föstudagur, október 26, 2001

Stæltir stóðhestar

Litli leikklúbburinn á Ísafirði
Ísafirði 26. október 2001

Höfundar: Anthony McCarten og Stephen Sinclair
Leikstjóri: Elvar Logi Hannesson
Dansar: Eva Friðþjófsdóttir

Leikendur: Ásgerður Bergsdóttir, Friðrik Stefánsson, Gunnsteinn Sigurðsson, Páll Gunnar Loftsson, Unnar Þór Reynissonm, Úlfur Þór Úlfarsson, Viðar Örn Sveinbjörnsson og Þröstur Ólafsson.

Hvað sem er fyrir frægðina

SÖGUEFNIÐ í Stæltu stóðhestunum er orðið næsta kunnuglegt, enda nánast það sama og í þeirri ágætu bíómynd The Full Monty. Hópur vonlausra og stefnulausra kalla ákveður að gerast fatafellur til að græða peninga, en öðlast í leiðinni óvænt sjálfsvirðingu og já, reisn við það að takast loksins á við eitthvað af alvöru. Hið nýsjálenska leikrit mun vera eldra en myndin og heyrst hefur af ágreiningi um höfundarétt vegna þessa. Það má þó liggja milli hluta.

Það verður að segjast að handrit Stóðhestanna ekki sérlega merkileg smíð. Persónur eru reyndar nokkuð skýrt dregnar í upphafi og fyrri hluti verksins, þar sem drengirnir stíga sín fyrstu skref úr fötunum, nokkuð skemmtilega skrifaður. Botninn dettur síðan nánast algerlega úr verkinu þegar á að byggja upp spennu í seinni hlutanum, þar sem okkur er sýnt hvernig hið nýfengna en brothætta sjálfsálit hópsins virðist ætla að brotna, en stenst síðan (auðvitað) raunina. Þessi hluti er illa uppbyggður og forsendur orða og gerða persónanna illgreinanlegar. Verkinu líkur svo á frumsýningu hópsins, sem auðvitað er frábær skemmtun ef vel tekst til og bjargar öllu fyrir horn.

Semsagt, frekar slappt handrit. Í höndum Ísfirðinga og Bíldælingsins Elvars Loga verður sýningin hins vegar bráðskemmtileg, sem helgast fyrst og fremst af góðri persónusköpun og leikstíl sem líklega er réttast að kalla testósteróndrifinn. Það sem glatast af blæbrigðum er bætt upp með krafti og fjöri sem alla hrífur sem á annað borð hefur áhuga á að skemmta sér. Sýningin dalaði skiljanlega í seinni hlutanum og textamistök settu leikarana út af laginu, en nektarsýningin var makalaust skemmtileg svo allt endaði á góðu nótunum. Texti verksins hefur verið staðfærður og vísanir í bæjarlífið á Ísafirði virkuðu vel.

Allir eiga leikararnir þátt í því að sýningin lukkast. Friðrik Stefánsson er traustur sem leiðtoginn Geir, Unnar Þór Reynisson var bæði brjóstumkennanlegur og fyndinn sem hinn bassagítar-óði Barði, Úlfur Þór Úlfarsson var kannski óþarflega ýktur hommi sem Leifur, en átti hins vegar flottasta dansatriðið og einfeldningurinn Hermann var hjartað í sýningunni í frábærri meðferð Gunnsteins Sigurðssonar. Viðar Örn Sveinbjörnsson var öruggur sem Ævar og yndislegur sem kynnir á “sjóinu”. Þröstur Ólafsson var gríðarlega kraftmikill sem félagi stripparanna sem ekki treystir sér í þessa nýju útgerð. Ásgerður Bergsdóttir var flott sem atvinnudansarinn sem hjálpar strákunum á veg. Atriðið þar sem hún leggur þeim lífsreglurnar var sérstaklega skemmtilegt og Ásgerði tókst vel að sýna kulda atvinnumannsins, sem er þeim félögum auðvitað nauðsynleg lexía. Reynsluboltinn Páll Gunnar Loftsson fór síðan létt með lítið hlutverk Dúdda klúbbeiganda.

Litli leikklúbburinn hefur innréttað nýtt leikhús í ónýttu fiskverkunarhúsi fyrir sýninguna og farist það vel úr hendi. Húsið hefur mikla möguleika sem þau fá vonandi tækifæri til að nýta frekar áður enn hið langþráða framtíðarheimili leikklúbbins í Edinborgarhúsinu kemst í gagnið, sem óskandi er að verði þó sem fyrst.

Stæltu stóðhestarnir er skemmtileg og kraftmikil sýning sem áreiðanlega á eftir að gleðja margan Ísfirðinginn á næstu vikum. Hvað nákvæmlega er sýnt og hvað sést læt ég leikhúsgestum eftir að komast að.

fimmtudagur, október 25, 2001

Brúðkaup Tony og Tinu

Leikfélag Mosfellssveitar
Frumflutt af Artificial Intelligence

Þýðing: María Guðmundsdóttir og Guðný María Jónsdóttir
Leikstjóri: Guðný María Jónsdóttir
Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ
fimmtudaginn 25. október 2001

Boðflennur velkomnar

ÞETTA er engin smáræðis útgerð hjá Mosfellingum. Fyrir utan leikarafjöldann (23 leikendur) hafa þau umbylt húsinu sínu, innréttað kirkju baksviðs en breytt leiksviðinu í veislusal. Svo láta þau sig ekki muna um að bera fram tvíréttaða máltíð meðan á sýningu stendur. Það fer ekki á milli mála, sýningargestir í Bæjarleikhúsinu eru staddir í brúðkaupi.

Brúðkaup Tony og Tinu er önnur atlaga leikfélagsins að því sem þau kalla samskiptaleikhús, tilraun til að brjóta múrinn milli leikara og áhorfenda og draga gesti inn í heim verksins. Í þeirri fyrri, Jarðarför ömmu Silvíu, voru áhorfendur viðstaddir útför og erfidrykkju ættmóður gyðingafjölskyldu í New York. Nú er það ítalskt -amerískt brúðkaup og veislan sem fylgir á eftir.

Eins og gefur að skilja er sýning sem byggir á samskiptum við áhorfendur að miklu leyti spunnin. Það á að mér sýnist enn frekar við um brúðkaupið en jarðaförina. Það er nánast enginn söguþráður, framvinda eða þróun í samskiptum persónanna. Jafnvel ekki þar sem lagt er upp með eitthvað slíkt, eins og að gamall kærasti brúðarinnar birtist óvænt í athöfninni og er hreint ekki búinn að gleyma henni. Uppgjörið sem maður á von á í þeim þríhyrningi kemur aldrei. Þess í stað verða sýningargestir að láta sér nægja að fylgjast með ferð einstakra persóna í gegnum veisluna, nú eða að hella sér út í að taka þátt í henni af lífi og sál og skemmta sér sjálfur.

Því miður finnst mér það engan vegin koma í staðinn fyrir leiksýningu. Til þess er ramminn sem samskiptum leikara og gesta er settur of stífur, brúðkaup ókunnugs og framandi fólks. Sýningargestir eru boðflennur, sem vissulega eru boðnar velkomnar og reynt að draga þær inn í gleðskapinn, en ekkert fær breytt því að þær þekkja engan og fá í raun engu ráðið um framgang mála. Og af því að söguþráðurinn er að mestu látinn lönd og leið er ekkert sem stýrir athygli gestanna, ekkert sem gerist öðru merkilegra. Afmörkuð atriði eru skemmtileg sem slík, en breyta engu nema fyrir þá sem taka þátt í þeim. Að þessu leyti þykir mér þessi athyglisverða tilraun Leikfélags Mosfellssveitar ekki ganga upp.

Það sem hins vegar gengur upp og tekst vel er persónusköpun og innlifun leikhópsins. Hver einasti þátttakandi er á tánum frá upphafi til enda og margar persónurnar frábærlega mótaðar og skemmtilegar. Af þeim sem mest fönguðu athygli mína má nefna Stefán Bjarnason, sem þróaðist úr taugastrekktum brúðguma í blindfullt (og ákaflega íslenskt) partídýr og Halldór Halldórsson, sem var svo þorparalegur fyrrverandi kærasti brúðarinnar að erfitt var að skilja af hverju var ekki búið að henda honum á dyr fyrir löngu. Allra mest horfði ég þó eftir Ólafi J. Straumland sem var ósýnilegur og þó ótrúlega áberandi ljósmyndari.

Og við Maddy, fylgikonu hins ógnvekjandi föður brúðgumans, vil ég segja þetta: Já, ég laug mig frá að dansa við þig. Maður dansar ekki í leyfisleysi við hjákonur svona mafíulega vaxinna manna.

sunnudagur, október 21, 2001

Hinn eini sanni

Leikfélag Kópavogs
Félagsheimili Kópavogs laugardaginn 21. október 2001

Höfundur: Tom Stoppard
Þýðandi: Guðjón Ólafsson
Leikstjóri: Bjarni Guðmarsson
Leikmynd: Frosti Friðriksson
Leikendur: Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, Ástþór Ágústsson, Birgitta Birgisdóttir, Einar Þór Samúelsson, Frosti Friðriksson, Guðmundur L. Þorvaldsson, Helgi Róbert Þórisson, Huld Óskarsdóttir og Júlíus Freyr Theodórsson.

Enginn má yfirgefa húsið

STOPPARD var einhverntímann spurður um störf sín sem leiklistargagnrýnandi sem hann gegndi áður enn hann sló í gegn sem leikskáld. Hann svaraði: “Ég hafði aldrei siðferðisþrek til að rakka niður vini mína. Eða réttara sagt: ég hafði siðferðisþrek til að rakka aldrei niður vini mína”. Síðar skrifaði hann Hinn eina sanna, skopstælingu á hefðbundnum sakamálaleikritum þar sem siðferðisbrestir leiklistargagnrýnenda eru eitt helsta hreyfiaflið. Sjálfsagt er þetta tilviljun, en það er þá skemmtileg tilviljun.

Hinn eini sanni er langmest leikna verk Stoppards hér á landi, enda þakklátt verk að fást við, fyndið og snjallt og kallar á afgerandi leikstíl sem við fyrstu sýn er ekkert annað en hefðbundinn ofleikur sem þorri leikara hefur á valdi sínu og nýtur þess að velta sér uppúr. Málið er nú samt ekki alveg svona einfalt. Leikstíllinn þarf að taka mið af klisjunni um yfirdramatískan leikstíl sem allir tengja strax við sviðsetningar á Agötu Christie og öðrum af sama sauðahúsi. Til að leikstíllinn virki þurfa persónurnar aukinheldur að hafa innistæðu fyrir ýkjunum, grunnurinn þarf að vera traustur svo skoptstælingin standist. Svo má heldur ekki gleyma því að gagnrýnendurnir tveir sem dragast inn í atburaðrás verksins sem þeir eiga að fjalla um eru í öðrum stíl. Texti þeirra samanstendur af einlínubröndurum og grínið hvílir á tímasetningu og raunsæislegri meðferð textans sem er í þeim vitsmunalega stíl sem einkennir flest önnur verk höfundarins og þykir sumum nokkuð harður undir tönn.

Bjarni Guðmarsson hefur greinilega fullkominn skilning á þörfum verksins og skilar góðu verki. Ýktur og stílfærður sakamálaleikstíllinn var vel útfærður og aldrei innistæðulaus hjá vel skipuðum leikhópnum. Aðal sýningarinnar er samleikurinn og því erfitt og ástæðulaust að draga einstaka leikara fram til að hrósa þeim. Kannski hefði verið hægt að kreista fram meira skop með því að láta stílinn þróast og þokast nær fáránleikanum samhliða því að atburðarásin segir skilið við rökvísi heimsins. Gagnrýnendurnir voru ekki alveg eins öruggir á sínum stíl, en áttu þó sterk og fyndin augnablik, sérstaklega eftir að þeir hafa horfið inn í glæpaleikritið. Þessir aðfinnslupunktar eru samt smáatriði hjá þeirri staðreynd að sýningin heppnast í grundvallaratriðum, sem er alls ekki sjálfgefið með þetta verk. Þá er leikmynd Frosta Friðrikssonar bæði falleg og rétt.

Sýning Leikfélags Kópavogs er vel leikin og stýrt af styrkri hendi. Metnaður og vandvirkni er eitt helsta höfundareinkenni félagsins og það fer ekki á milli mála hér og sést á öllum þáttum sýningarinnar.

laugardagur, október 13, 2001

Dýrin í Hálsaskógi

Leikfélag Hveragerðis
Sýnt í Völundi í Hveragerði Laugardaginn 13. október 2001

Höfundur: Thorbjörn Egner
Þýðandi: Hulda Valtýsdóttir
Þýðandi: Kristján frá Djúpalæk
Leikstjóri: Sigurður Blöndal

Líf í skóginum

ÞAÐ er líklega alveg sama hvað maður sér margar uppfærslur á þessu leikriti; alltaf kemur eitthvað nýtt í ljós, jafnvel á eins strang-hefðbundinni sýningu og þeirri sem frumsýnd var í Hveragerði á laugardaginn var. Í þetta sinn festist hugurinn við það hvernig skógarbúarnir eru í grundvallaratriðum sáttir við stöðu mála í lífríkinu þangað til Marteinn skógarmús upphefur raust sína gegn ofbeldinu og óréttlætinu í fæðukeðjunni. "Gera þau það?" spyr forviða Bangsapabbi þegar Marteinn minnist á að dýrin éti hvert annað. En um leið og bent hefur verið á ástandið verður það samstundis óþolandi. Eitthvað verður að gera.
Sýning Hvergerðinga er hefðbundin eins og áður segir. Það birtist í sviðsmynd, gerfum og búningum sem taka nokkuð nákvæmt mið af teikningum höfundar. Vel hefur verið vandað til þessara þátta, allt útlit smekklegt og stílhreint. Þó hefði þurft að beita meiri hugkvæmni til að leysa skiptingar, sérstaklega undir lokin þegar Egner gerir greinilega ráð fyrir hringsviði og atburðarásin þarf að vera hröð og spennandi. Snjöll lausn á flugi Ömmu músar sýnir að hugmyndaflugið er til staðar. En hefðin birtist líka í "lögn" persónanna, látbragði þeirra og jafnvel raddbeitingu. Þó gagnrýnendur geti óskað sér frumlegri efnistök og sjálfstæðari lestur á leikritinu er það kannski frekar af eigingjörnum hvötum heldur en að það sé nauðsynlegt upp á að skemmta ungum áhorfendum og vekja þá til umhugsunar. Enda er sýning Leikfélag Hveragerðis að þessu sinni langt í frá að vera andlaus og dauðyflisleg. Öðru nær.
Sigurði Blöndal hefur tekist að laða fram og nýta hæfileika alls hópsins með þeim afleiðingum að sýningin er jöfn og áferðarfalleg. Eins hefur hann greinilega næmt gríneyra og -auga og víða brá fyrir leiftrandi skopleikjatöktum. Þar bar vitaskuld mest á þríeykinu Lilla, Marteini og Mikka ref sem allir voru í öruggum höndum. Hjörtur Már Benediktsson var kraftmikill og skemmtilega vitgrannur refur, vakti fremur kátínu en óhug og framkallaði marga hláturgusuna hjá ungum sem öldnum. Steindór Gestson er einn hæfileikaríkasti leikari í íslensku áhugaleikhúsi og þó víðar væri leitað og gerði bóhem-músinni Lilla óaðfinnanleg skil. Þó var kannski mest um vert að sjá hinn unga Óðin Davíðsson Löve standa þessum gamalreyndu "leikhúsrefum" síst að baki. Marteinn skógarmús var sprelllifandi í meðförum hans. Tónlistarflutningur var lýtalítill og oft hreint ágætur.
Leikfélag Hveragerðis hefur eftir nokkra ára vist á hrakhólum eignast fastan samastað. Það er vitaskuld gleðilegt en enn sem komið er hefur Völundur ansi stóra vankanta sem leikhús. Flatt gólf og langt og mjótt áhorfendarými takmarkar mjög útsýni af aftari bekkjum, sem er sérstaklega bagalegt fyrir áhorfendur sem ekki eru háir í loftinu. Það er gremjulegt að missa af því sem fram fer á sviðinu í svona skemmtilegri sýningu.