miðvikudagur, mars 23, 2005

Makalaus sambúð

Leikfélag Vestmannaeyja og Leikfélag Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum
Félagsheimili Vestmannaeyja, miðvikudaginn 23. mars, 2005

Höfundur: Neil Simon
Leikstjóri og þýðandi: Ásgeir Sigurvaldason

Olía og vatn

LEIKRIT með kynjahlutfalli í líkingu við það sem víðast hvar er raunin í leikfélögum landsins eru ekki ýkja mörg. Hvað þá góð leikrit sem eiga erindi við þátttakendur og áhorfendur. Það var því nokkuð klókt af Ásgeiri Sigurvaldasyni að grafa upp kven-endurgerð Neils Simons á karlaverkinu The Odd Couple, þýða hana og staðfæra og færa upp hjá Leikfélagi Vestmannaeyja og Leikfélagi framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, en sterk hefð virðist komin á slíkar samvinnusýningar þar. Útkoman er ágætisskemmtun þó að sitthvað standi í vegi fyrir að tiltækið heppnist fullkomlega.

Grunnhugmynd verksins er prýðileg. Tvær vinkonur reyna að búa saman þegar eiginmaður annarar þeirra hendir henni út. Þær eru hins vegar eins og olía og vatn og sambúðin eftir því. Þetta er ekki ýkja merkilegt verk og minnir um margt meira á framvindulausa sjónvarpssápu en sviðsleikrit. Framvindan er langdregin og bláþráðótt, enda meira lagt upp úr fyndnum tilsvörum og afgerandi og ýktum persónugerðum. Forsendur verksins eru í sjálfu sér auðþýðanlegar yfir á íslenskar aðstæður, en málið vandast þegar kemur að smáatriðum í atferli, viðhorfum og siðum þessa fólks. Þrátt fyrir nokkuð sniðuga yfirborðsstaðfærslu verður ansi margt ankannalega amerískt, kannski einmitt vegna tilraunarinnar til að láta verkið gerast hér á landi. Skiljanleg hugmynd sem gengur á endanum varla upp.

Leikhópurinn er nokkuð sterkur og sérstaka athygli vekja yngri leikarar í smærri hlutverkum sem eru lagðar með sterkum ýkjustíl sem þau reyndust valda ágætlega og uppskáru fyrir vikið mikla og verðskuldaða kátínu í salnum. Einkum var gaman af ljóskunni hjá Sigrúnu Bjarnadóttur og hinum kostulegu Spánverjum af neðri hæðinni sem Haraldur Ari Karlsson og Heimir Gústafsson nýttu til hins ýtrasta.

Í raun held ég að sýningin hefði grætt nokkuð á að sama leið hefði verið farin með burðarhlutverkin tvö. Þær Erla Ásmundsdóttir og Ásta Steinunn Ástþórsdóttir eru stólpaleikkonur, en virkuðu nokkuð stífar í þeim raunsæisstíl sem lagður var til grundvallar þeirra vinnu. Með meiri ýkjum hefði líka verið auðveldara að gera þær ólíkari, sem nokkuð vantar upp á, og hefði boðið upp á mikil skemmtilegheit sem leikstjórinn neitar sér og okkur um. Það sama á eiginlega við um vandaða og vel útfærða sviðsmyndina, hún er eiginlega of smekkleg og snyrtileg í upphafi þannig að umbreytingin eftir að ofurhúsfrúin Beta flytur inn verður varla nógu sláandi.

Allt um það þá er margt til að gleðjast yfir í Makalausri sambúð. Margir einlínubrandararnir hitta í mark og mjög er vandað til verka á öllum sviðum. Sýningin vakti enda mikla gleði í salnum og hraustleg viðbrögð í lokin. Þeir Eyjarskeggjar sem ekki hafa þegar mætt ættu að drífa sig í leikhúsið sitt.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Fiðlarinn á þakinu

Leikfélagið Grímnir, Stykkishólmi
Hótel Stykkishólmi 16. mars 2005

Höfundar: Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein eftir sögum Sholom Aleichem
Þýðandi: Egill Bjarnason.
Leikstjóri: Ingunn Jensdóttir.

Fyndnasti fiðlarinn

FIÐLARINN á þakinu er fullorðinssöngleikur og á næsta lítið skylt við þau lausbeisluðu stórsjó með samtíningstónlist sem algengust er á sviðum áhugaleikfélaga, einkum í framhaldsskólunum. Viðfangsefnið er reyndar ungt fólk og tilraunir þess til að yfirstíga hindranir siða og samfélags til að öðlast hamingju og ást, en samt sér maður Fiðlarann á þakinu ekki fyrir sér sem raunhæfan keppinaut þegar menntaskólarnir velta fyrir sér verkefnum.

Bæði er nú það að aðalpersónurnar eru þrátt fyrir allt ekki unga fólkið heldur foreldrar þeirra sem vilja hafa vit fyrir þeim en geta það auðvitað ekki, og svo hitt að verkið er næsta gamaldags. Og þá á ég við í merkingunni gott. Fiðlarinn á þakinu er sígilt verk, einhver besti söngleikur sem saminn hefur verið. Þakklátt viðfangsefni þeim sem á annað borð ráða við að skila honum yfir sviðsbrúnina, söng, leik og dansi.

Leikfélagið Grímnir í Stykkishólmi kemst skrambi langt með að gera Fiðlaranum verðskulduð skil. Það liggur í hlutarins eðli að félag af þessari stærðargráðu þarf að kalla til lítt eða óvant fólk til að fylla upp í svona sýningu, og það sést alveg að ekki eru allir þátttakendur hoknir af reynslu í að leika og dansa. Á hinn bóginn geislar ánægjan og stoltið af vel unnu verki af hópnum og í hjarta sýningarinnar eru öflugir kraftar sem bera hana uppi. Útkoman er þrátt fyrir hnökra prýðileg skemmtun og stór rós í hnappagat þessa metnaðarfulla félags.

Það er greinilegt að leikstjóri sýningarinnar vill leggja höfuðáherslu á skemmtigildi verksins, gleðina í söngnum og hlýjan húmorinn. Þetta lukkast ágætlega þó að gamlir fiðlaraaðdáendur eins og ég sakni svolítið alvörunnar sem að baki býr. Ekki tekst að teikna samband og togstreitu gyðinganna og Rússanna að neinu ráði og sálarstríð Tevyes yfir sífelldum hefðarrofum dætranna eru honum meira til ama og óþæginda en eins og heimsendir sé í nánd. En þetta er meðvituð hugsun og túlkun og sem slík gengur hún upp og vinnur með styrkleika aðalleikaranna.

Ég hef séð fimm íslenska leikara leika Tevye mjólkurpóst og Tryggvi Gunnarsson er tvímælalaust sá fyndnasti. Hann hefur frábæra skoptímasetningu og er hann, svo maður beiti fyrir sig tækniorðum úr Idol-Stjörnuleit, sjarmatröll. Það er ekki á neinn hallað þó að sagt sé að hann beri þessa sýningu uppi í öllu sínu veldi. Hann fer alveg út á brúnina með að gera Tevye of vitlausan á stundum, en kemst upp með það - sjá tækniorðið úr ædolinu. Margrét Ásgeirsdóttir er líka firnagóð sem Golda, full af hlýju háði og hefur fallega útgeislun á sviðinu. Helstu hlutverk önnur eru prýðilega skipuð þó svo að ekki gefist færi á að telja fleiri upp enda óvíst hvar ætti þá að hætta.

Tónlistarflutningur var alla jafnan ágætur, sérstaklega í sólósöngvum, hópsöngvar voru sumir dálítið ónákvæmir, sérstaklega þó hinn erfiði draumsöngur. Þetta mun allt saman slípast. Hljómsveit var vel spilandi.

Leikmyndin er falleg en alltof viðamikil og þung í vöfum fyrir verk af þessu tagi með mörgum stöðum og iðulega stuttum atriðum. Langar skiptingar eru ekki bara leiðinlegar heldur allsendis óþarfar í svona verki þar sem ímyndunarafli áhorfenda er hvort sem er gefinn byr undir báða vængi. Þar fyrir utan var rýmisnýting skemmtileg en leikið er bæði á sviði og á dansgólfi salarins í Hótelinu.

Fiðlarinn á þakinu í Stykkishólmi er létt og skemmtileg útfærsla á frábæru verki. Með stjörnuleik í aðalhlutverkinu og alúð við öll smáatriði tekst að búa til sýningu sem allir bæjarbúar ættu að vera stoltir af og drífa sig að sjá. Aðrir mættu vel gera slíkt hið sama.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Kirsuberjagarðurinn

Halaleikhópurinn
Sýnt í Halanum, Hátúni 12. fimmtudaginn 3. mars 2005

Höfundur: Anton Tsékhov
Þýðandi Eyvindur Erlendsson
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason

Að rækta garðinn sinn

EFTIR því sem tíminn leið urðu leikrit Tsékhovs smágerðari, tíðindalausari, meðan áherslan jókst á að gefa djúpa og sannferðuga mynd af raunverulegum samskiptum eða samskiptaleysi og tilfinningunum sem bjuggu þar að baki en flestir reyna með góðum árangri að leyna. Þessi þróun nær hámarki í Kirsuberjagarðinum, þar sem ekkert gerist annað en heimur persónanna ferst án þess að þær megni að hreyfa legg eða lið.

Hingað til hefur það að ég held eingöngu verið fyrsta stórvirkið, Máfurinn, sem hefur ratað á fjalir hjá íslenskum áhugaleikfélögum, en þar gengur öllu meira á. Kannski ekki skrítið að það verk verði frekast fyrir valinu, því til að skila fullnægjandi mynd af lífinu í Kirsuberjagarðinum þarf að varpa ljósi á það sem er dulið, sýna það sem ekki sést og segja það sem persónurnar þegja um af hvað mestu kappi. Það er meira en að segja það að skila þessu og Halaleikhópnum heppnast ekki að komast alla leið að þessu marki. Á leiðinni opinberast samt sem áður að hópnum er ýmislegt til lista lagt.

Það er fágað yfirbragð á sýningunni. Lítið ber á kunnuglegum stílbrögðum leikstjórans, sem gjarnan hefur lagt upp með ærslafullan, glannalegan leikstíl sem síst hefði hentað verkefninu. Guðjón nálgast sem betur fer Kirsuberjagarðinn með nærfærni og hófstillingu og nær fyrir vikið skýrleika út úr leikhópnum, afstaða persónanna hvorrar til annarrar er alltaf ljós.

Fágunina er líka að finna í prýðilega hugsaðri leikmyndinni, þeirri snjöllustu sem ég hef séð í Halanum, og smekklega völdum búningum og leikmunum. Staðsetningar og umferð í rýminu áreynslulaus og lipur.

Leikhópurinn er stór, og allir hafa úr gulli að moða þó ekki séu öll hlutverkin lotulöng í handriti. Góður slatti hópsins eru þaulvanir leikarar, en aðra man ég ekki eftir að hafa séð áður. Samt sem áður er þetta sennilega jafnbest flutta sýning sem ég man eftir hjá hópnum. Þessa má vel njóta þó ekki takist að komast til botns í verkinu.

Sóley Björk Axelsdóttir fer með hófstilltri innlifun með hið mikla hlutverk Ranévsskaju óðalseiganda. Dætur hennar eru prýðilega teiknaðar af þeim Hönnu Margréti Kristleifsdóttur og Maríu Jónsdóttur. Árni Salomonsson nær kæruleysislegum skoptöktum út úr bróður hennar og Órn Sigurðsson er trúverðugur sem athafnaskáldið Lopahin. Þá fer Gunnar Gunnarsson á kostum í hlutverki Firs, líkamstjáning og innlifun eins og best verður á kosið.

Það er heilsteyptur vandvirknissvipur yfir Kirsuberjagarði Halaleikhópsins. Þau nálgast verkefni sitt af alvöru, leikgleði og einbeittum vilja til að gera eins vel og kostur er. Þessi afstaða skín út úr öllu sem fyrir augu og eyru ber og er þegar upp er staðið það dýrmætasta sem hægt er að bjóða áhorfandanum upp á. Halaleikhópurinn ræktar svo sannarlega garðinn sinn þessi árin.