laugardagur, maí 29, 2004

This is not my body

Subfrau
Borgarleikhúsinu laugardaginn 29. maí 2004

Leikendur: María Pálsdóttir, Kristina Alstam, Ida Løken, Lotten Roos, Sonja Ahlfors, Sofia Törnqvist og Kristjana Skúladóttir.

Dragspil á röngunni

GRUNNHUGMYNDIN að baki vinnu Subfrau-hópsins, og þar með að baki þessarar sýningar, er næsta alvörugefin rannsókn á kynhlutverkum og -ímyndum, og sérstaklega hvernig þessir hlutir endurspeglast í líkamsmáli og rýmisupplifun. Hljómar gríðarlega hátíðlega og ekki kannski uppskrift að sérlega skemmtilegu leikhúskvöldi, en sem betur fer taka þær Undirmálskonur sig ekki sérlega hátíðlega þegar á hólminn er komið.
Eins og fram hefur komið í kynningu á sýningunni á hópurinn rætur sínar í námskeiði í Dragspili fyrir konur, þar sem ungar leikkonur frá Norðurlöndunum rannsökuðu atferli, líkamsmál og framkomu karlmanna og sköpuðu í framhaldinu karakter sem þær síðan íklæddust. Það var satt að segja nokkur opinberun að sjá þær birtast í hlutverkum sínum á Nýja sviðinu, átta sig á hversu nákvæm og vægðarlaus þessi rannsókn hefur verið, og hve skýrri mynd hún hefur skilað. Og vitaskuld dregur sú staðreynd að hér eru leikkonur að taka á sig þessi gervi athyglina að allskyns smáatriðum í því hvernig karlmenn bera sig, standa, sitja, hreyfa sig, tala og hlusta, sem maður hefur aldrei veitt athygli áður. Og eins og einatt þegar eitthvað er algerlega satt verður það hryllilega hlægilegt. Fyrsta hluta sýningarinnar, meðan áhorfendur eru að kynnast (og venjast) strákunum gekk á með hlátursrokum við nánast hvaðeina sem þeir sögðu eða gerðu.

Form sýningarinnar er öðrum þræði sótt í dragspil og nektarsýningar, er rammað inn með dansatriðum en er að öðru leyti byggt upp á eintölum eða öllu heldur uppistandssketsum þar sem hver leikkona lætur ljós sitt skína, og sýnir okkur sinn karakter. Þessir sketsar voru nokkuð misgóðir, og báru þess nokkur merki að vera spunaafrakstur. Nokkrir duttu niður á frekar þreytandi hellisbúaplan í lýsingu sinni á hinum dæmigerða karlmanni, áhyggjum af typpastærð og vandræðum með að samræma bleiuskipti og boltagláp. Aðrir voru hnyttnir, en eftirminnilegastur er sá óræðasti, sá sem minnst var upptekinn af boðskap eða meðvitaðri greiningu á karlmennsku. Þegar persóna Ida Løken, "Råttan" tók til við að kenna okkur að gera ávaxtasalat eins og mamma hans hafði kennt honum, sveiflandi fiðrildahnífnum og leggja okkur lífsreglurnar um hreinlæti og val á hráefni með Rammstein-sálminn Mutter í bakgrunni tókst sýningin á loft, varð frumleg að innihaldi til viðbótar við óvenjulega forsenduna.

En þó innihaldið væri á köflum rýrt var unun að fylgjast með persónunum, trúa á þær en vera jafnframt sífellt að meta og dást að tækninni og alúðinni sem lögð var í að skapa þær. Þetta jafnvægi hélst út alla sýninguna og er til marks um hversu vel er að verki staðið. Það eina sem mætti finna að er að ef til vill eru karakterarnir of líkir, af of svipuðum þjóðfélagsstiga, allir með of háan innri status miðað við þann ytri (sem er kannski full-einföld leið til að sýna karldýrið). Allir með þykka yfirbreiðslu á innra óörygginu. Í frekari vinnu væri gaman að þróa þá meira í sundur, leggja áherslu á það sem gerir þá ólíka frekar en sem hóp. Einnig væri gaman að sjá meira samspil tveggja og þriggja, þar sem munurinn á stöðu kristallast.

Í raun er ekki ástæða til að skrifa langt mál um frammistöðu hverrar og einnar, svo mjög sem þær hafa jafnsterk tök á viðfangsefninu. Nokkuð mæddi vissulega á Maríu Pálsdóttur sem kynnti þær til sögunnar sem gestgjafinn, og gerði það vel. Karlinn hennar Maríu, Siggi var skemmtilegur og vafalaust hefur einhverntíman sést til hans á sveitaballi klukkan korter í þrjú. Sérstaka athygli mína vakti svo Marcel, sköpunarverk Kristinu Alstam, sem býr að glæsilegri djúpri söngrödd sem hún lét sig ekki muna um að beita við flutning á Sixteen Tons án þess að blikna.

Lokaatriðið var sterkt, þegar leikkonurnar svifta sig karlgervinu og standa hreyfingarlausar og þöglar drykklanga stund með nafn sýningarinnar letrað á nakta líkamana. Og blálokin, þegar hinn ólétti gestaleikari Kristjana Skúladóttir svífur inn, krýpur niður, lyftir kjólnum sínum og sýnir okkur áletrunina: "It's a boy." Skemmtilega órætt, ljóðrænt, mótsagnakennt og snjallt. Þessi lok og landnám leikkvennanna í karlaheiminum eru best heppnuðu hlutar sýningarinnar og leiða hana til sætis sem ein eftirminnilegasta leikhúsupplifun vetrarins.

Frekari vinna með þessa hugmynd óskast, og fleiri heimsóknir frá þeim Undirmálsfrúm.

mánudagur, maí 24, 2004

SKÁLDIÐ OG SEKKJAPÍPULEIKARINN

Íslenska óperan Listahátíð í Reykjavík Seamus Heaney og Liam O’Flynn. Mánudagur 24. maí 2004.

Undursamlegt og raunverulegt

ÞEIM félögum, nóbelsskáldinu Seamus Heaney og olnbogapípuleikaranum Liam O’Flynn, urðu tengsl Íslands og Írlands að nokkru leiðarstefi í gegnum dagskrá sína og mótuðu þau bæði laga- og ljóðaval. Þessi tengsl eru sterk, návist Írlands og fólks af írskum uppruna er mikil í fornsögum okkar, og hliðstæð reynsla þjóðanna af náttúrunni og harðri lífsbaráttu styrkja böndin enn. 

Á sama tíma er svo margt framandi og furðulegt við írska menningu og arf, fyrir utan hvað saga síðari tíma hefur tekið á sig ólíkar myndir í löndunum tveimur. Þótt tónlistin njóti hylli hér í útvötnuðum útgáfum býr það hlustandann ekki nema að litlu leyti undir að hlýða á stríðan hljóm olnbogapípunnar, hvort sem leikin eru angurvær og taktfrjáls sönglög eða spriklandi rælar sem beina áhrifum sínum fyrst og fremst að fótum manns. Og fornsaga Írlands, sagnir af Brendan sjófaranda og heilögum Kevin sem gerðist hreiðurstæði svartþrastar, Guði til dýrðar, eru fullar af dularfullu seiðmagni sem gerir þessa frændur okkar að sérlega spennandi kvöldgestum. Ekki spillir ef þeir eru jafn fróðir og frásagnarglaðir og þessir tveir reyndust. 

Framsetningin var eins einföld og hægt var. Þeir skiptust á að flytja efni sitt, oftast með góðum inngangi sem útskýrði bakgrunn þess efnis sem flytja átti. Hr. O’Flynn gerði grein fyrir sínu sjaldséða hljóðfæri, sem virtist hið flóknasta þing. Jafnvel snúnara viðfangs en hinar algengari skosku hálandapípur sem eru engin barnaleikföng. En tónlistarmaðurinn hafði auðsjáanlega eins fullt vald á pípunum og hægt er, slík hljóðfæri leggja einatt sitthvað til málanna sjálf. Þegar hann lagði frá sér belginn og greip tinflautuna varð tónlistarnæmi hans enn ljósara okkur sem lítt erum dómbær á hvað telst vel gert á olnbogapípur. Fyrir utan hinn undurfallega saknaðarsöng Ameríkufarans sem leikinn var á flautuna er sérlega minnisstætt tónverkið um refaveiðarnar, þar sem túlkunarþanþol pípnanna virtist nýtt til hins ítrasta til að skila framvindunni. 

Hr. Heaney las úr verkum sínum, bæði frumsamið efni og þýðingar, af fallegu en tjáningarríku látleysi. Enda ekki annað við hæfi, því hér er ekki verið að velta sér upp úr tilfinningum eða skrúðmælgi. Eins og öll góð ljóð þá öðlast þessi ekki fullt líf fyrr en þau eru flutt upphátt af einhverjum sem skilur þau til fulls, helst skáldinu sjálfu. Írskur hreimur er jafn ómissandi hluti af þessum orðheimi og hann er fyrir verk landa hans og félaga á nóbelsskáldabekk, Samuel Beckett. Oft er vísað til ljóðsins „Digging“ þegar reynt er að lýsa list skáldsins, bæði vegna yrkisefnisins og meðferðar þess, en önnur lína festist í minni mínu úr ljóði sem ég hafði ekki séð áður, en var lesið í Óperunni. Það er líka byggt á bernskuminningum, nánar tiltekið veðurspá fyrir sjófarendur sem var það síðasta á dagskrá írska útvarpsins á uppvaxtarárum hans. 

Í lokin leyfir Heaney sér að gefa þessu útvarpsefni einkunn: „Marvellous and Actual“. Það sama má segja um verk hans, nákvæmnin í lýsingum hluta og verka, hin sterka sviðssetning skilar djúpri tilfinningu fyrir lífi og horfnum tíma. Ljóðið um heykvíslina, hið magnaða Mid-term Break sem segir frá dauða bróður skáldsins og ljóðin þrjú um móður hans og húsverkin eru þau sem syngja í höfðinu á mér. Sterk, nákvæm, tilfinningarík en ekki tilfinningasöm. Einbeita sér að raunveruleikanum af slíkri einurð að hann verður gegnsær og heimur tilfinninganna og andans kemur í ljós. Undursamlegt – og raunverulegt.

laugardagur, maí 15, 2004

Norræn leiklistarhátíð fyrir börn og unglinga

Hátíðin var haldin dagana 15.-19. maí 2004

Leiklistarhátíð haldin í kyrrþey

TIL hliðar við Listahátíð var í gangi önnur hátíð, Norræn leiklistarhátíð fyrir börn og unglinga, kennd við Assitej, alþjóðasamtök barna- og unglingaleikhúsa. Hátíð þessi var yfirlætislaus og lítið formleg, og hægðarleikur að láta hana framhjá sér fara, en þó voru á henni einar átta leiksýningar frá fimm löndum, og sumar þeirra gera víðreist um landið. Í þessum pistli verður stuttlega fjallað um fimm þessara sýninga, en aðrar hafa þegar fengið umsögn hér í blaðinu.

Fyrir þau allra yngstu
Månegøgl heitir leikhús af minni gerðinni, samanstendur af einni danskri konu, Hanne Trolle, og brúðum hennar. Markhópurinn er líka af minna taginu: börn á aldrinum eins og hálfs til fjögurra ára. Sýningin Min jord - din jord er brúðusýning sem sækir efnivið sinn í þjóðsögur frá nokkrum heimshornum, sem rammaðar eru inn af ferðalagi brúðunnar Pyt í kringum hnöttinn, og kynni hennar af fólki og dýrum. Sögurnar eru litlar í sniðum og sumar varla í frásögur færandi, en afslappaður frásagnarmáti leikkonunnar og ágætlega meðhöndlaðar brúðurnar héldu athygli hins erfiða markhóps aðdáanlega og uppskáru meira að segja skellihlátur þegar kostulegur fíll með kæfisvefn lék listir sínar. Leikmyndin var skemmtileg, byggð í kringum stóra sólhlíf sem á héngu máluð baktjöld hinna ýmsu atriða. Trúlega var útbúnaðurinn miðaður við aðra afstöðu milli sviðs og salar en er í Möguleikhúsinu, þar sem áhorfendur horfa niður á sviðið. Allavega var á stundum erfitt að sjá það sem ætlunin var, meðan annað blasti við. Engu að síður snotur sýning sem eins og áður sagði virkaði greinilega á hina ungu áhorfendur.

Nútímadans fyrir byrjendur
Í íþróttasal Austurbæjarskóla höfðu tveir norskir dansarar komið sér fyrir með leikmuni sína, stóra litríka kubba, sem reyndust aukinheldur gefa frá sér hljóð. Innbyggerne - et byggesæt er afar djörf tilraun, næstum algerlega afstrakt danssýning þar sem efniviðurinn er mannslíkaminn, hreyfimynstur hans, fyrrnefndir kubbar og hljóðmynd. Hafi verið söguþráður eða önnur tengsl við það sem til einföldunar mætti kalla raunveruleikann þá fóru þau framhjá mér, enda er ég eins og börnin nýgræðingur í að njóta nútímadans. Þessi sýning þótti mér lítt ánægjuleg þótt ég fengi ekki betur séð en flytjendurnir, þeir Odd Johann Fritzøe og Thomas Gundersen, væru afbragðsmenn á sínu sviði. Ég náði samt engu sambandi við það sem þeir voru að gera, og gat ekki varist þeirri hugsun að enginn áhugi væri á slíku sambandi frá hendi flytjenda. Alveg óvenju óáheyrileg hljóðmynd bætti ekki úr skák. Flest börnin horfðu andaktug á, einstaka fylltist óþoli og fáein héldu fyrir eyrun. Skyldi engan undra.

Lagerinn og allt
Á lagernum hjá Larsson gengur allt sinn vanagang. Starfsmennirnir glíma við dagleg verkefni, og ekki nema rétt svo að þeir ráði við þau. Það er því ekki að undra að þegar lítil mannvera úr pappa kemur upp úr einum kassanum fari allt út af sporinu og inn í aðra vídd. Sýning Dockteaterverkstan var hreint afbragð. Falleg, dularfull og spennandi, þótt eftir á að hyggja hafi ekki margt gerst. En þegar flinkt brúðuleikhúsfólk tekur sig til og hleypir lífi í dauða hluti af alúð þá er maður tilbúinn að fylgjast opinmynntur með hversdagslegustu athöfnum - hvergi eru töfrar leikhússins eins gagnsæir og í slíkum sýningum. Þau Cecillia Billing og Anders Lindholm voru sjálf bráðskemmtileg í hlutverkum sínum að auki. Sýning sem gerði okkur fullorðna liðið bernsk, og virtist líka skemmta börnunum.

Spuni úr öskunni
Juha Valkeapää flutti "dans- og raddspuna" út frá ævintýrinu um Öskubusku í kjallara Klink og Bank, og hafði sér til stuðnings rýmisverkið "venjuleg undur nútímans" eftir myndlistarkonuna Jaana Paranen. Forvitnileg nálgun, sérstaklega raddlegur hluti þess, skilaði samt ekki nema hæfilega sterkri upplifun. Furðuleg sú ákvörðun leikarans að hafa texta sinn á ensku (sem börnin ekki skildu og þvældist stundum fyrir flutningnum). Helsti styrkur ævintýrisins sem efniviðar, hin spennandi saga, var látin lönd og leið en þess í stað unnið út frá einstökum afmörkuðum atriðum sem aldrei mynduðu neina heild. Sýningin hélt lítt athygli barnanna, ein stúlkan greip á það ráð að spila tölvuleik í símanum sínum og bíða af sér þessa öskubusku. Juha Valkeapää er greinilega margt gefið sem listamanni, en hér beindi hann ekki hæfileikum sínum í frjóan farveg.

Galdur
Hafi sýning Svíanna vakið grun um töfra brúðuleikhússins þá fór sýning Bernds Ogrodnik, Metamorphoses, með þann grun inn í nýja vídd. Mér skilst að þessi maður búi inni í Skíðadal fyrir norðan og sé auk þess einn fremsti brúðuleikhúsmaður heims! Sú einkunn hljómar ekki eins og oflof þegar sýningin er barin augum, aldeilis mögnuð upplifun, sem leyfir manni bæði að dást að fimi, ögun og hæfileikum, gapa af undrun yfir umbreytingu dauðra hluta yfir í lifandi og garga af hlátri þegar litlar sögur stækka við það að vera sagðar með höndunum einum. Mesta undrið eru fingurbrúðuatriðin, bæði hin undursamlega en mistæka galdrakerling sem Bernd "stýfði úr hnefa sínum" og þá ekki síður hjónalífsatriðin sem hendur hans göldruðu fram með hjálp trékúlna. Þegar vinstri höndin tók til við að starfrækja brúðuleikhús til að ganga í augun á þeirri hægri var mér öllum lokið, hvernig er þetta hægt? Einhver magnaðasta sýning sem ég hef séð í vetur.

Barna- og unglingaleikhúshátíðin hefur bætt margvíslegum upplifunum í sjóðinn hjá þeim sem hana sóttu, bæði börnum og fullorðnum. Yfirlætis- og tilgerðarlaust sýnishorn af nálgunarmöguleikum við kröfuharða en þakkláta áhorfendur. Ég þakka fyrir mig.

föstudagur, maí 14, 2004

Don Kíkóti

Borgarleikhúsið
13. maí 2004

Bókvit og asnarSýning byggð á leikgerð Michaíls Búlgakovs á sögu Cervantesar, þýðing: Jón Hallur Stefánsson. Leikstjóri: Guðjón Pedersen, leikmynd: Grétar Reynisson, búningar: Stefanía Adolfsdóttir, lýsing: Lárus Björnsson, leikgervi: Sóley Björt Guðmundsdóttir, hljóð: Ólafur Thoroddsen.

Leikendur: Bergur Þór Ingólfsson, Björn Ingi Hilmarsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Theodór Júlíusson.


TALSVERÐ eftirvænting hefur einkennt bið undirritaðs eftir frumsýningunni á Don Kíkóta. Bæði er nú það að frumsýningar hafa verið óvenju fáar á stóra sviði Borgarleikhússins, starfsemi Leikfélags Reykjavíkur í hálfgerðri spennitreyju sakir fjárskorts og hver uppfærsla þeim mun meiri viðburður. Þá hefur ráðstöfun titilhlutverksins ekki dregið úr spennunni, svo óvænt sem hún var. Síðasta vor skrifaði ég grein um Shakespearesýningar í Borgarleikhúsinu á vef Bandalags íslenskra leikfélaga, Leiklist.is, og hafði þar uppi stór en verðskulduð orð um frammistöðu Halldóru Geirharðsdóttur í Sumarævintýri, og lét fylgja nokkurs konar óskalista um hlutverk fyrir hana til að fylgja eftir sigrinum. Sum þeirra voru karlhlutverk, og nú er hún mætt í hlutverki karlfausks sem hefur gert hugsjónir karlmennskunnar í sinni hreinustu mynd að lögmáli lífs síns.

Saga Cervantesar af bókaorminum sem heldur að hann sé farandriddari er margræð og efnisrík, og í hverri leikgerð slíkrar sögu felst bæði túlkun og val. Aldrei er hægt að halda öllu til haga. Hvað á að sýna og hvernig?

Kannski er okkar nánasta samtíð ekki besti vettvangurinn til að skapa samúð með mönnum sem ganga á hólm við raunveruleikann með fastmótaðar ranghugmyndir og sannfæringu um að þeirra sé réttlætið að vopni. Kannski er of stutt í hugsunina um hvað hefði orðið um munkana og vindmylluna (og þá vesalings malarann) ef riddarinn sjónumhryggi hefði búið yfir eyðileggingarafli þess manns sem nú um stundir er hvað frægastur fyrir hvað heimsmynd hans er snertipunktalaus við heiminn. Kannski er það meðal annars þess vegna sem erfitt er að lifa sig inn í söguna í sýningu Leikfélags Reykjavíkur að þessu sinni. Samt er alveg ljóst að höfundar sýningarinnar eru einarðlega á bandi söguhetjunnar, taka hana á orðinu þegar hún lýsir yfir stríði gegn ranglæti. Þó hafa þeir vafalaust, eins og flestir, efasemdir um önnur stríð sem nýlega hefur verið lýst yfir gegn einberum hugtökum.

Önnur ástæða þess að sýningin hefur ekki sterkari áhrif en raun ber vitni er sú leið sem farin er, að gera alla þá sem á vegi þeirra Kíkóta og Sansjó Pansa verða eins afkáralega og kostur er. Kunnugleg stílbrögð leikstjórans, sem oft skila eftirtektarverðum áhrifum, vinna hér gegn inntaki verksins. Þetta á jafnt við um heimilisfólk og vini riddarans og fólk sem þeir hitta á ferðum sínum. Stundum tekst að skapa með þessu fyndni, en það verður óneitanlega á kostnað þess að skapa spennu milli raunveruleikans og hugsýnar riddarans. Ég er ekki að biðja um raunsæi, aðeins um innlifun og íróníulausa afstöðu leikaranna til persóna sinna. Eina skýra dæmið um slíkt er Dúlsínea Hönnu Maríu Karlsdóttur, sem þó er skopfærð mjög. Atriðið þar sem Kíkóti biður hana forláts á framkomu sinni við hana verður fyrir vikið eitt fallegasta atriði sýningarinnar. Það er líka eitt það fyndnasta, sem er ekki þverstæða eins og Cervantes hefði verið fullkunnugt um.

Gagnrýnilaus afstaða sýningarinnar til aðalpersónunnar gerir hana trúlega minna áhugaverða en ella hefði orðið. Engu að síður er það túlkun hennar sem er það eftirtektarverðasta við sýninguna. Halldóra Geirharðsdóttir leysir þetta verkefni með stökum glæsibrag. Það sem kemur dálítið á óvart er hvað kynferði hennar (eða persónunnar) skiptir gersamlega engu máli í upplifun áhorfandans. Afrek hennar er ekki hve vel henni tekst að leika karlmann, heldur hve sönn, áreynslulaus og falleg innlifun hennar í þessa tilteknu persónu er. Halldóra er algerlega trú Kíkóta, sýnir okkur hve kostulegur hann er í villu sinni, hve sterkur í sannfæringu sinni og hlýr í hugsjón sinni. Afstaða sýningarinnar takmarkar svigrúm Halldóru til að sýna fleiri fleti á persónunni, og leikgerðin gerir henni erfitt fyrir með að sýna þróun hennar. Fyrr en í lokin þegar riddarinn er loksins tilbúinn að draga lærdóma af ferð sinni. Lokaatriðið er sterkt eftir ansi hæggengan og gloppóttan síðari hlutann.

Bergur Þór Ingólfsson er líka magnaður Sansjó Pansa, þótt ólöguleg gerviístran þvældist fyrir honum (eða allavega mér). Bergur hefur marga sömu eiginleika og Halldóra. Fallega nærveru, innlifun og ótæmandi möguleika á að koma áhorfendum á óvart með smæstu athöfnum eða áherslum, sem alltaf eru samt sannar. Samleikur þeirra er það besta við sýninguna.

Aðrir leikarar hafa úr litlu að moða og skrípaleiðin takmarkar enn möguleika þeirra. Eddu Björgu Eyjólfsdóttur varð ekki mikið úr Antoníu systurdóttur riddarans og gerði dæmigerða glyðru úr þjónustustúlku á krá. Björn Ingi Hilmarsson tekur sig vel út í prestsgervi, en að gera kráareigandann að dæmigerðum sviðshomma er ekkert nema banalt. Guðmundur Ólafsson nær heldur ekki að draga rakarann upp úr klisjufeninu, og það sama má segja um ráðskonu Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur og hertoga Theodórs Júlíussonar. Halldór Gylfason gerir hinn sprenglærða vonbiðil Samson að fallegum manni, en þarf að gæta að framsögninni í þessu erfiða rými.

Leikmynd Grétars Reynissonar ber höfundareinkenni hans og virkar vel í stemmningsríkri lýsingu Lárusar Björnssonar. Þó fannst mér staðsetning hins annars fallega vindmylluatriðis draga úr áhrifum þess. Búningar Stefaníu Adólfsdóttur á aðalpersónurnar eru flottir, en aðrir hafa á sér yfirbragð samtínings.

Sýning Leikfélags Reykjavíkur á Don Kíkóta er áhugaverð en ekki hrífandi, áferðarfalleg en ekki sterk, og afgerandi afstaða aðstandendanna rýrir áhrifamátt sögunnar. Framganga aðalleikaranna gerir hana þó að viðburði sem vel er þess virði að sjá.

Hvað sem þér viljið, eða Þrettándakvöld

Rustaveli-leikhúsið frá Georgíu
Þjóðleikhúsinu á listahátíð 14. maí 2004.

Höfundur: William Shakespeare
Leikstjóri: Robert Sturua
Leikmynd: Giorgi Alexi-Meskhishvili
Tónlist: Giorgi Kancheli og fleiri

Leikendur: Archil Baratashvili, Archil Baratashvili, David Gotsiridze, Eka Mindiashvili, Gela Lejava, Gela Otarashvili, Goga Gvelesiani, Guram Mgaloblishvili, Guram Sagaradze, Irakli Macharashvili, Lela Alibegashvili, Levan Baratashvili, Levan Berikashvili, Nana Khuskivadze , Nino Tarkhan-Mouravi, Soso Abramishvili, Temur Chichinadze, Tenguiz Giorgadze, Tristan Saralidze, Vano Gogitidze, Zaza Baratashvili, Zaza Papuashvili, Zurab Sharia og Zviad Papuashvili.

Þrettándi dagur jóla

EINS og fram hefur komið leggur Listahátíð sérstaka áherslu á sviðslistir að þessu sinni. Reyndar er sýning Rustavelileikhússins á Þrettándakvöldi eina sýningin sem kalla má hreinræktaða leiklist, Schaubühne-sýningin er einhverskonar dansleikhúsbræðingur og sú japanska virðist vera hreinræktaður dans ef marka má kynningar. Hvers vegna leiklistin verðskuldar ekki stærri sneið af tíma og peningum Listahátíðar veit ég ekki, í ljósi vinsælda leikhússins hér. Eins má spyrja sig hvort rétt hafi verið valið, að flytja hingað tvær umfangsmiklar og mannmargar sýningar, í stað þess að finna fleiri spennandi hópa með viðaminni og ferðavænni verkefni. Það lætur allavega ekki vel í mínum eyrum að heyra kynningarmaskínu listahátíðar leggja sérstaka áherslu á það í kynningu hvað leikmynd þýska hópsins er mörg tonn, og telja það væntanlega til marks um hve vel er gert við íslenska áhugamenn um sviðslistir að þessu sinni. Nú verður þess væntanlega langt að bíða að leiklistin fái aftur jafnstóran hluta af listinnflutningskvóta Listahátíðar, og er það súrt. Þeim mun meiri ástæða til að gleðjast yfir því sem þó rekur á fjörur okkar.
Gestir sem færa leikhúslífinu hér eitthvað nýtt, eða allavega eitthvað annað en við eigum að venjast, eru alltaf kærkomnir. Nú hefur reyndar samgangur austurs og vesturs í leiklistarlegum skilningi aukist mjög, og Ísland notið þess eins og aðrir. Allavega eru ötulir leikhúsáhugamenn farnir að vita hvers má vænta af leiksýningum úr austurblokkinni. Áhersla á sjónræna hlið leikhússins, ljóðræn nálgun á persónur, hreyfingar og stíl, mikil notkun á tónlist til áhrifaauka og sterk þörf til að kafa djúpt í verk þau sem lögð eru sýningunum til grundvallar. Oft er afrakstur þessarar köfunar næsta sérviskulegur, iðulega sterkar bundinn kenjum leikstjórans og hvað honum er ofarlega í huga þegar lagt er í leiðangurinn en því sem kalla mætti kjarna verkanna. Útkoman er næstum alltaf áhugaverð, oft furðuleg og stundum svo snertipunktalaus við framvindu, persónur og þema verkanna að þau þvælast eiginlega bara fyrir.

Sýning Rustavelileikhússins á Þrettándakvöldi hefur öll þessi einkenni. Útlit hennar, rýmisnotkun og sjónrænt hugmyndaflugið sem að baki býr er töfrandi. Hið sveigða form hins hvíta sviðsgólfs, rauði hringstiginn, blöðrurnar og hvítu tjöldin, að ógleymdum lömbunum allt í kring sköpuðu sýningunni fallega, óræða og ljóðræna umgjörð. Tónlist er óspart notuð, þótt mig gruni nú að það sé ofrausn að eigna hana alla tónskáldinu Gia Kancheli, þó hann "hafi svipaða stöðu í sínum heimshluta og Arvo Pärt" eins og svo tilgerðarlega er komist að orði í leikskránni. Ég gat ekki betur heyrt en enska kabaretthljómsveitin The Tiger Lillies kæmi mikið við sögu í hljóðheimi sýningarinnar, og ekkert nema gott um það og hana að segja.

Þá hefur leit höfundar sýningarinnar að kjarna leitt hann á afar nýstárlegar slóðir. Nafn verksins kveikti hjá honum þá hugmynd að flétta inn í verk Shakespeares nokkurskonar helgileik, atriði úr guðspjöllunum þar sem fæðing og fyrstu dagar frelsarans eru raktir. Nú er Shakespeare líklega minnst kristilegur af klassískum höfundum eftir Krist, og auk þess frægur fyrir kæruleysi um nafngiftir gleðileikja sinna, enda verð ég að játa að mér er lífsins ómögulegt að sjá tengslin milli þessara efnisþátta. Atriðin sjálf eru fallega sviðsett, í einhverskonar írónískum uppgerðar-naívískum stíl sem áhorfendur vissu ekki alltaf hvort var leyfilegt að hlæja að. Fyrir utan þessi uppbrot er meðferð leikritsins næsta hefðbundin og framvindunni fylgt nokkuð nákvæmlega þar til í lokin, en það er óþarfi að ljóstra því upp hér hvernig þau eru.

Þrettándakvöld greinir frá atburðum sem verða í hertogadæminu Illiríu þegar tvíburasystkin verða þar skipreika. Systirin Víóla dulbýr sig sem karlmann og gengur í þjónustu hertogans, og fær fljótt það hlutverk að falast eftir hönd og hjarta Ólivíu fyrir hertogann. Vitaskuld verður Ólivía ástfangin af yngissveininum, og Víóla af hertoganum. Sem betur fer á hún tvíburabróður, Sebastían, þannig að allir fá það sem þeir vilja í lokin. Nema reyndar bryti Ólivíu, Malvólíó, sem er blekktur til að halda að húsmóðirin elski sig, hvattur til að gera hosur sínar grænar fyrir henni, og úrskurðaður geðveikur þegar hann lætur til skara skríða.

Robert Sturua, höfundur sýningarinnar, velur henni trúðskan og írónískan leikstíl, sem reyndar er leyft að vera nokkuð köflóttum. Sumir leikaranna virðast vísvitandi leika með yfirdrifnum tilþrifum, kannski til að tjá hve tilfinningar þeirra eru uppblásnar. Átti þetta sérstaklega við um Sebastían og hertogann, og varð nokkuð leiðigjarnt. Aðrir eiga innlifaðar senur þar sem falleg og sönn augnablik ná að lifa, einkum Nino Tarkhan-Mouravi sem Víóla og Lela Alibegashvili sem Ólivía. Áhrifamest voru þó þau sem fengu að leika lausustum hala í trúðleik. Zaza Papuashvili var fantagóður Malvólíó, einkum eftir að hann hafði verið leiddur á villigöturnar. Magnaðast var samt að fylgjast með Nana Khuskivadze gera þernuna Maríu að makalaust heillandi trúð, svo fallega gert að aumingja Fjasti, fífl Ólivíu, fellur algerlega í skuggann.

Þrátt fyrir ótvíræða kosti sýningarinnar verður þessi sundurgerð í leikstíl, og fjarlægðin sem helgileikurinn skapar til að halda sýningunni utan seilingar innlifunarinnar fyrir undirritaðan. Ég sá að þarna voru töfrar á ferð, en þeir töfruðu mig ekki. Og kannski var sú fágun og nákvæmni sem einkenndi suma hluta sýningarinnar til þess að gera þau augnablik og atriði sem voru ónákvæm og ekki nógu skörp enn meira áberandi og truflandi. Rustaveli-leikhúsið er heimsfrægt og ég hef lesið lofsamlegar umsagnir um ýmis verk þessa hóps og hr. Stuara. Sýningin á Þrettándakvöldi verður samt ekki sá tímamótaviðburður fyrir mig sem leikhúsáhorfanda sem ég hafði gert mér vonir um. Flott sýning, en nýjabrumið er farið, og það reynist hafa átt stóran þátt í áhrifunum.