föstudagur, apríl 14, 2000

Ég bera menn sá

Leikdeild Umf. Skallagríms
Félagsmiðstöðin Óðal, Borgarnesi. Föstudagurinn 14. apríl 2000

Höfundar: Anna Kristín Kristjánsdóttir og Unnur Guttormsdóttir
Tónlist: Árni Hjartarson
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson

Í hlekkjum hugarfarsans

KLIKKAÐ er kannski fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar lýsa á Ég bera menn sá eftir Hugleikskonurnar Unni og Önnu Stínu. Þær stöllur sækja gjarnan efnivið sinn í þjóðsögurnar, og svo er einnig hér. Saga um álfamey í álögum og sauðamenn sem finnast dauðir á jólanótt eftir gandreið mikla myndar rauða þráðinn í verkinu en einnig koma tvær skessur við sögu, ættaðar úr tröllasögum öllum og engri. Svo er vitaskuld draugur. En þó rauður þráður sé þarna einhversstaðar hafa höfundar sleppt öllum beislum af hugarflugi sínu og “stefna í allar áttir og enga þó” eins og meistarinn sagði. Engu tækifæri er sleppt til að skapa skringilegar uppákomur eða skjóta að orðaleik. Stundum heppnast þetta, stundum ekki eins og gengur, og ekki eru það alltaf hnittnustu orðaleikirnir sem uppskera hláturinn, það getur allt eins verið aulalegasta fyndnin sem virkar. Svo er verkið fullt af skírskotunum til samtímamálefna sem voru efst á baugi á ritunartíma þess, má þar nefna aðför Baldurs Hermannssonar að íslenskri bændastétt og íslenskri sauðkindastétt, innflutningur á kalkúnalærum og fleira fyrnt. Sönglög Árna Hjartarsonar og hnittnir textar bæta síðan einum lit enn við þetta skrautlega sjónarspil.
Ekki get ég neitað því að verkið er full-bláþráðótt fyrir minn smekk. Lítil tilraun hefur verið gerð til að láta hinar ólíku persónur eiga þátt í örlögum hverrar annarrar, þjóðsagan siglir sinn lygna sjó til endalokanna gleðilegu meðan hugarfarshlekkjaðir bændasynir, bældur bóndi og meðvirk eiginkona hans, orðheppnar skessur, ruglaður munkur og rappandi sauðir fara sínu fram allt í kring. Ég bera menn sá er köflótt verk, sumir kaflarnir eru skemmtilegri en aðrir en samhengisleysið dregur nokkuð úr heildaráhrifamætti þess.
Umgjörð og útlit er ágætlega unnið, baktjald er til að mynda fallegt og svipmikið, og það verður að teljast vel af sér vikið að koma þessu flókna verki fyrir á þröngu sviðinu.
Þröstur Guðbjartsson sækir í uppfærslu sinni allnokkuð í frumuppfærslu Hugleiks, bæði hvað varðar útlit og “lögn” einstakra persóna. Þetta sætir nokkurri furðu, þar sem verk af þessu tagi eru galopin fyrir nýjum skemmtilegheitum og hugmyndum. Kannski á þetta líka sína sök á því að sýningin er óþarflega dauf og kraftlaus á köflum. Stundum virðist sem leikararnir hafi ekki “gert þetta að sínu” svo gripið sé til gamallar klisju. Á þessu eru vissulega undantekningar. Þannig voru þeir bræður Bölvar og Ragnar bráðgóðir og fyndnir í meðförum Axels Vatnsdal og Jónasar Þorkelssonar. Guðrún Kristjánsdóttir og Ragnheiður M. Jóhannesdóttir voru einnig fordæðulegar og kostulegar sem hinar trúðslegu tröllskessur Auðlegð og Ástríður. Ólafur Gunnarsson náði að gera munkinn furðulega, Meyvant, allskemmtilegan og vel fór hann með sönginn um síðustu kvöldmáltíðina, sem að mínu viti er besta lag sýningarinnar.
Ekki er annað hægt en að geta gestaleikarans, en brottfluttur Borgnesingur, Ingvar E. Sigurðsson, átti óvænta og fyndna innkomu í upphafi sýningar. Ekki er vert að ljóstra upp um eðli hennar, en þess verður þó að geta að ekki hafði hann erindi sem erfiði, enda trúir enginn leikurum, sérstaklega ekki í leikhúsi.
Að lokum vil ég benda Skallagrímsmönnum á að taka fyrir þann leiða ósið að áhorfendur taki ljósmyndir meðan á sýningu stendur. Af þessu er truflun og óvirðing jafnt við leikara sem áhorfendur. Vonandi verða myndatökur aflagðar þegar næsti hópur sest í sæti sín í Óðali til að henda reiður á þessum brjálaða hugar-farsa.

miðvikudagur, apríl 12, 2000

Tvær konur við árþúsund

Leikhópurinn Tvær konur
Bifröst á Sauðárkróki miðvikudaginn 12. apríl 2000

Höfundur og leikstjóri: Jón Ormar Ormsson
Leikmynd og búningar: Sigríður Gísladóttir
Leikendur: Bára Jónsdóttir og Vilborg Halldórsdóttir

Ertu sátt, Guðríður?

SAGA Guðríðar Þorbjarnardóttur er Íslendingum ofarlega í huga nú um stundir og þarf engan að undra það, svo mjög sem hún snertir vesturferðir norrænna manna. Hún er aukinheldur óvenjuleg fyrir margra hluta sakir, þó helst þessi taumlausa ferðagleði. Nú hefur leikskáld Skagfirðinga tekið Guðríði til meðferðar í nýju verki, en það var einmitt í Skagafirði sem Guðríður settist að þegar Vesturferðum og Suðurgöngum linnti loks og kristileg kyrrð og heiðríkja lagðist yfir ævi hennar.
Jón Ormar velur að láta tvær leikkonur fara með hlutverk Guðríðar og skoða saman lífshlaup hennar í endurliti. Hann sækir hér í einkennilega frásögn Grænlendingasögu af konu sem heimsækir Guðríði við vöggu sonar síns. Guðríður “hin innri” gegnir síðan því hlutverki að leiða Guðríði “ytri” um minningalandið, auk þess sem hún bregður sér í önnur hlutverk eftir því sem sagan krefst.

Saga Guðríðar í heimildum er sama marki brennd og stór hluti frásagna af Íslendingum til forna. Þar er greint frá atburðum, staðreyndum, en lítt hirt um að rýna í orsakir þeirra eða tilfinningaleg viðbrögð persóna við þeim. Þegar leikskáld mætir slíkum efnivið er honum því vandi á höndum, því efnið virðist beinlínis krefjast þess að hann annaðhvort lesi rækilega milli lína eða skapi einfaldlega í eyðurnar, búi til þrívíðar leikpersónur úr lágmyndum sagnanna. Þetta er í senn spennandi og erfitt verkefni, en áberandi er hve lítið íslensk leikskáld hafa sótt í þennan arf.

Jón Ormar fer þá leið að segja einfaldlega söguna. Þetta er ein leiðin, en í þessu tilfelli veldur hún óneitanlega vonbrigðum. Forvitnilegt væri að leita skýringa á útþrá Guðríðar, eða hvað hratt henni í ferðalög ef engin útþrá kvaldi hana. Hverjar voru hinar stóru syndir sem ráku hana til Suðurgöngu á gamals aldri? Hvernig lífi lifði hún í Vesturheimi? Og í lokin spyr maður eins og Jónas Jónasson: “ertu sátt, Guðríður?”. Þessar spurningar hirðir Jón Ormar lítt um, en rekur samviskusamlega atburðina, sem eru jafn samviskusamlega raktir í leikskránni. Textinn sjálfur er fallega skáldlegur og víða skemmtilegur, en túlkunar atburða, afstöðu til efnisins er saknað.

En hafi leikskáldinu Jóni orðið minna úr efninu en ástæða var til þá er leikstjórinn Jón í essinu sýnu. Sýningin er mikið augnakonfekt hvar sem á er litið, leikmynd er einföld og snjöll, búningar eru fallegir og í anda rómantískrar myndar af forfeðrum vorum (Hrafni Gunnlaugssyni hefði líklega mislíkað). Þó fóru hælaháir skór leikkvenna á köflum í taugar undirritaðs. Sviðshreyfingar hafa yfir sér ljóðrænan blæ og oft urðu til minnisstæðar myndir. Vöxtur Snorra Þorfinnssonar í móðurkviði var skólabókardæmi um möguleika leiksviðsins til að segja og sýna hvað sem er á ofureinfaldan hátt.

Leikkonurnar eru báðar hreint afbragð, innan þess ramma sem nálgun höfundar setur þeim. Þeirra er að flytja texta og segja sögu, síður að túlka viðbrögð eða afstöðu. Bára Jónsdóttir er stillileg sem hin aldna einsetukona sem er hrifin inn í sitt fyrra líf af sinni innri konu, sem Vilborg Halldórsdóttir lék af krafti. Þá brá hún sér í önnur hlutverk af öryggi og fumleysi.

Sýning þessi er líklega kjörin fyrir þá sem eru ókunnugir sögu Guðríðar. Þeir fá þá afbragðsvel flutta fyrir sig forvitnilega sögu sem gæti orðið kveikja að lestri merkilegra bóka. Aðrir geta notið hennar sem þess leikhússgaldurs sem hún er og rifjað upp hvers leikhús fær áorkað með nærverunni einni saman.

laugardagur, apríl 08, 2000

Völin & Kvölin & Mölin

Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Eiðum 8. apríl 2000

Höfundar: Hildur Þórðardóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og V. Kári Heiðdal
Leikstjóri: Unnar Geir Unnarsson

Milli kvenna

ÉG verð að byrja þennan dóm á nokkrum fyrirvörum um tengsl mín við verkið. Það er skrifað af þremur félögum í Hugleik í Reykjavík og það kom í minn hlut að leikstýra frumuppfærslu þess í haust sem leið. Þar var á meðal leikenda Unnar Geir Unnarsson sem nú setur verkið upp með Leikfélagi Fljótsdalshérðaðs. Ég er því all-tengdur verkinu úr ýmsum áttum og rétt að lesendur séu leiddir í sannleika um þessa stöðu mála áður en lengra er haldið.

Völin & Kvölin er trúlega það sem kalla má alþýðlegan skopleik, og minnir einna helst á verk sem skrifuð voru í árdaga íslenskrar leikritunar, bæði að stíl og innihaldi. Fléttan er ofureinföld, ungur og saklaus sveitapiltur yfirgefur æskuástina í festum og heldur suður til náms. Þar fær hann inni hjá skrítinni yfirstéttarfjölskyldu og lendir í klónum á fordekraðri heimasætunni sem er svo vön að fá það sem hún vill að hún vílar ekki til að beita lúalegum brellum til að eigna sér drenginn. Hann nær þó að slíta sig lausan og heldur á vit sveitastúlkunnar, en viðbrögð hennar eru kannski það helsta sem greinir verkið frá Bónorðsför Magnúsar Grímssonar og öðrum æskuverkum íslenskrar leiklistar.

Í einfaldleik sínum gefur Völin hugmyndaríkum leikstjóra nokkuð færi á að fara sínu fram og leika sér með hugdettur, og nýtir Unnar Geir sér þessa möguleik óspart. Þó fannst mér á köflum hann sýna leikritinu óþarfa skeytingarleysi, einfaldleikinn gerir það óneitanlega einnig viðkvæmt ef ekki á að kremja hjartað úr því svo eftir standi tómur dáraskapur. Mestan partinn stóð hann þó ásamt leikhópnum með sínu fólki og sýndi okkur það með öllum sínum kenjum og dyntum. Á hinn bóginn þótti mér stundum of skammt gengið fram. Til dæmis hefði mér fundist að úr því píanóleikari sýningarinnar var brúkaður til að skapa stemmningu og jafnvel áhrifshljóð þá hefði mátt gera miklu meira af því. Tónlistin virkaði vel þar sem hún var, en hefði að ósekju mátt notast víðar og óvæntar. Eins er með aukapersónur sem Unnar bætir inn til að skapa andrúmsloft, þær voru ævinlega til prýði, en jafnvægi sýningarinnar hefði verið betur þjónað með meiri notkun. Unnar er þrátt fyrir ungan aldur þaulvanur leikhúsmaður og nýttist það honum sérlega vel við að skapa eðlilega umferð um sviðið.

Eftir því sem ég best veit þá er leikhópurinn að mestu samansettur úr fremur reynslulitlu fólki, sem engu að síður nær að fanga athyglina og segja söguna á skemmtilegan hátt. Mest mæðir á þeim Ólafi Ágústsyni, sem var skemmtilega heimóttarlegur sveitapiltur í borgarsolli en hefði gjarnan mátt vera skírmæltari á köflum, og Erlu Dóru Vogler, sem lék þær frænkur Þórhildi sveitaunnustu og flagðið Viktoríu í borginni. Viktoría er vissulega meiri biti að bíta í fyrir leikkonu, enda gerði Erla henni skemmtileg skil. Af öðrum leikurum má nefna að Vígþór Sjafnar Zophaníasson var skoplegur sem skraddarinn Jónas og Jón Gunnar Axelsson og Fjóla Egedía Sverrisdóttir voru skondið par sem snyrtipinninn Sæmundur kaupmaður og frúin hans sem lætur heimilislífið aldrei trufla sig við fagurbókmenntalesturinn. Þá var gaman að Eyrúnu Heiðu Skúladóttur í klassísku hlutverki kjaftakellíngar í sveitinni.

Völin & Kvölin & Mölin er fyrsta stóra leikstjórnarverkefni Unnars Geirs, fyrsta uppsetning Leikfélags Fljótsdalshéraðs í nýlegri sýningaraðstöðu á Eiðum og fyrsta verk höfundanna þriggja í sameiningu. Þegar allar þeir áhættur eru hafðar í huga er ekki annað hægt en að óska hópnum og félaginu til hamingju með skemmtilega sýningu sem heldur athyglinni, kitlar hláturtaugarnar og sendir mann aftur í tímann með bros á vör.

sunnudagur, apríl 02, 2000

Dýrin í Hálsaskógi — Bannað börnum

Leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði
Flensborgarskóla Sunnudagur 2. apríl (lokaæfing)

Eftir Thorbjörn Egner
Leikstjóri: Stefán Jónsson

Öll dýrin í skóginum eiga að vera eins

SUMIR segja að það sé partur af því að fullorðnast að gera uppreisn gegn gildum foreldra sinna, gegn því sem fólki hefur verið innrætt sem börnum og snúa hefðum og viðteknum skoðunum á haus. Sé þetta rétt, hvað er þá nærtækara og augljósara verkefni fyrir framhaldsskólaleikfélag en að grípa til eins af okkar "ástsælustu" barnaleikritum, hvolfa merkingu þess við og setja það í svo nýstárlegan búning að það verður nánast
óþekkjanlegt.

Dýrin í Hálsaskógi verða í meðförum Flensborgara að sögu um einelti. Mikki refur og Patti Broddgöltur hafa það eitt til saka unnið að vera ekki eins og dýr eru flest. Um hríð hafa dýrin gaman af að hrella þá, en þegar þeim fer að leiðast þófið setja þau reglur sem kveða á um "rétta hegðun" sem Mikki verður að hlýta, hversu mjög sem það stríðir gegn eðli hans. Það er satt að segja ótrúlegt hve vel þessi hugsun gengur upp og kemst til skila í sýningunni, án þess að því ég best fæ séð að miklu sé breytt af texta verksins. Í stað hins mjög svo vafasama boðskapar um að grasætur séu góðar og kjötætur vondar er komin saga um múgæsingu, skeytingarleysi um þarfir og eðli náungans. Endirinn á Dýrunum, þar sem allir bresta í söng til heiðurs Bangsapabba af því Marteinn Skógarmús man allt í einu að hann á afmæli um þessar mundir, hefur alltaf farið í taugarnar á mér (hverjum er ekki sama um Bangsapabba?!). Í þessari sýningu er hann hárréttur. Hér er Bangsapabbi æðsta dýrið í valdapíramídanum og eini vegurinn til virðingar að þóknast honum. Mikki er gleymdur, enda skipta örlög hans engu máli.
Stefán Jónsson hefur valið sýningunni leikstíl og umgjörð í anda töffaralegra amerískra glæpamynda síðari tíma. Kannski Tarantino ætti að kynna sér verk Egners næst þegar hann verður uppiskroppa með hugmyndir. Ískaldur leikstíllinn og ofbeldisþrungin stéttaskiptingin sem fylgir þessum heimi féll afbragðsvel að heildarhugsuninni. Þar að auki hafði leikhópurinn sem heild aðdáanlegt vald á aðferðinni.

Mikið mæðir á þeim Andra Ómarssyni og Finnboga Þorkatli Jónssyni sem eru þeir félagar Marteinn og Lilli og standa sig báðir með prýði. Andri er slepjuleg og eitursnjöll Skógarmús og Finnbogi hæfilega smákrimmalegur Lilli. Atriðið þar sem hann á tal við Mikka eftir að lögin eru sett var frábært og eitt besta dæmið um hvað grunnhugsun sýningarinnar gengur vel upp. Símon Örn Birgisson er hinn ógæfusami refur og er réttur maður á réttum stað, utanveltu frá upphafi, augljóst fórnarlamb. Daníel Ómar Viggósson er Bangsapabbi og hefur myndugleika til að skila þessu ofbeldisfulla “villidýri” svo sannfærandi er. Bangsamamma er hér kúguð brotin og barin eiginkona og Magnea Lára Gunnarsdóttir dró upp átakanlega og bráðfyndna mynd af henni.

Tónlistin er að sjálfsögðu sett í endurvinnslu eins og annað. Heiðurinn af því verki á Kristján Eldjárn og býr til hárréttann hljóðheim úr sakleysislegum melódíum Egners. Lokasöngurinn var hreint frábær, söngur Bangsamömmu óhugnanlegur og fyndinn í senn og grænmetissöngurinn á fundinum þar sem öll dýrin í skóginum afráða að verða eins var fullur af því hatri og fyrirlitningu á náunganum sem er ein undirrótin af því böli sem eineltið er.

Það er ljótt að skrökva að börnum. Dýrin í skóginum eru ekki og eiga ekki að vera vinir. Það er satt að segja það eina sem ég hef út á sýningu Flensborgara að setja – hvað á það að þýða að banna hana börnum?

laugardagur, apríl 01, 2000

Lifðu – yfir dauðans haf

Skagaleikflokkurinn
Bjarnalaug 1. apríl 2000

Höfundur og leikstjóri: Kristján Kristjánsson
Tónlist: Orri Harðarson

Leikendur: Garðar Geir Sigurgeirsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Hermann Guðmundsson

Enginn bjargast

ÞAÐ er ævintýralegt að koma inn í Bjarnalaug og bíða eftir að sýning Skagaleikflokksins hefjist. Laugin er algerlega kyrr, klædd að innan með svörtum dúk og bátur á hvolfi marar í hálfu kafi. Mild ljós auka á dulúðina. Þessi stemning heldur áfram út sýninguna og verður örugglega eftirminnileg þeim sem njóta.
Þrír menn berjast fyrir lífi sínu á bátkili, ferjumaður og feðgar sem hann flutti. Fortíð mannanna afhjúpast samhliða því að þeir glíma við náttúruöflin, og ef til vill önnur af öðrum heimi. Hvernig sú glíma endar er á milli leikenda og áhorfenda og á ekki erindi í blöðin.

Leikstjórinn Kristján Kristjánsson er mikill raunsæismaður. Í fyrra verki sínu með Skagaleikflokknum, Alltaf má fá annað skip, munaði hann ekki um að sýna okkur inn í lúkar á bát, láta fara þar fram eldamennsku og tilheyrandi og náði þannig í skottið á stemmningu sem sést ekki oft á leiksviði. Þess má geta í framhjáhlaupi að sú fullyrðing sem sést hefur á prenti, að Landkrabbar Þjóðleikhússins séu fyrsta íslenska leikritið sem gerist alfarið til sjós, er ekki á rökum reist. Skipinu hans Kristjáns var hleypt af stokkunum fyrr.

Kristján hefur á valdi sínu að skrifa ansi hreint mögnuð samtöl og hefur hér tileinkað sér stíl sem fáir reyna við núorðið. Öðrum þræði jarðbundið og munntamt málfar frá fyrri tíð, ef til vill um aldamótin eða þar um bil, hins vegar upphafið táknþrungið skáldamál. Ósjaldan varð mér hugsað til Vesturíslenska leikskáldsins Guttorms Guttormssonar meðan ég fylgdist með lífsbaráttu kjalbúanna, en í verkum hans er að finna ómenguðustu dæminn um táknsæi í leikritun á íslensku svo mér sé kunnugt. Því miður er verk Kristjáns er sama marki brennt og verk Guttorms, orðin ná ekki fyllilega að öðlast leikræna merkingu. Þó svo örlög mannanna þriggja hafi tvinnast saman gegnum lífið hefur það engin áhrif á framvindu verksins, ákvarðanir þeirra eða afstöðu, svo greint verði. Þetta er galli sem er þeim mun leiðari sem hæfileikar höfundar til að skrifa safaríkan samtalstexta er augljósari. Sviðsetningin öll ber líka frumlegri leikhúshugsun vitni, en herslumuninn vantar.
Þrír stólpaleikarar bera hitann og þungann af sýningunni. Eða réttara sagt kuldann, því þess er gætt að vatnið sem þeir leika í verði ekki hlýrra en nauðsyn krefur. Eflaust hjálpa aðstæður allar upp á innlifun leikenda, og þeir bregðast heldur ekki, en eru allir afbragðsgóðir. Textinn leikur þeim á tungu og vel miðluðu þeir háskanum, hvort sem það var með hryssingslegum mannalátum ferjumanns, fautahætti hreppstjórans eða skelfingu sonarins. Og aðdáanlega virðist brölt þeirra og brambolt við bátinn vera þjálfað og þaulæft, því aldrei virtust stöður þeirra standa í vegi fyrir framvindunni. Það hefur ekki verið einfalt að koma þessari sýningu á flot, og áreiðanlega þurft að finna upp mörg hjól á þeirri leið. það er til marks um einarða listræna sýn höfundar og leikstjóra, og svo náttúrulega kraftinn sem Skagaleikflokkurinn getur greinilega virkjað þegar á þarf að halda.