fimmtudagur, október 27, 2005

Lífsins tré

Leikfélag Reykjavíkur
Borgarleikhúsinu 27. október 2005

Leikgerð Bjarna Jónssonar á samnefndri bók Böðvars Guðmundssonar.
Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Lýsing: Lárus Björnsson
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Dans: Lára Stefánsdóttir.

Leikendur; Halldór Gylfason, Eggert Þorleifsson, Sóley Elíasdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Hildigunnur Þráinsdóttir, Gunnar Hansson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Valur Freyr Einarsson og Þór Túliníus.

Hljóðfæraleikarar: Pétur Grétarsson, Eðvarð Lárusson og Kristín Björg Ragnarsdóttir.

Annar þáttur


HÍBÝLI vindanna, fyrri bókin í tvíleik Böðvars Guðmundssonar um íslenska vesturfara, er steypt í sama mót og John Steinbeck notaði við Þrúgur reiðinnar. Ein fjölskylda er látin standa fyrir nafnlausan múginn til að lýsa atburðum sem þá hafa öðlast sérstakan, nánast goðsögulegan sess. Þetta hjálpaði óneitanlega leikgerðinni. Bakgrunnurinn er þekktur, og þegar áhorfendur setjast vita þeir nokk hverju þeir eiga von á. Íslensku helvíti frá öldinni sem leið, gylliboðum um betra líf í Ameríku, ferð á vit hins óþekkta, vonbrigðum og ólýsanlegum hörmungum á Nýja-Íslandi. Allt þekktar stærðir.

Síðari bókin, Lífsins tré, rær á öllu ótryggari mið, og minnir meira á annan merkan Norður-Amerískan skáldjöfur sem þó er óneitanlega minni í sniðum en Steinbeck, nefnilega Kanadamanninn Robertson Davies. Hann hefði líka verið vís með að segja okkur þessa skrýtnu og sundurlausu sögu sem þó hefur að kjarna gönuhlaup Jens Duffríns um þá Ameríku sem smám saman er að verða til, og sífellt verður frábrugðnari því Íslandi sem forfeður hans yfirgáfu. Davies hafði líka gaman af einkennilegu fólki, sirkusfríkum, og örlagaríkum bernskubrekum. En líkt og með sögur hans er mér til efs, eftir að hafa séð þessa sýningu, að Lífsins tré sé vænlegur efniviður í leikgerð.

Allavega ekki leikgerð sem ekki tekur róttækari afstöðu til efnis síns en þessi gerir. Ég á satt að segja erfitt með að sjá hvaða botn þeir sem hvorki hafa lesið bækurnar – báðar – og helst séð leikgerð fyrri sögunnar líka, eiga að fá í það sem fyrir ber á sviðinu. Væntanlega á samt þessi sýning að standa fyrir sínu sem listaverk óháð undirbúningi áhorfenda. Furðu sætir sú ákvörðun að ramma atburðina inn á sama hátt og í bókinni, með lestri afkomenda úr bréfum forfeðra sinna. Og þó svo einn afkomandinn hafi orðið óperusöngvari, er það nægileg ástæða til að láta jafn skapandi og skemmtilegan leikara og Val Frey sitja aðgerðarlausan bróðurpart sýningarinnar fyrir framan spegil í samræmdum óperubúningi fornum og þylja texta uppúr bréfum í míkrófón?

En þó leikgerðin sé ekki sérlega frumleg eða snjöll er stærstu ástæðu þess að sýningin nær ekki til manns að finna í sögunni sjálfri. Lífsins tré skortir einfaldlega það sem bjargar Híbýlum vindanna – sem er endursögn á þjóðlegri goðsögu sem myndar þann jarðveg sem hún sprettur úr. Síðari sagan þarf aftur á móti að standa algerlega á eigin fótum, vera áhugaverð og kalla fram áhuga á persónunum og örlögum þeirra þeirra sjálfra vegna. Og því nær hún ekki. Allavega ekki á sviði. Allavega ekki í leikgerð sem eltir flesta króka og kima í framvindunni, sem iðulega eru einungis áhugaverðir vegna atburða í öðru verki.

Kjarni sögunnar – lífssaga Jens Duffríns – er mögulega efni í kostulega leiksýningu. Þar er sennilega eftirminnilegasta mannlýsing tvíleiksins, sem að öðru leyti er tiltölulega lítið í því að mála sterkar mannamyndir sem skýrir hvað flestum leikurunum verður lítið úr sínum rullum. Jens er ógeðfelld persóna, ofbeldishneigður, grunnhygginn og stjórnast mest af hvötum sínum eins og hvert annað dýr. En hann verður samt okkar maður. Það gerist við lestur bókarinnar, og ekki síður á Nýja sviðinu þar sem Halldór Gylfason grípur þetta tækifæri og sýnir okkur algerlega nýja hlið á sér. Frábærlega útfært líkamlega, en jafnframt innlifað og mannlegt. Það besta sem ég hef séð til Halldórs.

Að öðru leyti fer ekki mikið fyrir eftirtektarverðri frammistöðu einstakra leikara. Eggert Þorleifsson er prýðilegur en tilþrifalítill Ólafur Fíólín og ekkert út á Sóley Elíasdóttur að setja í hlutverki konu hans. Það sama má segja um Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í hlutverki Málfríðar. Sirkusfólkið, sem fyrirfram mátti búast við að yrði skemmtilegt, nær ekki að lifna við, og þó ótrúlegt megi virðast þá ná Hildigunnur Þráinsdóttir og Edda Björg Eyjólfsdóttir ekki almennilega að verða skemmtilegar sem tvíeykið Womba og Tromba.

Leikmyndin gleður. Stígur og Þórhildur hafa bjargað nýjasviðsrýminu, sem var að festast í leiðinlegum naumhyggjuviðjum, og þakið bak- og hliðarveggi með þriggja hæða háum stillösum þar sem ótal lítil leikrými myndast sem oft eru nýtt á skemmtilegan hátt. Og enginn stendur Þórhildi á sporði í sjálfri sviðsetningunni. Búningar Filippíu eru og harla skemmtilegir. Tónlistin er hinsvegar ekki vel heppnuð. Svolítið eins og Pétur hafi fyrir alla muni viljað forðast að hún ætti sér skírar vísanir. Í íslenska tónlistarhefð, í ameríska mússík, í óperurnar í rammanum. Fyrir vikið er hún karakterlaus. Og fyrir hverja var verið að syngja? Jafn góður söngleikjaleikstjóri og Þórhildur á að hafa skýrari hugmynd um hvaða stöðu söngvarnir hafa í merkingarheimi verksins en svo, að leikararnir fái ýmist að stara út í loftið eða horfa í gaupnir sér við flutning laganna. það var allavega hvorki verið að syngja fyrir mig né hinar persónurnar.

Lífsins tré er ekki nógu vel lukkuð sýning. Bjarna og Þórhildi hefur ekki heppnast að búa til leikhúsverk sem lifir sjálfstæðu lífi úr þessari bók, sem sjálf er dálítið slappt framhald af stórkostlegu verki. Kannski ekki von, en samt virðist mér sem róttækari afstaða til efnisins hefði skilað sögu sem er þess virði að segja hana á sviði og aðferð til að miðla henni. Og stærstu vonbrigðin eru kannski að engum hefði ég treyst betur til slíks verk en einmitt Bjarna og Þórhildi. Stóri plúsinn er svo frammistaða Halldórs Gylfasonar. Framganga hans er tvímælalaust helsta ástæða þess að sjá sýninguna.

miðvikudagur, október 19, 2005

Halldór í Hollywood

Þjóðleikhúsið
Föstudagur 14. október 2005.

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir.
Frumsamin tónlist: Árni Heiðar Karlsson og Jóhann G. Jóhannsson
Leikmynd: Frosti Friðriksson
Búningar: Þórunn Elísabet Sveinsdóttir
Lýsing: Páll Ragnarsson.

Leikendur: Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Björgvinsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Kjartan Guðjónsson, Margrét Kaaber, María Pálsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Randver Þorláksson, Rúnar Freyr Gíslason, Selma Björnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Strákormur í Hollywood


HELGISAGAN af Halldóri Laxness hefur verið í nokkurri endurskoðun undanfarið sem kunnugt er. Menningarhetjan sem af eigin rammleik bjó til íslenska sjálfsvitund með pennann einan að vopni og skóp okkur nútímann, vitringurinn sem endurtúlkaði og endurskapaði fornbókmenntir okkar, sjáandinn sem sökkti sér ofan í öll helstu hugsunarkerfi heimsins og sótti þangað eld til að kynda undir sköpun sinni. Þessi Halldór hefur nú verið dreginn í hlé og í stað hans er kominn Útrásarmaðurinn. Eldhugi sem, knúinn áfram af taumlausum metnaði, botnlausu sjálfsöryggi og vinnuþreki, yfirvinnur allar hindranir við að láta draum sinn rætast. Það er ekki draumur um réttlæti og fegurra mannlíf nema þá til hliðar við aðalmarkmiðið; frægð, frama og ríkidæmi. Nútíminn hefur endurskapað Halldór Kiljan Laxness í sinni mynd.
Það er í sjálfu sér ekkert að því. Gamla helgimyndin var áreiðanlega fölsk, og þó sú nýja sé það örugglega líka er hún þó að minnsta kosti ennþá fersk, og bætir nýjum dráttum við heildarmyndina sem við leitum en finnum sjálfsagt aldrei. Og það er svo sannarlega ferskt yfirbragð yfir Halldóri í Hollywood í Þjóðleikhúsinu. Ferskt og milt. Þetta er verk eftir þann Ólaf Hauk sem lofsöng umburðarlyndið í Þreki og tárum fremur en þann sem lýsti siðferðilegu skipbroti barna kvótakerfisins í Hafinu. Báðir hafa þeir fullt vald á viðfangsefnum sínum og stíl, og vafalaust er ótímabær frekja að biðja um djúpskreitt sálfræðidrama um hvað gerði Halldór Guðjónsson að Halldóri Laxness. Hitt verður að segjast að varla hefur skapast knýjandi þörf á að leikgera hina nýskrifuðu helgisögu án teljandi sýnilegra tilrauna til að rannsaka drifkrafta, hvatir og umhverfisáhrif þau sem orsökuðu þessa umbreytingu.

Vel má líka velta því fyrir sér hvort þessi kafli í lífshlaupi skáldsins sé yfirhöfuð heppilegur efniviður í leikverk. Í upphafi sýningarinnar kynnumst við Halldóri að nýútkomnum Vefaranum mikla frá Kasmír. Hann er sjálfsöruggur og hrokafullur spjátrungur sem hikar ekki við að segja löndum sínum til syndanna. Hann er líka meira en tilbúinn að munda pennann gegn þjóðfélagslegu óréttlæti af algeru óttaleysi. En persónulegur metnaðurinn þeytir honum út í heim, til Hollywood þar sem peningarnir vaxa á trjánum og einstaklingurinn getur risið af eigin rammleik. Og það er enginn bilbugur á okkar manni. Höfðingjadjarfur kemst hann langleiðina með að verða handritshöfundur og milljóner út á exótíkina í sögu af buxnaklæddu íslensku stúlkubarni. En órannsakanlegir vegir kvikmyndamaskínunnar gera þá drauma að engu eins og hverjar aðrar náttúruhamfarir. Svo hann heldur heim, staðráðinn í að freista gæfunnar þar. Tjaldið.

Hvað hefur breyst? Hefur persónan þróast? Þroskast? Ég veit það ekki, verkið gerir það ekki ljóst, varla hvort og klárlega ekki hvernig.

En kannski er þetta bara misskilningur og ósanngirni. Auðvitað þýðir aldrei að undrast það að tiltekin leikrit séu ekki einhver allt önnur leikrit. Sennilega var bara ætlunin að búa til léttan skemmtunarleik um ungan mann á sokkabandsárum hans, ástarglettur og tíðarandann. Sennilega, því það hefur tekist alveg ljómandi vel. Ólafur Haukur er hnyttnasti samtalahöfundur í hópi íslenskra leikskálda, og með orðkynngi Halldórs sem orkugjafa tekst honum vel að láta atriðin lifna, og aukapersónur teiknast skýrt í fáum öfgalausum dráttum. Djössuð tónlistin eykur lífsmagnið á sviðinu og nokkur laganna rata beint inn í tónminnið, Í augnablikinu keppast Búkolla mín bububu og Atlantshafið um yfirráðin. Umgjörðin er flott, leikmynd og leikmunir sýna umtalsverða hugkvæmni, búningarnir styðja án þess að trufla og ná í klæðnaði Vestur-Íslendinganna að öðlast eigið skemmtigildi.

Þá er sviðsetningarvinna Ágústu fumlaus og flott, að mínu mati hennar besta verk hvað varðar rýmislausnir og staðsetningar. Samvinna hennar með leikurunum hefur jafnframt laðað fram margar sterkar persónur. Upton Sinclair hjá Baldri Trausta, frú Flatey hjá Margréti Kaaber, Selma sem barnsmóðir skáldsins, mógúllinn hans Randvers, frúin hennar Ragnheiðar, Rúnar Freyr sem blaðasalinn andfúli. Og þó Halldór Hall væri dreginn kunnuglegum dráttum hjá Jóhanni var hann samt sannur og þess vegna bæði elskulegur og hlægilegur.

Kjartan Guðjónsson má stundum passa sig á sínum áhrifaríku en ögn fyrirsjáanlegu skoptöktum, sem sjást til að mynda í vesældarlegum ritstjóra hér, en hann glansar sem niðurbrotinn vesturfari og þó fyrst og fremst í firnavel útfærðri stælingu á Charlie Chaplin, sem fær mann til að gleyma að erfitt er að sjá hvaða erindi sá kall á inn í verkið.

Meginkonurnar þrjár í lífi Halldórs í verkinu eru leiknar af þeim Eddu Björgvinsdóttur, Unni Ösp Stefánsdóttur og Maríu Pálsdóttur. Þær síðarnefndu búa til trúverðugar og heiðarlegar persónur úr hlutverkum sem eru eiginlega hvorki nógu veigamikil til að öðlast sjálfstætt líf, né nógu litrík til að verða skemmtilegar smámyndir. Edda nýtur vitaskuld grínhæfileika sinna í hlutverki ömmunnar, en ég er nógu fastur í gömlu myndinni af Halldóri til að finnast þetta akkeri hans í menningararfinum eiga að vera eldri og - hvað skal segja - þjóðlegri.

Atli Rafn Sigurðarson hefur að mér hefur virst verið að vaxa og eflast í list sinni undanfarin ár. Núna er honum fengið það verkefni að bera uppi stórsýningu og fipast hvergi. Hann smellhittir línuna milli skopgervingar og persónusköpunar og finnur ferska leið að þessum mest eftirhermda manni Íslandssögunnar. Aðdáunarvert að fylgjast með hvernig taktarnir sem allir þekkja verða smámsaman sterkari og hvernig þeir eru skýrastir þegar skáldið talar opinberlega, en eru alltaf til staðar, hluti af persónunni. Og það þarf stjörnuleik til að gera þessa persónu, sem svo oft er óaðlaðandi í breytni sinni, að vini okkar og hetju. Þetta tekst Atla.

Halldór í Hollywood er góð skemmtun. Þetta er ekki skopleikur, heldur ekki (alveg) söngleikur, alls ekki harmleikur. Verkið slær mig ekki sem þroskasaga, til þess er of lítið skýrt, of fátt dregið fram annað en einberir atburðir. Kannski er þetta helgileikur. Hvað svo sem hægt er að segja um það þá er kvöldi í félagsskap Halldórs hins unga vel varið.

þriðjudagur, október 18, 2005

Ekki ætlað börnum

Grein sem birtist í blaðinu Börn og menning haustið 2005

Börn í leikhúsi. Setningin kveikir mynd af stóreygum ungum áhorfendum sem hugfangin lifa sig algerlega inn í töfraheiminn á sviðinu. Eða kannski krakkahóp að ærslast í mannmörgu barnaleikriti. Leikhúsið vill laða til sín börn, bæði vegna þess hve gefandi góð leiksýning er, en ekki síður með það að markmiði að ala upp tryggan áhorfendahóp sem lítur á það sem sjálfsagðan hlut að kaupa sér leikhúsmiða, og er þar að auki læs á tungumál sviðsins. Fyrsta leikhúsreynslan er oft ein af dýrmætustu bernskuminningum. Sjálfur man ég fyrst eftir mér í leikhúsi á Skugga-Sveini á Húsavík, og þótti magnað. Langbest var þó að fá að fara á bakvið og sjá að Grasa-Gudda var hreint ekki tannlaus, heldur með svartmálað stellið. Vopn og gæruskinn útilegumannanna voru þó allteins ógnvænleg í návígi. Barnaleikrit sá ég ekki lengi vel, og man satt að segja ekki hvenær ég sá slíka leiklist fyrst, en veit að áður en það gerðist var ég bæði búinn að sjá Pétur Gaut eftir Ibsen og Ég vil auðga mitt land eftir þá Matthildarmenn og hafa gaman af hvorutveggja.

Börn í fullorðinsleikhúsi. Það er á köflum nokkuð undarleg saga. Þrátt fyrir að heita eigi að raunsæi og natúralismi hafi gerst fyrirferðarmikill í leikbókmenntum síðustu ríflega hundrað ár eru börn ennþá giska ósýnileg í þeim stofukómedíum öllum. Enginn höfundur fer eins nálægt hversdegi venjulegs fólks og Chekhov, en þar sjást engin börn. Það er stundum á þau minnst, en eins og fyrir einhverja forsjón eða tilviljun eru þau alltaf einhversstaðar annarsstaðar.

Auðvitað á barnleysið sér praktískar skýringar sem lúta að fagmennsku, vinnuálagi og þroska. En fyrir kemur að leikhúsið brýtur odd af oflæti sínu gagnvart börnunum og kallar þau til starfa á vettvangi “fullorðinsleikhússins”. Lítum á þrjár slíkar sýningar.

Allir drepa yndið sitt
Írska skáldkonan Marina Carr sækir efniviðinn í verk sitt Mýrarljós um langan veg í tíma og rúmi. Hún endurskapar hina fornu goðsögn um svartahafsprinsessuna Medeu í sínu eigin umhverfi, í írskum smábæ. Þar hefur utangarðskonan Hester Swan verið ástkona ríks bóndasonar um árabil, en er nú vikið til hliðar fyrir ákjósanlegra konuefni af betri stigum og með feitari heimanmund. Líkt og formóðir hennar úr suðurlöndum verður Hester sífellt ólmari í bræði sinni yfir töpuðum ástmanni og öryggi, en þegar röðin kemur að því að hirða af henni barn þeirra stígur hún síðasta skrefið. Dóttirin skal ekki verða óvininum til gleði.

Verkið er býsna magnað. Ljóðrænt og safaríkt, og byggir á sterkri leikritunarhefð Íra. Fyrir minn smekk fellur það síðan því miður á stóra prófinu. Marina Carr megnar ekki að láta hetjuna sína farga barni sínu af hefndarhug einum. Þess í stað seilist hún í heldur billega sálarfræði og lætur hana fyrirfara dótturinni til að hlífa henni við því móðurleysi sem hún sjálf bjó við. Fyrir vikið glatar leikritið harmrænni reisn hinnar fornu sögu, og verður eins og sérstætt sakamál úr ódýru helgarblaði.

Hér er reyndar komið leiðarstef í “notkun” fullorðinsleikhússins á börnum. Þau virðast helst koma við sögu í þeim tilgangi að deyja eða þola hörmulegar þjáningar. Þetta er nokkuð merkileg staðreynd, því börn hafa eins og allir vita afgerandi áhrif á líf, viðhorf og samskipti allra sem að þeim standa, og það án þess að neitt sérstakt ami að. Þessa hlið mannlífsins hefur leikhúsið að mestu látið órannsakaða þó ótrúlegt megi virðast. Um leið og barn birtist á sviðinu er eins víst að illa eigi eftir að fara fyrir því.

Vissulega er ekkert eins átakanlegt og dauði barns, og leikhúsið er ekki alltaf vant að meðulum þegar kemur að því að kreista tárakirtla eða velta við hneykslunarhellum. En oft skilja slík atriði eftir óbragð í munni og þá tilfinningu að höfundur hafi gripið til þess arna sem tækis til að hafa sem allra sterkust áhrif. Barnadauði er sterkt krydd, og skyldi ekki notast til að breiða yfir annars bragðdaufan rétt.

Á tilraunastofunni
Sennilega er langt síðan hér hefur sést verk þar sem jafn langt er gengið í þessa átt og í Koddamanninum eftir Martin McDonagh sem Þjóðleikhúsið frumsýndi síðasta vor. Sýningum verður um það bil að ljúka þegar þetta blað kemur út og því óhætt að ljóstra því upp að leiksagan hverfist um hroðaleg morð á börnum sem virðast vera framin að forskrift smásagnahöfundar nokkurs sem fyrir vikið liggur undir grun um aðild að málinu. En þó morðin séu hin viðbjóðslegustu falla þau eiginlega í skuggann af fortíð höfundarins og bróður hans, en hinn síðarnefndi var pyntaður af foreldrum sínum næturlangt í læstu herbergi um sjö ára skeið til þess eins að athuga hvort vein hans yrðu ekki til að efla ímyndunarafl hins sonarins, sem eins og leikritið leiðir í ljós gekk eftir.

Verkið er listilega skrifað, hrollvekjandi og, þó ótrúlegt megi virðast, bráðfyndið. McDonagh er af mörgum talinn einhver hæfileikaríkasti höfundur sinnar kynslóðar á Bretlandseyjum, og þó honum sé gjarnan legið á hálsi fyrir að grípa til ódýrra bragða blóðs og ofbeldis til að skemmta áhorfendum þá er samt greinilegt að þörf hans til að heilla áhorfendur inn í sagnaheim sinn er sönn, bak við tæknilega fágunina leynist einlægni sem gefur honum á endanum rétt á að segja þær hörmungarsögur sem hann kýs. Þrátt fyrir allt eru örlög barnanna í Koddamanninum ekki ódýrar brellur til að hreyfa við okkur, þó greinilegt sé að McDonagh hefur unun af svoleiðislöguðu. Þau eru óhjákvæmilegir hlekkir í sögunni sem sögð er. Og Koddamaðurinn er sennilega fyrst og fremst hugleiðing um galdur sögunnar, framreidd í formi listilega fléttaðrar frásagnar af hörmulegum atburðum. Sýningin er ekki við hæfi barna, en breytir þess í stað “hörnuðum” áhorfendum sínum í stóreyga, opinmynnta krakka sem skríkja af kátínu milli skelfingarandkafanna.

“Smábarnaleigan, góðan dag”
Að sumu leyti er söngleikurinn Annie mest sjokkerandi af þessu öllu. Samt er hún eina sýningin af þeim sem nefndar hafa verið sem er beinlínis ætluð börnum. En er ekki dálítið erfitt að kyngja sýningu þar sem rösk kona í dragt mætir á hæli fyrir munaðarlaus stúlkubörn og biður um að fá eins og eitt að láni yfir jólin fyrir milljónamæringinn sem hún vinnur hjá? Ég er hræddur um að engum dytti í hug að skrifa slíkt og þvílíkt í dag.

En enn og aftur sannast að ætlun höfundar talar til okkar í gegnum það sem hann skrifar. Og orðið sem best lýsir viðhorfi höfundar Annie er sakleysi. Það er svo augljóst að það hvarflar ekki að honum að nokkuð vafasamt búi að baki því að einmana karl fái að leigja sér smástelpu til að lífga upp á hversdaginn. Og það vottar ekki fyrir kaldhæðni þegar sjálfur Bandaríkjaforseti birtist eins og Guð úr vélinni í leikslok og úthlutar öllum hæfilegri hamingju. Þessi saklausi tónn bjargar verkinu. Þó svo leikstjóri sýningarinnar treysti honum ekki alltaf þá skilar hann sér samt.

Kannski er það lærdómurinn sem draga ber af afdrifum barna í leikritum fyrir fullorðna. Það er aldrei erfitt að greina hvenær höfundur hefur rétt á að láta barn deyja og hvenær hann er að svala lægstu hvötum sínum og áhorfenda. Rödd höfundarins er alltaf skýr, og þess vegna blasir alltaf við hvort um er að ræða dramatíska nauðsyn eða ódýra brellu.

En það þarf ekki sérlega vitran mann til að sjá að fátt er óhollara ungum börnum en að gerast persóna í fullorðinsleikriti.

fimmtudagur, október 13, 2005

Epic Celtic

Norræna húsið 10. október 2005.

Unnið upp úr, “The Mabinogi” af Nigel Watson sem einnig flytur.

Sagan er góð


LANDAMÆRIN milli leiklistar og sagnamennsku eru bæði breið og umdeild og það er úr því einskismannslandi sem rödd Nigel Watson berst okkur. Nigel hefur fjölþættan bakgrunn í leikhúsi og greinilegt að reynsla hans sem hreyfihönnuður, leikstjóri og fræðimaður nýtist öll í að magna þann seið sem hann reiðir fram. Grunntónninn er samt úr heimi sagnanna og þaðan kemur stærsti hluti áhrifanna.

Nigel hefur að því er ráða má af leikskránni lagt sig nokkuð eftir því að vinna efni úr sagnaarfi heimalands síns, Wales. Efni þesarar sýningar kemur úr Mabinogi – Æskusögnum – helsta sögusafni þjóðarinnar, en úr því hefur Nigel unnið á ýmsan hátt og flutt efnið víða um heim.

Lítill leikdómur er svosem ekki vettvangur til að kryfja muninn á listum leikarans og sagnaþularins. Fyrsta hugsunin sem kviknar eftir að hafa setið bergnuminn í skellibjörtum sal norræna hússins og starað með eyrun sperrt á svartklæddan kall í brúnum skóm í á annan klukkutíma er undrun yfir því að jafn beinskeytt og látlaus framsetning haldi óskiptri athygli manns. Því er nefnilega haldið fram að á okkar tímum sé orðið gengisfallið eins og þýskt millistríðsmark. Við lifum víst á öld myndanna, tíma leiftursóknar á skilningarvitin, öld óþolinmæðinnar. Hversvegna er þá hægt að fanga huga manns svona gersamlega með því að segja manni ævintýri án nokkurra myndrænna hjálpartækja?

Kannski er hluti af svarinu fólgin í afstöðu sögumannsinns sjálfs. Enn frekar en leikhúsmaðurinn er hann þjónn efnisins. Hann efast aldrei um að það sem hann hefur að segja er í frásögur færandi. Og hann veit að allir ljósaeffektar og skrautbúningar, allt gerfiblóð heimsins nægir ekki ef sagan er ekki góð. Það er skammgóður vermir að pissa í effektaskóinn. Áhorfendur láta ekki plata sig tvisvar.

Nigel Watson platar okkur ekki. Hann segir okkur sögur. Mergjaðar sögur sem aldirnar hafa slípað. Kynslóðirnar, stærsti rýnihópur veraldar, hafa fullvissað sögumanninn um að efniviðurinn stendur fyrir sínu. Þá er bara að láta hann gagntaka sig og miðla honum þannig áfram. Það tókst Nigel fyllilega. Vissulega beitti hann á köflum meðulum leikhússins, brá sér í ólík hlutverk, teiknaði kringumstæðurnar í rýmið. Og tækni hans er eftirtektarverð, hvort sem hlustað er á magnaða röddina eða horft eftir öguðu líkamsmálinu. Samt held ég að hann hefði getað gert helmingi minna og náð sömu áhrifum. Eins fundust mér innskot á íslensku litlu bæta við. Við vildum einfaldlega vita hvernig færi eiginlega fyrir hinum leðurreifaða Taliesin, þeim ógæfusama en handlagna Lleu, eða hvort konungurinn Math fengi þann draum sinn uppfylltan að fá svín í stíu sína, og hvaða dilk sú græðgi drægi á eftir sér. Samt vissum við sjálfsagt fæst þegar við settumst að þetta fólk hafi nokkrusinni verið til. Núna vitum við það.

Það voru sorglega fáir sem urðu vitni að galdri Nigel Watson. Hann leyfði okkkur heldur ekki að kalla sig aftur á svið með lófatakinu. Það er því ekki um annað að ræða en að koma síðbúnum þökkum á framfæri:

Diolch Yn Fawr!

mánudagur, október 10, 2005

Ég er mín eigin kona

Skámáni
Iðnó 30. september 2005

Höfundur: Doug Wright
Þýðandi: Guðni Kolbeinsson
Leikstjóri, Stefán Baldursson
Leikmynd: Grétar Reynisson
Búningar: Dýrleif Ýr Örlygsdóttir og Margrét Einarsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Leikari: Hilmir Snær Guðnason

Þrjátíu og fimmtaþraut


ÁÐUR en við snúum okkur að verkinu sjálfu og túlkunarmeðferð þess í sýningunni er rétt að taka eftirfarandi lykilatriði fram, fyrir þá sem ekki nenna að lesa leikdóma: Þetta er stórkostleg flugeldasýning þar sem hæfileikaríkasti leikari þjóðarinnar sýnir algera virtúósatakta. Fyrir þá sem njóta þess að upplifa list leikarans þar sem hún er hvað sýnilegust er Ég er mín eigin kona einhver stærsti og safaríkasti konfektmoli sem boðið hefur verið upp á hér um árabil. Og víkur þá sögunni að verkinu.

Ég er mín eigin kona er byggt á ótrúlegu lífshlaupi klæðskiptingsins Charlottu von Mahlsdorf. það vafðist víst heil ósköp fyrir höfundinum að koma efni sínu í sviðsvænt form, og á endanum urðu þau vandræði ein af uppistöðum verksins. Í upphafi kynna sinna af Charlotte hélt Doug Wright að efnið væri upplyftandi hetjusaga í amerískum stíl um óbilandi einstakling með smáðar hneigðir sem neitar að láta umhverfið kúga sig og kemst lifandi undan tveimur grimmustu alræðisríkjum aldarinnar, nasistum og kommúnistum á eigin forsendum - á háum hælum eins og segir í verkinu. Og tekst í leiðinni að bjarga merkilegum menningarverðmætum í formi húsgagna og iðnhönnunar frá aldamótunum nítjánhundruð ásamt því að reka samkomustað fyrir samkynhneigða í Austur-Berlín, þar sem slík frávik frá alþýðlegri meðalhegðan voru víst ekki sérlega vel liðin.

En svo fóru að birtast skýrslur úr söfnum Austur-Þýsku alríkislögreglunnar sem bentu eindregið til að hetjuljóminn hefði mögulega kostað samferðamenn Charlottu meira en hana. Hún virtist hafa verið á mála hjá Stasi, og m.a. komið einum vini sínum og samstarfsmanni í fangelsi. Hetjuljóminn, sjálf ástæða þess að Wright taldi sögu hennar í frásögur færandi, er horfinn og eftir stendur lítilsigld manneskja sem setti grammafónasafnið sitt ofar lífi og frelsi samborgara sinna.

Þessa þraut tókst Doug Wright ekki að leysa og kaus í staðinn að skrifa sjálfan sig inn í verkið og gera þróun samskiptanna við Charlottu og nýju upplýsingarnar að þungamiðju þess. Þetta er vandræðaleg lausn og persóna leikskáldsins óskýr og illa mótuð í samanburði við hina aðalpersónuna. Eftir stendur að lífshlaup hennar er í raun enn skrautlegra í ljósi þessara nýju upplýsinga þó ekki eigi hún sérstaka aðdáun skilda.

Leikstjórnarvinna Stefáns Baldurssonar einkennist af áreynslulausri fagmennsku og trausti á leikaranum, sem kemur ekki á óvart. Umgjörð sýningarinnar er sérlega smekkleg og hugmyndalega snjöll í einfaldleik sínum. Bakveggurinn með grammófónunm í fallegri lýsingu gerir ást Charlotte á þessum gripum skýra og skiljanlega, og aðrir merkisgripir eru kynntir til sögunnar á sniðugan hátt. Að öðru leyti er leikaranum látið eftir að draga upp mynd af stöðum, hlutum og aðstæðum, að ógleymdum persónunum þrjátíu.

Og hvílíkur leikari! Það eru svosem engin ný tíðindi að Hilmir Snær sé bæði einhver teknískasti leikari sem hér sést á fjölum, eða að hann hafi ómælt af sviðsþokka og nærveru þannig að öll augu eru einatt á honum og samúðin með. Hitt sætir tíðindum að fá tækifæri til að fylgjast með honum í þrautabraut á borð við þessa. Og aldrei fatast honum. Leiftursnöggar skiptingar milli persóna, tímaskeiða og staða vekja ævinlega aðdáun, og snöggteiknaðar skopmyndir eins og sumar aukapersónurnar eru þakklát viðfangsefni. Ekkert var hér makalausra en danski geðlæknirinn, þar sem Hilmir nær að sýna frændþjóðina í skyldum skopspegli og við erum vön að skoða þjóðir á borð við kínverja og indverja. Þessháttar inngróið grín geta allir gert, en þar sem skopgerfing baunanna er ekki komið í fastar skorður er Hilmir þar á ókönnuðum slóðum. Að sýna manni í fyrsta sinn að taka má líkamsmál og framgöngu þjóðar slíkum tökum er afrek.

Stóri galdurinn er samt sköpun Charlottu von Mahlsdorf. Langbitastæðasta persóna verksins og tilgangur þess. Hér nær list Hilmis mögnuðum hæðum. Líkamstjáning, innlifun og tímasetningar óaðfinnanlegar. Og hreimurinn. Þýski hreimurinn verður Hilmi lykill að persónunni, leysir hana úr læðingi allra klisja um karlmenn í kjólum, drottningar og sviðshomma. Ein klisjan frelsar aðra.

Hreimarnir eru síðan helsta vandamál sýningarinnar, eins og Stasi-skýrslurnar urðu stóri höfuðverkur höfundarins. Sú ákvörðun að leika Charlottu með þýskum hreim er skiljanleg, djörf og þegar upp er staðið snjöll. Öðru máli gegnir um aðrar persónur. Ameríkumenn eru undantekningarlaust leiknir með amerískum hreim. Þjóðverjar aðrir en Charlotta og hinn svikni Alfred eru án hreims. Ekki er lógíkin á bak við þetta mér ljós, og ameríkanarnir verða því miður að grunnum skopmyndum í þessari meðferð. Þarna þykir mér leikstjórinn fipast.

En ekkert getur skyggt á sigur Hilmis. Ég er mín eigin kona er veisla fyrir leikhúsumnendur. Af svipuðum toga og Harlem Globetrotters fyrir körfuboltafólk. Innihaldið er svona og svona, en listirnar eru ekki annarsstaðar leiknar betur.