föstudagur, janúar 31, 2003

Leyndarmál rósanna

Leikfélag Akureyrar
Samkomuhúsinu á Akureyri 31. janúar 2003.


Höfundur: Manuel Puig
Leikstjóri og þýðandi: Halldór E. Laxness
Leikmynd og búningar: Þórarinn Blöndal
Lýsing: Ingvar Björnsson
Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson

Leikendur: Laufey Brá Jónsdóttir og Saga Jónsdóttir.

Sterkur leikur

LEIKRIT það sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir nú á margt sameiginlegt með frægasta leikriti höfundarins, Kossi kóngulóarkonunnar. Bæði verk tefla saman ólíkum einstaklingum í afmörkuðu stofnanarými, í þeim báðum eru samskipti þeirra, valdatafl og möguleikar á vináttu í forgrunni. Bæði fjalla þau að einhverju leyti um ást og svik. Í báðum er matur - hver á hann og hver borðar hann - hreyfiafl atburða, upphaf sambands.

Helsti styrkur Manuels Puigs sem leikskálds felst tvímælalaust í persónusköpuninni og konurnar í Leyndarmáli rósanna eru þar engin undantekning, djúpar og marghliða myndir af einmana einstaklingum með erfiða lífsreynslu að baki. Veikasta hlið hans er á hinn bóginn hve stirðlega skrifuð samtölin eru oft, en Puig var fyrst og fremst skáldsagnahöfundur. Þessa sér nokkuð stað í Leyndarmáli rósanna, en þýðing leikstjórans hefur einnig á sér einkenni fljótaskriftar sem bætir ekki úr skák. Annar galli verksins er frekar veik flétta, tilraun til að skapa spennandi atburðarás sem heppnast ekki allskostar og er auk þess í raun óþarfi, persónurnar, samskipti þeirra og afhjúpun er nægt efni, heldur athyglinni og nær áhrifunum.

Í Leyndarmáli rósanna erum við stödd í sjúkrastofu á einkasjúkrahúsi með tveimur konum, sjúklingi og hjúkrunarkonu. Sjúklingurinn hefur misst alla lífslöngun við dauða dóttursonar síns og búið um sig bak við brynju kaldhæðni og skeytingarleysis. Hjúkrunarkonan glímir líka við fortíðarvanda í sínu lífi. Eftir því sem konurnar kynnast betur fáum við meiri upplýsingar um fortíð þeirra, og hvernig harðneskjulegt og hefðafreðið samfélag hefur mótað þær. Báðar hafa staðið frammi fyrir erfiðu vali í ástamálum og báðar svikið sjálfar sig. Þessum upplýsingum er að hluta til miðlað með draumkenndum innskotssenum þar sem persónurnar ganga inn í hlutverk í fortíð hvor annarrar. Þessi uppbrot á annars raunsæislegu formi verksins eru snjöll, og Puig leikur sér skemmtilega með óljós mörkin milli draums og veruleika, sýndar og reyndar, í sönnum suður-amerískum töfraraunsæisstíl. Þá gefa atriðin leikkonunum tækifæri til að sýna á sér nýjar hliðar, en "aukapersónurnar" sem þær leika kallast einnig á við höfuðpersónurnar, spegla þær og dýpka.

Sýning Leikfélags Akureyrar á Leyndarmáli rósanna er áhrifamikil og sterk. Þar skiptir mestu máli afburðagóð frammistaða leikkvennanna tveggja og skýr og einföld sviðsetning Halldórs E. Laxness.

Túlkun Sögu Jónsdóttur á sjúklingnum er stórbrotin mannlýsing. Í meðförum hennar birtist þessi yfirborðssterka en innviðaveika kona í öllum sínum mótsögnum, hroka og harmi. Þetta er ekki fínlegur leikur, en sterkur og safaríkur, nákvæmlega það sem hlutverkið þarfnast og stíll verksins kallar á. Einhvern tíma hefði svona frammistaða verið kölluð leiksigur.

Laufey Brá Jónsdóttir gerir hjúkrunarkonunni frábær skil. Með hófstilltum en spennuþrungnum leik málar hún skýra mynd af konu sem hefur bælt og nánast brotið á bak aftur drauma sína og lífsþorsta, og við skynjum spennuna sem þetta val hefur skapað. Það er alltaf eitthvað að gerast bak við harða grímu hjúkrunarkonunnar, við vitum ekki alltaf hvað það er, en skynjum ofsann. Þá sjaldan hún missir stjórnina, til að mynda í sterku atriði við dánarbeð móður sinnar, er það óvænt og ógnvekjandi.

Halldór E. Laxness heldur síðan fast utan um allt þetta líf og býr því sterka umgjörð með einföldum hreyfingum þar sem engu er ofgert. Leikmynd Þórarins Blöndal er af sama meiði, stílhrein, einföld og köld, sem myndar mótvægi við hitann í leiknum. Hljóð eru notuð á áhrifamikinn hátt í innskotssenum, en tónlistarnotkun er að mínu mati of bundin við Suður-Ameríku, og þá sérstaklega heimaland höfundar, Argentínu. Það er ekkert sér-latneskt við þetta verk, og þessi ofuráhersla dregur úr almennu gildi þess. Stóra undantekningin frá þessu er áhrifamikil og snjöll notkun leikstjórans á hinu þekkta lagi Violetu Parra, Þökk sé þessu lífi. En það er ekki vegna þess að það er argentínskt sem það virkar, heldur af því að það er frábært og frá hjartanu.

Leyndarmál rósanna er sterkt leikrit þrátt fyrir gallana og sýning Leikfélags Akureyrar er sterk leikhúsupplifun, borin uppi af innlifuðum leik tveggja sterkra leikkvenna. Það er því fyllsta ástæða fyrir Akureyringa og aðra til að sækja Samkomuhúsið heim á næstunni.

sunnudagur, janúar 26, 2003

Frá myrkri til ljóss

Leikfélagið Platitude
Sal KFUM og K við Holtaveg sunnudaginn 26. janúar 2003.
Höfundar og leikstjórar: Rakel Brynjólfsdóttir og Þóra Jenný Benónýsdóttir.


Barist um sálir

STARFSEMI leikfélagsins Platitude hefur ekki farið hátt í íslensku leikhúslífi, og hefur það þó starfað síðan haustið 1999 samkvæmt leikskrá sýningarinnar Frá myrkri til ljóss og sett upp þrjár aðrar sýningar. Félagið starfar undir hatti KSS, Kristilegra skólasamtaka, og sækir trúlega áhorfendur og annan stuðning í raðir þess félags, auk vina og ættingja þátttakenda og þarf því kannski ekki á frekari athygli að halda. Engu að síður vekur þessi vel falda starfsemi upp vangaveltur um hvort víðar sé leiklist stunduð án þess að hátt fari, leiklist sem svalar þörf afmarkaðs hóps eða jafnvel bara löngun þátttakendanna. Um það verður eðli málsins samkvæmt ekkert vitað, en er óneitanlega skemmtileg tilhugsun, allt iðandi af neðanjarðarleiklistarstarfsemi og engan grunar neitt. En nú hefur leikfélagið Platitude allavega komið úr felum og gagnrýnandi sendur út af örkinni.

Verkið Frá myrkri til ljóss er samkvæmt leikskrá höfundarverk tveggja stúlkna úr hópnum, þeirra Rakelar Brynjólfsdóttur og Þóru Jennýar Benónýsdóttur. Hvort þær hafa verið í forystu hópsins frá upphafi veit ég ekki, né hvort fyrri verk eru einnig frá þeim komin. Einnig er ómögulegt að vita hvort hópurinn hafi notið leiðsagnar kunnáttufólks um leiklist nú eða fyrr. Ef ekki verður að taka ofan fyrir þeim stallsystrum og hópnum í heild fyrir djörfung, að ekki sé sagt fífldirfsku.

Sagan er ekki ýkja flókin. Þegar hinn frelsaði Breki deyr reynir hann með öllum ráðum að gera Sóleyju kærustu sína hólpna. Hún er hins vegar ekki meira en svo móttækileg fyrir Orðinu, og það sem meira er, laðast að skuggalegum náunga, Heiðari, sem reynist vera á vegum hins illa. Baráttan er tvísýn, en best að láta lesendum eftir að geta sér til um hvort aflið hefur sigur að lokum. Þó fyrrnefndar stúlkur séu nefndir höfundar verksins ber textinn það með sér að vera að miklu leyti spunninn. Þá er sýningin krydduð með sönglögum úr ýmsum áttum.

Það sem fyrst og síðast er hrífandi við sýningu Platitude er hin augljósa knýjandi þörf til að koma boðskap á framfæri. Hér er svo sannarlega á ferðinni ungt fólk sem hefur eitthvað að segja. Það vinnur síðan á móti áhrifamættinum hvað mikið skortir á reynslu og kunnáttu, sem vonlegt er. Kemur þetta bæði fram í framvindu sögunnar sem hefði mátt vera skýrari og sviðsetningunni, sem ekki var sérlega markviss. Aðstæður og búnaður í sal KFUM var líka með frumstæðasta móti, og tæknistjórn óþarflega ónákvæm.

Í ljósi þessa er varla sanngjarnt að leggja dóm á frammistöðu einstakra leikara, en tveggja verður þó að geta. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson var spaugilegur Aron, einhverskonar starfsmannastjóri englaskarans á himnum og Tinna Rós Steinsdóttir var yndisleg sem ein af þessum ljóskum sem veit ekki hvað hún hugsar fyrr en hún heyrir hvað hún segir.

Það búa hæfileikar í leikfélaginu Platitude, að ógleymdum eldmóðnum. En til að virkja möguleika leikhússins þarf reynslu og kunnáttu. Hana öðlast menn smám saman, og þessi sýning er áfangi á þeirri leið ef hópnum endist áhuginn.

fimmtudagur, janúar 23, 2003

Ráðalausir menn

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu 23. janúar 2003.

Höfundur og leikstjóri: Siguringi Sigurðsson
Leikendur: Jón Marinó Sigurðsson og Sigurður Svavar Erlingsson.

Tilraunanna virði

TILRAUNASTARFSEMI og listræn áhætta af öllu tagi nýtur einatt mikillar virðingar meðal áhugamanna um leiklist, þó almennum áhorfendum sé slétt sama um slíkt og heimti umbúðalausa skemmtun öðru fremur. Færa má fyrir því rök að metnaðargjörn áhugaleikfélög séu kjörinn vettvangur fyrir tilraumir, slíkir hópar séu minna háðir efnahagslegum forsendum sem sníða atvinnumönnum þröngan stakk. Engu að síður er starfsemi íslenskra áhugaleikhópa heilt yfir með fremur hefðbundnu sniði, bæði hvað varðar verkefnaval og efnistök. Kannski er það líka eins og við er að búast, það er jú áhugi á (hefðbundinni) leiklist sem öðru fremur knýr fólk til þátttöku í starfinu, en tilraunir og byltingar spretta einmitt af óþoli og vantrú á möguleikum hefðbundins tjáningarmáta og viðteknum formum. Ef áhugamaður verður leiður á rútínunni eru líklegri viðbrögð að snúa sér einfaldlega að einhverju öðru.

En listræn áhætta er fólgin í fleiru en formtilraunum. Þannig er það djarft hjá Leikfélagi Keflavíkur að gefa ungum höfundi tækifæri til að sjá sitt fyrsta leikverk lifna á fjölunum og það sem meira er, leyfa honum að sviðsetja það sjálfum, sem einnig er frumraun hans í því hlutverki. Árangurinn er athyglisverður á öllum sviðum og ástæða til að óska Siguringa Sigurjónssyni og Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með afraksturinn af þessari ferð út í óvissuna.

Ráðalausir menn verður að teljast réttnefni á verkinu, en það fjallar um vandræði tveggja vina í kvennamálum og ólíkar leiðir þeirra til að takast á við þann vanda. Meðan drifkraftur Jóa er fyrst og fremst greddan hverfur Siggi á vit rósraðra drauma um hið fullkomna samlíf karls og konu. Þeir rökræða og rífast um markmið og leiðir, sprengja draumablöðrurnar hvor fyrir öðrum, en hætta sér að lokum út á kjötmarkað næturlífsins. Árangurinn er fyrirsjáanlegur, þetta eru ráðalausir menn.

Siguringa lætur vel að skrifa samtöl, þau eru lipur og á eðlilegu og tilgerðarlausu talmáli, og þau voru mörg hlátrarsköllin í Frumleikhúsinu á föstudagskvöldið. Verkið er þó fremur tíðindalítið, og ef til vill voru persónurnar ekki alltaf nógu skýrar, meiri spenna hefði skapast með skarpari andstæðum. Vonandi heldur Siguringi nú áfram að skrifa fyrir leiksvið, reynslunni ríkari.

Kannski kemur ekki síður á óvart hve vel höfundi tekst upp við sviðsetninguna. Hún er tilgerðarlaus og eðlileg, eins og við á við frumflutning, verkið var látið tala. Það er heldur ekki amalegt fyrir nýbakaðan leikstjóra að hafa á að skipa jafn pottþéttum leikurum og þeir Jón Marinó Sigurðsson og Sigurður Svavar Erlingsson eru. Áreynslulaus og afslöppuð sviðsnærvera þeirra, og gott næmi fyrir kómískum tímasetningum áttu ekki minnstan þátt í að gera Ráðalausa menn að verulega ánægjulegum félagsskap, hvort sem þeir Siggi og Jói myndu trúa því eða ekki.

mánudagur, janúar 20, 2003

Salka miðill

Leikfélag Hafnarfjarðar
Hafnarfjarðarleikhúsinu 20. janúar 2003.

Höfundar: Ármann Guðmundsson, Gunnar Björn Guðmundsson og hópurinn
Stjórnandi: Ármann Guðmundsson

Leikendur: Ármann Guðmundsson, Gunnar Björn Guðmundsson, Hildur Kristmundsdóttir, Jón Stefán Sigurðsson, Kristín Svanhildur Helgadóttir, Lárus Húnfjörð, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Pálmi Sigurjónsson, Sara Blandon, Sara Guðmundsdóttir, Snorri Engilberts og Sunna Björk Haraldsdóttir.


Tilraunanna virði

TILRAUNASTARFSEMI og listræn áhætta af öllu tagi nýtur einatt mikillar virðingar meðal áhugamanna um leiklist, þó almennum áhorfendum sé slétt sama um slíkt og heimti umbúðalausa skemmtun öðru fremur. Færa má fyrir því rök að metnaðargjörn áhugaleikfélög séu kjörinn vettvangur fyrir tilraumir, slíkir hópar séu minna háðir efnahagslegum forsendum sem sníða atvinnumönnum þröngan stakk. Engu að síður er starfsemi íslenskra áhugaleikhópa heilt yfir með fremur hefðbundnu sniði, bæði hvað varðar verkefnaval og efnistök. Kannski er það líka eins og við er að búast, það er jú áhugi á (hefðbundinni) leiklist sem öðru fremur knýr fólk til þátttöku í starfinu, en tilraunir og byltingar spretta einmitt af óþoli og vantrú á möguleikum hefðbundins tjáningarmáta og viðteknum formum. Ef áhugamaður verður leiður á rútínunni eru líklegri viðbrögð að snúa sér einfaldlega að einhverju öðru.

Samt örlar á tilraunastarfsemi hjá áhugaleikfélögunum með reglulegu millibili, og nægir að nefna þar frjóa samvinnu Leikfélags Kópavogs og Ágústu Skúladóttur undanfarin leikár. Einnig hefur frumsköpun leikrita verið vaxandi þáttur í starfsemi sífellt fleiri félaga. Nú hefur Leikfélag Hafnarfjarðar sett á svið afar nýstárlega sýningu (allavega á íslenskan áhugaleikhúsmælikvarða), Sölku miðil, þar sem spuni er notaður til að sviðsetja miðilsfund. Útkoman er athyglisverð og gefur leikhúsáhugafólki ágætt tækifæri til að skoða hvers spuni er megnugur og hverjar takmarkanir hans eru.

Aðferð hópsins, og þá ekki síst leikstjórans, Ármanns Guðmundssonar, er að gera áhorfendur í raun að gestum á miðilsfundi. Leikhópurinn er síðan innan um áhorfendur sem fundargestir auk miðils og aðstoðarfólks hennar, og ef íslenskur áhugaleikhúsheimur væri örlítið stærri hefði það vafalaust aukið á áhrifamátt sýningarinnar að vita ekki hverjir voru leikarar og hverjir ekki. Hér er unnið markvisst með samband áhorfenda og viðburðar og tekst þessi þáttur sýningarinnar mjög vel.

Vel útfærð og nostursamleg umgjörð jók mjög á trúverðugleikann, og hjálpar til að setja áhorfendur í spor fundargesta. Það verður til þess að væntingar breytast, við bíðum ekki lengur í ofvæni eftir áhugaverðri atburðarás eða spennandi viðburðum. Og það var í kyrrlátum og tíðindalitlum köflum sýningarinnar sem áhrifamáttur aðferðarinnar var sterkastur. Þegar mikið gekk á komu annmarkar spunans í ljós. Eftir því sem skilaboðin að handan urðu dramatískari gekk leikurum erfiðlegar að tjá viðbrögð sín - eðlilega - en það veldur áhorfenda vonbrigðum. Á þeim stöðum saknaði ég skrifaðs texta fyrir leikarana til að nota sem leið til að túlka líðan sín og viðbrögð. Óvæntur og frábærlega vel útfærður endir sýningarinnar var undantekningin frá þessu, enda töluðu þar atburðirnir sjálfir og skilin milli leiks og raunveruleika hverfa.

Um leikarana gildir það sem að ofan er sagt. Öll áttu þau afbragðs leik í kyrrlátari köflum, en réðu síður við að skila djúpstæðri þjáningu eða flóknum tilfinningamálum til okkar, berskjölduð í þrengslum leikrýmisins og án stuðnings frá texta.

Þó Salka miðill heppnist ekki nema að hluta til sem leiksýming, telst hún í raun fullkomlega vel heppnuð tilraun. Hún er athugun á aðferð, og sem slík leiðir í ljós möguleika og annmarka hennar og fyrir það ber að þakka. Áhugafólk um tjáningarmátt leikhússins ættu að sjá þessa sýningu og kryfja á eftir, sér til gagns og gamans. Þá er auðvitað ótalin sú reynsla og þor sem þátttakendur verkefnisins taka með sér í frekari verkefni, hefðbundin jafnt sem tilraunakennd.