laugardagur, nóvember 30, 2002

Auga fyrir auga

Leikfélag Vestmannaeyja
Félagsheimili Vestmannaeyja 30.11.2002.

Höfundur: William Mastrosimone
Þýðandi: Jón Sævar Baldvinsson
Leikstjóri: Andrés Sigurvinsson
Leikmynd: Bjarni Ólafur Magnússon
Tónlist: Andri Eyvindsson, Aron Björn Brynjólfsson og Viktor Smári Kristjánsson
Lýsing: Hjálmar Brynjúlfsson
Förðun: Ásta Steinunn Ástþórsdóttir
Búningar: Selma Ragnarsdóttir
Leikendur: Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, Guðný Kristjánsdóttir, Júlíus Ingason og Sigríður Diljá Magnúsdóttir.

Úlfakreppa

ÓKUNNUR maður kemur sér inn á heimili konu og reynir að nauðga henni. Með snarræði tekst henni að hindra að hann komi vilja sínum fram, meiðir hann illa og lokar hann inni í arninum. Hvað er til ráða? Hún hefur engar sannanir fyrir því að hann hafi reynt að vinna henni mein, en hann er gangandi sönnun þess að hún hafi ráðist á sig. Sambýliskonur hennar koma heim og upphefst mikil togstreita og rökræður um hvað sé rétt að gera. Þetta eru í stuttu máli þær aðstæður sem William Mastrosimone notar til að varpa fram spurningum um hefnd, réttlæti og miskunn, og sérstaklega þau vandamál sem tengjast því að koma réttlæti yfir nauðgara.

Verkið er að mestu skrifað í þeim raunsæisstíl sem einkennir verk margra amerískra höfunda og útheimtir algera tilfinningalega innlifun. Á sama tíma er verkið tæknilega erfitt í sviðsetningu, í því eru ofbeldisatriði sem útheimta mikla nákvæmni og á sama tíma kraft sem þarf að virðast stjórnlaus. Auga fyrir auga er því ákaflega krefjandi viðfangsefni enda umfjöllunarefnin á mörkum hins þolanlega, og vægast sagt vogað af Leikfélagi Vestmannaeyja að takast á við það.

Það verður að segjast eins og er að leikhópurinn nær ekki fyllilega að uppfylla kröfur verksins. Best gengur þeim þegar höfundur brýtur raunsæisrammann með eintölum, sem urðu afar áhrifamikil í meðförum leikendanna. En í tilfinningaspenntum hápunktum í framvindunni náði hópurinn ekki fyllilega þeim algera trúverðugleika sem verkið gerir ráð fyrir. Hvað varðar ofbeldið þá var nauðgunartilraunin afar vel unnin og illþolandi á að horfa eins og vera ber, en síðara atriðið, þegar Maggy svarar nánast í sömu mynt, varð ekki að þeim dramatíska hápunkti sem því er ætlað.

Að sjálfsögðu var margt vel gert innan þeirra takmarkana sem fyrr var getið. Maggy er skörulega leikin af Sigríði Dilja Magnúsdóttur, staðráðin í að koma fram hefndum á illvirkjanum. Hlutverk hans er í höndum Júlíusar Ingasonar sem dregur upp skýra mynd af einstaklega ógeðfelldum náunga. Ásta Steinunn Ástþórsdóttir var skemmtileg sem hin einfalda Terry, skilaði kómískum hliðum persónunnar vel og náði svo inn að kvikunni í eintalinu um sína sáru nauðgunarreynslu. Guðný Kristjánsdóttir er hin rúðustrikaða rökhyggjukona Patty og komst ágætlega frá þessu vanþakkláta hlutverki. Allir leikendurnir ná að gera skýrar “týpur”, og þegar best lætur að gefa þeim líf. Það vantar síðan herslumuninn upp á að innlifunin verði fullkomlega eðlileg, en stór hluti áhrifamáttar verksins veltur einmitt á því.

Umgjörð; leikmynd, búningar og hljóðmynd var vel unnið. Hin stílfærða leikmynd var að mínu mati ekki sérlega viðeigandi, en lausn hennar á arninum sem allt hverfist um var þó snjöll.

LeikfélagVestmannaeyja er þessi árin að stíga sín fyrstu skref eftir að hafa legið í dvala. Viljinn til góðra verka er greinilega til staðar og með mann eins og Andrés Sigurvinsson í liðinu er framtíðin björt. Hér glíma þau við krefjandi verkefni og hafa ekki fullnaðarsigur, en örugglega áfangasigur í átt að frekari listrænum þroska í takt við hinn augljósa metnað.

miðvikudagur, nóvember 20, 2002

Íbúð Soju

Stúdentaleikhúsið
Vesturporti miðvikudagskvöldið 20. nóvember 2002

Höfundur: Mikhail Búlgakov
Þýðandi: Þórarinn Kristjánsson
Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson.

Einstaklingsframtak í einræðisríki

ÍBÚÐ Soju er skrifað í Sovétríkjunum 1925, á miðju tímabili NEP-stefnunnar, sem einkenndist af smávægilegum tilslökunum, einkavæðingu á smáiðnaði og verslun. Útkoman sem Búlgakov sýnir í leikritinu er fyrirsjáanleg. Sögusviðið er eins og kemur fram í titlinum íbúð þar sem hin unga og metnaðargjarna Soja hefur hreiðrað um sig ásamt þernu, ástkonu og frænda með skuggalega fortíð. Þar opnar hún lítið fyrirtæki sem veit ekki alveg hvort það er tískuhús, saumastofa eða hórukassi. Allir eru á fullu við að nýta nýfengið frelsi til að klófesta það sem skiptir máli í lífinu: peninga, kynlíf, völd og farmiða burt úr sæluríkinu. Þetta gengur allt bærilega þangað til sumar persónurnar fara að ásælast ástina líka. Þá fer allt fjandans til. Verkið er smáskrítið og greinilega skrifað beint inn í samtíma sinn, en nær samt að vera ótrúlega nútímalegt. Sem þarf ekki að vera svo ótrúlegt - eru drifkraftar mannskepnunnar ekki alltaf þeir sömu?

Bergi Þór lætur greinilega vel að vinna með Stúdentaleikhúsinu og skemmst er að minnast hinnar frábæru sýningar Ungir menn á uppleið, annars heimsósómaverks. Hér velur hann leið léttrar stílfærslu sem smellpassar við efnið og innihaldið. Þó má finna að því að stundum missti leikhópurinn tökin á stílnum - eða hann var ekki algerlega gegnumfærður. Undir lokin gægist líka einlægni út undan háðsgrímunni þegar ein persónan fyllist örvæntingu þegar hin elskaða hafnar honum. Þau umskipti virkuðu sterk á mig í meðförum Hannesar Óla Ágústssonar. Bláenda sýningarinnar er líklega líka ætlað að kippa okkur niður á jörðina, en það tókst ekki fyllilega. Fyrir utan þessi atriði er sýningin stílfærð - leikurinn ýktur og háðskur, sem er undirstrikað með einfaldri en snjallri leikmyndalausn. Tónlistarnotkun var á hinn bóginn óþarflega ómarkviss, þó hljómsveitin væri út af fyrir sig ágæt.

Leikhópurinn er öflugur að vanda, Stúdentaleikhúsið býr við gott mannval þessi árin. Brynja Björnsdóttir var glæsileg og örugg Soja. Tvær leikkonur skiptast á um hlutverk þernunnar Manjúshku og ekki veit ég hvort það var Guðný K. Guðjónsdóttir eða Sara Friðgeirsdóttir sem fór með hlutverkið á miðvikudagskvöldið, en skemmtileg var hún. Þá var Walter Geir Grímsson frábær sem hinn útsjónarsami undirmálsmaður Ametístov. Heilt yfir stóð hópurinn sig vel. Framsögn var samt óþarflega oft ekki nógu góð.

Stúdentaleikhúsið á heiður skilið fyrir að kynna þetta skemmtilega leikrit fyrir Íslendingum. Sýningin er vandlega unnin og prýðileg skemmtun. Þeim mun leiðinlegra er hvað erfitt er að nálgast upplýsingar um hana, svo sem sýningarstað, sýningartíma og miðasölusíma. Lánist hópnum að kippa þessu í liðinn er aldrei að vita nema fólk streymi í leikhúsið - það er margt vitlausara hægt að gera.

laugardagur, nóvember 16, 2002

Kverkatak

Leikfélag Dalvíkur
Ungó, 16. nóvember 2002

Höfundur og leikstjóri: Júlíus Júlíusson.

Ekki meira sjoppuhangs

HUGMYNDIN að baki sýningar Leikfélags Dalvíkur, Kverkatak, er í raun svo umfangsmikil og lýsir svo miklum metnaði að sjálf leiksýningin verður nánast að aukaatriði. Formaður félagsins ræðst í það að gefa áhugasömum unglingum í sveitarfélaginu tækifæri til að taka þátt í leikhúsvinnu, sjá um alla þætti uppsetningar á leikriti. Sjálfur skrifar hann verkið, þjálfar hópinn og leikstýrir sýningunni. Um fimmtíu ungmenni koma að verkefninu á einn eða annan hátt, og eðli málsins samkvæmt eru þau öll byrjendur á sínu sviði, leikarar, ljósamenn, leikmynda- og búningafólk, förðunardeild og miðasalar. Allir sem þekkja til leikhúsvinnu vita hve krefjandi, gefandi og þroskandi hún getur verið. Í ljósi þess verður að óska Júlíusi Júlíussyni, þátttakendum öllum, Leikfélagi Dalvíkur og sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð til hamingju með þetta einstaka verkefni.

Júlíus þreytir hér margar frumraunir í einu. Hann skrifar í fyrsta sinn leikrit í fullri lengd, en á að baki nokkra smærri þætti. Hann leikstýrir í fyrsta skipti heils kvölds verki. Og síðast en ekki síst er hann í hlutverki leiklistarleiðbeinanda með hóp af ungmennum sem litla sem enga leikreynslu hafa.

Verkið sjálft fjallar um unglingahóp í litlu þorpi. Þeim leiðist sjoppuhangsið og tíðindaleysið og ákveða að fara saman í útilegu í gamla verbúð skammt frá. Þar hafa hinsvegar gerst voveiflegir atburðir, dauðir menn sem málinu tengjast liggja ekki kyrrir og gestkvæmt verður í verbúðinni. Ekki er rétt að fara nánar út í nokkuð flókna fléttuna, sem tekur nokkrar krappar beygjur áður en yfir líkur.

Það verður að segjast að þræðir verksins, hryllingurinn, húmorinn og dramað, eiga nokkuð óblíða sambúð sem höfundi hefur ekki tekist allskostar að friða og samþætta. Best hefur tekist upp með grínið, og þar gengur leikhópnum líka best. Hryllingurinn verður aldrei sérlega hryllilegur og dramað undir lokin fær ekki þá undirbyggingu sem það þarf til að verða trúverðugt. Eftirminnilegustu atriðin verða trúlega ágæt samtöl unglingahópsins í fyrri hlutanum og aldeilis bráðskemmtileg innkoma björgunarsveitarinnar í lokin. Einnig voru draugarnir fyndnir, en fyrir vikið frekar lítið hræðsluvekjandi þegar þess var þörf.

Leikhópurinn er stór og samt nokkuð jafngóður, og ekki þykir mér rétt að taka einstaka leikara fyrir til lofs eða lasts. Leikstjórn Júlíusar er fremur hófstillt, eins og oft einkennir uppfærslur höfunda á eigin verkum. Það kom vel út í fyrri hlutanum og skilaði sannfærandi sjoppuhangsi og afslöppuðum leik, en í viðburðaríkum seinni hlutanum hefði meiri kraftur og hreyfanleiki átt betur við. Umgjörð sýningarinnar er vel útfærð, sérstaklega verbúðin sem var glæsileg og nýtti sviðsrýmið skemmtilega. Hljóðeffektar settu mikinn svip á sýninguna og voru áhrifamiklir.

Þegar upp er staðið hefur mikið unnist með þessari sýningu. Stór hluti unglinga svæðisins hefur tekið þátt í skapandi ferli. Nýbyrjaður leikstjóri og höfundur hefur fengið tækifæri til að takast á við krefjandi verkefni. Hér er horft til framtíðar og allt bendir til að ríkuleg uppskera sé handan við hornið. Leiksýningin er ágæt skemmtun en endanlegrar útkomu bíðum við enn um sinn.

sunnudagur, nóvember 10, 2002

Í bænum okkar er best að vera

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu 10. nóvember 2002

Höfundur: Ómar Jóhannsson
Leikstjóri: Helga Braga Jónsdóttir
Tónlistarstjóri: Baldur Þórir Guðmundsson
Danshöfundur: Josie Zareen.

Reykjanesbæjarrevían

EKKI er mér kunnugt um neitt leikfélag sem leggur jafnmikla rækt við revíugerð og Leikfélag Keflavíkur. Það er merkilegt, því fá viðfangsefni eru þakklátari en mannlífið í næsta nágrenni. Þetta mátti glöggt merkja af hlátrarsköllunum sem glumdu um þétt setið Frumleikhúsið þegar ég sá Í bænum okkar er best að vera, nýjustu revíu félagsins og þá fjórðu sem Ómar Jóhannsson skrifar. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja leikfélög landsins til að leggja rækt við þetta skemmtilega form. Það stælir pennafæra félagsmenn til frekari átaka, leysir úr læðingi dulda hæfileika til leiks, söngs og dans og reynslan sýnir að ef vel tekst til láta áhorfendur sig ekki vanta - fólk er ekki eins forvitið um neitt eins og sjálft sig.

Fyrirfram bjóst ég eiginlega við að skilja hvorki upp né niður í staðbundnum bröndurum og duldum vísunum í Reykjanesbæjarrevíunni. Raunin varð samt sú að ég skemmti mér prýðilega. Kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi reyndust ýmis atriði ekkert ýkja staðbundin. Þar má nefna skemmtilegt atriði þar sem málsmetandi Keflvíkingar - eða Reykjanessbæingar - koma að máli við góðkunnan borgarstjóraframbjóðanda og Vestmannaeying og biðja hann að sækjast eftir bæjarstjórastólnum í Keflavík - afsakið Reykjanesbæ. Annað slíkt atriði var frábær lýsing á lífinu hjá tollvörðunum á vellinum. Í öðru lagi eru vel útfærð grínatriði fyndin óháð nákvæmum skírskotunum. Þannig varð atriði í bakaríi óborganlega fyndið þó ég skildi hvorki upp né niður í því sem fram fór. Annað slíkt hét “Blámann” og var snarpt og skemmtilegt, en ekki gæti ég unnið mér það til lífs að útskýra af hverju ég hló, en ég hló nú samt.

Vissulega eru atriðin misfyndin og fyrir minn smekk eru þau næstum öll eilítið of löng. Einnig má finna að því að fæst hafa þau það sem ég veit ekki hvort nýja íslenska orðabókin kallar “Pöns”. Þau lýsa ástandi, sem oft er fyndið, teikna persónur, iðullega mjög vel, en taka sjaldnast afgerandi stefnu. Samt ná mörg þeirra að vera mjög skemmtileg og hnyttnir söngtextarnir eru gott krydd.

Uppfærslan er virkilega vel gerð hjá Helgu Brögu Jónsdóttur. Hún nær að virkja hæfileika hvers og eins, viðhalda krafti og leikgleði frá upphafi til enda og gefa sýningunni fágun sem beinir athygli áhorfandans að aðalatriðunum í hvert sinn. Einföld leikmyndin þvælist ekki fyrir og búningar þjóna sínum tilgangi vel. Vonandi á Helga Braga eftir að ráðast til starfa hjá fleiri áhugaleikfélögum eftir þessa vel heppnuðu frumraun.

Leikarahópurinn er stór og trúlega misvanur en allir valda sínum verkefnum vel. Sýning Leikfélags Keflavíkur á Í bænum okkar er best að vera er skýr, kröftug og skemmtileg - jafnvel fyrir utanbæjarmenn.

föstudagur, nóvember 08, 2002

Þrek og tár

Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Valaskjálf 8. nóvember 2002

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Tónlistarstjóri: Jón Kristófer Arnarson.

Fortíðarvandi fjölskyldunnar

Jóhann kaupmaður hefur lifað langa og stormasama ævi. Hann á enga ósk heitari en að lifa í friði og deila með afkomendum sínum lífsvisku sinni sem er því dýrmætari sem reynslan sem hún byggir á var sárari og breyskleiki hans meiri. En lífið er ekki svona einfalt. Fortíðarvandi fjölskyldunnar er enn til staðar og er hreyfiafl atburðanna í Þreki og tárum, einkum í örlögum Gunna Gæ sem er fórnarlamb aðstæðna og skapgerðarbresta, sinna eigin og flestra sinna nánustu.

Þó þessi saga sé kannski meginþráðurinn í Þreki og tárum er ótalmargt annað sem við fáum að vita um Jóhann og fólkið hans. Allir eiga sér forsögu, allir stefna á eitthvað, vilja eitthvað, dreymir um bjartari framtíð. Okkur er sagt frá þessu öllu og drögumst inn í stórfjölskyldulífið - ekki síst í gegnum helstu fjölskylduástríðuna: tónlist. Ljúfsár dægurtónlistin, tryllt rokkið, kvartettsöngur og íslenskar einsöngsperlur. Tvennt telja Jóhann kaupmaður og Áki rakari helst geta orðið mönnum til sálubótar; tónlist og umburðarlyndi. Má vera að það sé rétt, en það bjargar ekki þeim sem ekki er við bjargandi og eru fyrir vikið þeir einu sem þarfnast björgunar. Þrek og tár er gott leikhúsverk en leysir ekki lífsgátuna, þó það nú væri.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs hefur sýnt það undanfarin ár að þar fer hópur sem á góðum degi getur skilað flóknum og viðamiklum sýningum með fullum sóma. Það er skemmst frá því að segja að þau eiga prýðisdag að þessu sinni. Þrek og tár er lífleg sýning, vel leikin og sungin og ákaflega haganlega upp sett af leikstjóranum, Oddi Bjarna Þorkelssyni. Oddi hefur tekist sérlega vel upp að feta einstigi Ólafs Hauks milli gleði og harms, hláturs og gráts. Sýningin er full af gleði og spaugilegum smáatriðum en jafnframt tekst flestum að sýna okkur kvikuna þegar á þarf að halda. Erfiðar uppgjörssenur, til að mynda milli Jóhanns og Diddu dóttur hans og kveðjustund feðganna Einars og Davíðs, hreyfa svo sannarlega við manni. Sýningin er líka sérlega vel sviðsett, sem tryggir að athygli áhorfenda beinist þangað sem hún á að beinast, jafnvel í stórum hóp- og danssenum. Eini kaflinn sem ég var ekki fyllilega sáttur við voru lokaatriðin, örlög Gunna, brottför Davíðs og heimkoma. Þar hefði þurft meiri yfirlegu, snjallari lausn, sem í ljósi annarra hápunkta eru fyllilega á valdi leikstjóra og hans fólks.

Margir leikaranna eiga góðan dag. Einar Rafn Haraldsson skilar vel hrjúfri hlýju Jóhanns kaupmanns og af þeim Jóhönnum sem ég hef séð gefur hann einna besta tilfinningu fyrir skapgerðarbrestum og skuggalegri fortíð kaupmannsins, sem auðvelt er að týna undir góðlátlegu afa-yfirbragðinu. Aðrir góðir eru til dæmis Ágúst Ólafsson sem var sannfærandi sem hinn tvístígandi kommúnisti Einar, og þær Sigurlaug Gunnarsdóttir og Freyja Kristjánsdóttir Gjerde í hlutverkum söngsystranna Helgu og Diddu. Sérstaklega verður þó að hrósa hinum unga Hálfdáni Helga Helgasyni sem gerir þungamiðju verksins, Davíð dóttursyni Jóhanns, sterk og einlæg skil. Það verður gaman að fylgjast með þessum dreng þroskast á sviðinu.

Fleiri verða ekki taldir upp þó fyllsta ástæða væri til. Svona vandaðar sýningar gera ekki önnur félög en þau þar sem virðing fyrir viðfangsefnum og leikhúsinu er orðin sjálfsögð og viðtekin. Umgjörð er prýðileg, búningar sömuleiðis og tónlistarflutningur ágætur. Heildarútkoman er öllum aðstandendum til sóma og verður Hérðaðsbúum og nágrönnum þeirra vafalaust til gleði, drífi þeir sig í Valaskjálf sem þeir eru hér með hvattir til að gera.