins er ekki jafn vel heppnuð og hún ætti að vera miðað við heildaryfirbragð og frammistöðu aðalleikkvennanna.

Sýning á verkinu hlýtur ávallt að standa og falla með söngrödd leikkonunnar sem fer með titilhlutverkið og hér er ekki slegin feilnóta. María Gunnarsdóttir hefur hvort tveggja á valdi sínu, að syngja fallega með sinni eigin rödd og bregða sér í gervi hinna ólíkustu díva frá fyrri tíð. Aldeilis magnað að hlusta á hana leika listir sínar. María er líka flink leikkona og heillandi á sviði, en hefur kannski undir leiðsögn leikstjóra síns verið leidd of langt í aðgerða- og sinnuleysi sem gerir fyrirferðarmesta efni verksins, samband hennar og móðurinnar, dálítið dauft. Það sama má segja um Ingibjörgu Ástu Björnsdóttur, sem var tilkomumikil á velli og stundum fyndin sem tuskudúkkan og átvaglið Siddý en er gerð það aðgerðarlítil að það kemur niður á sviðsnærverunni.

Móðir Lóu er eitthvert mesta skrímsli sem Cartwright hefur skrifað og Guðrún Halla Jónsdóttir skilar hlutverkinu með miklum krafti og aðdáunarverðri tækni. Það háir heildaráhrifunum hve nálægt hvor annarri í aldri þær mæðgur eru og örvænting Möllu hefði orðið áhrifameiri með eldri leikkonu, en vinna Guðrúnar Höllu með persónuna er engu að síður eftirtektarvert afrek. Það lendir eiginlega alfarið á hennar herðum að halda orkunni uppi í sýningunni og hún axlar þá ábyrgð vel. En eins og áður segir hefðu mótleikarar hennar þurft að sýna meiri styrk til að samskipti persónanna yrðu áhugaverðari. Það var einna helst Daníel Freyr Jónsson sem náði að verða litríkur sem kærastinn útsmogni. Í minni hlutverkum eru svo Pálmi Reyr Þorsteinsson, Jónsteinn Aðalsteinsson og Hjálmar Arinbjarnarson og komast vel frá sínu.

Umgjörð sýningarinnar er vel unnin eins og venja er í hinu vandvirka Freyvangsleikhúsi. Búningar afbragð og þá ekki síður hárgreiðsla, sem er óvenjumikið í lagt. Leikmyndin er hugvitssamleg þótt fátæklegri, en þó umfram allt smekklausari, húsbúnaður og skraut hefðu stutt betur við söguna. Brunaeffekt var alveg óvenjulega vel útfærður.

Taktu lagið Lóa er vel unnin sýning, vandvirknislega sviðsett af augljósum metnaði og kunnáttu allra aðstandenda. Frammistaða aðalleikvennanna er afbragð og það sem upp á vantar til að hún heppnist fullkomlega skrifast á leikritið og óþarflega daufgerða persónulögn á köflum. Engu að síður ættu áhugamenn um skrautlegt mannlíf, sterkan leik og framúrskarandi söng að bruna í Freyvang á næstu vikum.

Sambýlingar

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsinu á Húsavík 27. febrúar 2005

Höfundur: Tom Griffin
Þýðandi og leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson.

Hlý, heiðarleg og fyndin

ÓALGENGT er að áhugaleikfélög frumflytji erlend leikverk á Íslandi. Leikfélag Húsavíkur hefur verið einna iðnast við þessa iðju og varð til að mynda fyrst til að kynna íslenskum leikhúsgestum bæði Gaukshreiðrið og Halta Billa þó þær frumsýningar hafi ekki farið jafnhátt og hinar sem fylgdu í kjölfarið í heldri húsum. Það er alltaf áhætta fyrir leikfélag að grípa efnivið sem lítt eða ekki er kynntur enda kjósa flestir að róa á öruggari mið. Húsvíkingar hafa iðulega hitt í mark með þessum sýningum sínum og víst má telja að svo verði einnig að þessu sinni.

Sambýlingar eftir Tom Griffin er raunsæisleg smámynd af fjórum einstaklingum sem ekki geta séð um sig sjálfir af mismunandi ástæðum og búa í vernduðu umhverfi sambýlis undir leiðsögn umsjónarmanns. Líf þeirra er hversdagslegt, enda eru hversdagslegustu hlutir gjarnan illleysanleg verkefni fyrir félagana. Fyrir vikið gerist ýmislegt í verkinu frá sjónarhóli þeirra þó fléttan sé af fátæklegasta tagi. Reyndar held ég að höfundurinn hefði getað leyft sér örlítið svipmeiri átök án þess að missa sig yfir í melódrama. Sú litla togstreita sem vistmennirnir lenda í við umheiminn og hver annan leysist allajafnan á óþarflega áreynslulausan hátt. En kostir verksins eru líka umtalsverðir: skýrt teiknaðar og nærfærnar myndir af aðalpersónunum þar sem raunsæi og skop vega spennandi salt. Verkið er frábær efniviður fyrir góða leikara til að fara á kostum. Leikfélag Húsavíkur teflir fram firnasterku liði í helstu hlutverkum og allir eiga góðan dag. Það sem gerir samt útslagið um áhrifin er að hópnum og Oddi Bjarna, leikstjóra sýningarinnar, hefur tekist að halda hárréttu jafnvægi milli skopgervingar persónanna og virðingar fyrir þeim. Samkvæmt leikskrá sóttu þau sér mikla hjálp frá sérfræðingum og aðstandendum þroskaheftra og skilar sú nálgun, að viðbættum hæfileikum og leikgleði, alveg óvenju sterkum heildarsvip. Og vegna þess hve jafnvægið er gott þá leika þau sér við að þeyta áhorfendunum um allan tilfinningaskalann, frá stjórnlausum hlátri yfir í nístandi þögn og aftur til baka. Fötlun persónanna er aldrei misnotuð til að vekja hlátur, heldur eru þær mótaðar af slíkri natni að það er jafnsjálfsagt að hlæja að þeim og hverjum öðrum persónum sem er lýst á sannferðugan hátt.

Sigurður Illugason dregur upp nákvæma og úthugsaða mynd af þráhyggjusjúklingnum Arnold. Þorkell Björnsson er frábærlega skýr sem Lucien, sem aftur er talsvert langt frá því að vera skýr, og Gunnar Jóhannsson heillar alla sem hin elskulega fitubolla Norman, ekki bara hana Sheilu, sem Guðný Þorgeirsdóttir léði yndislega heiðríkju. Hjálmar Bogi Hafliðason fer næmlega með krefjandi hlutverk geðklofans Barrys, hefur minni tök á að búa til skoptakta en félagarnir en kemst inn í kvikuna í átakamestu senu verksins þegar hann tekur á móti föður sínum sem Hörður Þór Benónýsson lýsti miskunnarlaust. Yfir félögunum vakir hinn dálítið lífsleiði Jack sem Kristján Halldórsson lýsti með fallegri næmi. Í smærri hlutverkum voru Sigurjón Ármannsson, Hilda Kristjánsdóttir, Katrín Ragnarsdóttir og Guðrún Kristín Jóhannsdóttir og stóðu sig öll með prýði.

Sviðsetning Sambýlinga hefur tekist verulega vel. Verkið gerist að mestu á heimili fjórmenninganna, en einnig bregður fyrir stuttum senum frá öðrum stöðum og einnig eiga persónurnar það til að rjúfa fjórða vegginn og ávarpa áhorfendur beint. Oddi Bjarna hefur tekist að láta þessa þætti flæða mjúklega, vel studdur af verulega snjallri leikmyndalausn Vigfúsar Sigurðssonar þar sem hliðaveggir við sviðsbrún taka á sig hinar ólíkustu myndir án þess að trufla raunsæið í meginhluta rýmisins. Sambýlingar sýnir Leikfélag Húsavíkur í sínu besta formi. Afburðagóður leikur, metnaðarfull umgjörð og vönduð leikstjórn skila sýningu sem snertir hjartað og tryllir hláturtaugarnar. Hlý, heiðarleg og fyndin.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Kominn til að sjá og sigra

Thalía, Leikfélag Menntaskólans við Sund
Loftkastalanum 15. febrúar 2005.

Byggt á kvikmyndinni Með allt á hreinu
Leikstjóri: Guðmundur Jónas Haraldsson
Danshöfundur. Unnur Birna Vilhjálmsdóttir
Tónlistarstjóri: Daníel Helgason.

VARLA má á milli sjá hvort það sé snjallræði eða glapræði fyrir mentnaskólaleikfélag að gera sviðsgerð af ástsælustu kvikmynd Íslandssögunnar. Húmorinn og tónlistin er vissulega ómótstæðileg, en hvernig á að koma töfrunum til skila á sviði? Samþykkjum við aðra leikara í hlutverkum Dúdda, Stinna, Hörpu og allra hinna?

Leið Thalíu og leikstjórans, Guðmundar Jónasar Haraldssonar, er skynsamleg, en þau laga hljómsveitirnar og að nokkru söguþráðinn að breyttum aðstæðum. Eiginlega hefði þurft að ganga enn lengra að mínu mati, þær senur sem voru hvað beinast teknar úr myndinni náðu varla að lifna á sviðinu meðan “nýja efnið” hitti iðulega beint í mark. Samtöl voru reyndar stundum dálítið ómarkviss og lopinn teygður um of, sýningin var um þrír tímar á frumsýningu sem er of langt. En húmorinn sem spratt út úr skemmtilega hugsuðum persónunum skilaði sér á köflum prýðilega. Sérstaklega á það við um strákahljómsveitina, drengirnir voru hver öðrum aulalegri sem er alltaf gott. Það hefði þurft að leggja aðeins meiri natni í að gefa stelpunum skýrari persónueinkenni. Nýja endirinn kunni ég ekki vel að meta, bæði snubbóttur og ekki nógu hnyttinn.

Það vekur sérstaka athygli að tónlistarflutningur er í höndum þátttakenda sjálfra, sem er næsta fátítt í stórsýningum framhaldsskólanna. Stór hluti undirleiksins er meira að segja framinn á sviðinu af strákahljómsveitinni og setur það skemmtilegan svip á sýninguna, gerir hana lífrænni en ella sem bætir upp það sem á vantar í fágun. Jafnframt hjálpar það enn upp á að toga sýninguna frá fyrirmyndinni. Það sama má líka segja um lagavalið, en auk (flestra) laganna úr myndinni eru flutt nokkur önnur lög, bæði úr smiðju Stuðmanna en einnig annarra, þar á meðal eitt samið af tveimur úr hópnum og var prýðilega áheyrilegt. Dansarar fóru fimlega með skemmtilega dansa Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur.

Mikill fjöldi tekur þátt í sýningunni, og heildarsvipur leiksins er ágætur. Atli Kristófer Pétursson og Bára Dís Baldursdóttir eru Stinni Stuð og Harpa Sjöfn, bæði góðir söngvarar og fara líka vel með leikhlutverkin, sem reyndar eru bæði frekar fátæklega teiknuð af handritshöfundi. Öllu skýrari er hinn fornlegi Frímann sem Smári Gunnarsson gerði ágæt skil. Það sama má segja um Dagnýju Björk Kristinsdóttir sem er umboðskonan skelegga, Hekla. Starfsbróðir hennar, Dúddi er náttúrulega persóna sem allir elska, og sem betur fer gerði Ari Gunnar Þorsteinsson enga tilraun til að “taka Eggert Þorleifsson”, heldur bjó til sinn eigin aula og gerði það vel. Eins og fyrr segir átti strákahópurinn í hljómsveitinni góða spretti, enginn þó hlægilegri en hinn fámáli trymbill Hreins Hafþórs Gunnarssonar.

Kominn til að sjá og sigra er ágæt skemmtun, óþarflega langt og nær ekki alltaf að hrista af sér minninguna um fyrirmyndina. Engu að síður ágætlega heppnuð tilraun hjá Thalíu og Guðmundi.

Stræti

Pýramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík
15. febrúar 2005

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Margrét Sverrisdóttir.

STRÆTI Jims Cartwright hefur ýmsa kosti sem gera það að ákjósanlegu verkefni fyrir metnaðargjarnt framhaldsskólaleikfélag. Persónur hans eru dregnar einföldum dráttum, textinn er safaríkur án þess að vera upphafinn og formið er laust í reipunum þannig að auðvelt er að stytta og hagræða og laga verkið að aldri og þörfum hópsins. Margrét Sverrisdóttir hefur notfært sér þetta, og meira að segja skotið inn í sýninguna tveimur atriðum úr Bar Par til að allir þátttakendur fái eitthvað bitatætt að glíma við. Þetta er aðdáunarverð afstaða til hópsins og form verkanna gerir þetta mögulegt.

Nýsköpun er líka í forgrunni í leikrýminu, en hópurinn hefur lagt undir sig hráslagalegan iðnaðarsal og breytt í leikhús sérstaklega fyrir sýninguna. Leikmyndin er byggð á vinnupöllum sem teikna á einfaldan hátt húsin við götuna sem nafn verksins vísa til, og myndar mjög þénanlega umgjörð um allar þær litlu sögur sem sagðar eru af fólkinu sem verkið fjallar um, vonlausa, atvinnulausa lágstéttarbreta sem drepa óhamingju sinni á dreif eina kvöldstund með áfengi og skyndikynnum.

Það sem lukkast best í sýningunni er hve mörgum leikaranna hefur tekist með hjálp leikstjóra síns að gera efnið “að sínu”, þannig að iðulega var eins og hér væri á ferðinni verk um norðlenska ógæfuunglinga á djamminu en ekki norður-ensk fórnarlömb Thatcherismans. Engin tilraun var þó blessunarlega gerð til að staðfæra eitt né neitt, þessi áhrif stöfuðu einungis af áreinslulausri innlifun og afslöppuðum leikstíl sem lagður er til grundvallar. Þó bragðmikill texti Cartwrights bjóði sífellt heim hættu á óhemjuskap og leikrænni sjálfsfróun var hér greinilega hart taumhald á slíku. Jafnvel mætti segja að örlítið meira stjórnleysi hefði gefið sýningunni meiri lit og kraft án þess að það kæmi að sök. Þá var líka alveg ljóst að hinir ungu leikarar áttu mun auðveldara að koma skopinu í verkinu til skila heldur en þeim þáttum þess sem dramatískari eru, nokkuð sem meiri reynsla og leikrænt sjálfsöryggi á eftir að bæta úr hjá þeim sem munu halda áfram að leggja stund á leiklist.

Hópurinn er nokkuð jafngóður og því er það frekar hversu hlutverkin bjóða upp á mikil tilþrif sem ræður því hverjir sitja í minninu. Mikael Þorsteinsson er i fyrirferðamiklu hlutverki byttunnar Scullery og kemst vel frá því að halda sýningunni saman. Sigurlaug Dagsdóttir átti yndislegt atriði í hlutverki hinnar afgömlu Mollyar. Joey og Claire sem fara í mótmælasvelti til höfuðs vonsku heimsins voru fallega leikin af Mikael Þór Ásgeirssyni og Söndru Kristinsdóttur AÐ lokum verður að geta Sylvíu Smáradóttur sem gerði djammbolluna Dor verulega fyndna og aumkunarverða.

Stræti er að því ég best veit frumraun Margrétar sem leikstjóra, og kemst hún vel frá því. Það er því rétt að óska henni til hamingju með það, Pýramusi og Þispu með metnaðarfulla og skemmtilega sýningu og Húsvíkingum með efnilega unglinga og nýtt leikhús sem þeir ættu að heimsækja hið bráðasta.
Þorgeir Tryggvason

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Welcome to the Jungle

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands
Loftkastalanum 2. febrúar 2005

Höfundur og leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson
Tanshöfundar: Katrín Ingvadóttir og Ásdís Ingvadóttir
Lýsing og leikmynd: Sigurður Kaiser.

NÝR andi svífur yfir vötnum í Versló-stórsýningu vetrarins. Nýr leikstjóri og handritshöfundur er kallaður til leiks og tónlistarþemað sem lagt er til grundvallar er rokk í þyngri kantinum. Án þess að hafa gert mikla rannsókn á því hef ég á tilfinningunni að talsverð endurnýjun sé í hópnum, jafnvel meiri en undanfarin ár. Útkoman er sýning sem skortir talsvert á fágun, aga og fagmennsku undanfarinna ára en kemur í staðinn inn með meiri orku, taumleysi og ögrun en hingað til. Kemur ekki á óvart þegar horft er til efnisins og leikstjórans.

Agnar Jón skrifar handrit sýningarinnar auk þess að leikstýra og dettur niður á bráðsnjalla grunnhugmynd, vandræðagang hljómsveitar sem líkt og hin fornfræga Kiss felur sig á bak við andlitsfarða. Enginn má komast að því hverjir þeir félagar eru, en svo verður söngvarinn ástfanginn af gengilbeinu að norðan og allt verður vitlaust. Eins og hugmyndin er góður efniviður þykir mér Agnari ekki hafa tekist nógu vel upp í að nýta sér hann. Fléttan er ekki nógu þétt og mörg atriðanna of löng og ómarkviss. Persónurnar eru skýrar og skemmtilega ýktar og samskipti innan hópanna tveggja sem allt hverfist um, hljómsveitarinnar og bargellanna, eru vel útfærð og uppspretta fyndninnar í sýningunni. Losarabragurinn verður samt til þess að draga úr skemmtigildinu - eiginlega finnst mér eins og Agnar eigi eftir að skrifa gamanleikinn sem býr í efniviðnum.

Tónlistarvalið ber þess nokkur merki að þungarokk er lítt leikhúsvæn tónlist. Þó svo að AC/DC og Kiss séu nefndar í kynningu er megnið af tónlistinni sótt í smiðju mildari manna af "hár-metal" skólanum, einkum ballöður þeirra sem í ljós kemur að eru óttalegt söngleikjafóður. Söngtextar skildust illa eða ekki, en vel var sungið hjá Verslingum eins og venjulega. Einna skemmtilegast var númer hjúkrunarkvennanna, en hræddur er ég um að hinir karlrembulegu Judas Priest væru lítt hrifnir af samhenginu sem Breaking the Law var sett í þar. Gott á þá.

Að vanda er mikið lagt í sýninguna, mikill fjöldi leikara, söngvara og dansara koma við sögu. Sjálfsagt er það tónlistarstefnunni og leikstjóranum að þakka að núna tókst betur en oftast áður að samræma stíl leik- og söngatriða. Það er ekki hægt að vanda sig úr hófi við flutning á t.d. Welcome to the Jungle án þess að það missi allan safa og sá þáttur var með ágætum hér. Og eins og gjarnan einkennir leikstjórnarverkefni Agnars var hér leikið af meira kappi en forsjá, allt á útopnu allan tímann og kaosið ekki nema hæfilega skipulagt. Mikið gaman, og gerir öllum kleift að blómstra sem á annað borð hella sér í leikinn.

Lana Íris Guðmundsdóttir og Leifur Eiríksson fara með hlutverk söngvarans og bardömunnar, sem reyndar er rokkari líka. Þau gerðu þetta ágætlega, en í svona sýningu eru það skrítnu hliðarpersónurnar sem fanga athyglina. Að þessu sinni náðu engir lengra í þeim efnum en Eyjólfur Gíslason sem var dásamlega skrítinn og innlifaður sem rótarinn Ronní og þær Margrét Ýr og Ingunn sem tvær íðilheimskar ljóskur. Leikskráin gefur ekki upp föðurnöfn þeirra, en það vill loða við að íburðurinn í leikskrám verslinga beri innihaldið ofurliði.

Welcome to the jungle er ágæt skemmtun, og bætir upp með krafti og skemmtilegu smekkleysi það sem fórnað er af fágun og fagmennsku. Sem gömlum rokkhundi þykja mér það ekki slæm býtti.