laugardagur, apríl 29, 2023

Svartþröstur

Eftir David Harrower. Íslensk þýðing og leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson. Leikmynd og búningar: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir. Tónlist: Örn Eldjárn. Lýsing: Pálmi Jónsson. Hljóðmynd: Salka Valsdóttir. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir. Aðstoð við sviðshreyfingar: Kata Ingva. Leikarar: Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Valur Freyr Einarsson og Hekla Lind Ólafsdóttir. Raddir: Gunnbjörn Gunnarsson og Maríanna Clara Lúthersdóttir. Frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 21. apríl 2023.

Það er bara þú

Enska lýsingarorðið „harrowing“ lýsir hverju því sem kemur okkur í alvarlegt og viðvarandi tilfinningalegt uppnám. Ekki er líklegt að ættarnafn höfundar Svartþrastar vísi í arfgengan eiginleika til að ná fram þessháttar áhrifum, en ef svo væri þá er allavega óhætt að segja að skotinn David Harrower sé enginn ættleri.
Svartþröstur tekur um níutíu mínútur í sýningu í uppfærslu Vignis Rafns Valþórssonar. Ekkert hlé. Og engin miskunn. Þetta er nærgöngula nútímaleikhúsið að gera sitt besta til að hrista upp í áhorfendum með agaðri formbyggingu, raunsæislegu málsniði og sálfræðilega sannfærandi persónusköpun. Þetta er satt best að segja alveg ískyggilega vel skrifað verk, og engin leið að skynja að púðrið hafi neitt blotnað við flutning yfir á íslensku sem leikstjórinn á líka heiður af.
Una birtist óvænt á vinnustað Peters. Þau hafa ekki sést í fimmtán ár. Eða síðan Peter, sem þá hét Ray, skildi Unu eftir á hótelherbergi þar sem þau ætluðu að bíða eftir ferjunni sem bæri þau til meginlands Evrópu þar sem þau hugðust byrja nýtt líf. Ray fertugur, Una tólf ára. Ray hefur setið af sér dóm, og að því er virðist komið lífi sínu á réttan kjöl undir nýju nafni. Una kannski síður, sem vonlegt er, en er þó nægilega sterk til að leita Peter uppi. 
Í hönd fer nístandi uppgjör. Barátta um hvernig beri að skilja og túlka það sem gerðist. Og, það sem er kannski áhrifaríkast og erfiðast að kyngja og melta: Sameiginleg þrá eftir því að fortíðin hafi verið eins og þau trúðu þá að hún væri. Að það sé þrátt fyrir allt möguleiki á að hún sé ekki sú martröð sem hún var. Hvernig það gengur verður ekki upplýst hér.
Það er hvergi skjól að finna í þessu ferðalagi inn í fortíðina og tilfinningarnar, undir miskunnarlausum fúrorljósunum á nöturlegri kaffistofunni sem Júlíanna Lára Steingrímsdóttir hefur hannað og Pálmi Jónsson lýsir frábærlega, auk þess sem Örn Eldjárn og Salka Valsdóttir hækka spennustigið með útsmoginni tónlist og hljóðmynd. Þetta gæti svo auðveldlega farið illa úrskeiðis með einhverjum leikstjórnarlegum undanslætti eða vanhugsaðri leiktúlkun. Natúralískur textinn, þar sem fólk á ystu nöf berst við að orða tilfinningar sínar, leita svara, afhjúpa sig, fela ætlun sína, stika vígvöllinn sér í hag, kallar á fullkomið tæknilegt vald sem aldrei má bera á. Þau Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Valur Freyr Einarsson reynast þessum vanda vaxin og ríflega það.
Illa hamið uppnámið sem grípur Ray/Peter þegar hann áttar sig á hver er mætt á kaffistofuna líður seint úr minni eins og Valur Freyr túlkar það. Því auðvitað hefur leikarinn fullkomna stjórn á óstjórninni í rödd, líkamstjáningu og tali persónunnar. Sveiflurnar milli þess að stýra og móta gang samtalsins og upprifjunarinnar og að tapa stjórninni eru frábærlega mótaðar hjá þessum fremsta textameðferðarmanni sinnar kynslóðar í íslensku leikhúsi.
Við höfum eðli máls minna séð til Ásthildar Úu, sem lauk sínu leikaranámi fyrir þremur árum. En hún er hreint stórkostleg í þessu ofboðslega hlutverki. Mætir til leiks full af fölsku adrenalínöryggi, finnst hún hafa örlög þessa manns loksins í hendi sér. En fljótlega byrjar að hrikta í grunninum sem hún stendur á. Upprifjun hennar á örlaganóttinni í ferjubænum, þar sem við sjáum hana hverfa í rödd, látbragði og líkamstjáningu aftur til bernskunnar er svo sannarlega „harrowing“, og líður seint úr minni. Annað dæmi um tækni og innlifun að vinna saman eins og best gerist.
Hekla Lind Ólafsdóttir á stutta innkomu undir lok verks  og skilar sínu óaðfinnanlega.
Það er óhætt að segja að leikhúsunnendur þurfi ekki að kvarta yfir skorti á kröftugum, ágengum og frábærlega framsettum raunsæislegum kammerverkum á þessu leikári. Svartþröstur er sigur fyrir Vigni Rafn, Val Frey, Ásthildi Úu, Heklu Lind, Leikfélag Reykjavíkur og leikhúsið sem aðferð til að skyggnast inn í myrkrið í leit að ljósi.



Guðrúnarkviða

Eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Leikstjórn Hildur Kristín Thorstensen með aðstoð frá Björk Jakobsdóttur. Leikmynd: Sverrir Jörstad Sverrisson. Búningar: Hildur Kristín Thorstensen. Lýsing: Heimir Bergmann Ólafsson. Tónlist: Ólafur Torfason. Myndband: Helgi Sverrisson. Rödd á upptöku: Óli Gunnar Gunnarsson. Leikari: Eyrún Ósk Jónsdóttir. Sett upp í samstarfi við Gaflaraleikhúsið, þar sem sýningin var frumsýnd föstudaginn 31. mars 2023.

Litlir kassar

Frumsýning einleiks Eyrúnar Óskar Jónsdóttur í Gaflaraleikhúsinu markar áfanga í langri vegferð. Ekki endilega í árum talið, en það hefur ýmislegt gengið á. Einleikurinn byggir á samnefndri ljóðsögu Eyrúnar sem kom út 2020. Sama ár er verkið forsýnt og stefnt að frumsýningu og heimsóknum á leiklistarhátíðir innanlands og utan. Heimsfaraldurinn setti sín alkunnu strik í þann reikning, en nú er Eyrún mætt með einleikinn sinn í Gaflaraleikhúsið og Björk Jakobsdóttir vinnur út frá upphaflegri leikstjórn Hildar Kristínar Thorstensen en lagar útkomuna að kröfum nýs rýmis.
Grunnhugmyndin er skýr og klár. Guðrún rankar við sér í líkkistu og með því að hlusta eftir því sem gengur á fyrir utan boxið getur hún reiknað út að þar fari fram útför hennar. Hún þarf að gera ýmislegt: ná tökum á tilfinningunum, finna leiðina út, en líka það sem öll gera hvort eð er í jarðarförum: horfa yfir farinn veg. Var til einhvers lifað?
Það hefur gengið á ýmsu. Eitt það fyrsta sem Guðrún rifjar upp er hvernig hún tók stjórnina á slysstað eftir bílslys. Sjálf slösuð, en fór sjálfkrafa í þann gír að setja annarra þarfir framfyrir sínar. Það verður síðan meginstefið í þessu uppgjöri: að hafa ekki tekist að landa aðalhlutverkinu í eigin lífi, fyrr en núna á síðustu metrunum. 
Sviðsetning Bjarkar Jakobsdóttur í einfaldri leikmynd Sverris Jörstad Sverrissonar og túlkun Eyrúnar á Guðrúnu einkennist af miklum krafti, sem vel má kalla nokkurskonar hús-stíl Gaflaraleikhússins hin síðari ár. Rýmar ágætlega við kaldhæðinn og nokkuð fjarlægan tón textans. Minnir stundum allnokkuð á uppistandsformið, enda leikkonan uppmögnuð allan tímann. Erindið er samt ekki bara að vera fyndin, Eyrúnu liggur eitt og annað á hjarta um meðvirkni, ábyrgð á eigin lífi og ýmis undarlegheit í mannlífinu. En til þess að ná fyllilega til áhorfenda með það erindi hefði þurft einlægnari tóntegund, fjölbreyttari blæ í styrk og hraða, djarfari afhjúpun persónunnar.
Þar þvælist verst fyrir tæknilegt atriði í textanum. Hann er skrifaður í annarri persónu, sem nýtur sín ágætlega í bókinni, en verður ansi truflandi í lifandi flutningi leikkonu sem við eigum að sjá verða fyrir því sem hendir hana í framvindunni. Frásagnarmátinn verður fljótt hindrun fyrir áhorfendur sem langar að trúa á það sem fram fer, og truflandi fyrir leikkonuna við að komast í traust samband við persónu sína. Nóg eru nú kringumstæðurnar undarlegar og margt skrítið samt. 
Skemmtilegastar eru upprifjanir Guðrúnar á vandræðaatvikum í lífi sínu, sem og kostulegar útvarpstilkynningar undir lokin þar sem lýst er eftir ýmsum innihaldsefnum úr hinu góða lífi: draumum, ástarþrá, sjálfi og fullnægingu. Þar fer skáldið á flug og leikhúsið fylgir eftir. 
Heildaráhrifin eru þó að hér hefði þurft að ganga lengra og nær innihaldinu, finna fjölbreyttari leiðir til að miðla því og brjótast út úr spennitreyju annararpersónuformsins. Leyfa Guðúnu að vera „ég“, svona að leiðarlokum.

Djöfulsins snillingur

Eftir Ewu Marcinek og Pálínu Jónsdóttur. Leikstjórn: Pálína Jónsdóttir. Leikmynd og búningar: Klaudia Kaczmarek. Aðstoð við leikmynd og búninga: Wiola Ujazdowska. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóð og tónlist: Íris Thorarins. Leikarar: Jördis Richter, Heidi Bowes, Jordic Mist, Paul Gibson, Snorri Engilbertsson. Alþjóðlegi leikhópurinn Reykjavík Ensemble frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 30. mars 2023.


Þitt eigið eltiljós


Leikhúsinu er ekkert óviðkomandi, og þá sérstaklega ekki stóru málin, hvort heldur er í samfélagi eða sálarlífi. Jafnt og þétt nemur það land í hinum – enn sem komið – nýlega veruleika fjölþjóðlegrar fólksfjölgunar á Íslandi, eins og það er orðað í ávarpi leikskrárávarpi leikstjóra Djöfulsins snillings, Pálínu Jónsdóttur. Reykjavík Ensamble er þar í fremstu röð, bæði hvað varðar afköst og listrænt handbragð. 

Glíman við kerfið er í forgrunni í þessu nýjasta verki hópsins, eins og gjarnan í verkum sem fjalla um veruleika hinna aðkomnu. Verulega snjallt að tengja upplifun þeirra við sjálfvirku búðarkassana, en afmennskun afgreiðsluháttanna er ekki síður áberandi í þessu kerfi en öðrum. Undir niðri er samt alltaf hið mjög svo mannlega leiðarstef: kerfið lætur eins og það sé að reyna að hjálpa en fyrst og fremst er því ætlað að tryggja að allt sé það á forsendum innfæddra. Eigenda afgreiðslukassanna. Tilgangurinn er að tryggja hagsmuni og lífsgæði þeirra, fylla í skörðin á vinnumarkaðnum þar sem þau eru. Það hefur ekkert breyst frá því Ingólfur Arnarson flutti inn sína þræla, eins og vísað er í í sýningunni.

En hvað með hinn enda markaðarins, ef svo mætti segja? Hvað með þau sem fyrst og fremst vilja skapa og túlka? Hvað með listafólkið? Það mál er til sérstakrar skoðunar í Djöfulsins snillingi, meginefni sýningarinnar. Urielu rekur hér á land, kannski svolítið eins og Víólu í Þrettándakvöldi Shakespeares, og dreymir um að láta ljós sitt skína á sviði íslenska sirkussins, en hliðið þangað inn er þröngt og lykilorðin ekki öllum kunn, sérstaklega ekki þeim sem eru ekki í Íslendingabók og hafa ekki fullt vald á tungu heimamanna. Og þau sem virðast jafnvel vilja og geta hjálpað eru sennilega með sjálf sig ofar í mikilvægisröðinni þegar allt kemur til alls. 

Reyndar geta örugglega ansi mörg séð sig í sporum Urielu, óháð þjóðerni, líka hin innfæddu.Svo mörg sem eru kölluð en fá útvalin þegar kemur að tækifærum á stóra sviðinu. Það voru örugglega ekki síst Íslendingar í salnum sem flissuðu að staðhæfingunni um að á Íslandi tíðkuðust ekki áheyrnarprufur, enda vissu öll um öll sem eitthvað gætu eða veðjandi væri á. 

Þessi almenna skírskotun efnisins á sinn þátt í að Djöfulsins snillingur virkar ekki sem sérlega beitt ádeila. Sömu áhrif hefur ljóðrænt heildaryfirbragð textans og óræð framvindan. En einkum kannski það að það er ekki augljóst óréttlæti fólgið í því að enginn beini eltiljósi leikhússins að þeim sem það þrá.

Auðvitað á samt ekkert að gera þá kröfu á leikhús að það sé ágeng ádeila, jafnvel þó ávarp leikstjóra í leikskrá skapi þær væntingar. Sem hugleiðing um listþörf, einmanaleika og glímu við framandlegar, stundum kafkaískar, aðstæður er Djöfulsins snillingur harla vel heppnuð sýning. 

Það er víða skáldlegt flug í texta Pálínu og Ewu Marcinek. Það er auk þess gaman að heyra brot úr Skugga-Sveini og Shakespeare. Umgjörðin einföld en prýðileg hjá Klaudiu Kaczmarek (leikmynd og búningar), Ólafi Ágúst Stefánssyni (lýsing) og Íris Thorarins (hljóð og tónlist). En hiti og þungi dagsins hvílir, eins og vera ber, á leikhópnum.

Aðallega samt á Jördisi Richter, sem er hreint frábær sem Uriela. Útgeislun, sviðssjarmi og afslöppuð orka sem fangar alltaf athyglina og heldur samúðinni þar sem hún á að vera. Hún fær verðugt mótspil frá Snorra Engilsbertssyni í hlutverki innanbúðarmannsins Gunnars, sem sjálfur efast um stöðu sína í sirkusnum og er ekki nema stundum einlægur í stuðningi sínum við baráttu Urielu. 

Þegar þau Heidi Bowes, Jordic Mist og Paul Gibson eru ekki í kórhlutverki eru þau svipmiklir stuðningsaðilar i sögu Urielu. Heidi sem ráðagóður sérfræðingur í hvernig komast megi af í óvinveittu kerfi, Jordi að hinn eilífi (launa)þræll sem heldur innviðum heldra fólksins virkum og hreinum og Paul sem aðskiljanlegir og oftast kostulegir fulltrúar valdsins, í bankanum og/eða útlendingastofnun. Allt er þetta lipurt og snjallt.

En kannski ekki mjög sláandi. Fréttirnar af óvinveittu kerfi, sérviskulegum íslenskum sundstaðareglum og ofurtrú á mætti kennitölunnar eru ekki lengur eins ferskar og þegar leikhópar byrjuðu að túlka reynslu aðfluttra. Aðgengi að stóru sirkustjöldunum er vissulega takmarkað, en það er erfitt að trúa á að kerfisbundið óréttlæti standi þar í veginum, umfram það sem alltaf hefur verið við lýði og bitnað á öllum á óheppilegum greinum Íslendingabókar, og að sjálfsögðu nú líka á þeim sem er þar hvergi að finna. 

Samt finna mörg sinn farveg. Með þrautsegju, heppni, trú á mátt sinn og megin, og með hjálp frá vinum sínum. Það gildir líka um Reykjavík Ensamble sem augljóslega er komið til að vera í flórunni, okkur öllum til gleði og upplýsingar.






Íslandsklukkan

Eftir Halldór Laxness. Leikgerð: Bjartur Örn Bachmann, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Þorleifur Örn Arnarsson og leikhópurinn. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Aðstoðarleikstjóri: Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir. Dramatúrg: Bjartur Örn Bachmann. Sviðshreyfingar: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés. Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir. Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir og Guðmundur Erlingsson. Tónlist: Unnsteinn Manuel Stefánsson. Leikarar: Bjartur Örn Bachmann, Davíð Þór Katrínarson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Hallgrímur Ólafsson, Jónmundur Grétarsson og María Thelma Smáradóttir. Leikhópurinn Elefant frumsýndi í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 16. mars 2023.

Miklu stærra mál

Marglesnar og langelskaðar bækur hafa þann eiginleika að þegar minnst varir spretta upp setningar sem maður hefur lítinn gaum gefið og taka yfir skilning manns. Þetta gerðist í upphafi frumsýningar leikhópsins Elefant á leikgerð sinni upp úr Íslandsklukkunni í Þjóðleikhúsinu. Þar hljómar lestur Helga Skúlasonar á upphafsorðum bókarinnar og þar á meðal fullyrðing hins bráðfeiga böðuls, Sigurðar Snorrasonar, að enginn eigi annað en það sem hann hefur bréf uppá.
Og það var eins og við manninn mælt, allt sem gekk á í sýningunni, kunnuglegt jafnt sem nýstárlegt, speglaðist í þessari fullyrðingu, sem er svo hversdaglega sönn en gróflega ósönn um leið. Danir áttu vissulega bréf upp á að eiga Ísland, en áttu það samt auðvitað ekki, frekar en aðrir nýlenduherrar eiga löndin sem þeir ráða yfir. Árni Árnason selur sig fyrir gullkúta konu sinnar til að kaupa handrit sem enginn getur á endanum átt nema við öll. Kaupsamningur Magnúsar í Bræðratungu við svínahirðinn á Eyrarbakka gerir Snæfríði Íslandssól væntanlega að eign hans. Eða hitt þó heldur. Handhöfum höfundarréttar Nóbelsskáldsins er þakkað í leikskrá fyrir leyfið sem þau gáfu fyrir efniviðnum, en sú Íslandsklukka sem hljómar innra með öllum sem hana lesa er þeirra eign og verður ekki þaðan aftur tekin. 
Síðast en ekki síst: þyki einhverjum sæma að efast um tilkall leikhóps ungra leikara af blönduðum uppruna til þessa krúnudjásns, sem sjálft tiplar á hálum ís þjóðernismærðarinnar, þá er nóg að sjá myndugleikann í leikhópnum í Kassanum til að þagga niður í þeim. Hann birtist meðal annars í því að það er ekki verið að leita dauðaleit að því í sögunni sem endurspeglað gæti lífreynslu þeirra sem koma stórum hluta samferðafólks síns fyrir sjónir sem öðruvísi. Hvaða fátæki og fáliðaði leikhópur sem er myndi líklega taka sömu ákvarðanir um hvaða sögu og hvaða snjallyrðum úr þessari miklu epík ætti að halda til haga: örlagasögu Snæfríðar Eydalín með raunir Jóns Hreggviðssonar sem kontrapunkt.
Öðru hverju small samt eitthvað öðruvísi en oft áður. Snilldarlegt var að heyra Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, í hlutverki Jóns Grindvicensis, segja kunnuglegar fordómaskrítlur um Íslendinga, sumar frá frú Arnæus,  á dönsku, en ávarpa svo furðulostinn Jón Hreggviðsson á spænsku (held ég). Eins var frumsýningarsalurinn nokkuð lengi að jafna sig þegar María Thelma Smáradóttir í hlutverki Snæfríðar sagði við Reinarbónda Hallgríms Ólafssonar að sig minnti endilega að hann væri svartur. 
Það er miklu frekar fagurfræði leikstjórans sem fangar athyglina en hvort leikararnir passa inn í hugmyndir okkar um Íslendinga snemma á átjándu öld. Sumt er þar kunnuglegt: óreiðan, eintökin af bókinni í hrúgu framsviðs, dýragrímurnar, dansatriði með klassískum píanóundirleik í síðari hluta sem maður skilur ekki alveg hvað á að fyrirstilla. En líka örugg tök á að miðla viðamikilli og flókinni sögu með alveg mátulegu tilliti til áhorfenda til að aldrei slakni um of á þræðinum í galskapnum. Notkun dagblaða- og maskínupappírs sem lykilefnis í búninga og umbúnað er skemmtileg hjá Guðnýju Hrund Sigurðardóttur og skilar oft áhrifaríkum myndum, þó skrjáfið væri truflandi á köflum. 
Verra var hvað áhersla leikgerðarinnar á lífsbaráttu Snæfríðar hentar illa hæfileikum og, að því er virðist, áhugasviði Þorleifs Arnar. Hann er ekki rétti maðurinn til að hlúa að könnun tilfinningalífs, glímu raunsæislegra teiknaðra persóna við ástina og harminn. Samfléttuð örlög Íslandssólar, Arnasar, Magnúsar og Sigurðar dómkirkjuprests þurfa á köflum að berjast um athygli okkar við fyrirganginn og uppátækin, ekki síst í seinni hlutanum þar sem afleitir borðsiðirnir hætta fljótlega að vera sniðugir og verða þreytandi. Því við erum, eins og vanalega, orðin handgengin fólkinu sem allt snýst um og viljum geta veitt því óskipta athygli. 
Þegar heilt á litið er líka ljóst að þetta er ekki leikhópur sem fæst við svona texta á hverjum degi. Það þarf tækifæri og reynslu til að skapa nauðsynlegt öryggi. Engu að síður sannfæra þau okkur og hrífa. 
Enginn meira þó en María Thelma, sem nær eftirtektarverðri kyrrð og innlifun í hlutskipti Snæfríðar, heldur áfram að vaxa inn í hlutverkið allt til enda. Harmur Snæfríðar því átakanlegri sem leikkonan hélt reisn sinni betur. Í blábyrjun leist mér ekki á blikuna með Jón, það hljómaði engu líkara en Hallgrímur ætlaði frekar að leika Brynjólf Jóhannesson eða Helga Skúlason en kallinn sjálfan. En það fór fljótt og útkoman frumlegur og sannfærandi lestur á hlutverkinu. Það er t.d. allnokkuð afrek að láta hin alkunnu orð um hvenær maður drepur mann hljóma eins og eitthvað annað en innantómt tilsvar úr Íslenskri fyndni. Ætli mitt eftirlætisatriði í sýningunni sé ekki samtal Snæfríðar og Jóns á Þingvöllum. María Thelma og Hallgrímur bæði frábær, og eitursnjöll hugmynd að færa orðaskipti Snæfríðar við föður sinn inn í þessi örlagaríku fyrstu kynni. 
Jónmundur Grétarsson  hefur flóknara verkefni sem ólíkindatólið Arnas. Persónan fer ekki vel út úr áherslum leikgerðarinnar, þar sem eiginkonan, samstarfsmennirnir, þýsku greifarnir og sjálfur eldurinn er á bak og burt. Hlutverkið svolítið eins og ósamstæð blöð úr Skáldu, en Jónmundur skilaði því sem hann þó hafði vel. Kristján Þór Katrínarson var mjög sannfærandi í rustalegri lögn uppfærslunnar á svolanum Magnúsi og Bjartur Örn Bachmann eftirminnilega kyrrlátur og lúmskt slepjulegur sem dómkirkjupresturinn ástsjúki. Áður var minnst á helsta leikhlutverk Ernesto Camilo, en hann fer síðan hamförum á sínum heimavelli í dansatriðinu sem var ákaflega flott sem slíkt þó ég meðtæki ekki meininguna.
Mál Jóns Hreggviðssonar þótti Arnasi minnst varða hann sjálfan. Kannski má heimfæra þau orð upp á þess uppfærslu Íslandsklukkunnar. Hún er við fyrstu sýn miklu stærra mál en enn ein sviðsetning sögunnar sem opnaði musterið fyrir rúmum sjötíu árum. Við getum vissulega ímyndað okkur fjaðrafokið þá, ef María, Jónmundur og þau hin hefðu birst þegar rauða tjaldinu var svipt frá í fyrsta sinn. En stóra málið núna er að leikhópurinn Elefant á augljóst tilkall til þessarar sögu. Það er ekkert sjokk. Og það þarf enginn að framvísa neinu bréfi upp á það.

Draumaþjófurinn

Eftir Björk Jakobsdóttur byggt á skáldsögu eftir Gunnar Helgason. Söngtextar: Björk Jakobsdóttir, Gunnar Helgason og Hallgrímur Helgason. Tónlist og tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Dans og sviðshreyfingar: Lee Proud. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Brúður – hugmynd og útlit: Ilmur Stefánsdóttir og Charlie Tymms. Brúðuhönnun: Charlie Tymms. Lýsing og myndbandshönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Petr Hloušek. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Þóroddur Ingvarsson. Hljómsveitarstjóri: Kjartan Valdemarsson. Hljóðfæraleikarar á sýningu: Kjartan Valdemarsson, Haukur Gröndal og Einar Scheving. Leikarar: Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Örn Árnason, Þröstur Leó Gunnarsson, Atli Rafn Sigurðarson, Þórey Birgisdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Guðrún S. Gísladóttir, Pálmi Gestsson, Hákon Jóhannesson, Edda Arnljótsdóttir, Viktoría Sigurðardóttir, Oddur Júlíusson, Almar Blær Sigurjónsson, Saadia Auður Dhour, Kolbrún Helga Friðriksdóttir/Dagur Rafn Atlason, Guðmundur Einar Jónsson/Nína Sólrún Tamimi, Oktavía Gunnarsdóttir/Rafney Birna Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Sturla Olsen/Kristín Þórdís Guðjónsdóttir, Rebekkah Chelsea Paul/Jean Daníel Seyo Sonde og Helgi Daníel Hannesson/Leó Guðrúnarson Jáuregui. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins sunnudaginn 5. mars 2023.

Það er nóg til

Dýradæmisögur eiga sér langa og glæsta sögu, Og djúpar rætur – sögurnar sem kenndar eru við gríska þrælinn Esóp og voru skrifaðar niður fyrir tveimur og hálfu árþúsundi eða svo, voru þá búnar að lifa góðu munnlegu lífi lengi. Það er litið á það sem skýlaus réttindi íslenskra ríkisborgara að sjá Dýrin í Hálsaskógi áður en við yfirgefum markhópinn fyrir friðar- og grænmetisboðskap Egners, og sækjum Dýrabæ Orwells á bókasafnið. 
Gunnar Helgason slóst í þennan hóp með bók sinni um veröld rottunnar í Draumaþjófnum, sem kom út fyrir jólin 2019 og Björg Jakobsdóttir hefur nú komið í söngleikjabúning. Kannski djarft að draga fram þessa smáðu nagdýrstegund til að segja börnum sögur um réttlæti og samlíðan, en líka rökrétt: rottur eru víðast hvar okkar næstu nágrannar, lifa á því sama og við og eru, eins og við, óttaleg plága.
Draumaþjófurinn segir af forréttindarottunni Eyrdísi, dóttur Skögultannar sem stýrir hafnarrottulandinu harðri hendi. Þar ríkir ströng stéttskipting, yfirstéttin leggur ekkert til samfélagsins, en lifir á vinnu hinna. Ógnin að utan er notuð sem réttlæting fyrir óhæfunni, sérstaklega bátarotturnar sem örugglega myndu éta öll út á gaddinn fengju þær inngöngu í samfélagið. Og draumasmiðurinn Hjassi gefur óréttlætinu trúarlegt yfirbragð með því að úthluta ævistörfum eftir draumum sínum – segir hann.
En allt stendur hafnarrottuveldið á brauðfótum. Eitt stefnumót Eyrdísar við safnararottuna Halald, og grimmileg refsing sem hann er beittur fyrir að dirfast að nálgast ríkisarfann, nægir til að opna augu hennar fyrir hroðanum. Hún flýr út í heim, og ferðalag hennar að hinu goðsagnarkennda Matarfjalli (sem við mannfreskjurnar - eins og við heitum á rottumáli – köllum ruslahaug) er hryggjarstykki verksins. 
Óneitanlega hefur flutningur sögunnar í nýtt form dregið fram dramatíska vankanta, sem komu ekki að sök í bókinni. Þar líður lesanda eins og hann sé að skoða sig um í nýjum heimi, og getur dundað við að flissa yfir hugkvæmninni í smáu og stóru; fyndnu nöfnunum og orðatiltækjunum, speglunum mann- og nagdýrsheima. En í leikhúsinu fer að skipta meira máli hvað fókusinn fer víða, hvernig valdabrölt næstráðanda Skögultannar þvælist fyrir uppgjöri Eyrdísar við valdatíð móður sinnar, og hvað umbreyting aðalpersónunnar úr síétandi iðjulausu dekurdýri í réttsýna barátturottu fyrir betri heimi er átakalaus og hve umskiptin eru snemma um garð gengin. 
Aðrir óskýrir þræðir eru alfarið á reikning leikgerðar og uppsetningar. Að enginn mikilvægur munur er á vellystingu veitingahúsarottanna og þeirra sem gista matarfjallið. Og passa upp á samkvæmni í danskvíðaröskun erkiskúrksins Ljúfs, sem kemst óbrjálaður frá sumum söngnúmerum þegar önnur gera hann alveg viðþolslausan.
Dýradæmisögur, eins og önnur ævintýri, þrífast á og krefjast skýrra andstæðna og þroskandi glímu við nýjar aðstæður. Hér tekst ekki fyllilega að halda þessum boltum á lofti.
Á móti kemur að flest annað heppnast framúrskarandi vel. Og rétt að taka fram að það greindust engin merki um ókyrrð meðal barnanna í salnum þegar síga fór á seinni hlutann og þeim áhorfanda sem hér skrifar væri farið að leiðast þófið örlítið. Sjónarspilið er enda magnað hjá Ilmi Stefánsdóttur (leikmynd), Birni Bergsteini Guðmundssyni og Petr Hloušek (lýsing og myndband), Maríu Th. Ólafsdóttur (búningar) og Charlie Tymms (brúður, ásamt Ilmi og fleira fólki). Búningarnir og brúðurnar kannski það sem heillar mest, sérlega fagurt og kröftugt verk. Þá halda Stefán Jónsson leikstjóri og ekki síður dansmeistarinn Lee Proud öllu á fagurri og stefnuvirkri hreyfingu frá upphafi til enda. 
Ég er ekki eins heillaður af framlagi tónsmiðsins. Stóru númerin, sérstaklega upphafs- og lokalagið og suðrænn stuðdans veitingahúsarottanna voru sérdeilis glæsileg hjá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, en einsöngslögin og dúettarnir ekki eins. Almennt saknaði ég skýrara svipmóts, afgerandi ákvarðana um stíl, hvort heldur er í lagasmíðunum, útsetningum og hljóðfæraskipan. Það á ekki að vera sjálfsagt mál að barnasöngleikur hljóti að hljóma eins og Disneyteiknimynd.
Það eru engir veikleikar í leikhópnum, sérstaklega ekki á stærstu póstunum. Meginþunginn hvílir á Þuríði Blæ Jóhannsdóttur í hlutverki Eyrdísar og hún stendur fyllilega undir því að bera sýninguna uppi, með fimi sinni, krafti og útgeislun. Þó hans njóti stutt við reynist Kjartan Darri Kristjánsson verðugur og eftirminnilegur mótleikari í hlutverki Halaldar.
Yfirstéttin er firnavel skipuð. Atli Rafn Sigurðarson slepjulegur og ógnvekjandi sem hinn grimmi og valdagráðugi Ljúfur, Örn Árnason og Þröstur Leó Gunnarsson drepfyndið tvíeyki, draumasmiðurinn Hjassi og skósveinninn Naggeir (þessi nöfn!). Allrabest er samt Skögultönn, sem verður í meðförum Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur að óborganlegri stúdíu í narsissisma, vænisýki og bernskri grimmd. Einmitt svona eru harðstjórar í návígi, hugsar maður.
Af öðrum er það kannski helst Þórey Birgisdóttir sem hin hetjulega Píla sem fangar persónulega athygli, að öðru leyti renna rottuhóparnir óþarflega mikið saman fyrir áhorfandanum. Fyrir utan Kolbrúnu Helgu Friðriksdóttur, sem átti ekki í nokkrum vandræðum með að snerta hjartastrengi allra í salnum sem Sandur, bátarottubarnið í búrinu. Yngstu leikararnir á frumsýningu, auk Kolbrúnar Helgu, voru Guðmundur Einar Jónsson, Oktavía Gunnarsdóttir, Gunnlaugur Sturla Olsen, Rebekkah Chelsea Paul og Helgi Daníel Hannesson, öll öryggið uppmálað í dansi, söng og leik.
Draumaþjófurinn er vegleg stórsýning þar sem öllu er tjaldað til og allt gert í botn. Vankantar efnisins draga þegar upp er staðið merkilega lítið úr áhrifamættinum, þeirri kröftugu sprengju tilfinninga, lita og hreyfinga sem leyst er úr læðingi á stóra sviðinu. Og boðaði betri heim, þar sem er nóg fyrir öll, bæði matur, skjól og vinsamlegt viðmót. Enda ekkert sjálfsagðara.

Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar

Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar ★★★★· Handrit: Sveinn Ólafur Gunnarsson og Ólafur Ásgeirsson eftir hugmynd Alberts Halldórssonar, Ólafs Ásgeirssonar og Viktoríu Blöndal. Aðstoð við handrit: Sviðslistahópurinn Alltaf í boltanum. Dramatúrg: Lóa Björk Björnsdóttir. Leikstjórn: Viktoría Blöndal. Sviðshreyfingar: Erna Guðrún Fritzdóttir. Leikmynd og búningar: Sólbjört Vera Ómarsdóttir. Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir og Juliette Louste. Myndbönd: Ásta Jónína Arnardóttir. Tónlist: Valdimar Guðmundsson. Leikarar: Albert Halldórsson, Ólafur Ásgeirsson, Starkaður Pétursson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Valdimar Guðmundsson. Leikarar á upptöku: Birgitta Birgisdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Sviðslistahópurinn Alltaf í boltanum frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 2. mars 2023.

Strákarnir okkar

Hvergi er staðalmyndakarlmaðurinn eins berskjaldaður og þegar kemur að fótbolta. Svo vill líka til að þetta er eina staðalmyndin sem þykir við hæfi að beina beittum grínspjótum að. Og þarna standa þeir. Eins og varnarveggur sem veit ekki hvar hann á að hafa hendurnar, og bíða eftir að spyrnan ríði af. Hún hittir oft og mikið í mark í Óbærilegum léttleika knattspyrnunnar, gamanleik eftir Svein Ólaf Gunnarsson og Ólaf Ásgeirsson byggðan á hugmynd Ólafs, Alberts Halldórssonar og Viktoríu Blöndal, sem einnig leikstýrir. Stútfullt Tjarnarbíó réði sér ekki fyrir kæti á frumsýningu, og ef sýningarplanið stangast ekki þeim mun verr á við leikjaplan Premier League, Serie A og Meistaradeildar Evrópu ætti markhópurinn að drífa sig. Nema markhópurinn séu öll hin, sem horfa á mennina horfa á fótboltann og skilja hvorki upp né niður í æsingnum. Fólk eins og fyrrverandi kærastan hans Dodda, sem gafst upp á að hún og börnin voru alltaf í öðru sæti á eftir Manchester United og bjórnum, og henti honum út. Sex mánuðum síðar er Doddi búinn að koma sér fyrir í vel græjaðri piparsveinsíbúð, fer helst ekkert út og býr sig undir grannaslag við erkiféndurna úr Bítlaborginni, með yngri bróður sínum og álíka eldheitum United-manni sem skírður er í höfuðið á sjálfum Ole Gunnar Solskjær. Hvað gæti farið úrskeiðis, fyrir utan óhagstæð úrslit? Þegar Benni, nýi kærasti barnsmóðurinnar kemur til að sækja skólatöskur og ílengist yfir boltanum í boði einfeldningsins Óla Gunnars en í óþökk húsráðanda, byrjar spennan að færast af vellinum og inn í stofuna. Og enn þrengist á þingi þegar félagi Benna verður þreyttur á að bíða í bílnum, bætist í hópinn og reynist vera hinn eini sanni Valdimar Guðmundsson. Þá vantar bara dramatískt augnablik á Old Trafford til að hleypa öllu í háaloft. Þess er ekki lengi að bíða. Sem leikrit hefði Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar alveg þolað meiri yfirlegu. Spennuaugnablikin koma og fara í stað þess að magnast upp. Ferðalag Dodda, sem allt ætti að snúast um, er óskýrt, og fyrir vikið missir lokaatriði verksins marks, fyrir utan náttúrulega stórkostlegan lokasönginn. Og hefði aðeins meira jafnvægi milli háðs og harms ekki skilað betri sýningu? Mögulega, en tæknilegu vankantarnir koma hins vegar eiginlega ekkert að sök. Þetta er drepfyndin sýning sem hittir iðulega beint í mark í lýsingu sinni á bjórlegnum hanaslag yfir sameiginlegri ástríðu. Höfundar hafa verið einstaklega fundvísir á kostuleg smáatriði í samskiptamáta karla og kenjar sem tengjast þessu tiltekna áhugamáli. Hefðu samt mátt stilla sig um að láta drengina tala stöðugt um „Manchester United“ sín á milli, allavega benda mínar vettvangsrannsóknir til að aðdáendur láti „United“ eða „Manjú“ duga. Smáatriði skipta máli, eins og kemur svo glöggt í ljós í metingi drengjanna um hver er mestur, fróðastur og heitastur aðdáandi. Það sem ræður úrslitum hér, eins og á vellinum, er mannskapurinn. Samleikur og persónusköpun fimmenninganna er með miklum ágætum. Sveinn Ólafur er reynslubolti í að túlka karlmenn á barmi taugaáfalls sem þeir fela bak við harðan skjöld og klikkar hvergi hér. Bikarinn fyrir flestar stolnar senur hirðir hinsvegar Ólafur, með hreint óborganlegar tímasetningar og innlifun í hlutverki Óla Gunnars. Ólíkindatólið Benni er skemmtilega vafasamur pappír, það er ekki hægt að sjá annað en barnsmóðir Dodda hafi þar veðjað aftur á rangan hest. Það hvernig þetta kemur smátt og smátt í ljós sýnir hvað handritshöfundarnir eru nálægt því að skapa langlífa íslenska gamanklassík, og ferðalag Benna verður allt saman mjög sannfærandi hjá Albert Halldórssyni. Óvænt innkoma Valdimars Guðmundssonar sem hann sjálfur inn í þennan ýkta skrípaheim virkar fyrirfram á mann eins og áhættuatriði, og er það kannski. En er virkilega vel heppnað þegar á hólminn er komið. Mestu skiptir samt hvað söngstjarnan er framúrskarandi skemmtilegur á sviði, lipur í samleik, hreyfingum og textameðferð. Að ógleymdum skotheldum söngnúmerunum og lúmskt fyndnum eftirhermuatriðunum. Þá er ónefndur Starkaður Pétursson sem fipast hvergi í sínum kómísku stoðsendingum sem leikjaþulurinn, en klisjuþrungin komment hans eru látin kallast á við það sem gengur í í stofunni hjá Benna. Viktoría Blöndal leikstýrir og tryggir fínan gang og vel útfærðar taktbreytingar. Athygli vekur að þó fá verk sem nú eru á fjölunum jafnist á við þetta í karllægni eru allir póstar utan sviðs mannaðir konum. Viktoría leikstýrir, Sólbjört Vera Ómarsdóttir hannar leikmynd og búninga, lýsing er í höndum Ástu Jónínu Arnardóttur og Juliette Louste, myndbönd gerir Ásta Jónína Arnardóttir, dramatúrg er Lóa Björk Björnsdóttir og sviðshreyfingum stýrir Erna Guðrún Fritzdóttir. Allt er þetta vel leyst. En sviðsljósið er á gaurunum. Útkoman er afbragðsskemmtileg, hæðin en hlý mynd af körlum sem mögulega eru að átta sig á því að lífið er það sem skellur á þér meðan þú ert önnum kafinn við að horfa á fótbolta. Bráðgóð skemmtun, jafnt fyrir þau okkar sem finna okkur á fótboltaaðdáendarófinu og örugglega hin, sem finnst þetta allt með eindæmum hávaðasamur og tímafrekur ys og þys út af engu.


Don Pasquale

Tenórar og tálbeitur


Ópera Donizettis, Don Pasquale var frumflutt í janúar 1843 við mikinn fögnuð. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, til dæmis margt skánað í samskiptum kynjanna. Stúlkum á Vesturlöndum er ekki lengur haldið fáfróðum í klausturskólum og svo látnar giftast gömlum ríkum köllum án þess að ráðahagurinn sé borinn undir þær fyrst. Kannski ætti að byrja að fara yfir söguþráðinn í helstu perlum gamanóperuhefðarinnar og snúa sér síðan að þeim stöðum í bókum Roald Dahl þar sem persónur eru sagðar feitar og ljótar.
Það stendur samt ekkert til. Reyndar virðist óperuheimurinn og unnendur hans hafa ótrúlegt umburðarlyndi fyrir almennu glóruleysi í boðskap, persónusköpun og skorti á rökvísi í framvindu. 
Þetta afhjúpast auðvitað afgerandi í nánd Þjóðleikhúskjallarans hjá þeim Ragnari Pétri Jóhannsyni (bassi, Don Pasquale), Ásláki Invarssyni (barítón Malatesta), Þórhalli Auði Helgasyni (tenór, Ernesto) og Sólveigu Sigurðardóttur (sópran, Norina) með píanistann Sigurði Helga sem virkan þátttakanda umfram að kitla fílabeinið. Og það er ekki bara hin rúmfræðilega nálægð sem um ræðir, heldur ekki síður sú að svipta tónlistina glansgalla hljómsveitarútsetningarinnar. Að ógleymdu máli málanna: að opinbera sjálft innihaldið með því að syngja á íslensku.
Skiptir þetta máli? Já, vissulega reynist sagan frekar ógeðfelld, tónlistin engin sérstök snilld svona nakin, og í hita leiksins taka söngvararnir ungu ekkert sérstakt tillit til aðstæðna og nálægðar þegar þau þenja sig fortissimo. En á móti kemur frábær færnin í flutningnum, lipur og hnyttin þýðing Sólveigar og áreynslulaust flæðandi sviðssetning Tómasar Helga Baldurssonar. Já og leikgleðin og sannfæring hjá þessum unga hópi sem kallar sig Sviðslistahópinn Óð. Það má hafa sig allan við að viðhalda efasemdum sínum um það það sé þess virði að viðra þetta verk, að halda lífi í þessu formi, þegar kraftur og útgeislun hópsins skellur á manni og maður stendur sig að því að hlæja að fúlustu bröndurum aftan úr grárri og grimmri forneskju. 
Það er alveg ljóst að eigi óperulistin – óperuarfurinn – að lifa áfram verður hún að þola þessa nálægð, þennan einfaldleika. Hún verður að þrífast í fátæka leikhúsinu. Ungu hæfileikabúntin í Sviðslistahópnum Óði trúa því og boða þá trú af öllum lífs- og sálarkröftum. Það er gaman, hvað sem öðru líður.



Chicago

Eftir John Kander, Fred Ebb og Bob Foss. Íslensk þýðing: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Marta Nordal. Tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Danshöfundur: Lee Proud. Leikmynd: Eva Signý Berger. Búningar: Björg Marta Gunnarsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðhönnun: Sigurvald Ívar Helgason. Leikgervi: Harpa Birgisdóttir. Hljómsveitarstjóri: Vignir Þór Stefánsson. Hljómsveit: Vignir Þór Stefánsson, Emil Þorri Emilsson, Helgi Þorbjörn Svavarsson, Kjartan Ólafsson, Sóley Björk Einarsdóttir, Jóhann Stefánsson/Vilhjálmur Ingi Sigurðarson, Una Hjartardóttir, Ármann Helgason/Helga Björg Arnardóttir, Michael Weaver og Marcin Lazarz. Leikarar: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Margrét Eir, Björgvin Franz Gíslason, Arnþór Þórsteinsson, Bjartmar Þórðarson, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Ahd Tamimi, Elma Rún Kristinsdóttir, Kata Vignisdóttir, Anita Rós Þorsteinsdóttir og Molly Carol Birna Mitchell. Leikfélag Akureyrar í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumsýndi í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 27. janúar 2023. Rýnir sá  6. sýningu.

Hvað sem er fyrir frægðina


Söngleikir í Samkomuhúsinu á Akureyri eiga sér langa og ljómandi sögu. Þó vera megi að það færi betur um stórsjóin í Hofi þá er ekki hægt annað en að virða þrautseigjuna og hugkvæmnina sem þarf til að koma þeim fyrir á sviðinu undir brekkunni, með öllum sínum óumdeilda sjarma. Það nýjasta er Chicago, reyndar ekki í fyrsta sinn sem sá klassíski söngleikur ratar á það svið. Undirritaður sá þar prýðilega sýningu Leikfélags Menntaskólans á Akureyri og Laufeyjar Brár Jónsdóttur fyrir sléttum tuttugu árum. En nú var komið að atvinnufólkinu og Mörtu Nordal.
Þó verkið eigi sér sannsögulegar rætur með viðkomu í venjulegu sönglausu leikriti hefur þeim John Kander, Fred Ebb og Bob Fosse tekist að eima burt næstum öll ummerki um raunveruleikann í þessum söngleikjalegasta allra söngleikja. Tónlistin er augljóslega algerlega dæmigerð fyrir greinina, engin gönuhlaup inn í neinn sérstakan kúltúr eða stíl, nema ef vera skyldi systurgrein söngleiksins, Vaudeville-hefðin. Tónlistin gerir allt sem hún á að gera, en vissulega eru hér varla neinir eyrnaormar sem hafa lifað á allra vörum. 
Í einu greinir Chicago sig þó frá þeim öllum: Hér er engin ást. Persónurnar eru næstum allar holar að innan, drifkraftarnir eru tveir: sjálfsbjargarviðleitni og frægðarþrá, sem fléttast endalaust saman í tilraunum Roxýjar við að sleppa lifandi og frjáls undan morðákæru með hjálp stjörnulögfræðings, og á kostnað nokkurnvegin allra sem hægt er að nota til þess arna. Og helst fræg og dáð í leiðinni. Það markmið er ekki nema sjónarmun minna mikilvægt.
Liggur höfundunum eitthvað annað á hjarta en að gera það sem þessir miklu „sjómenn“ voru svo góðir í, og slá enn og aftur í gegn? Það má vera. Það er beiskur og ágengur ádeilutónn í sögunni, sem er sterklega undirstrikaður af rofi fjórða veggjarins og öðrum endurómi úr leikhúsi Brechts. Chicagoborg bann- og jassáranna, eins og hún birtist í verkinu getur alveg virkað eins og einhverskonar kapítalísk Túskildingsópera, með harðri kenningu um manndýrið og lífsbaráttu þess, fláræði og fals. Aðallega langar Chicago þó að vera skemmtun. Eggjandi, hnyttin. Hæfilega gróf án þess að hneyksla nein sem eru líkleg til að kaupa sér miða. 
Þetta tekst alveg ágætlega hér. Þó lítið sé reynt að tengja verkið samtímanum, eins og var svo áberandi í eftirminnilegri uppfærslu Þórhildar Þorleifsdóttur í Borgarleikhúsinu 2004, þarf enga stórkostlega hugarleikfimi til að sjá speglun samtímans í þessum spillta og yfirborðsdrifna sýndarveruleika. Og óneitanlega er eitthvað skemmtilega nútímalegt við svona sterkar og úrræðagóðar kvenpersónur, sem eru svo sannarlega gerendurnir í sínu lífi, þó með myrkum formerkjum sé. Fjarlægðin sem períóðan gefur tryggir síðan að skemmtigildið er alltaf í forgrunni á kostnað boðskapsins. 
Það þarf sérstaka list til að skapa lifandi persónur úr þeim einföldu dráttum sem efniviðurinn skaffar. Einfalda týpusmíð sem fylgt er eftir af fyllstu sannfæringu með glampa í auga. Góðu heilli hefur parið sem mest mæðir á þetta vel á valdi sínu, þau Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og Björgvin Franz Gíslason sem glæpakvendið Roxý og stjörnulögfræðingurinn Billy. Listin að vera sönn þar sem allt er fals leikur í höndum þeirra og uppátækjagleði Björgvins nýtist vel til að halda boltum á lofti. Það sem Þórdísi vantar upp á klingjanda í söngröddinni til að skera fullkomlega í gegn um undirleikinn þegar mest gengur á bætir hún upp með sterkri nærveru og skýrt mótaðri týpu. 
Með nokkurri einföldun má segja að hið andstæða gildi um hitt stóra kvenhlutverkið, morðkvendið Velmu sem Roxý steypir af stóli sem vinsælasta stúlkan í kvennafangelsinu. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir glansar í söngnum sem hún skilar af kunnuglegri fullkomnun, en hefur ekki alveg á valdi sínu hina frjálslegu og kröftugu sviðnærveru sem sú hlið peningsins krefst, ekki á þessu frumstigi sínu sem leikari, hvað sem síðar verður. 
Hlutverk hins smáða eiginmanns Roxýjar er hreinræktað senuþjófshlutverk og Arnþór Þórsteinsson gerir sér sannfærandi mat úr því. Það sópar hæfilega að Margréti Eir í hlutverki fangelsismatrónunnar og Bjartmar Þórðarson er alltaf góður í kvengervi, líka sem Marta Smarta, fulltrúi hins smjattandi fjórða valds. 
Hópurinn allur dansar af hæfilega eggjandi fimi undir stjórn Lee Proud. Hægt er að ímynda sér sýningu sem færi nær því að vera bönnuð börnum, en það er smekksatriði hvort það væri góð hugmynd. Marta Nordal heldur vel utan um stílinn sem hún hefur valið sýningunni og leikræna nálgun, og períóðusjarminn skilar sér vel á öllum póstum. Í tónlistarstjórn Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar og spilamennsku bandsins, í búningum Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur og einfaldri en notadrjúgri leikmynd Evu Signýjar Berger sem lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar vinnur vel með.
Þó Chicago sé svona dæmigerður söngleikur þá hefur hann afgerandi svipmót. Mörg sérkenni hans vinna gegn honum. Grimm og alltumlykjandi kaldhæðnin. Alger skortur á mannlegri hlýju  til að tengja við og persónur með ást og hjarta til að halda með. Það er fyllsta sannfæring að baki uppfærslu Leikfélags Akureyrar að verkið muni engu að síður hafa tilætluð áhrif á áhorfendur, engar tilraunir eru gerðar til að líta á brestina sem bresti, hvað þá að berja í þá. Sem er virðingarvert og skilar að miklu leyti tilætluðum árangri. Þetta er töff sjó, hvorki meira né minna. Hvort það er nóg er fyrir hvert og eitt okkar að meta.


Góða ferð inn í gömul sár

Tímarnir tvennir


Góða ferð inn í gömul sár er heimilda- og upplifunarverk, afrakstur vinnu Evu Rúnar Snorradóttur sem leikskálds Borgarleikhússins, sem að auki er leikstjóri sýningarinnar. Forvitnilegt í forminu og víðfeðmt að innihaldi. Fyrri hlutinn er hlaðvarps- eða fléttuþáttur sem gestir hlusta í heyrnartólum heima hjá sér. Þar heyrum við í hópi viðmælenda sem upplifðu alnæmisfaraldur níunda og tíunda áratugs síðustu aldar á ýmsan hátt; sem aðstandendur, heilbrigðiststarfsfólk, baráttumenn og fræðingar. Þar koma einnig fram Ahd Tamimi
, Bjarni Snæbjörnsson, 
Bjartmar Þórðarson
, Jóhannes Davíð Purkhús
 og Sigurjón Jóhannsson

 í ýmsum hlutverkum og gefa hlustendum m.a. fyrirmæli um um atferli til að tengja þá enn sterkar við hið átakanlega efni. Framsetningin er áhrifarík og upprifjunin þörf, enda einstök saga sem tæpast hefur enn fengið verðuga greiningu eða viðurkenningu. 
Eftirleikurinn er merkilegur. Það virðist ekki umdeilt að samstaðan sem myndaðist í  samfélagi samkynhneigðra og vitundarvakningin sem faraldurinn þröngvaði upp á samfélagið hafi verið mikilvæg forsenda fyrir sýnileika, réttarbótum og útbreiddri viðurkenningu á veruleika hinsegin fólks. Sá raunveruleiki er vegsamaður í síðari hlutanum, sem fram fer á Nýja sviði Borgarleikhússins, undir styrkri stjórn dagdrottninganna D-Anal (Omel Svavarss), Lady Zadude (Vilhjálmur Ingi Vilhjálms), Gógó Starr (Sigurður Starr Guðjónsson) og Jenny Purr (Kristrún Hrafns). Þær leiða áhorfendur í salinn eftir að hafa frískað upp á útlit hópsins, sem mætir svartklæddur eftir fyrirmælum forleiksins. 
Þegar í salinn kemur upphefst blönduð dagskrá, nokkurskonar kabarett. Eða kannski frekar kvöldvaka, því áherslan er ekki nema hálfvegis á skemmtun heldur ekki síður á að snerta á ólíkum birtingarmyndum hinseginleikans. Mars Proppé reið á vaðið með því að segja frá leið sinni að eigin hinseginleika. Skaði Þórðardóttir bauð upp á ágengt tónlistaratriði en Jakub Stachowiak las smásögu úr evrópskum baðhúsaheimi fyrri ára. Embla Guðrún Ágústsdóttir veitti innsýn í veruleika samkynhneigðrar fatlaðrar konu, Starína (Ólafur Helgi Móberg) setur nettan grínsnúning á dragdrottningarhlutverkið og Gabríel Brim ögrar tveggja kynja módelinu á snjallan hátt. Lady Zadude slær botninn í samkomuna með einkennissöngnum alkunna: Ég er eins og ég er.
Sem kvöldskemmtun er þessi samkoma nokkuð frá því að vera frábær. Alvarlegu hlutarnir snerta vissulega við öllum, geri ég ráð fyrir, og með góðum vilja er hægt að finna í þeim enduróm af hinum myrku dögum útskúfunar og alnæmis. En hann er daufur. Samnefnarinn, brúin milli heimsins þar sem hommarnir „dóu einir“, eins og Einar Þór Jónsson, talsmaður HIV Ísland orðaði það í ávarpi áður en gengið var inn í nútímann á Nýja sviðinu, og hinna hugrökku fulltrúa eigin sjálfsmyndar sem birtast í kabarettinum, er of almennur, of langsóttur. 
Við erum komin langt, en þó langt í frá alla leið. En það vitum við vel, og þessi vel meinta en sérkennilega stefnulausa ferð bætir þar litlu við.

mánudagur, janúar 30, 2023

Marat/Sade

Eftir Peter Ulrich Weiss. Íslensk þýðing: Árni Björnsson. Leikstjórn: Rúnar Guðbrandsson. Leikmynd og búningar: Ingibjörg Jara Sigurðardóttir og Filippía Elísdóttir. Tónlist: Richard Peaslee. Tónlistarstjórn og hljóðmynd: Guðni Franzson. Lýsing: Arnar Ingvarsson. Sviðshreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir. Leikarar: Arnar Jónsson, Arnfinnur Daníelsson, Ásgeir Ingi Gunnarsson, Árni Pétur Guðjónsson, Eggert Þorleifsson, Guðmundur Ólafsson, Halldóra Harðardóttir, Hanna María Karlsdóttir, Harald G. Haralds, Helga Jónsdóttir, Jón Hjartarson, Jórunn Sigurðardóttir, Júlía Hannam, Kristbjörg Kjeld, Margrét Guðmundsdóttir, Reynir Jónasson, Reynir Sigurðsson, Sigurður Skúlason, Sigurður Karlsson, Viðar Eggertsson, Þórhallur Sigurðsson og Þórhildur Þorleifsdóttir. Sviðslistahópurinn Lab Loki frumsýndi í samstarfi við Borgarleikhúsið á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 20. janúar 2023. 

Rannsóknarskýrsla fyrsta lýðveldisins

Orðið „stofnanaleikhús“ fær alveg sérstaka merkingu í verki þýsk-sænska leikskáldsins Peter Weiss, „Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat, sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn de Sade markgreifa.“ Og eins og í hinni algengari notkun þess hefur eðli stofnunarinnar, markmið hennar, mannauður og tengsl við valdhafa, áhrif á það sem þar er sett á svið, og hvernig. 
Langi titillinn dugar ágætlega sem knappt efniságrip. Aðeins ítarlegar: sumarið 1808 styttir markgreifinn frægi sér stundir, þar sem hann dúsir bak við lás og slá, við að skrifa og sviðsetja söguleik um vel heppnað banatilræði Charlotte Corday við einn af leiðtogum frönsku byltingarinnar, Jean-Paul Marat, fimmtán árum áður, meðan hæst lét í fallöxinni. Fólkið sem deilir með honum hælinu fær síðan að leika afraksturinn undir vökulu auga hælisstjórans, sem vill virka framsýnn og frjálslyndur, meðan engin rugga bátnum undir honum.
Í verki Weiss er hælið sem sagt geðsjúkrahús, Vitaskuld í skilningi aldamótanna 1800 en ekki ameríska geðraskanakatalógsins sem mótar sýn okkar í dag. Geymslustaður fyrir fólk sem öðrum þykir ekki við hæfi að gangi laust, með réttu eða röngu. Kannski er svo enn í túlkun Rúnars Guðbrandssonar í Borgarleikhúsinu, en óneitanlega dregur grunnhugmynd uppfærslunnar fram aðrar hugsanir. 
Sú vogaða en bráðsnjalla hugmynd er að skipa í öll hlutverk úr elstu deild íslenskrar leikarastéttar. Er þetta kannski einhverskonar elliheimili? Þó sum hegði sér vissulega annkannalega, eftir því sem verkið og stemmingin krefst, fer áhorfandinn ósjálfrátt að hugsa um þennan fremur nöturlega stað sem hjúkrunarheimilli. Með öllum þeim heilbrigðispólitísku hugrenningatengslum sem þeim stofnunum fylgja hér og nú. Og um vistmennina sem virka þátttakendur, eða í það minnsta vitni, að blóðbaðinu fimmtán árum fyrr. Vel meðvitaða um það allt, þó nú hafi hallað undan fæti í boði Elli kellingar. Gamlingjarnir eru börnin sem byltingin beit en át ekki, tuggði en melti ekki til fulls. Fyrir vikið verður allt uppgjörið sem verk Weiss og/eða Sades enn merkingarríkara, beittara og mótsagnakenndara.
Því Marat/Sade gengur fyrir mótsögnum. Og fjallar um þær: togstreituna milli frelsisins – hugsjónar Sade – og félagslegs réttlætis, sem er baráttumálið sem Marat þykir öllu fórnandi fyrir. Undir handarjaðri yfirlætisfullrar værukærðar sigurvegaranna, sem vilja helst gleyma þessu öllu. „Hin svokallaða bylting“ er best strikuð út. Óneitanlega kunnugleg stemming fyrir okkur, fjórtán árum eftir búsáhöld. 
En Sade lætur ekki þagga niður í sér. Það er nú ein aðal-mótsögnin: hann er höfundur textans, þá væntanlega einnig orða Marats í kappræðum þeirra um hugsjónir sínar. Sjálfur erki-frjálshyggjumaðurinn. Og þar utan við stendur sósíalistinn Weiss og yrkir upp í þá báða. Útkoman er eiginlega skotheld uppskrift að því sem nútímaleikhúsið er alltaf að reyna, en hefur varla tekist merkjanlega betur en hér, svo ég muni: að taka samfélagsleg málefni til skoðunar á beinskeyttan, vitsmunalegan og listrænt fullnægjandi hátt, í frumlegu og frjálslegu formi.
Þetta hljómar kannski ekki eins og mikil skemmtun, en það er nú öðru nær. Það er nettur revíublær á bæði texta Weiss, viðbættum söngvum Richard Peaslee og snjöllum textum Adrian Mitchell. Allt í viðeigandi íslenskum búningi Árna Björnssonar með smá hjálp frá Braga Valdimar Skúlasyni. Gamli góði Gísl Brendans Behan kom upp í hugann. Sami blær svífur yfir vötnum í frjálslegri sviðssetningunni. Þá er ónefndur sá lúmski X-faktor að kalla til gömlu stjörnurnar, og reyndar góðan slatta af öðru leikhúsfólki sem kannski stendur ekki alveg undir stjörnustimplinum, en gaman er að sjá á ný engu að síður.
Þetta kostar alveg smá: Þetta er ekki snarpasta mögulega uppfærsla á Marat/Sade. Vel er hægt að ímynda sér stefnuvirkari aukaleikara, kröftugri glundroða, áhrifaríkari móðursýkisköst hópsins í hápunktum verksins. Ég sat á fjórða bekk og er til efs að allur texti, talaður og sunginn, hafi skilað sér aftur á þann tólfta. Hvíslarinn fékk orðið þrisvar eða fjórum sinnum á frumsýningunni. Hefði vel mátt vera með á sviðinu, sem er hvort sem er vettvangur allskyns framandgervingar frá hendi bæði höfundar og leikstjóra. 
En ávinningurinn er svo sannarlega ekki heldur nostalgían einber, eða tilfinningin fyrir tvö þúsund ára uppsöfnuðum sviðssjarma. Það finnast væntanlega hvergi réttari menn í hlutverk titilpersónanna en Arnar Jónsson og Sigurður Skúlason, sem báðir brillera. Og hver getur staðist áreynslulausa fullkomnun Eggerts Þorleifssonar í hlutverki kynóða kallsins með gullnefið (hitt væntanlega farið í boði sárasóttarinnar) sem Sade lætur túlka vonbiðil hinnar einóðu Corday, af langfrægum skepnuskap? Corday sem Margrét Guðmundsdóttir skilar af fallega innlifaðri nærveru og tilfinningaþunga í textaflutningnum þegar mikið liggur við. Og sjálfsánægða valdslepjuna sem lekur af hælisstjóranum hjá Viðari Eggertssyni hefði enginn framleitt betur, eða í það minnsta nákvæmlega svona. 
Svo nokkur fleiri séu nefnd sópar líka að Árna Pétri Guðjónssyni í hlutverki kostulegs kynnis, Hanna María Karlsdóttir er fremst meðal jafningja í kvartettinum sem ber uppi sönginn, og það var gaman að sjá, og ekki síður heyra í Þórhildi Þorleifsdóttur, sjaldséðri á sviði. Tveir öldungar úr tónlistarlífinu, nafnarnir Reynir Jónasson og Sigurðsson, spila undir og er prýði að þeim báðum.
Umgjörð Ingibjargar Jöru Sigurðardóttur og Filippíu Elísdóttur er hráslagaleg í anda fátæka leikhússins og búningar þeirra sömuleiðis með samtýningsbrag sem hæfir vel. Þetta er ekki bara fátækt heldur umfram allt óheflað leikhús, eins og einn af helstu boðberum og túlkendum verksins, Peter Brook, skrifar um.
Í gamalli skrítlu segir að Kínverjar telji enn of snemmt að meta áhrif frönsku byltingarinnar. Mér hefur skilist að brandarinn sé byggður á misskilningi, en er þetta samt ekki alveg rétt? Við þurfum enn að horfast í augu við þá þverstæðu raunveruleikans að til að mannlífið sé bærilegt þurfa bæði Sade og Marat að hafa rétt fyrir sér. Við þurfum jöfnuð og réttlæti, en líka frelsi. 
Þess vegna er þetta eitursnjalla, stórskrítna verk enn jafn-gagnlegt innlegg í umræðuna. Og það þarf enginn að óttast að þurfa að sitja undir einhverri einhliða predikun eða þurri tíundun staðreynda í sýningu Lab Loka og pönkuðu gamlingjanna í Borgarleikhúsinu. 

sunnudagur, janúar 22, 2023

Hvað sem þið viljið

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Karl Ágúst Úlfsson. Leikgerð: Ágústa Skúladóttir og Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist og tónlistarstjórn: Kristjana Stefánsdóttir. Hljóðhönnun: Brett Smith. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 12. janúar 2023.

Öll fara í sveitaferð

Tvennt er gott að hafa í huga varðandi þau leikrit Shakespeares sem eru flokkuð sem gleðileikir. Það má oftast engu muna að þau séu harmleikir, og þegar William er greinilega að reyna sem mest að vera fyndinn er hann það sjaldnast. 
As you like it, eða Hvað sem þið viljið, eins og það heitir í nýrri þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar, hefur alla burði til að verða hið drungalegasta drama vel fram í annan þátt. Illgjarn aðalsmaður leggur á ráðin um dauða bróður síns, og minnir okkur bæði á þorparann Játmund í Lé konungi og Kládíus kóng í Hamlet að plotta með Laertesi um dauða prinsins. Valdagráðugur bróðir hrekur réttkjörinn hertoga í útlegð, en er ekki öruggari með sess sinn en svo að ung dóttir þess síðarnefnda fylgir fljótt á eftir, með dóttur illmennisins í eftirdragi. Leikrit um annan ofsóknaróðan valdaræningja og landflótta ríkisarfa var frumsýnt í hinu stóra leikhúsi borgarinnar kvöldið eftir að Hvað sem þið viljið, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og sviðsaðlögun þeirra þýðandans, var frumsýnt í Kassa Þjóðleikhússins.
Fæstir gleðileikjanna eru miklar hláturbombur. Plottin eru oftast of þunglamaleg til að ná farsaflugi. Frá höfundarins hendi eru fleiri vel lukkaðir brandarar í Hamlet en As you like it. Og fíflið í Lé konungi er betri í sínu starfi en vesalings Prófsteinn, sem segir einn voðalegan pabbabrandara snemma verks, en er að öðru leyti – sem betur fer – aðallega hjálparhella stúlknanna og vonbiðill í sveitinni.
Skoplegur vonbiðill. Og það er einmitt málið: það sem virðist ekki endilega ætlað til að vekja hlátur gerir það engu að síður í krafti þess að vera léttleikandi en trúverðug mynd af fólki í aðstæðum sem það ræður ekki alveg við. Og hvað kemur fólki eins kröftuglega úr jafnvægi án þess að vera lífshættulegt og ástarbríminn? Sem er einmitt meginefni verksins sem hér er til umfjöllunar. As you like it er doktorsritgerð Shakespeares í ástarmálum. Fjögur tilbrigði við stefið: Rósalind og Orlandó, Silvíus og Fífa, Adda og Prófsteinn (með hinn lánlausa Vilhjálm á kantinum) og svo að lokum Selja og Ólíver. Og eigum við kannski að tala um ást öldungsins Adams til skjólstæðings síns líka, og ekki síst? Ástin getur birst í svo óteljandi myndum, eins og annað skáld sagði löngu síðar.
Þennan kjarna fangar uppfærsla Ágústu eins vel og sanngjarnt er að fara fram á. Mögulega fer einhver alvarlegur og hátimbraður kjarni, sem sum vilja leita að í verkinu, forgörðum í galskapnum. Vera má að hóp- og samvinnunálgunin sem liggur sýningunni til grundvallar vinni gegn því að ná í skottið á dramanu og grimmdinni sem er í verkinu, í aukahlutverki þó. En þegar gleðisprengja springur er ekkert spurt um það. Allt sem ætlunin virðist að ná fram gengur eftir. 
Leikgerðin einbeitir sér að ástarmálunum, þó frægir hápunktar sem snúa að öðrum hlutum fljóti með. Við myndum ekki kæra okkur um As you like it án frægustu ræðu verksins, sem kortleggur æfiveginn með hjálp hlutverkana sem (karl)menn leika frá vöggu til grafar og hefst á þeim frægu orðunum „Veröldin er leiksvið“. Það rými sem verður til við styttingar og samþjöppun er meðal annars nýtt til söngs. Lagasmíðar Kristjönu Stefánsdóttur og Hallgríms Ólafssonar eru indælar mjög, og svo verður að teljast leiftursnjöll (og kannski augljós) hugmynd að kalla til Bítlana, þau ensku ástarskáld sem komast næst Shakespeare í alþjóðlegu orðspori. Nokkur laganna eru sungin í sýningunni við nýja og viðeigandi texta og önnur hljóma í hléi. Je Je Je!
Söngtextar Karls Ágústs eru hver öðrum betri í smekklegri smellni. Eins er um leiktextann. Karl tekur sér sjálfdæmi um hvenær hann þýðir bundið mál Shakespeares í stakhenduform eða lausamál, en jafnvel í prósanum leynist stuðlasetning og rím hér og hvar, sem flinkir leikarar smjatta á. Leikdómur um frumsýningu er ekki vettvangur fyrir mikið grúsk um einstakar lausnir, hvað þá samanburð við frumtextann og/eða Helga Hálfdanarson. Engar líkur tel ég á að þessi útlegging leysi þýðingu Helga af hólmi sem íslenski „staðaltextinn“. En vel hljómar hún, bundin og óbundin og þjónar markmiðum túlkunarinnar fullkomlega. Auðskilin, hæfilega smekkleg, oft fyndin í sjálfri sér, krydduð krassandi nútímaorðum þegar góð færi gefast.
Leikhópurinn er vel skipaður fyrir einmitt svona sýningu. Léttleikandi kómískir og músíkalskir leikarar sem njóta þess að afhjúpa sig og mynda beint samband við salinn, en eru jafnframt í traustu sambandi við tilfinningarófið sem knýr vélina. Þannig verður til dæmis hinn óhamingjusamlega ástsjúki Silvíus hjá Hilmari Guðjónssyni gráthlægilegur og brjóstumkennanlegur, en ekki bara skopleg fígúra í samleiknum við Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur sem er kostuleg Fífa og frábær í hlutverki meinhornsins Jakobs. Og það gerir ekkert til þó Prófsteinn sé ekkert fyndinn frá höfundarins hendi þegar við fáum sannfærandi mynd af frekar venjulegum manni finna ástina á óvæntum stað eins og Hallgrímur Ólafsson gerir hér, enda Adda hennar Kristjönu Stefánsdóttur ómótstæðileg krúttbomba. Sigurður Sigurjónsson hefur brillerað sem karlæg gamalmenni frá unga aldri og allt sem sést hér til hins aldna Adams er sprenghlægilegt og satt.
Á pappírunum geta sinnaskipti vonda bróðurins og skyndilegt ástarskot hans og Selju undir lokin virkað eins og klunnalegur frágangur lausra enda, en Þórey Birgisdóttir er búin að teikna svo skýrt hvað stúlkan er orðin leið á skógarlífinu í skugga lagskonunnar og Guðjón Davíð Karlsson kemur með sinn pínu óvænta dramatíska þunga í bland við galskapinn og allt gengur upp.
Bitastæðust og miðlægust eru síðan hlutverk Rósalindar og Orlandós, sem verða ástfangin snemma verks, en missa sjónar hvort af öðru á flótta undan ofsóknum vondu kallanna. Þegar þau finnast á ný er Rósalind komin í karlgervi og notar tækifærið til að reyna á þolrifin í ástarhug drengsins. Það er stjörnubragur á framgöngu Katrínar Halldóru Sigurðardóttur hér og karlgervið kostulegt. Almar Blær Sigurjónsson gelgjulegur mjög, sem rímar alveg við þroskamuninn á parinu frá höfundarins hendi. Kannski hefði verið gaman að sjá Orlandó aðeins vandræðalegri í hlutverkaleiknum, þegar hann er að játa bóndadurgnum sem Rósalind þykist vera ást sína, en það er líka einmitt mjög fyndið svona. 
Útlitið er síðan ljómandi fallegt hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Rómantískt og hæfilega flippað þegar við á. Fallega lýst af Jóhanni Bjarna Pálmasyni.
Það er bernsk og leikglöð stemming yfir þessari sýningu, eitt af höfundareinkennum leikstjórans, sem rímar vel við græskuleysið í verkinu og yfirgnæfir dekkri undirtónana á sannfærandi og fullnægjandi hátt. Það þarf meiri fýlupúka en mig til að kvarta yfir svoleiðis.








laugardagur, janúar 21, 2023

Ég lifi enn – sönn saga

Eftir Rebekku A. Ingimundardóttur, Þóreyju Sigþórsdóttur, Ásdísi Skúladóttur og leikhópinn. Leikstjórn: Rebekka A. Ingimundardóttir og Ásdís Skúladóttir. Listræn stjórnun og leikmynd: Rebekka A. Ingimundardóttir. Dramatúrg: Hlín Agnarsdóttir. Dans- og hreyfihönnun og lýsing: Juliette Louste. Búningar: Hulda Dröfn Atladóttir. Tón- og hljóðsmíðar: Steindór Grétar Kristinsson. Lagasmíðar og kórstjórn: Gísli Magna Sigríðarson. Myndbandshönnun: Stefanía Thors. Leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Ásdís Skúladóttir, Halldóra Rósa Björnsdóttir, Helga E. Jónsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Jón Hjartarson, Sæmi Rokk Pálsson, Þórey Sigþórsdóttir og Breiðfirðingakórinn. Sviðslistahópurinn Blik Productions frumsýndi í Tjarnarbíói laugardaginn 7. janúar 2023.

Undarlegt ferðalag

Sennilega halda fá því fram að allt sé eins og best verði á kosið í lífskjörum aldraðra hér í þeirri álmu Hótel Jarðar sem heitir Ísland. Allsstaðar virðist skóinn kreppa, hvort sem það snýr að félagslegum möguleikum, fjárhagslegri velferð, húsnæði við hæfi eða viðeigandi umönnun. Umræðan um málefni aldraðra er stöðug og endurtekningarsöm, nánast kyrrstæð. Við vitum öll að flestra okkar bíður að finna á eigin skinni vanmátt kerfisins til að uppfylla þörfina fyrir áhyggjulaust æfikvöld, hvað þá gera sitt til að mæta óskum um innihaldsríkt líf á síðasta aldursskeiðinu. Engu að síður mistekst okkur kynslóð eftir kynslóð að búa í haginn. 
Drifkrafturinn að baki samsköpunarsýningarinnar Ég lifi enn – sönn saga er þessi vandræðalega staðreynd. Hún er byggð á reynslu þátttakenda og höfunda, auk vinnu með eldri borgurum í vinnusmiðjum og viðtölum. Þær Halldóra Rósa Björnsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir og Þórey Sigþórsdóttir bera sýninguna uppi, í spítalalituðum einkennisbúningum og ýmist í hlutverki fulltrúa kerfisins eða aðstandenda aldraðs og veiks fólks í glímu við þetta sama kerfi. 
Þaulagaður samleikur þríeykisins er mikið augnayndi, einfalt og vélrænt hreyfimunstrið einkar glæsilega útfært. Juliette Louste hreyfihönnuður sýningarinnar hefur unnið frábært starf með leikstjórunum Ásdísi Skúladóttur og Rebekki A. Ingimundardóttur við að móta þetta gangverk. Það sama á við um umgjarðarhönnuðina Rebekku A. Ingimundardóttur (Leikmynd), Huldu Dröfn Atladóttur (Búningar), Steindór Grétar Kristinsson og Gísla Magna Sigríðarson (tónlist og hljóðmynd), Juliette Louste (lýsing) og Stefaníu Thors (myndband). Allt vel gert.
Auk leikkvennanna þriggja eiga stuttar innkomur fulltrúar eldri kynslóðarinnar, þau Anna Kristín Arngrímsdóttir, Jón Hjartarson, Sæmi rokk og Helga Elínborg Jónsdóttir. Flytja eintöl, ávörp og brot úr ellitengdum textum. Að ógleymdum Árna Pétri Guðjónssyni sem birtist hvað eftir annað og segir frá lífi eldri borgara „í fullu fjöri“. Þá er ótalinn Breiðfirðingakórinn sem myndar talkór og hreyfihóp og ljær erindi sýningarinnar þunga með fjölmennri svartklæddri nærveru sinni. Það kitlar að sjálfsögðu þáþrána í hverjum leiklistarunnanda að sjá og heyra stjörnur gærdagsins. Eintölin voru tilfinningaþrungin og Árni Pétur launfyndinn og sér nánast einn um þá hlið mála þessa kvöldstund. 
Í lokin stígur síðan Ásdís Skúladóttir á stokk og orðar erindi sýningarinnar í snaggaralegri ræðu. Kallar eftir breytingum í aðstæðum og viðhorfum. Segir nei við ríkjandi ástandi. Við getum öll, og viljum flest, taka undir það.
Styður það sem á undan fer þessa brýningu Ásdísar? Ekki mjög vel, verður að segjast. Til þess hefur efniviðurinn verið eimaður of rækilega. Aðferð sýningarinnar byggir á óvenju róttækri og gegnumhugsaðri stílfærslu, sem frá fagurfræðilegum sjónarhóli tekst stórvel og hnökralítið,  þó það sjáist nokkrum sinnum að kórinn er ekki jafn sviðsvanur og fagfólkið. 
En aðferðin kostar. Hún felur hið mannlega, hið sértæka, sem hlýtur að hafa komið upp í rannsóknarvinnunni og býr örugglega í reynslu höfundanna sem þau sækja í. Þetta persónulega sem leikhús er best í að miðla.  Hvernig nákvæmlega ýtir samfélagið öldruðum til hliðar í hverju persónulegu tilfelli? Hvernig virkar ofurálagið á heilbrigðis- og ummönnunarkerfið á fólk af holdi og blóði, með eigin persónuleika, sögu, væntingar og einstakar aðstæður? Hverju geta úrbætur breytt, og hvað eru óhjákvæmilegir fylgifiskar ellinnar, eins og lífsins alls?  
Sýningin þreifar á þessum spurningum, en hún gerir það með hönskum líkum þeim sem þrenningin sem ber hana uppi skartar. Það vantar mannlega snertingu til að við séum tilbúin að taka undir eldræðu Ásdísar og ganga til verka, þó við vitum að þess sé þörf. Og höfum reyndar vitað það áður en við fengum okkur sæti í Tjarnarbíói.
Það fer ekki á milli mála að aðstandendum Ég lifi enn – sönn saga liggur mikið á hjarta. Það er heldur enginn vafi að fagurfræði sýningarinnar og listræn aðferð er gjörhugsuð og byggð á meðvituðum ákvörðunum. Hún mun kannski ekki breyta heiminum til hins betra á þann hátt sem stefnt var að, en er hinsvegar forvitnilegt dæmi um tilraun með óvenjulega aðferð til að gera leikhúsið að vettvangi og hvata til umræðu um brýnt þjóðfélagsmálefni. Sem eðli málsins samkvæmt má eiginlega engan tíma missa.





föstudagur, janúar 06, 2023

Ellen B.

Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Benedict Andrews. Leikmynd og búningar: Nina Wetzel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hjóðhönnun: Gísli Galdur Þorgeirsson og Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Benedikt Erlingsson, Ebba Katrín Finnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins mánudaginn 26. desember 2022.

Prófsvindl í skóla lífsins

„það gerist ekkert slæmt“ segir enskukennarinn Astrid við Klöru, sambýliskonu sína og fyrrum nemanda, þegar von er á skólastjóranum Úlfi í óvænt spjall og vínglas heima hjá þeim. Ellen B. eftir þýska leikskáldið Marius von Meyenburg sækir áhrif sín að mestu leyti í „hina spenntu bið eftir endinum“ sem Sigurði Pálssyni varð svo tíðrætt um í leikritunarfyrirlestrum sínum, svo áhorfandanum er umsvifalaust ljóst að þarna reynist Astrid ekki sannspá. 
Í hönd fer lúmsk og stundum nakin og grimm barátta um yfirráð, framgang og sjálfan sannleikann. Glíma um þá mynd sem við þurfum að gefa af okkur til að fá að lifa í friði og snýr bæði að umheiminum, okkar nánustu og jafnvel okkur sjálfum. Mynd sem endurspeglar raunveruleikann stundum hættulega illa, stundum hættulega vel. Veitist ýmsum betur þá tvo tíma sem sýningin tekur og heimsókn skólastjórans spannaði á frumsýningu.
Glöggir lesendur munu átta sig á að síðasta efnisgrein lýsir bærilega eldsneytinu í næstum öllu drama. Ekki bara tilvistarharmleikjum á borð við Ödipús konung heldur líka svefnherbergisförsum Ray Cooney og fjöldaframleiddum Netflix-tryllum. Kannski einna síst í formtilraunaverkum tuttugustu aldarinnar og póstdramatískum uppátækjum þeirrar tuttugustu og fyrstu. Sigurði heitnum þótti hin spennta bið heldur ódýr brella, en ekkert bendir til þess að leiklistarunnendur fái nokkru sinni nóg af henni.
Ellen B. er semsagt nokkuð hefðbundið spennuleikrit, drifið áfram af afhjúpunum og vendingum í valdatafli fárra persóna í rauntíma. Fólk sem sá Kæru Jelenu eftir Ljúdmílu Rasúmovskæju mun kannast við sig í stofunni hjá  þessari kennslukonu þó hún fái sennilega betur borgað og hafi nútímalegri innanhússhönnuð á sínum snærum. 
Efnistök höfundar eru að þessu sinni strang-raunsæisleg. Ólík t.d. Stertabendu og Bæng! sem eru hin verkin sem ég hef séð úr smiðju Meyenburg í íslensku leikhúsi. Að þessu sinni sé ég hann fyrir mér grúfa sig yfir verk Davids Mamet og glósa. Bjarni Jónsson réttur maður til að miðla textanum á íslensku. Díalógurinn geislar af krafti og uppbyggingin er snjöll. Litlum sprengjum með löngum kveikiþráðum plantað snemma og áhorfandinn er næstum búinn að gleyma þeim þegar allt fer í háaloft. Þetta er verk þar sem umsögn getur ekki leyft sér að rekja efnisþráð svo nokkru nemi, og verður það látið ógert hér eins og hægt er.
Ég er ekki sannfærður um að þessi byrjunarreitur boðaðs þríleiks sé verulega bitastætt eða umhugsunarvert innlegg í málefni samtímans. Ekki umfram það sem allar vel sagðar sögur geta verið upphafsreitur vangaveltna um hversvegna allt fór eins og það fór og hvernig það hefði getað farið öðruvísi. Og að sjálfsögðu hvort við hin séum endilega eitthvað skárri. Í viðtölum og öðru kynningarefni verksins hefur verið lögð rík áhersla á mikilvægt og tímabært erindi Ellenar B., sem ég held að sé misráðin og jafnvel villandi. Þetta er fyrst og fremst æsandi kvöldstund þar sem nútímaleikhús gerir það sem það hefur gert best frá því Ibsen var á dögum: Loka breyskt fólk inni í kassa og sjá það berjast fyrir lífi sínu.
Þetta tekst að mestu framúrskarandi vel. Umgjörðin til dæmis: ofursmört og naumhyggjuleg leikmynd Ninu Wetzel, lýst eins og sýningargluggi eða skurðstofa af Birni Bergsteini Guðmundssyni með áhrifaríkri hjartsláttarhljóðmynd Gísla Galdurs Þorgeirssonar til að magna spennuna eftir þörfum. Búningar Ninu fyrir Astrid og Klöru ríma við annað útlit, smartir og einfaldir, svo elegant að rauðu rendurnar á íþróttasokkum Klöru fanga strax athyglina. Á þessu heimili slappar aldrei neinn af. Úlfur er öllu hversdagslegri. Gervi hans er einkennisbúningur einmana og hæfilega hirðulauss skólamanns, sem sækir myndugleik sinn í hefðina fyrir að einmitt svona kallar skilgreini heiminn og stýri honum. Þurfa ekki að vera elegant, það er hlustað þegar þeir tala og ef það er af þeim vond lykt þá er það vandamál annars fólks.
Þessi skarpi munur getur þvælst fyrir áhrifamættinum. Það er svolítið eins og hér mætist ekki bara tvö valdakerfi, tveir reynsluheimar innan verksins heldur tvenns konar leikhúsfagurfræði sem ögrar raunsæisstemmingunni sem annars ríkir. Manni finnst eins og í sköpun Úlfs hafi Meyenburg og ekki síður Benedikt Erlingsson rifjað upp alla skrítnu kennarana með óþægilegu nærveruna og leyft sér að nálgast skopstælingu með blöndu af nostslgíu og skítaglotti. Þetta er vitaskuld ómótstæðilegt og nákvæmlega það sem færir heim sanninn um hvað leikarans Benedikts hefur verið saknað og hvað hann gerir best.
Persónusköpun kvennanna hefur ekki þessar raunsæisrætur, og fyrir vikið verða þær Astrid og Klara þokukenndari, jafnvel eins og þær séu úr annarri leikhúshefð eins og minnst var á hér að framan. Það kemur verr út fyrir Astrid, sem þarf að vera þungamiðjan í dauðadansinum. Það er erfitt að finna fyrir hinum ástríðufulla kennara sem er gagntekinn af nemendum sínum, og ummerkin um hann sem textinn vísar til sjást hvorki í leikmynd, búningum né í fasi Unnar Aspar Stefánsdóttur í hlutverkinu. Á móti skilar hún skýrt útsmognu ólíkindatólinu og það hvað Astrid verður mikil ráðgáta í túlkun Unnar þjónar heildaráhrifum sýningarinnar ágætlega. 
Klara er augljóst þriðja hjól í þessu tafli, og líkt og með Astrid gefur búningur og lögn lítið upp um hvernig lífii hennar er háttað í heiminum utan heimilisins, eða ef því er að skipta í heimilislífinu með sambýliskonunni. Ebba Katrín Finnsdóttir heldur engu að síður áfram að festa sig í sessi sem fremst meðal jafnaldra sinna í leikaraliðinu. Heldur vel í við kanónurnar og reynsluboltana sem deila sviðinu með henni og langt eintal Klöru um vaknandi kynhneigðarmeðvitund og samdrátt þeirra Astridar er glæsilegur virtúósahápuntur sýningarinnar.
Frá því ég sá fyrst til verka Benedicts Andrews hefur mér þótt hann afburðamaður í listinni að sviðsetja. Að láta stöður og hreyfingar leikaranna í rýminu þjóna spennu og frásögn. Það reynir öðruvísi á það hér í þessu kammerverki en í epískum stórvirkjum Shakespeares, og á sinn þátt í að magna andrúmsloftið. Ég hef vissar efasemdir um tíða notkun leikstjórans á áhorfendasalnum sem hluta leikrýmisins, sem getur verið áhrifaríkt uppbrot en tókst ekki að sannfæra mig um notagildið hér.
Ellen B. er kraftmikil, spennandi sýning. Verk skrifað af kunnáttu og öryggi, túlkað af sannfæringu um erindi þess, flutt af fimi og innlifun. Vekur hlátur, andköf og umhugsun. Verðskuldar hið besta gengi meðal fólks sem ann leikhúsinu að gera það sem það gerir best.

föstudagur, nóvember 18, 2022

Hamingjudagar



 Eftir Samuel Beckett. Íslensk þýðing: Árni Ibsen. Þýðing yfirfarin: Hafliði Arngrímsson. Leikstjórn: Harpa Arnardóttir. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Tónlist og hljóðmynd: Ísidór Jökull Bjarnason. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Myndbandshönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson, Ísidór Jökull Bjarnason og Brynja Björnsdóttir. Hár og gervi: Harpa Birgisdóttir. Leikarar: Edda Björg Eyjólfsdóttir og Árni Pétur Guðjónsson. Leikfélag Akureyrar frumsýndi í Svarta kassanum í Menningarhúsinu Hofi 2. september 2022, rýnir sá uppfærsluna þegar hún var tekin til sýninga á Nýja sviði Borgarleikhússins laugardaginn 5. nóvember 2022.

Ævi og ástir haugbúa

Íslenska orðið „leikskáld“ er eins og það hafi verið hannað með Samuel Beckett í huga. „Leikritahöfundur“ nær engan veginn yfir það sem gerðist þegar hann settist niður og hugsaði upp þessi makalausu verk. Framlag hans er langt í frá bundið við sköpun persóna og texta, sem þó væri nógu mikið afrek einn og sér; ljóðrænn, harmrænn, heimspekilegur og aulafyndinn eins og hann einatt er. Ekkert annað af helstu leikskáldum heims á í safni sínu verk án orða, og fá gefa eins nákvæm fyrirmæli um sviðsbúnað, hreyfingar og leiktæknileg atriði. Allt er þetta hluti þess listaverks sem Beckett sendir frá sér.
Svo sterk er sýn hans að einstaka myndir öðlast sjálfstætt líf, skapa merkingu í huga áhorfandans/lesandans, eða jafnvel þeirra sem bara heyra af þeim. Biðin endalausa eftir Godot. Gamla fólkið í öskutunnunum í Endatafli . Krapp og segulböndin hans. Og síðast en ekki síst hin káta og þrautseiga Winnie í Hamingjudögum , grafin upp að mitti og síðar enn dýpra. Þessu stórkostlega sviðsljóði um fráleita lífsbaráttuna, kraftinn sem rekur okkur áfram án sýnilegs tilgangs í skeytingarlausum og óskiljanlegum heimi.
Það er gaman að sjá hvernig Edda Björg Eyjólfsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson og leikstjórinn Harpa Arnardóttir mæta þessu heildstæða verki, þar sem hver hreyfing og hver þögn er fyrirskipuð af höfundi. Í fyrri hlutanum verður ekki betur séð en fyrirmælunum sé hlýtt út í ystu æsar. Í þeim síðari er skipt rækilega um gír og engu líkara en fyrirmæli Becketts úr Ekki ég , annarri og enn róttækari einræðu konu, séu heimfærð upp á síðustu ræðu Vinníar. Textinn verður að flaumi, öll afstaðan örvæntingarfyllri og myrkari, og bjallan sem vekur Vinní hvern morgun hringir aftur og aftur, líkt og tíminn standi í stað. Strangt tekið er ekki gert ráð fyrir listrænum ákvörðunum leikstjóra á borð við þessa í leikhúsi Becketts, en þetta er feikiáhrifaríkt hér.
Sem gildir um sýninguna alla. Stærsta heiðurinn af því á vitaskuld Edda Björg Eyjólfsdóttir sem Vinní. Það er virtúósabragur á textaflutningnum og þeim Hörpu hefur tekist að gæða fyrirskrifaðar athafnir Vinníar eðlilegu lífi. Tilfinningaleg innistæða, tímasetning og hrynjandi, allt óbrigðult. Það síðastnefnda gerir flauminn í síðari hlutanum að ógleymanlegum tuttugu mínútum. Þýðing Árna Ibsen hljómaði sönn og ljóðræn í frábærum flutningnum.
Eiginmanni Vinníar bregður nokkrum sinnum fyrir, stundum aðeins röddinni. Árni Pétur skilar þessu vel, er kostulegur þegar þess þarf og harmrænn ef það á við. Tvísæi sem einkennir mjög verk Becketts fyrir svið og bók, en ekki síst Hamingjudaga .
Hægt er að skoða leikmyndina sem tvö aðskilin verk: hauginn þar sem hjónin búa og bakgrunninn, sem hér er myndbandsverk. Brynja Björnsdóttir er höfundur leikmyndar en myndbandið samvinnuverkefni hennar, Ólafs Ágústs Stefánssonar lýsingarhönnuðar og Ísidórs Jökuls Bjarnasonar sem semur tónlistina.
Haugurinn er vel útfærður. Ekki beint raunsæislegur, en gefur þó tilfinningu fyrir að þetta sé jarðvegur. Enn sjást einhverjar gróðurtægjur. Efnið spilaði listavel á móti smartri stemmingslýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar, sem hefur látið fyrirmæli Becketts um skerandi birtu lönd og leið.
Myndbandsbakgrunnurinn fannst mér ekki eins góð hugmynd. Það truflaði að kornakurinn sem þar er sýndur er í kolröngum hlutföllum við leikarana. Þó ágætt sé að þau Brynja og samverkamenn hennar hafi ekki fallið í þann pytt að staðsetja Vinní og Villa í einhverjum náttúruvana „eftirhrunsheimi“ (e. Post-Apocalyptic), eins og svo oft er gert, þá skapaði þessi ofvaxni en þó natúralíski hveitiakur óraunveruleikatilfinningu sem þjónar ekki verkinu. Beckett talar um sviplausa sléttu svo langt sem augað eygir. Ekkert sem truflar eða blandar sér í túlkun verksins. Ég held að það sé best, nóg er nú samt um að hugsa varðandi hlutskipti og lífsviðhorf Vinníar. Og þó tónlist Ísidórs Jökuls sé verulega eftirtektarverð, dramatísk og stemmingsrík, þá þótti mér hún líka of plássfrek, setja of sterkt mark á stemninguna.
Þegar þessum atriðum er ýtt til hliðar í huganum stendur eftir frábærlega unnin leiksýning, borin uppi af framúrskarandi vinnu leikaranna í einlægu samtali við einhverja mögnuðustu rödd leikbókmenntanna.



fimmtudagur, nóvember 03, 2022

Madame Tourette

****

„Sýnilegasti öryrki íslenskra sviðslista“ er Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir kölluð í upphafi uppistandssýningar sinnar, Madame Tourette, sem frumsýnd var í Tjarnarbíói síðastliðið sunnudagskvöld við mikinn fögnuð viðstaddra. 
Sýningin var líka stórskemmtilega römmuð inn með vísun í inngildingarumræðuna sem fór í gang í kjölfar frumsýningar söngleiksins Sem á himni í Þjóðleikhúsinu. Sennilega nýjasta viðbótin við efni uppistandsins, sem Ágústa Skúladóttir hefur sviðsett og Þórunn María Jónsdóttir gefið bakgrunn með þrennskonar stólum og valið litrík og glæsileg föt fyrir stjörnuna. 
Því Elva Dögg ber sig eins og stjarna á sviðinu og áhorfendur myndu éta úr lófa hennar, ef það væri ekki óráðlegt að vera mikið að borða, svo títt, stjórnlaust og stundum óvænt sem hlátursköstin bresta á.
Umfjöllunarefnið er, eins og hjá svo mörgum uppistöndurum, hún sjálf. Uppvöxturinn, ástarlífið, barnauppeldið og almennt séð staða standarans í heiminum. Þar er óhætt að segja að Elva Dögg hafi frá ýmsu að segja, en hún er með Tourette-heilkennið, sem einkennist af hreyfi- og hljóðakækjum, auk þess sem áráttu- og þráhyggjuröskun fylgir oft í kaupunum, og svo er í tilfelli Elvu. 
Þetta er auðvitað jarðvegur fyrir ríkulega uppskeru af efni til að skopast með, fyrir þá sem glíma við ástandið – aðrir eiga vitaskuld að láta það kjurt. En veldur hver á heldur, og Elva fer stórkostlega með sögurnar sínar og reynslu. Hún hlífir sér hvergi, og heldur ekki viðhorfunum sem hún hefur mætt og mætir enn. Stundum sláandi bersögul, stundum ótrúlega kaldhæðin. Ekki alltaf prenthæf. Alltaf morðfyndin.
Efnið er gjöfult, en það er færnin sem vekur hláturinn, og bakþankana sem fylgja áhorfendanum, því það er meining bak við galskapinn. Elva hefur framúrskarandi vald á tímasetningum, samspilið við salinn er frábært, textinn snjall og óvæntar vendingar fjölmargar. 
Á einhvern undraverðan hátt tekst henni allt í senn: að fara í kringum kækina sína, nýta þá til að magna upp það sem hún er að segja, tala um þá þannig að jafnvel átakanleg atvik og erfiðleikar vekja hlátur. Stundum skömmustulegan, jafnvel hálfkæfðan, sérstaklega framan af, en fljótlega eru halda áhorfendum engin bönd. Góður brandari, vel fluttur, er nefnilega ekki síður ósjálfráð og stjórnlaus viðbrögð en hvað það er sem fær Elvu Dögg Gunnarsdóttur til að gretta sig, sparka útundan sér og snúa sér í hringi
Madame Tourette er sýning engu lík, sem öll ættu að sjá.