fimmtudagur, júní 24, 2004

Fame

3 sagas entertainment
Vetrargarðinum í Smáralind 24. júní 2004

Höfundar: David DeSilva, José Fernandez, Jacques Levy og Steven Margoshes.
Þýðing: Úlfur Eldjárn.
Leikstjóri: Bjarni Haukur Þórsson.
Tónlistarstjórn: Barði Jóhannsson og Karl Olgeirsson.
Danshöfundar: Birna og Guðfinna Björnsdætur.
Leikmynd: Ólafur Egill Egilsson.
Búningar: Helga Rós V. Hannam.
Lýsing: Alfreð Sturla Böðvarsson.
Hljóð: Ívar Ragnarsson

Falleinkunn

Í LEIKSKRÁNNI með Fame eru eins og vera ber prentaðir söngtextar. Þar er líka lagalisti. Það sem greinir þann lagalista frá öðrum slíkum í öðrum leikskrám er að þar er ekki minnst einu orði á þær persónur sem syngja lögin - þar eru hins vegar nöfn leikaranna listuð með lögunum, nöfn stjarnanna. Enda er þetta jú sýning um frægð. Og ég geri ráð fyrir að þeir sem fara á Fame séu að fara til að sjá Sveppa og Jónsa, og hafi næsta lítinn áhuga á því sem verið er að sýna og hvað verið er að segja með því. Kannski eins gott, því verkið er illa uppbyggt þunnildi sem fjarar vandræðalega út í lokin, tónlistin er flatneskjuleg og óspennandi og þetta eina lag sem allir þekkja búið í svo þunglamalega útsetningu að ósk söngkonunnar um eilíft líf getur ekki annað en ræst - með ótímabæru brotthvarfi hennar úr heiminum í klóm eiturlyfjadjöfulsins. Það verður jú að vera boðskapur. Og stjörnur, nóg af stjörnum.
Hið nýja leikhús í Vetrargarðinum í Smáralind er ekki gott leikhús. Kliðurinn að utan truflar, loftið endurkastar ljósi og gerir myrkvun og áhrifaríka ljósavinnu erfiða og hljómburðurinn krefst þess að allt sé magnað upp, tónlist jafnt sem taltexti. Það er afleitt að heyra ekki í leikurunum sjálfum og gerir þeim erfitt fyrir með að ná sambandi við áhorfendur. Í þessu tilfelli varð ég reyndar ekki var við neina knýjandi þörf leikhópsins til að miðla efni og innihaldi verksins yfir sviðsbrúnina, svo kannski breytti hljóðmögnunin engu hvað þetta varðar.

Fame segir frá skólaferli nokkurra ungmenna í listaskóla sem jafnframt er einhvers konar menntaskóli. Aldur persónanna liggur milli hluta í stundum hnyttinni en ómarkvissri staðfærslu Úlfs Eldjárns. Þetta unga fólk virðist allt vera þarna á röngum forsendum - það vill verða frægt, en vill ekkert læra. Fiðlusnillingurinn vill spila í pönkhljómsveit, en verður himinlifandi þegar hann reynist geta breytt klassísku tónsmíðaverkefnunum sínum í generískar poppballöður. Rapparinn er lesblindur og það er trúlega þess vegna sem hann er lentur í klassískum ballettbekk. Einn nemandi í leiklistarbekknum hefur áhuga á leiklist, og er fyrir vikið frekar hlægilegur. Það sama má segja um kennarann sem vill að nemendurnir taki listina alvarlega. Aumingja Guðmundur Ingi barðist á hæl og hnakka, en treysti sér greinilega ekki til að gera þá skrípamynd úr manninum sem ætlast var til. Gott hjá honum. Stundum er eins og höfundar verksins fái samviskubit og þá skrifa þeir setningar upp í persónurnar þess efnis að frægðin skipti ekki máli, heldur listin, vinnan og svitinn. En því miður, allt verkið er í hrópandi andstöðu við þær raddir, og sýning Bjarna Hauks hrópar hástöfum með: Takmarkið er að öðlast eilíft líf á síðum Séð og heyrt.

Að sjálfsögðu gengur brösulega að blása leikrænu lífi í þetta efni. Leikhópurinn fer í gegnum sýninguna á forseruðum krafti sem á trúlega að flokkast sem leikgleði, flestir á einum tóni, sumir á tveimur sem hljóma ekki saman. Best komast þau frá þessu sem eiga að vera fyndin. Sveppi er til að mynda frjálslegur og eðlilegur í sínum trúð, þótt verkið krefjist þess raunar að við sjáum glitta í manneskjuna sem persónan er að fela bak við fíflalætin. Sveppi nær því ekki en er fyndinn sem slíkur. María Heba Þorkelsdóttir er nokkuð spaugileg í litlu hlutverki þybbinnar dansmeyjar. Aðrir eru meira og minna eintóna. Álfrún Örnólfsdóttir nær ekkert að gera úr fullkomlega óljósu hlutverki Sigríðar, Svala Stefáns verður bara þreytandi hjá Esther Talíu og Friðriki Friðrikssyni tekst ekki að leysa þann snóker sem höfundarnir leggja fyrir hann með hinum mótsagnakennda Kúran Askenasí. Ívar Örn Sverrisson fer vel með rappið, en er svo óheppinn að vera að leika skopstælingu á eftirhermu og það er of þykkur múr til að koma einlægni í gegnum.

Dansar þeirra Björnsdætra eru flottir og vel leystir af leikhópnum, þótt að vanda sé skemmtilegast að sjá einhvern glíma við dans sem hann ræður ekki við. Flamencodans Sveppa mun lifa, annað gleymast.

Sönnustu augnablik sýningarinnar, einu skiptin þegar örlar á sönnum tilfinningum og ástríðu til að miðla þeim til áhorfenda, eru svo þegar Jónsi syngur. Frábær söngvari, og hann leysir líka leikhlutverkið skammlaust. En þegar hann syngur lifnar sýningin við, þá höfum við aðgang að því hvað hann hugsar og hvernig honum líður. Það er því miður lágmarkskrafa í leikhúsi og enginn annar stenst hana. Fame í Smáralind fær því falleinkunn hjá mér.

mánudagur, júní 21, 2004

Frænka Charleys

Leikfélag Hólmavíkur
Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ sunnudaginn 6. júní. 2004

Höfundur: Brandon Thomas
Þýðandi: Úlfur Hjörvar
Leikstjóri: Arnar S. Jónsson

Leikendur: Arnar S. Jónsson, Einar Indriðason, Ester Sigfúsdóttir, Ingibjörg Birna Sigurðardóttir, Jón Gústi Jónsson, Jórunn Helena Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson, Sigríður Einarsdóttir, Svanhildur Jónsdóttir og Úlfar Hjartarson.

Sú gamla kemur í heimsókn

FRÆNKA Charleys er klassískt viðfangsefni áhugaleikfélaga á Íslandi og er enn leikið um víða veröld eins og einföld leit á Netinu gefur til kynna. Verkið hefur heldur verið á undanhaldi á efnisskránum síðustu ár sem ekki er furða; frænkan er klárlega barn síns tíma og menningarheims, enda gengur vandræðagangurinn í því út á þá ósvinnu að tveir ungir menn bjóði til sín stúlkum sem þeir hafa augastað á, án þess að virðuleg eldri kona sé til staðar sem siðgæðisvörður. Verkið er jafnframt nokkuð of langdregið núna á öld óþolinmæðinnar, og ekki annað að sjá á flutningi Leikfélags Hólmavíkur en að það byggi nokkuð á stöðluðum týpum úr enskri yfir- og miðstéttarmenningu aldamótanna nítján hundruð, sem fara fyrir ofan garð og neðan á Ströndum norður núna upp úr aldamótunum tvö þúsund.
Góðu fréttirnar eru á hinn bóginn þær að það sem bitastæðast er í verkinu af fyndni er sígrænt: nefnilega karlmaður sem neyðist til að leika konu sem hinir karlarnir taka þegar að girnast. Ungu mennirnir narra sem sagt fremur grunnhygginn eilífðarstúdent til að bregða sér í gervi siðgæðisvarðarins, en missa fljótlega tökin á atburðarásinni sem brunar sína leið að nokkuð fyrirsjáanlegri röð trúlofana í lokin.

Leikfélag Hólmavíkur er óvenjuöflugt félag miðað við stærð heimavallarins, og ferðaglatt með afbrigðum. Mannekla háir þeim samt og bróðurpartur leikhópsins að þessu sinni er að stíga sín fyrstu skref á sviði. Leikstjórinn er einnig á byrjunarreit, öflugur leikari í félaginu til margra ára en grípur núna í annað verkefni og ferst það um margt vel. Sýningin er nokkuð fumlaus, umgjörð ágætlega leyst og búningar óvenjutrúverðugir, fyrir utan kúrekahatt annars vonbiðla frænkunnar sem tónaði einna helst við fremur óviðeigandi Bourbon-viskíflöskuna í vínskápnum.

Það sem einna helst háir Arnari í vinnu sinni með leikhópnum er Akkillesarhæll flestra þeirra sem grípa í leikstjórn með leikreynslu sína eina að vopni; hann nær ekki að styðja nægilega við bakið á reynslulitlum leikurum, hjálpa þeim til að hvíla í hlutverkum sínum og skila rullunum af krafti og öryggi. Fyrir vikið er nokkuð dauft yfir sýningunni þegar stórkanónurnar úr eldri deildinni eru ekki í forgrunni. Nýliðarnir eru efnilegir en valda því ekki að bera uppi sýningu af þessu tagi.

En sem betur fer þurfa þeir þess ekki. Einar Indriðason, í hlutverki Babs, gerði frænkunni óborganleg skil, trúlega það besta sem ég hef séð til þessa ágæta leikara. Litlu síðri voru þeir Matthías Sævar Lýðsson og leikstjórinn, Arnar S. Jónsson, sem hæfilega spýtukarlalegir vonbiðlar. Þeir Jón Gústi Jónsson og Úlfar Hjartarson stóðu sig síðan vel miðað við aðstæður í stórum hlutverkum vonbiðlanna.

Það er tilhlökkunarefni þegar þessi efnilegi leikhópur og leikstjórinn hafa öðlast meiri reynslu og öryggi. Þá verður svo sannarlega vel þess virði að heimsækja Hólmvíkinga, en bíða ekki eftir því að þeir heimsæki okkur.

fimmtudagur, júní 10, 2004

VARFÖR ÄR DET SÅ ONT OM Q?

Profil-leikhúsið frá Umeå Höfundur: Kristina Kalén og Maria Westin eftir sögu Hans Alfredson. Leikstjóri: Maria Westin, útlit: Ulla Karlsson, tónlist: Henrik Andrsson, leikendur: Sofia Westlund, Daniel Rudestedt, Jan Karlsson og Benedicte Stendal Hansen. 10. júní 2004.

Allt stafrófið er svo læst

SÆNSKA félagið á Íslandi sýnir lofsvert frumkvæði í því að flytja inn barnaleiksýningu fyrir sænskumælandi ungviði á Íslandi, og aðra svo sem líka, þó efni verksins sé að þessu sinni nátengt tungumálinu, nefnilega bókstöfunum og þeirri hættu sem þeim stafar af óprúttnum nafnlausum misindismönnum. 

Hans „Hasse“ Alfredson er gríðarlega afkastamikill og fjölhæfur listamaður, en sýningin er samkvæmt leikskrá byggð á bók eftir hann þar sem glæpadrottning hyggst þurrka út stafrófið og ná þannig allsherjarvaldi í heiminum, þó að ekki sé alls kostar ljóst hvernig eitt leiðir af öðru í því sambandi. Sem betur fer eru skynsöm stelpa og snjall uppfinningamaður með á nótunum og tekst að hindra misindismennina, um það fjallar sagan. 

Ekki er ljóst hvort það er hugmynd höfundar eða leikgerðarfólks að ramma söguna inn í einhvers konar vísindaskáldsöguheim, þar sem áhorfendur ganga inn í stórt tjald, „minnisvél“, þar sem sagan er sögð í endurliti. Allavega var þessi rammi dálítið fyrirferðarmikill miðað við mikilvægi og í raun allsendis óþarfur, þó að umgjörðin og leikmunir allir væru afar vandaðir og á köflum giska sniðugir – raunar það besta við sýninguna. Lýsingin í tjaldinu var á hinn bóginn alveg afleit og undir hælinn lagt hvort andlit leikaranna sáust, sem er miður þegar verið er að segja sögu. 

Og þó að mikið væri greinilega lagt í sýninguna verður því miður að segjast að hún náði ekki að heilla þennan áhorfanda. Til þess var efnið of langsótt án þess að vera sérlega sniðugt, og það sem verra var, leikhópurinn of daufur til að halda athygli og einbeitingu í gegnum sýninguna. Sýningin byggist á sterkri stílfærslu í hreyfingum og útliti sem mestanpart var örugg en þar fyrir utan vantaði innlifun, orku og fókus í ætlun og nærveru persónanna. Of oft komu viðbrögð of snemma, of oft var kæruleysi í tengslum hópsins við áhorfendur. Sérstaklega var glæpakvendið markað þessu, sem kom mjög niður á spennustigi sýningarinnar. Mest var gaman að stelpunni, en heilt yfir vantaði sárlega leikgleði, tilfinningu fyrir þörf fyrir að miðla þessari sögu. Það er stór krafa, en því miður alger lágmarkskrafa.

Dansleikhússamkeppni

Leikfélag Reykjavíkur og Íslenski dansflokkurinn
Borgarleikhúsinu 10. júní 2004

Höfundar: Arna Guðný Valsdóttir, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Birna Hafstein, Halla Ólafsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Jón Atli Jónasson, Kolbrún Halldórsdóttir, Ólöf Sigríður Valsdóttir, Peter Anderson, Rebekka Austmann Ingimundardóttir, Stefán Jónsson, Steinunn Knútsdóttir og Sveinbjörg Þórhallsdóttir.

Meira salsa!

DANSLEIKHÚSKEPPNI Leikfélags Reykjavíkur og Íslenska dansflokksins er nú haldin í annað sinn. Hér er um sérlega lofsvert framtak að ræða, gott tækifæri til að rannsaka mörk og möguleika þessara listgreina sem búa saman í Borgarleikhúsinu. Reyndar sýnist mér sem þetta sambýli sé einkar farsælt þar á bæ og þessi keppni er fráleitt eina dæmið um vel lukkað samstarf á milli dansflokksins og leikfélagsins.

Það var ánægjulega afslappað andrúmsloft í stóra salnum á fimmtudagskvöldið, kynnarnir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir, gáfu tóninn með það. Það var mikið fagnað og talsvert hlegið, enda dagskráin eins og við var að búast fjölbreytt mjög.

Það er best að taka það strax fram að undirritaður nálgast dansleikhúsið úr leikhússáttinni og er því almennt séð hrifnari af þeim sýningum þar sem einkenni þeirrar listar eru í forgrunni. Það kom líka á daginn að þær sýningar sem byggðust á einfaldri grunnhugmynd sem tókst að koma til skila höfðu mest áhrif á þennan gagnrýnanda. Aðrar, sem voru kannski frumlegar og frjóar en náðu ekki að skila innihaldi - merkingu - til mín, fundust mér sem því nemur lakari.

Það þarf samt ekki endilega "leiklist" til að skila þessari merkingu eins og sú sýning sannaði sem mér þótti mögnuðust: Komið og dansið: A found object, eftir Jón Atla Jónasson og Stefán Jónsson. Þeir fylltu sviðið af "venjulegu" fólki sem dansaði síðan samkvæmisdansa og annað slíkt meðan texta um gildi þess að dansa var varpað á vegg. Þessi sýning sameinaði það að vera bráðskemmtileg, fullkomlega frábrugðin öllum hinum og varpa ljósi á eðlismun dans og leiklistar. Leiklist er nefnilega algerlega háð því að á hana sé horft, hún snýst alltaf um samband leikara og áhorfanda. Dansarinn getur hins vegar verið sjálfum sér nógur, dans snýst ekki í sjálfu sér um tjáskipti nema milli þeirra sem dansa. Sýning þeirra félaganna var í vissum skilningi alls ekki sýning, ekki ætluð áhorfendum. Og með því varð hún merkingarríkasta sýning keppninnar. Hún hreppti annað sætið.

Nokkrar sýninganna náðu hreint ekki að vera skýrar á því hvað þær vildu segja, og hafa líklega ekki ætlað sér það. Þannig var um óræða og brotakennda sýningu Steinunnar Knútsdóttur og þeirra Valsdætra, Ólafar, Arnbjargar og Örnu, Sjá augu mín einsog þín, systir. Hún byrjaði vel með skemmtilegu samspili myndbands og leikara/dansara, en skipti of oft um stefnu til að hún héldi út. Þá voru Flugur Aðalheiðar Halldórsdóttur og X í öðru veldi eftir Rebekku Austmann Ingimundardóttur lítt að tala við þennan áhorfanda, þótt síðarnefnda sýningin væri greinilega gerð af miklu hugviti og nákvæmni. Hún hafnaði í þriðja sæti.

Og þó Dagur í frystihúsinu, verk þeirra Höllu Ólafsdóttur og Ilmar Kristjánsdóttur, væri sniðugt, vel sviðsett og textinn og týpurnar fyndnar, var óræðnistuðullinn nokkuð of hár fyrir minn smekk þegar upp var staðið.

Þrjár sýninganna sóttu viðfangsefni í dægurmálin, en á skemmtilega ólíkan hátt.

Detatched, hugleiðing Peter Anderson um skelfingarástand heimsins og skeytingarleysi okkar þar um, notaði það gamalkunna bragð að láta eina persónu þylja heimsósómaræðu yfir okkur meðan önnur talaði um fáfengilega neysluhluti. Sýningunni tókst ekki að yfirvinna þessa klisju eða taka á henni á frumlegan hátt, en Gunnar Hansson bjargaði því sem bjargað varð með snaggaralegum sölumennskutöktum.

Augnablik Kolbrúnar Halldórsdóttur sótti sinn áhrifamátt í afar skýra og sterka hugmynd, að framlengja augnablikið þegar fyrsta sprengjan var sprengd við Kárahnjúka, og sýna okkur bergið - túlkað af dönsurum - vakna til lífsins og leysast upp um leið. Flott hugmynd sem skilaði sér til okkar, en dansinn sjálfur var kannski dálítið "leiklistarnámskeiðsspunalegur" og söngurinn kom mér spánskt, eða kannski afrískt, fyrir sjónir og hjálpaði ekki hugmyndinni eða áhrifunum.

Birna Hafstein og Sveinbjörg Þórhallsdóttir fengu þá brjáluðu, og satt best að segja smekklausu, hugmynd að flytja síðustu daga og dauða Vaidasar Jusiviciusar úr heimi smákrimma og eiturlyfja yfir í gerviveröld samkvæmisdansanna. Sniðugt, mjög vel flutt, en ekki nógu fyndið eða beinskeytt til að það réttlætti svona léttúðuga meðferð á þessum (afsakið orðbragðið) mannlega harmleik.

Sigurvegari kvöldsins var svo Bergur Þór Ingólfsson, en sýning hans, Hamlet - Superstore, fékk bæði fyrstu verðlaun frá dómnefnd og áhorfendum. Sýningin er vel að þessu komin. Áberandi skemmtilegasta kóreógrafían fyrir leikmann eins og mig, merkingarbær án þess að vera látbraðgsleikur, kröftug og skýr. Hugmyndin var kannski ekki frumleg, grunnsagan í Hamlet flutt með merkingarlausum texta, í þessu tilfelli texta úr munni viðskiptavina matvöruverslunar, algeng æfing á leiklistarnámskeiðum. Útfærslan var hins vegar afbragð, skemmtigildið ótvírætt og alltaf ljóst hvað verið var að gera.

Þetta var ánægjuleg kvöldstund. Fjölbreytnin mikil, gæðastuðullinn hár og meira að segja lökustu verkin voru aldrei leiðinleg, alla vega ekki lengi í einu. Þessi hátíð er án efa orðin fastur liður í starfsemi Borgarleikhússins, og fullur salur af fólki ætti ekki að letja forráðamenn hússins til að halda áfram á þessari braut.