þriðjudagur, nóvember 21, 2000

Frk. Nitouche

Leikfélag Húsavíkur
Samkomuhúsinu, nóvember 2000

Höfundur: Florimond Hervé
Þýðandi: Jakob Jóhannesson Smári
Tónlistarstjóri: Aladár Rácz
Leikstjóri: Sigurður Hallmarsson

Aftur um öld eða svo

ÓPERETTUR eru ekki algeng sjón á íslenskum leiksviðum. Það er frekar að ameríska frændanum, söngleiknum, sé sómi sýndur hér. Og kannski ekki að undra, óperetturnar eru börn síns tíma og tíðaranda og eru orðnar ansi framandi okkur íslendingum á þúsaldarmótum.

Þó getur verið gaman að blása ryki af svoleiðis verkum, kanna hvort lífsmark reynist með þeim og hvort þau tala enn við okkur. Þetta gerir Sigurður Hallmarsson nú með Leikfélagi Húsavíkur og fröken Nitouche og tekst ágætlega.
Hálf er nú verkið samt þunnt í roði. Sérstaklega er tónlistin lítið spennandi, og nýtist sjaldan til að skapa andrúmsloft eða styðja við persónusköpun og framvindu. Hún var líka heldur varfærnislega flutt, sjaldnast náðu leikararnir að gera hana þannig að sinni að lögin lifnuðu við þó vel væri sungið og leikið. Fléttan er gamalkunnug, stúlka í klausturskóla á að giftast liðsforingja án þess þau hafi hist. Hún laumast með tónlistarkennaranum sínum á frumsýningu á óperettu sem hann hefur samið á laun. Þar hleypur hún í skarðið fyrir dyntótta prímadonnu og liðsforinginn, sem staddur er í leikhúsinu, heillast af henni. Það besta við verkið eru ágætir farsasprettir og hnyttin samtöl sem hvoru tveggja er skilað frábærlega í sýningunni og gerir hana á prýðilegri skemmtun.

Þar mæðir mest á Sigurði Illugasyni í hlutverki tónlistarkennarans og óperettusmiðsins Celestin. Sigurður hefur fyrir löngu sýnt að hann er í flokki betri leikara þjóðarinnar og hér bætir hann nýjum tóni við sitt stóra svið, leikur með hlýlegri og fíngerðri kímni sem skilar honum samúð áhorfenda og uppsker hlátur í hvert einasta sinn sem innistæða er fyrir honum. Reyndar er allur leikur í sýningunni á ótrúlega hófstilltum nótum og sýnir best innsæi og listrænt auga leikstjórans. Það þarf nefnilega ekki hamagang til að farsinn virki ef úrverkið er rétt stillt.

Það sakar auðvitað ekki að hafa nóg af snjöllum gamanleikurum í liðinu og á þeim er enginn skortur á Húsavík. Þeir verða ekki taldir allir upp hér, en þó verður að geta þess að Gunnar Jóhannsson sem leikhússtjórinn og Jóhann Kristinn sonur hans sem sviðsstjóri, Þór Gíslason sem harðneskjulegur major ásamt Berglindi Dagnýju Steinadóttur í hlutverki prímadonnunnar Corinnu voru óhemju skemmtileg og áttu sinn þátt í að gera annan þátt að kómískum hápunkti sýningarinnar.
Anna Karin Jónsdóttir þreytir frumraun sína með Leikfélagi Húsavíkur í titilhlutverkinu. Hún býr að ákaflega fallegri söngrödd og eftir því sem leið á sýninguna og frumsýningarskjálftinn gleymdist varð henni meira úr gríninu sem hlýst af því þegar sakleysinginn lendir í slagtogi við stressað leikhúsfólk og slarksama liðsforingja. Ari Páll Pálson leikur vonbiðilinn og fór létt með það, bestur þegar hann þarf að þykjast vera aldurhniginn fræðslustjóri til að fá að ræða við heitmeyna sem falin er bak við skerm af abbadísinni sem Guðrún Kristín Jóhannsdóttir gerði góð skil.

Sigurður er auðvitað þaulvanur umferðarstjórn á þröngu sviðinu í Samkomuhúsinu á Húsavík enda gengur allt snurðulaust og lipurlega fyrir sig, þrátt fyrir mannfjöldann. Leikmyndin er stílhrein og falleg og búningar sömuleiðis. Allt yfirbragð er vísvitandi í gömlum stíl og engin tilraun gerð til að skopast með verkið eða snúa út úr. Sýning Húsvíkinga á Nitouche er einlæg og heiðarleg skoðun á gömlu verki og skilar öllu sem í því býr. Og það reynist þegar upp er staðið vera nákvæmlega það sem höfundurinn stefndi að í upphafi; ánægjuleg kvöldstund og ágæt skemmtun.

sunnudagur, nóvember 19, 2000

Nornin Baba Jaga

Leikfélag Sauðárkróks
Sunnudagurinn 19. nóvember 2000

Höfundur: Jevgení Schwartz
Þýðandi: Ingibjörg Haraldsdóttir
Leikstjóri: Skúli Gautason

Sú vonda og sú vinnusama

RÚSSNESKA leikskáldið Jevgení Schwartz er meistari í þeirri list að færa gömul ævintýri í leikbúning og gefa þeim nýjar víddir um leið. Hér er á ferðinni rússneskt ævintýri um nornina illu, Böbu Jögu, og viðskipti hennar við fjölskyldu eina, ekkjuna Vassilísu og tápmikla syni hennar þrjá. Þegar leikurinn hefst hefur hún hneppt tvo þeirra í álög, breytt þeim í tré, og móðirinn hefur leitað þeirra æ síðan. Hún ræður sig í vinnu hjá norninni með þeim skilmálum að hrósi húsmóðirin henni fyrir störfin verða drengirnir frelsaðir. Hún vinnur sín óvinnandi verk með prýði og nýtur aðstoðar þriggja dýra sem einnig eru í vist hjá Böbu Jögu. Þriðji sonurinn kemur á vettvang og málin stefna í hnút, en vitaskuld endar ævintýrið eins og rétt er og skylt.
Leikfélag Sauðárkróks teflir hér fram, ef marka má leikskrá, fremur óreyndum leikhóp. Hæfileikar eru þó greinilega fyrir hendi því öllum tekst að móta skýrar persónur og gefa þeim sjálfstæðan lit innan sýningarinnar. Mikið mæðir á Ásu Björgu Ingimarsdóttur og Sigurlaugu Vordísi Eysteinsdóttur í hlutverkum Böbu Jögu og Vassilísu. Báðar gerðu þær vel, og það sama má segja um köttinn Kötju sem María Markovic gerði eins kattarlega og verða má, auk þess sem búningur hennar og andlitsgerfi var listavel útfært.
En þó hver og ein persóna sé góð verður lítið líf á sviðinu ef samskiptin eru ekki skýr. Hér hefði leikstjórinn, Skúli Gautason, að mínu viti mátt vinna betur. Of oft voru staðsetningar ómarkvissar og óþarflega mörg lykilaugnablik fóru forgörðum án þess að viðbrögð og afstaða persónanna væri ljós. Sérstaklega á þetta við um samskipti fólks og dýra við nornina. Baba Jaga er mikið illyrmi og hefur örlög þeirra allra að einhverju leyti í hendi sér. Hins vegar örlaði varla á hræðslu eða virðingu fyrir valdi hennar hjá þeim. Þetta gerði Ásu Björgu nokkuð erfitt fyrir að skapa ógn meðal leikhúsgesta, enda gömul sannindi að vald og myndugleiki á sviði eru búin til af mótleikurunum. Það er kannski skiljanleg ákvörðun að leggja mesta rækt við einstakar persónur þegar óvanir leikarar eiga í hlut, en mig grunar að vel hefði mátt ná lengra með sýninguna sem heild.
Ógetið er þáttar brúðuleikhússins í sýningunni, en því er beitt á afar hugvitssamlegan hátt og gleymist seint.
Það er rússneskt yfirbragð á sýningunni. Leikmynd, búningar (sumir) og tónlistin ýta undir þá stemmningu. Og margt er framandlegt í verkinu sjálfu, kringumstæðum og tilsvörum. Fyrir vikið verður allt enn ævintýralegra.
Leikfélag Sauðárkróks hefur eflt liðsstyrk sinn með þessari sýningu og vonandi halda allir þátttakendur áfram að glíma við leiklistina, þangað eiga þeir fullt erindi.

sunnudagur, nóvember 12, 2000

Krummaskuð

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsið, sunnudagur 12. nóvember 2000

Höfundur og leikstjóri: Guðjón Sigvaldason

Sonur skólastjórans og dóttir bílapartasalans

EF hugmyndaríkur teiknimyndasmiður afréði að gera Íslenska Sjávarþorpinu svipuð skil og Matt Groening hefur gert Bandarísku Smáborginni í sjónvarpsþáttunum um Simpson-fjölskylduna yrði útkoman hugsanlega ekki svo sérstaklega ólík leikriti og sýningu Guðjóns Sigvaldasonar, Krummaskuði. Hæfilegar (stundum reyndar óhæfilegar) ýkjur, væntumþykja og háð til helminga og grallaralegur húmor einkenna þetta sjónarspil á öllum sviðum, búningar, leikstíll, tónlist, texti og efnisþráður. Meira að segja nöfn persónanna (Desibel Rósamunda og Dósóþeus Víglundur). Gamlar klisjur eru viðraðar og snúið upp á þær, fúlir brandarar ganga í endurnýjun lífdaganna. Og allt er þetta svo ljómandi skemmtilegt að alvörugefnum gagnrýnanda fallast hálfpartinn hendur.
Því vissulega mætti að ýmsu finna. Stundum virðist mér hefði mátt staldra meira við lykilaugnablik, oft hefði sýningin grætt á strangari umferðarstjórn, og óþarflega oft skildist ekki textinn. Leikhópurinn er greinilega ekki allur með langa reynslu og þjálfun að baki.
Ekkert af þessu skiptir hins vegar endanlega máli. Það er Guðjón Sigvaldason sem setur leikreglurnar í Krummaskuði, hann teiknar bæinn svona og það er áhorfandanum bæði skylt, og ljúft, að gangast inn á þær forsendur. Það er líka vel þess virði, eins og aðkomudrengirnir sem leikritið hverfist um komast að um síðir.
Persónugalleríið er eins fjölskrúðugt og hægt er að óska sér, litríkt eins og nöfnin og allt málað með breiða penslinum. Geðillur póstmeistari, heyrnardaufar og eftir því háværar bílapartasölumæðgur, vergjarnar unglingsstúlkur og kjaftakerlingar eins og hver vill. Leikstjórinn nær að láta hvern einasta leikara „virka“, standa fyrir sínu. Hvort sem hlutverkin eru stór eða smá og án tillits til reynslu og getu. Og þetta er enginn smá skari, þrjátíu og sex persónur. Sum hópatriðin voru hreinlega óborganleg, testósterónþrunginn mansöngur unglingspiltanna gleymist seint, og hvað þá þegar allur skarinn stígur dans íklæddur skíðaklossum.
Búningarnir væru kapítuli útaf fyrir sig ef þeir væru ekki svona ómissandi hluti af heildaráhrifum sýningarinnar. Búningasafn hvers einasta áhugaleikfélags er fullt af tískufötunum frá í fyrradag, eins ósmekklegum og hugsast getur og sem alla jafnan eru fullkomlega ónothæf sem leikbúningar. Íbúar Krummaskuðs hafa hins vegar ekki frétt af nýjustu tískustraumum og líður greinilega ákaflega vel í sínum búningageymsluklæðum. Og þegar þrjátíu manns mæta kát í tísku gærdagsins, er þá ekki komin ástæða til að taka hana í sátt?
Það er eiginlega út í bláinn að tala um frammistöðu einstakra leikara. Þó verð ég að þakka Ingibjörgu Ósk Erlendsdóttur og Marinó Gunnarssyni sérstaklega fyrir skemmtunina. Tilhugsunin um samdrátt ofvitans Erps Snæs og hinnar upprennandi ofurljósku Melkorku Raf er einmitt svona hrollblandin sæla sem einkennir endurminninguna um dvölina í Krummaskuði. Ég hvet Keflvíkinga til að kíkja í heimsókn þangað, en reyna að spilla ekki hinu harmóníska samfélagi um of. Það er nefnilega fágætt, líklega hvergi til, frekar en Springfield Groenings.

Óvitar

Leikfélag Selfoss
Leikhúsinu við Sigtún, Sunnudagur 12. nóvember 2000

Höfundur: Guðrún Helgadóttir
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson

Stórt enn

EINHVERN veginn hef ég á tilfinningunni að samskipti barna og fullorðinna hafi þróast til betri vegar síðan Guðrún Helgadóttir skrifaði óvita á Barnaárinu 1979. Ég held (kannski er það óskhyggja) að það sé hlustað meira á börn, þau njóti meiri virðingar og þörfum þeirra sýndur betri skilningur nú en þá. Og ef svo er þá er loksins hægt að horfa á Óvita úr þeirri fjarlægð sem ein sker úr um hvort verkið lifir eður ei.

Og það lifir svo sannarlega. Alveg burtséð frá hinni fullkomlega ómótstæðilegu grunnhugmynd þá er bæði fléttan svo vel byggð, aðalpersónurnar svo eðlilegar og skýrar og samtölin svo skemmtileg að ég set Óvita hiklaust við hliðina á Kardimommubænum hans Egners og leikgerðunum á Astrid Lindgren. Húrra fyrir Guðrúnu. Af hverju hefur hún ekki skrifað fleiri leikrit? Hefur hún aldrei verið beðin um það? Eða vill hún það ekki? Ef eitthvert núlifandi íslenskt leikskáld getur skrifað betri senu en þegar vinnualkinn faðir Guðmundar syngur úr sér samviskubitið yfir vanrækslunni á börnunum án þess að átta sig á að það er ekki Guðmundur sem hann ávarpar heldur strokudrengurinn Finnur, þá þætti mér gaman að vita hver það er.
Óvitar veita leikfélögum fágætt tækifæri til að leiða saman krafta af öllum kynslóðum. Bæði til að leika saman en líka og ekki síður til að spegla atferli hvers annars, börnin sýna okkur fullorðna fólkinu hvernig þau sjá okkur og við fáum útrás fyrir barnið sem við erum, að við höldum, vaxin upp úr. Og viðsnúningurinn setur síðan viðhorfin, fordómana og skeytingarleysið sem við sýnum hvort öðru undir myndvarpann og gerir allt svo augljóst og klárt.

Það er ekki heiglum hent að koma sýningu á borð við þessa fyrir á sviðinu í litla leikhúsinu þeirra Selfyssinga. Óvitar er mannmargt leikrit, þó sumir taki ekki mikið pláss, og það gerist á mörgum stöðum, þó aðallega á einu heimili sem þýðir að mest verður að leggja í þá mynd og láta hinar mæta afgangi. Ólafur Jens hefur leyst þetta verkefni prýðilega, þó stundum örlaði á vandræðagangi hjá leikhópnum við að komast leiðar sinnar um sviðið. Oft var hann reyndar viðeigandi, enda húsakynnin hönnuð með þarfir hinna fullorðnu, hinna litlu, í huga.

Af leikhópnum mæðir mest á Guðmundi og fjölskyldu hans. Ég hygg ekki að á neinn sé hallað þó ég segi að Guðmundur Karl Sigurdórsson í hlutverki nafna síns beri þessa sýningu uppi. Guðmundur er fullkomlega eðlilegur sem hjartagóði lúðinn sem er alltof stór, en líklega þroskaðasti einstaklingurinn í verkinu. Tímasetningar og líkamsbeiting hans bráðfyndin. Helstu mótleikarar hans stóðu sig einnig með prýði, Marinó Fannar Garðarsson sem Finnur, Guðrún Katrín Oddsdóttir sem móðirin, Brynjar Örn Sigurdórsson sem pabbi og unglingssystirin Dagný sem Ása Ninna Karlsdóttir lék. Fleiri áttu góða takta en upptalningu verður að linna einhversstaðar.

Mikið veltur á að samskipti og afstaða barna og fullorðinna séu skýr í verkinu. Hluti af gamninu er að sjá valdið sem smáfólkið hefur yfir börnum sínum. Á stundum þótti mér sem þessu hefði ekki verið gefinn nægilegur gaumur. Ólafur Jens hefði að ósekju mátt aga eldra liðið sitt örlítið, þó vissulega sé gaman að sjá virðulegar húsmæður og mektarmenn hegða sér óvitalega. Á hinn bóginn voru yngri leikararnir jafnvel of prúðir á köflum, jafnvel svo að það sem þau höfðu að segja kafnaði í fyrirganginum í óþekktarormunum af eldri kynslóðinni.

En þetta vegur satt að segja ekki stórt. Sýningin skilar þessu snjalla verki til nýrrar kynslóðar og er sannarlega kjörin fyrir börn og foreldra til að sækja heim, skoða og ræða svo saman, í bróðerni og á jafnréttisgrundvelli. Óvitar eru stórt leikrit og verður varla lítið úr þessu.