laugardagur, febrúar 18, 2006

Hungur


Fimbulvetur og Borgarleikhúsið, litla sviði 18. febrúar 2006


Höfundur: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann
Leikstjóri: Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Leikmynd: Þórarinn Blöndal
Lýsing: Kári Gíslason
Tónlist: Axel Árnason
Kvikmyndalist: Ósk Gunnarsdóttir
Búningar: Ragna Fróðadóttir
Hreyfingar: Jóhann Freyr Björgvinsson
Förðun: Petra Dís Magnúsdóttir.

Leikendur: Ásta Sighvats Ólafsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir og Þorsteinn Bachmann

Í mótmælasvelti gegn sjálfum sérÞÓRDÍS Elva Þorvaldsdóttir Bachmann velur sér svo sannarlega ekki viðfangsefni í alfaraleið mannlífsins. Og er vissulega ekki ein um það meðal leikskálda og annarra listamanna. Eftir að hafa byrjað sinn opinbera leikskáldaferil með verki um “Bug Chasers”, menn sem sækjast eftir því að smitast af HIV-veirunni, má segja að hún hafi horfið á ólíkt hversdagslegri mið með Brotinu, verki með þunglyndi sem hreyfiafl. Það birtist manni sem mikil frelsun fyrir leikskáldið Þórdísi að geta einbeitt sér að persónunum og samskiptum þeirra án þess að finna sig knúna til að setja mann inn í hugsanahátt tiltekins menningarkima. Í Hungri eru það síðan átraskanir sem eru til umfjöllunar, og þó þar sé vissulega um þekktari fyrirbæri að ræða en “sýklaveiðar” drengjanna í Áttu smit? þá hefur Þórdís engu að síður, að mér virðist, freistast til að skrifa að þessu sinni leikrit um sjúkdóm frekar en verk um fólkið með sjúkdóminn.

Sá hluti Hungurs sem lýsir sjúklegri áráttuhegðun tveggja lystarstolssjúklinga líður nokkuð fyrir þetta. Við kynnumst einungis þeirri hlið Dísu og Emmu sem snýst um stjórn á mataræðinu, eða kannski öllu heldur, við hittum þær fyrir á þeim tímapunkti þar sem stjórn á mataræðinu hefur yfirtekið allt þeirra líf. Fyrir vikið fáum við litla sem enga mynd af því hvað hratt þeim af stað í þessa píslargöngu, hver þróunin hefur verið, einungis stigvaxandi hrylling yfir hvert ástandið hefur leitt þær. Þessi leið er vissulega vel dregin upp innan fyrrgreindra takmarkana. En einungis eitt atriði sýnir aðra stúlknanna í samskiptum við “utanaðkomandi” og engin tilviljun að það gefur sterkustu tilfinninguna fyrir ástandi hennar og persónuleika. Heldur engin tilviljun að það er klárlega eitt best skrifaða atriði verksins.

En þetta er aðeins önnur hlið verksins. Samhliða sögunni af Dísu og Emmu kynnumst við offitusjúklingnum Ingibjörgu og fylgjumst með sambandi hennar við Hall. Það hefst á spjallþráðunum og þróast hratt og tekur fljótlega óvænta stefnu sem ekki verður lýst nánar hér. Þessi þráður er mun betur unninn frá höfundarins hendi, framvindan og þróunin spennandi og persónurnar þrívíðari, ef svo má segja. Vel má vera að kveikjan að persónu Halls sé eitthvert þekkt ástand eða menningarafkimi sem finna má á Netinu, en það verður svo mikið aukaatriði við hliðina á að lýsa persónunum að það verður aldrei fyllilega ljóst. Fyrir vikið verður samband þeirra að súrrealískri en mannlegri martröð í stað þess að breytast í fræðsluverk um forvitnilega brenglun.

Andstæðurnar milli þessara tveggja þráða eru áhugaverðar, en kannski ekki alveg nógu markvissar. En samsláttur sagnanna tveggja er síðan bæði snjall og hrollvekjandi frá leikrænu áhrifasjónarmiði, alveg burtséð frá boðskap eða merkingu.

Sviðsetning Guðmundar Inga Þorvaldssonar er prýðilega unnin í skemmtilegri leikmynd Þórarins Blöndal, sem nær að vera þénug og hæfilega táknræn í senn; meðan Ingibjörg liggur á snúningdiskinum í miðjunni eins og gerbolla að hefast í örbylgjuofni stíga horgrindurnar Emma og Dísa upp á neonlýsta palla eins og tískumódel, útstillingargínur eða súludansarar.

Á hinn bóginn er ég alls ekki sannfærður um notkun á kvikmyndainnslögum sem bættu litlu við sem ekki hefði verið hægt að leysa á að minnsta kosti jafn áhrifaríkan hátt á sviðinu sjálfu. Notkun skjávarpa er á góðri leið með að verða að þreyttri klisju í leikhúsinu og þarfnast sterkari réttlætingar en hér er boðið upp á.

Leikarahópurinn stendur sig afar vel. Elma Lísa Gunnarsdóttir og Ásta Sighvats Ólafsdóttir eru skuggalega sannfærandi sem Dísa og Emma, dyggilega studdar af flottri förðunarvinnu. Það er verulega óhugnanlegt að sjá þær breytast, nánast fyrir augunum á okkur, í lifandi lík. Elmu Lísu hef ég ekki séð gera betur og sérkennileg raddbeiting Ástu sem á öðrum vettvangi hefði máske truflað verður hér sannfærandi hluti af persónu með framandi viðhorf og óræða og illskiljanlega sýn á sjálfa sig og lífið.

Helga Braga Jónsdóttir vinnur eftirtektarverðan sigur að mínu mati í hlutverki Ingibjargar. Með hófstilltum en innlifuðum leik yfirstígur hún allar hindranir sem grínferill hennar hefur byggt og gætu svo auðveldlega komið í veg fyrir að persóna af þessu tagi kæmist til skila, óbrengluð af tillærðum hláturviðbrögðum okkar. En þetta tekst Helgu Brögu svo sannarlega. Hún fær líka verulega traustan mótleik frá Þorsteini Bachmann, sem hvílir á tilþrifalausan en algerlega sannfærandi hátt í persónu Halls og lætur okkur um að taka afstöðu til hans hjálparlaust.

Hungur er skrifað af miklum metnaði og eldmóði. Af þörf fyrir að segja eitthvað mikilvægt. Það hefur að mínu mati ekki tekist til þeirrar fullnustu sem efni standa til, bæði hvað varðar möguleika viðfangsefnisins og augljósra hæfileika höfundarins. Í heild er sýningin þó áhugaverð og sterk og helgast það af fínni vinnu allra aðtandenda sinna og þeirra hluta handritsins þar sem Þórdís nær að sýna hvers hún er megnug og hvers vegna við megum vænta mikils af henni í framtíðinni.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Maríubjallan

Leikfélag Akureyrar Höfundur: Vassily Sigarev, þýðing: Árni Bergmann, leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson, aðstoðarleikstjóri: Maríanna Clara Lúthersdóttir, leikmynd og búningar: Halla Gunnarsdóttir, lýsing: Björn Bergsveinn Guðmundsson, tónlist: Hallur Ingólfsson. Leikendur: Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Esther Thalía Casey, Guðjón Davíð Karlsson, Guðjón Þorsteinn Pálmason, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Þráinn Karlsson. Akureyri 16. febrúar 2006.

Rússland í dag


AF ÞVÍ sönnunargagni sem Maríubjallan er að dæma er ég ekki viss um að Vassily Sigarev sé sérlega gott leikskáld á „faglegum“ mælikvarða. Í samanburði við ensku „InYer-Face“ leikskáldin sem hann tekur sér klárlega til fyrirmyndar þá skortir hann skáldlega sýn Söruh Kane eða Philip Ridley, þjóðfélagsgreiningu Marks Ravenhill og byggingartækni Lee Hall eða Martin McDonagh. Maríubjallan er dálítið klunnalegt leikrit, uppbyggingin bæði gamaldags og heldur ónákvæm, meðferð tákna frumstæð og að mínu mati ekki sérlega áhrifarík.

En það sem Vassily Sigarev hefur nokkuð sem þau hafa ekki: hann horfir á efnivið sinn út um herbergisgluggann sinn í Yekaterinburg. Eymdina og ofbeldið sem áfallastreituröskun umbyltingarinnar í Rússlandi hefur getið af sér. Þar sem hroðalegir viðburðirnir í verkum Bretanna hafa alltaf á sér einhvern fjarlægan „skáldlegan“ blæ iðar leikrit Sigarevs af þeim lífgjafa sem snerting við raunveruleikann gefur. Hann hefur drukkið með þessu fólki og sloppið út til að segja frá.

Nálægð höfundarins við viðfangsefni sín eyðir líka algerlega óþægilegri tilfinningu sem sumir fyrrnefndra höfundar vekja stundum, að þeir séu að velta sér upp úr óhugnaði áhrifanna vegna. Við getum verið alveg viss um að það er þörf til að lýsa veruleikanum sem knýr penna Vassilys Sigarevs.

Maríubjallan lýsir einu kvöldi í hreysi feðganna Dímu og Posa. Það á að halda partí því Díma er að fara í herinn, enda að engu að hverfa í bænum og eina fjáröflunarleiðin, að selja minnismerkin úr kirkjugarðinum í brotajárn, að verða uppurin. Gestirnir eru smámellan Lera, háskólastúdentinn Júlka frænka hennar, sem stendur ofar í þjóðfélagsstiganum, smákrimminn Arkasha og Slavik, dópisti sem býr hjá feðgunum.

Öll framvinda hverfist síðan um tilraunir persónanna til að fullnægja frumstæðum neysludraumum sínum. Hvað ertu tilbúinn að ganga langt til að koma höndum yfir það sem þig langar í? Og hvort þykir þér vænlegra að níðast á sjálfum þér eða öðrum til að ná því markmiði? Kunnuglegt efni sem oft hefur verið betur skrifað um en verður hér kveikja að ansi hreint sterkri og áhrifaríkri sýningu.

Umgjörðin er hreint afbragð. Leikmynd Höllu Gunnarsdóttur er glæsilega nöturleg og hún nýtir hið nýja leikrými Leikfélags Akureyrar afar vel. Það er mikil stemning í lýsingu Björns Bergsveins Guðmundssonar og tónlist Halls Ingólfssonar, þó ég hefði reyndar kosið að fá upphafsræðu Þráins Karlssonar án undirleiks.

En það eru leikararnir og liðsforingi þeirra sem vinna stærsta sigurinn. Hér hefur greinilega verið unnið nostursamlega að sköpun allra persónanna og það skilar sér í áhrifaríkri samveru með þeim. Guðjón Davíð Karlsson skilar hinni dálítið óræðu kjarnapersónu Dímu afar fallega. Eins og oft vill verða eru minni hlutverkin í sterkari litum en Guðjón birtir okkur afar heildstæða mynd af ráðvilltum, viðkvæmum strák með vænt uppistöðulón af innibyrgðri reiði. Guðjón Þorsteinn Pálmason gerir sér sömuleiðis góðan mat úr Slavik, en tekst samt ekki alfarið að yfirstíga þá líkamlegu vankanta að vera of vel á sig kominn til að vannærður eiturfíkill á síðasta snúningi birtist okkur á sviðinu. Jóhannes Haukur Jóhannesson smellpassar hins vegar í hlutverk hins glaðbeitta en ógnvekjandi Arkasha. Það sama má segja um Þráin Karlsson sem Posa. Afar sannfærandi túlkun á afgangnum af gömlum menntamanni.

Álfrún Helga Örnólfsdóttir er svo auðvitað hárrétta leikkonan til að stinga í stúf við allt þetta undirmálslið – björt og barnsleg sem stúdinan Júlka. Þeim mun óhugnanlegra verður það þegar hún sýnir okkur á bak við yfirborðið og við munum að hörmungarnar sem hafa verið leiddar yfir Rússland undanfarinn áratug eru manngerðar – einhverjir hafa verið nógu ófyrirleitnir til að gera sér neyð hinna að gróðalind. Álfrún skilar skuggahliðinni ekki síður en sakleysinu og er þetta þar með orðið það eftirtektarverðasta sem ég hef séð til hennar.

Fremst í flokki gengur svo Esther Thalía Casey sem er frábærlega sönn í hlutverki Leru, sem á að vera veraldarvanari en svo að láta blekkjast af bjánalegu happdrættissvindli en lifir of ömurlegu lífi til að hafa efni á því að sjá í gegnum drauminn. Sömuleiðis hennar besta frammistaða í mínu leikhúsminni.

Allur samleikur og sviðsferð er síðan eins og best verður á kosið, nærvera leikhópsins alger frá fyrsta andartaki þar til ljósin dofna. Jón Páll Eyjólfsson hefur stýrt sínu misreynda liði styrkri hendi og útkoman er sýning sem Akureyringar eiga ekki bara að vera stoltir af heldur ættu umfram allt að drífa sig að sjá.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ronja ræningjadóttir

Leikfélag Reykjavíkur Höfundur: Astrid Lindgren, leikgerð: Annina Enckell, tónlist: Sebastian, þýðing: Þorleifur Hauksson, þýðing söngtexta: Böðvar Guðmundsson, leikmynd og búningar: Sigurjón Jóhansson, gervi, Sigríður Rósa Bjarnadóttir, brúður: Bernd Ogrodnik, lýsing: Halldór Örn Óskarsson, hreyfingar og dans: Ástrós Gunnarsdóttir, tónlistarstjóri: Karl Olgeirsson, hljóðmynd: Jakob Tryggvason, hljóðfæraleikur: Karl Olgeirsson og Jóel Pálsson. Leikendur: Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Davíð Guðbrandsson, Eggert Þorleifsson, Ellert A. Ingimundarson, Friðrik Friðriksson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Hildigunnur Þráinsdóttir, Hinrik Þór Svavarsson, Kjartan Bjargmundsson, Oddur Bjarni Þorkelsson, Orri Huginn Ágústsson, Sóley Elíasdóttir, Tryggvi Gunnarsson, Valur Freyr Einarsson, Þór Tulinius og Þórhallur Sigurðsson, Auk þess fimm börn. Borgarleikhúsinu 12. febrúar 2006.

Skógarlíf

ASTRID Lindgren var klárlega mörgum góðum kostum gædd sem rithöfundur. Sá sem hæst ber í Ronju ræningjadóttur er áreiðanlega sá að geta skrifað svo mergjaðar smástelpur að jafnvel strákarnir vilja vera eins og þær. Lína á Sjónarhóli, Skotta á Saltkráku og Ronja – hver annarri ómótstæðilegri í lífsgleði sinni og réttsýni, að ógleymdri einþykkni, sérvisku og óþekkt. Alvöru fyrirmyndir fyrir allt almennilegt fólk.

En þó persónan Ronja sé til fyrirmyndar er sagan af henni ekki alveg eins hátt skrifuð hjá mér. Hún er einhverskonar óþægilegt millistig milli framvindulausra sagna á borð við Emil og Línu þar sem hver kafli er sjálfstæður og ævintýranna um bræðurna Ljónshjarta og Míó þar sem ein atburðarás ræður ríkjum. Útkoman verður sú að einstök ævintýri Ronju og Birkis verða eins og útúrdúrar, og meginsagan fær ekki það rými sem hún þarf.

Því miður tekst metnaðarlausri og alltof „bókstaflegri“ leikgerðinni ekki að berja í þessa bresti. Og fyrir minn smekk hjálpar tónlist Sebastians hreint ekki, karakterlaus og hálf b-hliðarleg. Ég veit ekki hvernig réttindamálum frú Lindgren er háttað en gaman hefði verið að sjá söguna tekna nýjum tökum að þessu sinni. Þetta er viðamikil sýning og öllum meðulum leikhússins beitt.

Mikill fjöldi leikara kemur við sögu, fullt af börnum og brúðum, tæknin öll á fullu, það er sungið og dansað og sprellað. Það gengur prýðilega að skapa tilfinningu fyrir þessu sérkennilega samfélagi sem skapar hina skapheitu ræningjaprinsessu og lunginn úr karlleikaraliði Leikfélags Reykjavíkur nýtur þess greinilega að teikna þessa skrítnu kalla. Fer þar fremstur Eggert Þorleifsson sem fer svo léttilega með Skalla-Pétur að áhorfandinn tekur varla eftir honum fyrr en maður byrjar að hlæja að einhverri sáraeinfaldri athöfn, raddblæ eða augnatilliti. Það er heldur ekkert sérstakt upp á aðalleikarana að klaga. Arnbjörg Hlíf er klárlega hárrétt Ronja, barnsleg, lipur, syngjandi og skemmtileg. Kannski dálítið eintóna, en það helgast líka af leikgerðinni sem finnst margt mikilvægara en að fylgja titilpersónunni og þroska hennar eftir. Friðrik er líka fínn Birkir, þó hárkollan geri ekki mikið fyrir hann.

Þórhallur Sigurðsson er ábúðarmikill og höfðinglegur Matthías, lögn sem orkar tvímælis. Ræningjahöfðinginn hefur mér alltaf þótt vera trúður, lítið barn í of stórum skrokki. Merkilegt að ná ekki meiri skopfærslu út úr þessum snillingi. Á móti kemur að Laddi teiknar ágætlega þroskasögu Matthíasar, en hann er eiginlega eina persónan sem þroskast í gegnum verkið. Ellert gerir eftirminnilegan Borka úr litlu efni, Sóley er sannfærandi Lovísa. Ýmsum ráðum er beitt til að vekja upp furðuverur verksins.

Rassálfarnir eru úr smiðju Bernds Ogrodnik og óhemjusætir, Skógarnornirnar öllu verr heppnaðar. Grádvergarnir aftur leiknir af börnum sem dansa af ótrúlegu öryggi og krafti.

En einhvern veginn nær þetta ekki að límast saman og lifna á nógu sannfærandi hátt. Hvað veldur? Fyrir utan fyrrgreindar efasemdir um söguna og leikgerðina þá held ég að leikmyndin sé að flækjast fyrir. Eins hugkvæm og fjölnota og hún nú er hjá Sigurjóni þá þvælist hún á stundum fyrir flæðinu í sýningunni og neyðir á köflum leikstjórann til að sviðsetja fínlegar og persónulegar senur óþarflega fjarlægar áhorfendum. Það líður óratími þangað til við fáum almennilega nærmynd af Ronju, svo dæmi sé nefnt.

Annað vandamál þykir mér vera afstaða leikstjórans til tónlistarinnar, en tónlistarnúmerin eru að mestu sviðsett og sungin sem einhvers konar einkamál persónanna í stað þess að vera samtal við áhorfendur. Þetta verður aldeilis fráleitt í sólónúmerum á borð við söng Matthíasar í seinni hlutanum – af hverju er hann að syngja ef ekki til að tjá okkur líðan sína? Fyrir vikið liggur sterkasta vopnið til að mynda tengsl við salinn ónotað. Sennilega truflar líka ofnotkun á hljóðnemum – ekkert er eins fráhrindandi og þegar talraddir leikaranna berast manni úr hátölurum og ekkert fríar leikarann eins ábyrgð á að miðla erindi sínu til áhorfandans.

Allt hjálpast þetta að til að halda sögunni fjarlægri. Þannig orkaði þessi sýning á mig. Hún náði mér ekki, þó að ýmsu mætti dást. Hins vegar verður að geta þess að börnin í salnum höfðu sig lítt í frammi þannig að hún hefur haldið þeim. Það er góðs viti.