sunnudagur, september 18, 2005

Rita

Leikhópurinn Kláus
Samkomuhúsinu á Húsavík 9. september 2005.

Höfundur: Willy Russell
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikmynd: Jóhannes Dagsson

Leikendur: Margrét Sverrisdóttir og Sigurður Illugason.


Úr hári í hámenninguLEIKRIT eins og Rita gengur menntaveginn, sem byggjast á raunsæislegri skoðun á menningu og viðhorfum á ritunarstað sínum og –tíma, þurfa að vera skrambi góð til að hafa þýðingu fyrir annað fólk á öðrum tíma. Það þarf að vera einhver kjarni í því sem höfundurinn vill segja sem á erindi við fólk þó það búi við aðstæður gerólíkar þeim sem lýst er. Sem betur fer er þetta verk Willy Russell þesskonar verk. Þroskasaga Ritu sem veit hvað hún vill og Franks sem finnst það sem hún telur sig þurfa ekki þess virði er falleg, sorgleg og fyndin. Góð saga sögð á látlausan hátt af manni sem gerþekkir heiminn sem hann lýsir og tekst því að upphefja sig yfir stað og stund.

Auðvitað þvælist sú grunnforsenda verksins sem stéttarskipting bresks samfélags er dálítið fyrir leikendum og áhorfendum á Íslandi í dag. Og annað hefur gerst síðan það var skrifað sem afhjúpar aldur þess: skilin milli há- og lágmenningar eru mikið til horfin úr viðfangsefnum háskólamana. Í dag þætti frekar sniðugt að varpa ljósi á Howard’s End með tilvísunum í Danielle Steele, eða Ísfólkið ef því væri að skipta. Ef Rita væri að byrja í kvöldskólanum í dag er eins víst að hún yrði látin skrifa ritgerðir um Pulp Fiction og Friends í stað Péturs Gauts og Makbeðs. Kannski er það hið besta mál, en sennilega yrði hún svekkt.

Margrét Sverrisdóttir fer af miklu öryggi með hlutverk Ritu. Hún er ljómandi sannfærandi sem lágstéttarstúlkan sem talar stundum áður en hún hugsar og sýnir sérlega vel þá breytingu sem verður á persónunni eftir því sem sögunni vindur fram. Þetta er bitastæðasta hlutverk sem ég hef séð Margréti glíma við og jafnframt besta frammistaða sem ég hef séð til hennar.

Sigurður Illugason er þaulvanur leikari og gerir Frank að sauðalegum og dálítið sambandslausum prófessor eins og við á. Skemmtilega teiknuð persóna og gott ef ég hafði ekki einn nákvæmlega svona kennara í Háskólanum á sínum tíma þó rétt sé að nefna engin nöfn. Það hefði mátt vinna betur með afstöðu Franks til Ritu og þróun hennar, þessi Frank er dálítið úr tengslum við hana. Það má vera að það sé fær leið til að sýna persónu hans, en gerir samspilið óljósara.

Uppfærsla Odds Bjarna er lipur og látlaus í skemmtilegri sviðsmynd Jóhannesar Dagssonar sem nýtir rýmið á litlu sviði Samkomuhússins á snjallan hátt sem ég hef ekki séð áður þar.

Leikhópurinn Kláus er skemmtileg viðbót við leiklistarlífið norðan heiða og sýning hópsins á Rita gengur Menntaveginn prýðilegt verk, fagmannlega sviðsett og ljómandi vel leikið og mun klárlega skemmta þeim gestum sem leggja leið sína í Samkomuhúsið á Húsavík næstu vikurnar.

Himnaríki

Hafnarfjarðarleikhúsið
Hafnarfjarðarleikhúsinu 18. september 2005.

Höfundur: Árni Ibsen
Leikstjóri: Hilmar Jónsson
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson
Búningar og gerfi: Ásta Hafþórsdóttir
Lýsing: Garðar Borgþórsson.

Leikendur: Elma Lísa Gunnarsdóttir, Erling Jóhannesson, Friðrik Friðriksson, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Hafnfirska kviðmágatalið


ENDURUPPSETNINGU Hafnarfjarðarleikhússins á sínu fyrsta og mesta kassastykki á tíu ára afmæli leikhússins má túlka sem óvenju varfærnislega listræna ákvörðun. En hin hliðin á þessari klókindalegu hugmynd er náttúrulega sú áhætta að sýningin núna kallar augljóslega á samanburð við hina fyrri. Það er hreinlega ekki hægt annað en að bera þær saman, og mikil yrði skömm Hafnarfjarðarleikhússins ef þau væru ekki að minnsta kosti jafn skemmtileg núna og 1995.

Þessi samanburður er þeim mun meira aðkallandi vegna þess að uppfærslan er í grundvallaraatríðum sú sama. Sviðsmyndin er sú sama, sviðshreyfingar að mestu leyti eins. Afgerandi munur birtist aðeins í búningum, sem að þessu sinni eru ýktari og skrítnari og er fyrir minn smekk ekki til bóta. Og svo náttúrulega í því sem hver leikari kemur með til verksins, en fjórir leikarar af sex ganga hér inn í Himnaríki í fyrsta sinn.

Auðvitað er hægt að hnýta í Hilmar og hans fólk fyrir að hafa ekki notað tækifærið til að reyna efnivið sinn með annarskonar nálgun. En svo er líka hægt að slappa bara af og njóta sýningarinnar á hennar eigin forsendum. Og það er svo sannarlega margs að njóta.

Himnaríki lifir í minningu þeirra sem sáu sem óvenju frumlegur og vel heppnaður gamanleikur. Frábærlega skemmtilegt formið, þar sem sama sagan er leikin tvisvar og áhorfendur fá að fylgjast með mismunandi hliðum hennar í hvort skiptið, á auðvitað stóran þátt í gleðinni. En það væri ekki til mikils ef innihaldið væri ekki svona glettilega vel teiknuð mynd af vinahóp á hinstu dögum djammára sinna, þegar leitin að nýjum bólfélaga og öðrum leiðum til að blása lífi í stuðið er orðin aðeins of örvæntingarfull. Fléttan er farsakennd án þess að vera vélræn, málfarið er hárrétt, tónninn er léttur, aldrei predikað, atburðirnir og viðbrögð persónanna við því sem gerist er látið tala sínu máli. Himnaríki Árna Ibsens væri eitt besta gamanleikrit á íslensku þó svo það gerðist ekki sitt hvoru megin við sumarbústaðarvegg.

Leikhópurinn tekur þetta þakkláta efni og gerir það algerlega að sínu. Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir er að minnsta kosti jafn skelfilega hlægileg sem heimska en sjálfsörugga letibykkjan Unnur og hún var í fyrra sinnið. Þá er Friðrik Friðriksson dásamlega yfirspenntur í hlutverki Gauja og Elma Lísa Gunnarsdóttir hæfilega óþolandi sem óhemjan Steinunn.

Þrúður Vilhjálmsdóttir fær það hlutverk að vera mótvægi við vitleysuna í hlutverki nýju kærustunnar sem fljótlega er samt komin í sama ruglið og hinir. Þetta gerir þessi afbragðsleikkona sannfærandi og áreynslulaust.

Erling Jóhannsson er að þessu sinni í hlutverki ofurtöffarans Begga og gerir hann að mun meiri skopfígúru en hann var í fyrri sýningu. Á sama hátt og Tryggvi er ekki sama hversdagslega kjölfestan í vinahópnum og hún var í meðförum Erlings áður. Í stað þess gerir Jóhann G. Jóhannsson Tryggva hryllilega skrítinn og skoplegan.

Það er kannski heildarniðurstaðan af óhjákvæmilegum samanburðinum. Himnaríki 2005 er ýktara, litríkara og fyndnara en 1995-útgáfan, en að sama skapi veigaminna og erfiðara að koma auga á innihaldið.

Heilt yfir ágætis býtti myndi ég segja. Gaman samt að hafa séð báðar hliðar verksins.

þriðjudagur, september 13, 2005

Að eilífu

Rossisky Akademicesky Molodezhny Teater
Þjóðleikhúsinu 10. september 2005.

Höfundur: Árni Ibsen
Þýðandi: Júríj Reshetov
Leikstjóri: Raivo Trass
Leikmynd: Valeríj Fomin, söngtextar: Natalja Fílímonova, búningar: V.Q., tónlist: Feliks Kútt, ballettmeistari: Tad Kask, lýsing: Andrej Ízotov, hljóð: Ígor Merkúlov, söngstjóri: Maxím Olejnikov.

Leikendur: Alexander Khotsjenkov, Alexander Pakhomov, Alexej Maslov, Alexej Vesjolkin, Darja Semjonova, Denís Balandín, Hlutverkaskipan:, Jelena Galíbína, Natalja Tsjernjavskaja, Nína Akímova, Nína Dvorjetskaja, Oksana Sankova, Oleg Mosalev, Oleg Skljarov, Ramílja Ískander, Sergej Pikalov, Úlíana Úrvantseva, Vera Zotova og Vjatsjeslav Manútsjarov.

Brúðkaupsþátturinn DaSNARPT og hraðsoðið léttmeti, skrifað í nánu samráði við tiltekinn leikhóp með tilteknar þarfir og byggður á ákveðnu mennningarástandi á tilteknum stað og tíma.
Að eilífu er skondið verk, opið og hrátt og gefur hugmyndaríkum leikstjóra og kraftmiklum leikhóp mikla möguleika á að búa til sýningu sem er fjörug og innihaldsrík í senn.

En hvernig skyldi svona verki reiða af í meðförum rússnesks leikhússfólks sem starfar undir kjörorðunum listræn einlægni og nálægð? Hvað sér hópur sem býr og starfar við allt aðrar aðstæður í kraftmiklu og tætingslegu skemmtiverki Árna Ibsen um íslenska brúðkaupssiði og ást á tímum síneyslunnar?

Því miður svarar sýning Hins rússneska þjóðleikhúss unga fólksins ekki síðari spurningunni, og fyrir vikið er svarið við þeirri fyrri sú að hópnum tekst ekki að matreiða þennan tiltekna efnivið á þann hátt sem hann þarfnast.

Stærsti hluti vandans er að sýninguna skortir skýra vísun í stað og stund. Verkið sækir stóran hluta af skemmtigildi sínu í skýrar tengingar við persónur og týpur í okkar heimi. Popppresturinn. Hressi þolfimikennarinn. Kvótakóngurinn. Þessi atriði eru ekki skemmtilegt krydd heldur miðlæg í því að verkið virki. Auðvitað er engin leið fyrir leikhús í Moskvu að geta sér til um fyrirmyndir og menningarástand á íslandi, en þá er annaðhvort að tengja efniviðinn við eigin aðstæður eða finna sér verk sem ekki er jafn háð jarðvegi sínum.

Þó ég geti eðli málsins samkvæmt ekki verið alveg viss um það þá virtist mér sýningin ekki vera staðfærð á nokkurn hátt. Klárlega ekki í textavísunum eða nöfnum. Fyrir vikið svífur hún í lausu lofti og innihaldið, sem er svo fullt af möguleikum, virkar rýrt.

Einstaka leikarar og atriði hefja sig yfir þessa vankanta. Þannig voru fyrstu kynni foreldra brúðhjónanna nokkuð skondin, og vinahópurinn var sannfærandi og persónurnar vel aðgreindar þó lítið fari fyrir hverri og einni. Skarexin Ella Budda var viðeigandi fyrirferðarmikil hjá Jelenu Galíbínu.

Heilt yfir skortir sýninguna samt snerpu, kraft og kómíska sköpunargleði. Leikmyndin þvælist líka fyrir, að sönnu viðamikil og útlitslega ágæt, en gerir ekkert til að leysa sviðsetningarvanda verksins á frjóan hátt, þar sem hver örsenan rekur aðra.

Heimsókn Hins rússneska þjóðleikhúss unga fólksins hefur verið afar forvitnileg. Þau hafa sýnt okkur hverju hefðbundin nálgun við klassísk verk getur skilað í hinni mögnuðu uppfærslu sinni á Kirsuberjagarðinum. Og þau hafa gefið okkur einstakt tækifæri til að sjá hvernig íslensku efni reiðir af á framandi slóðum. Þó svo útkoman hafi ekki lukkast sem skyldi þá eru ástæður þess forvitnilegar. Þetta var afar kærkomin heimsókn og við þökkum kærlega fyrir okkur.

Kirsuberjagarðurinn

Rossisky Akademicesky Molodezhny Teater
Þjóðleikhúsinu 8. september 2005.

Höfundur: Anton Tsékhov
Leikstjóri: Alexej Borodin
Leikmynd: Staníslav Benediktov
Lýsing: Borís Volkov, tónlist: Nataly Pleje, hljóð: Ígor Merkúlov, ballettmeistari: Larísa Ísakova, förðun: Ljúdmíla Levtsjenko.

Leikendur: Alexander Pakhomov, Darja Semjonova, Ílja Ísajev, Irína Nízína, Jevgeníj Redko, Júlijen Balmúsov, Júríj Lútsjenko, Larísa Grebenstsjikova, Oksana Sankova, Oleg Skljarov, Pjotr Krasílov, Ramílja Ískander, Roman Stepenskíj, Stepan Morozov, Vjatsjeslav Grishetsjkin og Vjatsjeslav Manútsjarov.


Það virkar!


SUM leikrit eru þess eðlis að í kjarna þeirra er leyndardómur sem allt hverfist um en engin svör fást við. Hvað heldur aftur af Hamlet í að hefna föður síns og leiðrétta augljóst óréttlætið? Hver er Godot sá sem tveir flækingar verja lífi sínu í að bíða eftir? Af hverju hummar Ranevskaja fram af sér allar björgunarleiðir fyrir sinn elskaða kirsuberjagarð uns allt er um seinan? Og hvers vegna tekst hvorki Vörju né Lopakhín að aula út úr sér því bónorði sem þó hefði haldið fólkinu þeirra á floti enn um sinn? Kirsuberjagarður Tsjékhovs er eitt af þessum dularfullu meistaraverkum sem ráðleggingar Halldórs Laxness til leikhússgestsins eiga svo vel við. Hér duga engar lógaritmatöflur til að finna út hvað persónum og höfundi gengur til. Þú verður einfaldlega að opna augun, eyrun og hjartað. Koma eins og krakki.

Stundum er talað eins og leiklist af því tagi sem þessir rússnesku gestir bjóða upp á sé dauð, úrelt og varla ómaksins verð. Við fáum iðulega að heyra að við séum orðin svo leið á klassíkinni að það þurfi ferska hugsun, nýstárlegar túlkanir, aðrar leiðir. Stundum eru þær frjóar, oft reynast þær blindgötur.

Það er því svo sannarlega ánægjulegt að fá svona heimsókn, þar sem virðing fyrir höfundinum og verki hans gegnsýrir alla nálgun, og þar sem markvisst er unnið út frá hinni lifandi hefð í leikhúsvinnu sem kennd er við Stanislavsky og höfundaverk Tsékhovs og hinar byltingarkenndu kröfur þess átti svo stóran þátt í að móta. Hér er ljóðrænt, sálfræðilegt raunsæi í forgrunni.

Og gleðilegt að útkoman er svona áhrifamikil. Öll framganga leikaranna einkennist af að þvi er virðist áreynslulausu trausti á að allt hið ósagða skili sér til áhorfenda án þess að það sé útmálað á nokkurn hátt. Engin “tilþrif”, enginn “fer á kostum”, enginn “brillerar”. Allir lifa persónur sínar í botn, og fela svo afraksturinn bak við orðin. Og þetta líf skilar sér til okkar af fullum þunga undan óbærilegum léttleika hversdagsins.

Ég hef aldrei séð Kirsuberjagarð þar sem lífsharmur frú Ranevskaju er jafn átakanlegur. Samt er túlkun Larísu Grebenstsjikovu sennilega best lýst með orðinu léttleiki. Hún flögrar um sviðið, hinn kynþokkafulla miðja staðarins, og án þess að það sé sýnt á nokkurn hátt vitum við að eina leiðin fyrir hana til að halda sönsum er að staldra aldrei við neitt, festa ekki hönd á neinu haldreipi sem gæti svikið. Algerlega óviðjafnanleg frammistaða.

Eða samleikur Dörju Semjonovu og Irínu Nízínu þegar uppeldissysturnar Anja og Varja hittast aftur eftir heimkomu þeirrar fyrrnefndu. Í örstuttri senu sjáum við alla bernskuna, alla leikina og sameiginlegu leyndarmálin sem mótuðu samskipti þeirra og persónuleika.

Og öll þau kynstur af upplýsingum sem Júlijen Balmúsov og Júríj Lútsjenko gefa okkur um Gaev og Firs, alla þá kæfandi umhyggju sem þjónninn getur ekki hætt að sýna húsbónda sínum og hafa átt sinn þátt í að rústa þeim manni.

Hvað með hina algerlega áreynslulausu innlifun sem skilar áhrifamestu “trúlofunarsenu” Vörju og Lopahíns sem ég hef séð eða reikna með að sjá? Pjotr Krasílov er hófstillingin sjálf í hlutverki hins nýríka þrælssonar, og fyrir vikið blasir fortíð hans og einmanaleg framtíð við án þess að það sé sérstaklega verið að troða því upp á okkur.

Leikhópur Hins rússneska þjóðleikhúss unga fólksins er í heild hreint afbragð, hver einasti leikari með sterka nærveru, sem varð m.a. til þess að hópsenur lifnuðu við án þess nokkurntíman að athygli áhorfenda hvarflaði frá því sem mikilvægast var.

Sviðsetningin er í sama anda og vinna leikaranna, lífræn, frjálsleg og flæðandi um rýmið og næsta skeytingarlaus um myndbyggingu. Þó svo falleg leikmyndin sé að hluta til táknræn eru heildaráhrifin raunsæisleg og minna mann á hvað svoleiðis uppfærslur á Tsékhov eru fáséðar hér hin síðari ár.

Auðvitað veit maður að svona fíngerð vinna skilar sér ekki að fullu á máli sem maður ekki skilur. Þess vegna eru áhrifin hálfu dýrmætari. Dýrmætast af öllu er þó að sjá dæmi um hverju einlægni og alger trúmennska við ætlun löngu dáins höfundar skilar sterkri sýningu, sem sýnir að því fer fjarri að sá brunnur sé þurrausinn. Kærar þakkir fyrir mig.