þriðjudagur, september 22, 2020

Beðið eftir Beckett

Eftir Trausta Ólafsson byggt á textum Samuels Beckett og brotum úr verkum Dante Alighieri, Hallgríms Péturssonar og Antonins Artaud. Leikstjórn: Trausti Ólafsson. Íslensk þýðing: Trausti Ólafsson, Guðmundur Böðvarsson og Friðrik Rafnsson. Lýsing: Sigurvald Ívar Helgason. Leikmynd og búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir. Tónlist: Hjörleifur Valsson. Leikari: Elfar Logi Hannesson. Sendiboði: Tóbías Dagur Úlfsson. Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýndi í Kómedíuleikhúsinu Haukadal 30. ágúst 2020, skrifað um sýninguna 9. september 2020 í Tjarnarbíói.

Stefnumótið sem ekki varð


Ef ég vissi hver Godot er hefði ég látið það flakka, sagði Samuel Beckett um sína frægustu persónu. Eða eitthvað í þá átt. Það er semsagt alveg opið fyrir túlkun hver hann er, þessi dularfulli hugsanlegi velgjörðarmaður þeirra Vladimirs og Esdragons í Beðið eftir Godot. Það er allt opið, og þó algengast sé að tengja hann við almættið sjálft er alveg ógalið að stilla Beckett sjálfum upp sem þessum fjarverandi heiðursgesti í lífsdramanu tíðindalausa, eins og Trausti Ólafsson gerir í einleiknum Beðið eftir Beckett. 

Að sjálfsögðu hefur a.m.k. titillinn verið notaður áður, eins snjall og borðleggjandi og hann er; til er heimildarmyndin Waiting for Beckett um líf og störf skáldsins frá árinu 1993. En hún fjallar vafalaust ekki um leikara sem mátar við sig nokkur af helstu verkum skáldsins meðan hann bíður eftir að það láti sjá sig. Árangurslaust auðvitað. Beckett á ekkert vantalað við túlkendur verka sinna. Allt sem hann vildi sagt hafa hefur þegar verið skrifað. Að sönnu nokkuð órætt sumt, og kannski ekki allt jafn djúpt eða merkilegt og óræðnin gefur óneitanlega í skyn, en það besta óumdeild snilld. Og burtséð frá textanum: ekkert leikskáld sögunnar hefur skapað annað eins af myndum sem hafa náð fótfestu í sameiginlegu menningarminni okkar. Blindur maður með annan í taumi. Hjónin í ruslatunnunum. Konan í sandhaugnum. Munnurinn sem getur ekki þagnað. Samuel Beckett er ekki bara skarpur og óvægin túlkandi og greinandi mannsandans á tuttugustu öld. Hann er partur af heimsmynd hans.

Það er Beckettlega um að litast á sviðinu þegar Elfar Logi Hannesson gengur inn til að hefja bið sína eftir skáldinu. Frakki hangir á herðatré niður úr loftinu. Tveir litlir trékistlar. Og að sjálfsögðu nakið tré, sem reyndar er „leikið af“ orfi og ljá. Fullvissan um dauðann er alltaf í loftinu og milli orðanna hjá Samuel Beckett. Þetta er falleg og fáguð mynd, Marsibil G. Kristjánsdóttir er höfundur leikmyndar og búninga. Gervi leikarans er beint úr staðalmynd okkar af flækingunum í Beðið eftir Godot. Þvæld kjólföt og kúluhattur. Göngustafur. Ekki stígvél reyndar heldur skór sem Elfar fer í og úr. 

Grunnerindi leikarans er skýrt. Hann bíður skáldsins og drepur tímann með að róta í koffortunum og textum eftir Beckett og aðra sem tengjast honum eða hugmyndir kvikna upp við upprifjunina og biðina. Fyrirferðarmest (og auðþekkjanlegust) eru brot úr Beðið eftir Godot og einleiknum makalausa, Ekki ég, sem Beckett skrifaði árið 1972. Einnig þar bauð hann ekki upp á neina hjálp til skilnings. „Ég veit ekki hvar hún er eða hvers vegna. Textinn er það eina sem ég þekki“, skrifaði hann Alan Schneider, leikstjóra frumuppfærslunnar.

Trausti Ólafsson er ekki á þeim buxunum að hjálpa okkur neitt til skilnings. Hvorki á Beckett, né hvað leikaranum gengur til með bið sinni. Óræðnin í þeim texta þar sem leikarinn talar „frá eigin brjósti“ er síst minni en í textabútunum sem hann mátar sig við. Þeir eru óneitanlega heldur lágfleygari sem skáldskapur, stundum vandræðalega bernskir. En virka hvorki sem lím eða leiðarvísir. 

Þar hjálpar ekki nálgun leikstjórans. Sú ákvörðun að láta leikarann mæta okkur „í hlutverki“ ef svo má segja. Í búningi, með áberandi leikræna, jafnvel trúðslega, takta. Með augljóslega nákvæmlega fyrirskipaðar og æfðar hreyfingar og samskipti við leikmuni sem aldrei urðu almennilega lífrænar og áttu kannski aldrei að vera það. 

Eins mótsagnakennt og það má virðast þá komumst við næst leikaranum Elfari Loga í viðureign hans við textabrotin frá Beckett sjálfum. Kannski sérstaklega við eintalið óræða Ekki ég, þennan furðulega, staglsama og sundurlausa flaum. Þar var svolítið eins og leikarinn léti flauminn taka yfir, leyfði orðunum að tala fyrir sig sjálf. Ekki ósvipað og höfundurinn sem neitar að stíga inn í samtal textans við þá sem um hann véla. Það flökraði að rýni á þessum stundum hvað hefði verið gaman að sjá Elfar og Trausta ganga á hólm við einhver af eintölum Becketts, án þessara tilbrigða. Síðasta segulband Krapps kom upp í hugann.  

Alla vega náðist ekki hér að skapa áhugaverða spennu milli leikara og höfundarins fjarverandi, milli glímunnar við textana og eigin hlugleiðinga. Kannski var ekki ætlunin að byggja Beðið eftir Beckett á þeirri spennu. En verkið og sýningin láta þá of lítið uppi um hvað höfundum hennar liggur annað á hjarta. 

Tónlist er í mikilvægu hlutverki, vel samin, valin, útsett og flutt af Hjörleifi Valssyni. Lýsing Sigurvalds Ívars Helgasonar falleg og innkoma sendiboðans snyrtilega leyst af hinum unga Tóbías Degi Úlfssyni.

sunnudagur, september 20, 2020

Ekkert er sorglegra en manneskjan

Tónskáld: Friðrik Margrétar-Guðmundsson. Leikstjórn og texti: Adolf Smári Unnarsson. Dramatúrg: Matthías Tryggvi Haraldsson. Leikmynda- og búningahönnuður: Bryndís Ósk. Þ. Ingvarsdóttir. Lýsing: Hafliði Emil Barðason. Myndband: Elmar Þórarinsson. Tónlistarstjórn: Pétur Björnsson. Hljómsveit: Baldvin Ingvar Tryggvason, Björg Brjánsdóttir, Friðrik Margrétar-Guðmundsson, Flemming Viðar Valmundsson, Pétur Björnsson og Unnur Jónsdóttir. Flytjendur: Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson. Frumsýnt 6. september 2020 í Tjarnarbíói, skrifað um 2. sýningu á sama stað 10. september 2020.

Söngur um lífið


Þögul en skopleg örvænting hversdagsins er kannski ekki fyrsta viðfangsefnið sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um óperur. En af hverju ekki? Hvers vegna skyldu útblásin stórdrömu nítjándu aldarinnar stýra því hvernig við hugsum um þetta form, eitthvað frekar en við miðum við þann tíma og hefðir hans þegar við leggjum mat á aðra sviðslistakima? Engu að síður er það staðreynd að af öllum sviðsformum er óperan sú stirðasta. Verst farin af bæði liðagigt, offitu og beinþynningu. Haldið á lífi af sífellt gráhærðari yfirstétt á verndarsvæðum óperuhúsa þar sem sömu gömlu öruggu verkin eru reglulega dregin fram eins og á minjasafni eða dýragarði.

Það er samt lífsmark utan verndarsvæðisins. Reyndar stafar það að hluta af spennunni milli forms og hefða og þess sem nýja kynslóðin kýs að taka til umfjöllunnar. Þannig fóru hláturbylgjur um sal Tjarnarbíós þar sem grámyglulegir sólarlandafararnir fjórir sungu af vélrænni innlifun „Borða mat /drekka vín / Hlægja hátt / segja grín“ og annað álíka þrungið. Ekki var samt hægt að sjá að tónskáldið Friðrik Margrétar-Guðmundsson eða líbrettistinn og leikstjórinn Adolf Smári Unnarsson væru beinlínis að vinna með þessa spennu. Það vottaði varla fyrir paródíublæ, umfram það sem mun alltaf virka kjánalega á alla sem eru ekki beinlínis innvígðir í mál óperunnar: að fólk sé að syngja það sem væri mun nærtækara að segja.

Enda fjöruðu flissin smám saman út. Ekki alveg loku fyrir það skotið að fólki hafi stundum leiðst þófið, tíðindaleysi og endurtekning eru grunnþættir í bæði erindi og fagurfræði verksins. Einhver skelltu nú samt upp úr þegar langdregin leikfimiæfingarsería upphófst í þriðja sinn, en það hló enginn þegar lagt var af stað í rútínuna í sjötta skiptið. Wagner er ekki einn um að reyna á þolrif fólks. Svo má alveg flissa yfir honum líka.

Það eru í sjálfu sér ekki sérlega ný eða markverð tíðindi á boðstólum í Ekkert er sorglegra en manneskjan. Satírísk uppgjöf ungu kynslóðarinnar gagnvart því sem bíður þeirra í ferðalaginu gegnum lífið á þessum síðustu og verstu tímum er bæði skiljanleg, þekkt og kannski heldur dauft eldsneyti í listaverk. Innihaldslausar klisjur náms- og starfsráðgjafa, jógakennara og slökunargúrúa tjá mest lítið annað en eigin innihaldsleysi, þó skoplegar séu. Það var ekki mikið gert af því að afvegaleiða, dýpka eða skrumskæla þessi skilaboð, umfram það sem felst í því að syngja eða flytja þau í talkórum. Sterkasta senan, sú með beittustu sögnina, var væntanlega kórkaflinn þar sem textinn „Allir eru að gera sitt allra besta“ var sunginn meðan sjónvarpsskjárinn sýndi heimsendalegar myndir af kraumandi eldi.

Það sem situr samt sterkast eftir hjá mér eftir sýninguna er hið frábæra og fágaða vald sem hópurinn allur sýnir. Það byrjar í efniviðnum sjálfum. Friðrik hefur samið sérlega áheyrilega tónlist, undir sterkum naumhyggjuáhrifum, þar sem oft er unnið tímunum saman með tvo smekklega kryddaða hljóma sem skiptast á og tilbreytingin birtist fyrst og fremst í hægferðugri taktóreiðu. Frábærlega var unnið með litbrigðin sem hljóðfæraskipanin bauð upp á og aukastig fyrir að bjóða harmóníkuna velkomna í litlu hefðbundnu kammersveitina. Nikkan lagði til heilmikla fyllingu og skemmtilega effektar, auk þess sem hún blandast með eindæmum vel við bæði blásturs- og strokhljóðfærin. 

Flutningur spilenda jafnt sem syngjenda var næsta lýtalaus og einstaklega smekklega unnið með uppmögnun. Textameðferð alla jafnan einstaklega skýr; oft hefur innihaldsríkari texti fengið minni alúð hjá íslenskum söngvurum. Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt um frammistöðu einstakra söngvara að segja, sem aftur ögrar stjörnustemmingunni sem gegnsýrir óperuheiminn, en þau Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson skiluðu sínu lýtalaust, sem hlýtur að teljast helsta dyggðin í heimi sýningarinnar og markmiðum hennar.

Sviðsetning Adolfs Smára er annar þáttur þar sem algert vald fær að njóta sín. Sýningin er kóreógraferuð niður í smæstu smáatriði, hreyfingamynstrið er stranglega agað og þeim aga aldrei ögrað. Persónusköpun, samskipti og samband við áhorfendur eru þættir sem eru algerlega sniðgengnir, og þó vel megi sakna þeirra, og ávinnings af slakara taumhaldi, er aginn virðingarverður og útkoman forvitnileg sem slík. Umgjörð Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur (leikmynd og búningar), Hafliða Emils Barðasonar (lýsing) og Elmars Þórarinssonar (myndband) er prýðilegt verk. 

Ekkert er sorglegra en manneskjan er svo sannarlega ekkert átakaverk. Dramatík er haldið í lágmarki, köld stílfræð nákvæmni kemur í stað mannlegrar nándar og tilfinningatúlkunnar. Þetta er ekki Puccini. Þetta er hinsvegar aðdáunarverð æfing í nákvæmni og fágun og rannsókn á tjáningarmöguleikum einhæfninnar. Ákaflega vel heppnuð sem slík, og svo langt sem hún nær.

fimmtudagur, september 03, 2020

Ég kem alltaf aftur

Ferð með fyrirheiti

Ég missti af hinni rómuðu Íslandsheimsókn pólska meistarans Tadeusz Kantor og leikhópsins Cricot 2 á Listahátíð 1990. Eins og títt er um framúrstefnuleg stórvirki hef ég bæði heyrt vitnisburði frá fólki sem varð fyrir nánast trúarlegri upplifun á „Ég kem aldrei aftur“, og séð nokkra leikhúsgesti skopast með tilburðina. Aðallega að leikstjóranum sjálfum, sem er kannski frægastur fyrir að taka sér einatt stöðu á sviðinu með leikhópnum sínum og gefa fyrirskipanir meðan á sýningum stóð. Ekkert liggur eins vel við höggi gárunganna og þegar listamenn leggja á ókönnuð svæði tjáningarinnar og sækja svo langt í dýptina eftir innblæstri að flestum þykir einfaldara að fylgja þeim ekki eftir heldur horfa á þá úr öruggri fjarlægð háðfuglsins. 

Pálína Jónsdóttir hefur verið í fyrri hópnum. Áður en sýning hófst á „Ég kem alltaf aftur“ flutti hún nokkur inngangsorð um vinnu hópsins og minningar sínar um sýningu Cricot 2 sem að hennar sögn breytti sýn hennar á hvað leikhús gæti verið, og þar með lífi hennar. Sjálf steig Pálína samt ekki á svið í Iðnó til að hafa áhrif á gang mála, heldur eftirlét það félögum sínum í Reykjavík Ensamble, þeim Adam Świtała, Ewu Marcinek, Jördisi Richter, Magdalenu Tworek, Mao Alheimsdóttur, Karolinu Bogusławska, Robert Zadorozny og Wiolu Ujazdowska.  

Sýningin er kölluð verk í vinnslu, og Pálína talaði um níu daga sem hópurinn hafði til umráða í Iðnó áður en áhorfendum var hleypt inn. Þeir hafa verið vel nýttir. Óreiðan í sýningunni stafar ekki af fumi og fáti heldur einmitt af trú á að línuleg rökvísi og vitsmunalegur agi sé, ef ekki til óþurftar, þá allavega óþarfur til að hreyfa við áhorfendum.  Það er alveg rétt. Brotakenndar, næstum kúbískar myndir leikhópsins úr veruleika sínum – pólskum og íslenskum, sögulegum og nútímalegum, persónulegum og pólitískum, trúarlegum og hversdagslegum, harmrænum og fyndnum – opnuðu hugmyndaflug áhorfenda og héldu athygli salarins áreynslulaust í þann klukkutíma sem sýningin stóð. Afslöppuð nærvera og alvörublandin glettni hópsins var hárrétt til að draga okkur inn í heiminn og láta okkur í léttu rúmi liggja að skilja ekki allt.  

Auðvitað er allt önnur orka í sýningu sem unnin er á þessum hraða í íslenska atinu en í djúpri og langvinnri samvinnu og djúpköfun á borð við þá sem Kantor og aðrir sjáendur og vitringar leikhússins á tuttugustu öld fóru í áður en áhorfendum var hleypt að borðinu. En þannig virkar innblástur á alvöru listamenn eins og Pálinu og hennar fólk: kallar ekki fram eftiröpun heldur hvetur til dáða í eigin leit að möguleikum og viðfangsefnum. Opnar dyr sem enginn veit hvert liggja fyrir en gengið er um þær, eða alla vega kíkt inn.  

Hér er arkað af stað af hugrekki og gleði. Það verður gaman að hitta Reykjavík Ensamble á næsta áfangastað. Þau munu koma aftur.