mánudagur, janúar 30, 2023

Marat/Sade

Eftir Peter Ulrich Weiss. Íslensk þýðing: Árni Björnsson. Leikstjórn: Rúnar Guðbrandsson. Leikmynd og búningar: Ingibjörg Jara Sigurðardóttir og Filippía Elísdóttir. Tónlist: Richard Peaslee. Tónlistarstjórn og hljóðmynd: Guðni Franzson. Lýsing: Arnar Ingvarsson. Sviðshreyfingar: Valgerður Rúnarsdóttir. Leikarar: Arnar Jónsson, Arnfinnur Daníelsson, Ásgeir Ingi Gunnarsson, Árni Pétur Guðjónsson, Eggert Þorleifsson, Guðmundur Ólafsson, Halldóra Harðardóttir, Hanna María Karlsdóttir, Harald G. Haralds, Helga Jónsdóttir, Jón Hjartarson, Jórunn Sigurðardóttir, Júlía Hannam, Kristbjörg Kjeld, Margrét Guðmundsdóttir, Reynir Jónasson, Reynir Sigurðsson, Sigurður Skúlason, Sigurður Karlsson, Viðar Eggertsson, Þórhallur Sigurðsson og Þórhildur Þorleifsdóttir. Sviðslistahópurinn Lab Loki frumsýndi í samstarfi við Borgarleikhúsið á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 20. janúar 2023. 

Rannsóknarskýrsla fyrsta lýðveldisins

Orðið „stofnanaleikhús“ fær alveg sérstaka merkingu í verki þýsk-sænska leikskáldsins Peter Weiss, „Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat, sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn de Sade markgreifa.“ Og eins og í hinni algengari notkun þess hefur eðli stofnunarinnar, markmið hennar, mannauður og tengsl við valdhafa, áhrif á það sem þar er sett á svið, og hvernig. 
Langi titillinn dugar ágætlega sem knappt efniságrip. Aðeins ítarlegar: sumarið 1808 styttir markgreifinn frægi sér stundir, þar sem hann dúsir bak við lás og slá, við að skrifa og sviðsetja söguleik um vel heppnað banatilræði Charlotte Corday við einn af leiðtogum frönsku byltingarinnar, Jean-Paul Marat, fimmtán árum áður, meðan hæst lét í fallöxinni. Fólkið sem deilir með honum hælinu fær síðan að leika afraksturinn undir vökulu auga hælisstjórans, sem vill virka framsýnn og frjálslyndur, meðan engin rugga bátnum undir honum.
Í verki Weiss er hælið sem sagt geðsjúkrahús, Vitaskuld í skilningi aldamótanna 1800 en ekki ameríska geðraskanakatalógsins sem mótar sýn okkar í dag. Geymslustaður fyrir fólk sem öðrum þykir ekki við hæfi að gangi laust, með réttu eða röngu. Kannski er svo enn í túlkun Rúnars Guðbrandssonar í Borgarleikhúsinu, en óneitanlega dregur grunnhugmynd uppfærslunnar fram aðrar hugsanir. 
Sú vogaða en bráðsnjalla hugmynd er að skipa í öll hlutverk úr elstu deild íslenskrar leikarastéttar. Er þetta kannski einhverskonar elliheimili? Þó sum hegði sér vissulega annkannalega, eftir því sem verkið og stemmingin krefst, fer áhorfandinn ósjálfrátt að hugsa um þennan fremur nöturlega stað sem hjúkrunarheimilli. Með öllum þeim heilbrigðispólitísku hugrenningatengslum sem þeim stofnunum fylgja hér og nú. Og um vistmennina sem virka þátttakendur, eða í það minnsta vitni, að blóðbaðinu fimmtán árum fyrr. Vel meðvitaða um það allt, þó nú hafi hallað undan fæti í boði Elli kellingar. Gamlingjarnir eru börnin sem byltingin beit en át ekki, tuggði en melti ekki til fulls. Fyrir vikið verður allt uppgjörið sem verk Weiss og/eða Sades enn merkingarríkara, beittara og mótsagnakenndara.
Því Marat/Sade gengur fyrir mótsögnum. Og fjallar um þær: togstreituna milli frelsisins – hugsjónar Sade – og félagslegs réttlætis, sem er baráttumálið sem Marat þykir öllu fórnandi fyrir. Undir handarjaðri yfirlætisfullrar værukærðar sigurvegaranna, sem vilja helst gleyma þessu öllu. „Hin svokallaða bylting“ er best strikuð út. Óneitanlega kunnugleg stemming fyrir okkur, fjórtán árum eftir búsáhöld. 
En Sade lætur ekki þagga niður í sér. Það er nú ein aðal-mótsögnin: hann er höfundur textans, þá væntanlega einnig orða Marats í kappræðum þeirra um hugsjónir sínar. Sjálfur erki-frjálshyggjumaðurinn. Og þar utan við stendur sósíalistinn Weiss og yrkir upp í þá báða. Útkoman er eiginlega skotheld uppskrift að því sem nútímaleikhúsið er alltaf að reyna, en hefur varla tekist merkjanlega betur en hér, svo ég muni: að taka samfélagsleg málefni til skoðunar á beinskeyttan, vitsmunalegan og listrænt fullnægjandi hátt, í frumlegu og frjálslegu formi.
Þetta hljómar kannski ekki eins og mikil skemmtun, en það er nú öðru nær. Það er nettur revíublær á bæði texta Weiss, viðbættum söngvum Richard Peaslee og snjöllum textum Adrian Mitchell. Allt í viðeigandi íslenskum búningi Árna Björnssonar með smá hjálp frá Braga Valdimar Skúlasyni. Gamli góði Gísl Brendans Behan kom upp í hugann. Sami blær svífur yfir vötnum í frjálslegri sviðssetningunni. Þá er ónefndur sá lúmski X-faktor að kalla til gömlu stjörnurnar, og reyndar góðan slatta af öðru leikhúsfólki sem kannski stendur ekki alveg undir stjörnustimplinum, en gaman er að sjá á ný engu að síður.
Þetta kostar alveg smá: Þetta er ekki snarpasta mögulega uppfærsla á Marat/Sade. Vel er hægt að ímynda sér stefnuvirkari aukaleikara, kröftugri glundroða, áhrifaríkari móðursýkisköst hópsins í hápunktum verksins. Ég sat á fjórða bekk og er til efs að allur texti, talaður og sunginn, hafi skilað sér aftur á þann tólfta. Hvíslarinn fékk orðið þrisvar eða fjórum sinnum á frumsýningunni. Hefði vel mátt vera með á sviðinu, sem er hvort sem er vettvangur allskyns framandgervingar frá hendi bæði höfundar og leikstjóra. 
En ávinningurinn er svo sannarlega ekki heldur nostalgían einber, eða tilfinningin fyrir tvö þúsund ára uppsöfnuðum sviðssjarma. Það finnast væntanlega hvergi réttari menn í hlutverk titilpersónanna en Arnar Jónsson og Sigurður Skúlason, sem báðir brillera. Og hver getur staðist áreynslulausa fullkomnun Eggerts Þorleifssonar í hlutverki kynóða kallsins með gullnefið (hitt væntanlega farið í boði sárasóttarinnar) sem Sade lætur túlka vonbiðil hinnar einóðu Corday, af langfrægum skepnuskap? Corday sem Margrét Guðmundsdóttir skilar af fallega innlifaðri nærveru og tilfinningaþunga í textaflutningnum þegar mikið liggur við. Og sjálfsánægða valdslepjuna sem lekur af hælisstjóranum hjá Viðari Eggertssyni hefði enginn framleitt betur, eða í það minnsta nákvæmlega svona. 
Svo nokkur fleiri séu nefnd sópar líka að Árna Pétri Guðjónssyni í hlutverki kostulegs kynnis, Hanna María Karlsdóttir er fremst meðal jafningja í kvartettinum sem ber uppi sönginn, og það var gaman að sjá, og ekki síður heyra í Þórhildi Þorleifsdóttur, sjaldséðri á sviði. Tveir öldungar úr tónlistarlífinu, nafnarnir Reynir Jónasson og Sigurðsson, spila undir og er prýði að þeim báðum.
Umgjörð Ingibjargar Jöru Sigurðardóttur og Filippíu Elísdóttur er hráslagaleg í anda fátæka leikhússins og búningar þeirra sömuleiðis með samtýningsbrag sem hæfir vel. Þetta er ekki bara fátækt heldur umfram allt óheflað leikhús, eins og einn af helstu boðberum og túlkendum verksins, Peter Brook, skrifar um.
Í gamalli skrítlu segir að Kínverjar telji enn of snemmt að meta áhrif frönsku byltingarinnar. Mér hefur skilist að brandarinn sé byggður á misskilningi, en er þetta samt ekki alveg rétt? Við þurfum enn að horfast í augu við þá þverstæðu raunveruleikans að til að mannlífið sé bærilegt þurfa bæði Sade og Marat að hafa rétt fyrir sér. Við þurfum jöfnuð og réttlæti, en líka frelsi. 
Þess vegna er þetta eitursnjalla, stórskrítna verk enn jafn-gagnlegt innlegg í umræðuna. Og það þarf enginn að óttast að þurfa að sitja undir einhverri einhliða predikun eða þurri tíundun staðreynda í sýningu Lab Loka og pönkuðu gamlingjanna í Borgarleikhúsinu. 

sunnudagur, janúar 22, 2023

Hvað sem þið viljið

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Karl Ágúst Úlfsson. Leikgerð: Ágústa Skúladóttir og Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist og tónlistarstjórn: Kristjana Stefánsdóttir. Hljóðhönnun: Brett Smith. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 12. janúar 2023.

Öll fara í sveitaferð

Tvennt er gott að hafa í huga varðandi þau leikrit Shakespeares sem eru flokkuð sem gleðileikir. Það má oftast engu muna að þau séu harmleikir, og þegar William er greinilega að reyna sem mest að vera fyndinn er hann það sjaldnast. 
As you like it, eða Hvað sem þið viljið, eins og það heitir í nýrri þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar, hefur alla burði til að verða hið drungalegasta drama vel fram í annan þátt. Illgjarn aðalsmaður leggur á ráðin um dauða bróður síns, og minnir okkur bæði á þorparann Játmund í Lé konungi og Kládíus kóng í Hamlet að plotta með Laertesi um dauða prinsins. Valdagráðugur bróðir hrekur réttkjörinn hertoga í útlegð, en er ekki öruggari með sess sinn en svo að ung dóttir þess síðarnefnda fylgir fljótt á eftir, með dóttur illmennisins í eftirdragi. Leikrit um annan ofsóknaróðan valdaræningja og landflótta ríkisarfa var frumsýnt í hinu stóra leikhúsi borgarinnar kvöldið eftir að Hvað sem þið viljið, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og sviðsaðlögun þeirra þýðandans, var frumsýnt í Kassa Þjóðleikhússins.
Fæstir gleðileikjanna eru miklar hláturbombur. Plottin eru oftast of þunglamaleg til að ná farsaflugi. Frá höfundarins hendi eru fleiri vel lukkaðir brandarar í Hamlet en As you like it. Og fíflið í Lé konungi er betri í sínu starfi en vesalings Prófsteinn, sem segir einn voðalegan pabbabrandara snemma verks, en er að öðru leyti – sem betur fer – aðallega hjálparhella stúlknanna og vonbiðill í sveitinni.
Skoplegur vonbiðill. Og það er einmitt málið: það sem virðist ekki endilega ætlað til að vekja hlátur gerir það engu að síður í krafti þess að vera léttleikandi en trúverðug mynd af fólki í aðstæðum sem það ræður ekki alveg við. Og hvað kemur fólki eins kröftuglega úr jafnvægi án þess að vera lífshættulegt og ástarbríminn? Sem er einmitt meginefni verksins sem hér er til umfjöllunar. As you like it er doktorsritgerð Shakespeares í ástarmálum. Fjögur tilbrigði við stefið: Rósalind og Orlandó, Silvíus og Fífa, Adda og Prófsteinn (með hinn lánlausa Vilhjálm á kantinum) og svo að lokum Selja og Ólíver. Og eigum við kannski að tala um ást öldungsins Adams til skjólstæðings síns líka, og ekki síst? Ástin getur birst í svo óteljandi myndum, eins og annað skáld sagði löngu síðar.
Þennan kjarna fangar uppfærsla Ágústu eins vel og sanngjarnt er að fara fram á. Mögulega fer einhver alvarlegur og hátimbraður kjarni, sem sum vilja leita að í verkinu, forgörðum í galskapnum. Vera má að hóp- og samvinnunálgunin sem liggur sýningunni til grundvallar vinni gegn því að ná í skottið á dramanu og grimmdinni sem er í verkinu, í aukahlutverki þó. En þegar gleðisprengja springur er ekkert spurt um það. Allt sem ætlunin virðist að ná fram gengur eftir. 
Leikgerðin einbeitir sér að ástarmálunum, þó frægir hápunktar sem snúa að öðrum hlutum fljóti með. Við myndum ekki kæra okkur um As you like it án frægustu ræðu verksins, sem kortleggur æfiveginn með hjálp hlutverkana sem (karl)menn leika frá vöggu til grafar og hefst á þeim frægu orðunum „Veröldin er leiksvið“. Það rými sem verður til við styttingar og samþjöppun er meðal annars nýtt til söngs. Lagasmíðar Kristjönu Stefánsdóttur og Hallgríms Ólafssonar eru indælar mjög, og svo verður að teljast leiftursnjöll (og kannski augljós) hugmynd að kalla til Bítlana, þau ensku ástarskáld sem komast næst Shakespeare í alþjóðlegu orðspori. Nokkur laganna eru sungin í sýningunni við nýja og viðeigandi texta og önnur hljóma í hléi. Je Je Je!
Söngtextar Karls Ágústs eru hver öðrum betri í smekklegri smellni. Eins er um leiktextann. Karl tekur sér sjálfdæmi um hvenær hann þýðir bundið mál Shakespeares í stakhenduform eða lausamál, en jafnvel í prósanum leynist stuðlasetning og rím hér og hvar, sem flinkir leikarar smjatta á. Leikdómur um frumsýningu er ekki vettvangur fyrir mikið grúsk um einstakar lausnir, hvað þá samanburð við frumtextann og/eða Helga Hálfdanarson. Engar líkur tel ég á að þessi útlegging leysi þýðingu Helga af hólmi sem íslenski „staðaltextinn“. En vel hljómar hún, bundin og óbundin og þjónar markmiðum túlkunarinnar fullkomlega. Auðskilin, hæfilega smekkleg, oft fyndin í sjálfri sér, krydduð krassandi nútímaorðum þegar góð færi gefast.
Leikhópurinn er vel skipaður fyrir einmitt svona sýningu. Léttleikandi kómískir og músíkalskir leikarar sem njóta þess að afhjúpa sig og mynda beint samband við salinn, en eru jafnframt í traustu sambandi við tilfinningarófið sem knýr vélina. Þannig verður til dæmis hinn óhamingjusamlega ástsjúki Silvíus hjá Hilmari Guðjónssyni gráthlægilegur og brjóstumkennanlegur, en ekki bara skopleg fígúra í samleiknum við Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur sem er kostuleg Fífa og frábær í hlutverki meinhornsins Jakobs. Og það gerir ekkert til þó Prófsteinn sé ekkert fyndinn frá höfundarins hendi þegar við fáum sannfærandi mynd af frekar venjulegum manni finna ástina á óvæntum stað eins og Hallgrímur Ólafsson gerir hér, enda Adda hennar Kristjönu Stefánsdóttur ómótstæðileg krúttbomba. Sigurður Sigurjónsson hefur brillerað sem karlæg gamalmenni frá unga aldri og allt sem sést hér til hins aldna Adams er sprenghlægilegt og satt.
Á pappírunum geta sinnaskipti vonda bróðurins og skyndilegt ástarskot hans og Selju undir lokin virkað eins og klunnalegur frágangur lausra enda, en Þórey Birgisdóttir er búin að teikna svo skýrt hvað stúlkan er orðin leið á skógarlífinu í skugga lagskonunnar og Guðjón Davíð Karlsson kemur með sinn pínu óvænta dramatíska þunga í bland við galskapinn og allt gengur upp.
Bitastæðust og miðlægust eru síðan hlutverk Rósalindar og Orlandós, sem verða ástfangin snemma verks, en missa sjónar hvort af öðru á flótta undan ofsóknum vondu kallanna. Þegar þau finnast á ný er Rósalind komin í karlgervi og notar tækifærið til að reyna á þolrifin í ástarhug drengsins. Það er stjörnubragur á framgöngu Katrínar Halldóru Sigurðardóttur hér og karlgervið kostulegt. Almar Blær Sigurjónsson gelgjulegur mjög, sem rímar alveg við þroskamuninn á parinu frá höfundarins hendi. Kannski hefði verið gaman að sjá Orlandó aðeins vandræðalegri í hlutverkaleiknum, þegar hann er að játa bóndadurgnum sem Rósalind þykist vera ást sína, en það er líka einmitt mjög fyndið svona. 
Útlitið er síðan ljómandi fallegt hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Rómantískt og hæfilega flippað þegar við á. Fallega lýst af Jóhanni Bjarna Pálmasyni.
Það er bernsk og leikglöð stemming yfir þessari sýningu, eitt af höfundareinkennum leikstjórans, sem rímar vel við græskuleysið í verkinu og yfirgnæfir dekkri undirtónana á sannfærandi og fullnægjandi hátt. Það þarf meiri fýlupúka en mig til að kvarta yfir svoleiðis.
laugardagur, janúar 21, 2023

Ég lifi enn – sönn saga

Eftir Rebekku A. Ingimundardóttur, Þóreyju Sigþórsdóttur, Ásdísi Skúladóttur og leikhópinn. Leikstjórn: Rebekka A. Ingimundardóttir og Ásdís Skúladóttir. Listræn stjórnun og leikmynd: Rebekka A. Ingimundardóttir. Dramatúrg: Hlín Agnarsdóttir. Dans- og hreyfihönnun og lýsing: Juliette Louste. Búningar: Hulda Dröfn Atladóttir. Tón- og hljóðsmíðar: Steindór Grétar Kristinsson. Lagasmíðar og kórstjórn: Gísli Magna Sigríðarson. Myndbandshönnun: Stefanía Thors. Leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Ásdís Skúladóttir, Halldóra Rósa Björnsdóttir, Helga E. Jónsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Jón Hjartarson, Sæmi Rokk Pálsson, Þórey Sigþórsdóttir og Breiðfirðingakórinn. Sviðslistahópurinn Blik Productions frumsýndi í Tjarnarbíói laugardaginn 7. janúar 2023.

Undarlegt ferðalag

Sennilega halda fá því fram að allt sé eins og best verði á kosið í lífskjörum aldraðra hér í þeirri álmu Hótel Jarðar sem heitir Ísland. Allsstaðar virðist skóinn kreppa, hvort sem það snýr að félagslegum möguleikum, fjárhagslegri velferð, húsnæði við hæfi eða viðeigandi umönnun. Umræðan um málefni aldraðra er stöðug og endurtekningarsöm, nánast kyrrstæð. Við vitum öll að flestra okkar bíður að finna á eigin skinni vanmátt kerfisins til að uppfylla þörfina fyrir áhyggjulaust æfikvöld, hvað þá gera sitt til að mæta óskum um innihaldsríkt líf á síðasta aldursskeiðinu. Engu að síður mistekst okkur kynslóð eftir kynslóð að búa í haginn. 
Drifkrafturinn að baki samsköpunarsýningarinnar Ég lifi enn – sönn saga er þessi vandræðalega staðreynd. Hún er byggð á reynslu þátttakenda og höfunda, auk vinnu með eldri borgurum í vinnusmiðjum og viðtölum. Þær Halldóra Rósa Björnsdóttir, Ingibjörg Gréta Gísladóttir og Þórey Sigþórsdóttir bera sýninguna uppi, í spítalalituðum einkennisbúningum og ýmist í hlutverki fulltrúa kerfisins eða aðstandenda aldraðs og veiks fólks í glímu við þetta sama kerfi. 
Þaulagaður samleikur þríeykisins er mikið augnayndi, einfalt og vélrænt hreyfimunstrið einkar glæsilega útfært. Juliette Louste hreyfihönnuður sýningarinnar hefur unnið frábært starf með leikstjórunum Ásdísi Skúladóttur og Rebekki A. Ingimundardóttur við að móta þetta gangverk. Það sama á við um umgjarðarhönnuðina Rebekku A. Ingimundardóttur (Leikmynd), Huldu Dröfn Atladóttur (Búningar), Steindór Grétar Kristinsson og Gísla Magna Sigríðarson (tónlist og hljóðmynd), Juliette Louste (lýsing) og Stefaníu Thors (myndband). Allt vel gert.
Auk leikkvennanna þriggja eiga stuttar innkomur fulltrúar eldri kynslóðarinnar, þau Anna Kristín Arngrímsdóttir, Jón Hjartarson, Sæmi rokk og Helga Elínborg Jónsdóttir. Flytja eintöl, ávörp og brot úr ellitengdum textum. Að ógleymdum Árna Pétri Guðjónssyni sem birtist hvað eftir annað og segir frá lífi eldri borgara „í fullu fjöri“. Þá er ótalinn Breiðfirðingakórinn sem myndar talkór og hreyfihóp og ljær erindi sýningarinnar þunga með fjölmennri svartklæddri nærveru sinni. Það kitlar að sjálfsögðu þáþrána í hverjum leiklistarunnanda að sjá og heyra stjörnur gærdagsins. Eintölin voru tilfinningaþrungin og Árni Pétur launfyndinn og sér nánast einn um þá hlið mála þessa kvöldstund. 
Í lokin stígur síðan Ásdís Skúladóttir á stokk og orðar erindi sýningarinnar í snaggaralegri ræðu. Kallar eftir breytingum í aðstæðum og viðhorfum. Segir nei við ríkjandi ástandi. Við getum öll, og viljum flest, taka undir það.
Styður það sem á undan fer þessa brýningu Ásdísar? Ekki mjög vel, verður að segjast. Til þess hefur efniviðurinn verið eimaður of rækilega. Aðferð sýningarinnar byggir á óvenju róttækri og gegnumhugsaðri stílfærslu, sem frá fagurfræðilegum sjónarhóli tekst stórvel og hnökralítið,  þó það sjáist nokkrum sinnum að kórinn er ekki jafn sviðsvanur og fagfólkið. 
En aðferðin kostar. Hún felur hið mannlega, hið sértæka, sem hlýtur að hafa komið upp í rannsóknarvinnunni og býr örugglega í reynslu höfundanna sem þau sækja í. Þetta persónulega sem leikhús er best í að miðla.  Hvernig nákvæmlega ýtir samfélagið öldruðum til hliðar í hverju persónulegu tilfelli? Hvernig virkar ofurálagið á heilbrigðis- og ummönnunarkerfið á fólk af holdi og blóði, með eigin persónuleika, sögu, væntingar og einstakar aðstæður? Hverju geta úrbætur breytt, og hvað eru óhjákvæmilegir fylgifiskar ellinnar, eins og lífsins alls?  
Sýningin þreifar á þessum spurningum, en hún gerir það með hönskum líkum þeim sem þrenningin sem ber hana uppi skartar. Það vantar mannlega snertingu til að við séum tilbúin að taka undir eldræðu Ásdísar og ganga til verka, þó við vitum að þess sé þörf. Og höfum reyndar vitað það áður en við fengum okkur sæti í Tjarnarbíói.
Það fer ekki á milli mála að aðstandendum Ég lifi enn – sönn saga liggur mikið á hjarta. Það er heldur enginn vafi að fagurfræði sýningarinnar og listræn aðferð er gjörhugsuð og byggð á meðvituðum ákvörðunum. Hún mun kannski ekki breyta heiminum til hins betra á þann hátt sem stefnt var að, en er hinsvegar forvitnilegt dæmi um tilraun með óvenjulega aðferð til að gera leikhúsið að vettvangi og hvata til umræðu um brýnt þjóðfélagsmálefni. Sem eðli málsins samkvæmt má eiginlega engan tíma missa.

föstudagur, janúar 06, 2023

Ellen B.

Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Benedict Andrews. Leikmynd og búningar: Nina Wetzel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hjóðhönnun: Gísli Galdur Þorgeirsson og Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Benedikt Erlingsson, Ebba Katrín Finnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins mánudaginn 26. desember 2022.

Prófsvindl í skóla lífsins

„það gerist ekkert slæmt“ segir enskukennarinn Astrid við Klöru, sambýliskonu sína og fyrrum nemanda, þegar von er á skólastjóranum Úlfi í óvænt spjall og vínglas heima hjá þeim. Ellen B. eftir þýska leikskáldið Marius von Meyenburg sækir áhrif sín að mestu leyti í „hina spenntu bið eftir endinum“ sem Sigurði Pálssyni varð svo tíðrætt um í leikritunarfyrirlestrum sínum, svo áhorfandanum er umsvifalaust ljóst að þarna reynist Astrid ekki sannspá. 
Í hönd fer lúmsk og stundum nakin og grimm barátta um yfirráð, framgang og sjálfan sannleikann. Glíma um þá mynd sem við þurfum að gefa af okkur til að fá að lifa í friði og snýr bæði að umheiminum, okkar nánustu og jafnvel okkur sjálfum. Mynd sem endurspeglar raunveruleikann stundum hættulega illa, stundum hættulega vel. Veitist ýmsum betur þá tvo tíma sem sýningin tekur og heimsókn skólastjórans spannaði á frumsýningu.
Glöggir lesendur munu átta sig á að síðasta efnisgrein lýsir bærilega eldsneytinu í næstum öllu drama. Ekki bara tilvistarharmleikjum á borð við Ödipús konung heldur líka svefnherbergisförsum Ray Cooney og fjöldaframleiddum Netflix-tryllum. Kannski einna síst í formtilraunaverkum tuttugustu aldarinnar og póstdramatískum uppátækjum þeirrar tuttugustu og fyrstu. Sigurði heitnum þótti hin spennta bið heldur ódýr brella, en ekkert bendir til þess að leiklistarunnendur fái nokkru sinni nóg af henni.
Ellen B. er semsagt nokkuð hefðbundið spennuleikrit, drifið áfram af afhjúpunum og vendingum í valdatafli fárra persóna í rauntíma. Fólk sem sá Kæru Jelenu eftir Ljúdmílu Rasúmovskæju mun kannast við sig í stofunni hjá  þessari kennslukonu þó hún fái sennilega betur borgað og hafi nútímalegri innanhússhönnuð á sínum snærum. 
Efnistök höfundar eru að þessu sinni strang-raunsæisleg. Ólík t.d. Stertabendu og Bæng! sem eru hin verkin sem ég hef séð úr smiðju Meyenburg í íslensku leikhúsi. Að þessu sinni sé ég hann fyrir mér grúfa sig yfir verk Davids Mamet og glósa. Bjarni Jónsson réttur maður til að miðla textanum á íslensku. Díalógurinn geislar af krafti og uppbyggingin er snjöll. Litlum sprengjum með löngum kveikiþráðum plantað snemma og áhorfandinn er næstum búinn að gleyma þeim þegar allt fer í háaloft. Þetta er verk þar sem umsögn getur ekki leyft sér að rekja efnisþráð svo nokkru nemi, og verður það látið ógert hér eins og hægt er.
Ég er ekki sannfærður um að þessi byrjunarreitur boðaðs þríleiks sé verulega bitastætt eða umhugsunarvert innlegg í málefni samtímans. Ekki umfram það sem allar vel sagðar sögur geta verið upphafsreitur vangaveltna um hversvegna allt fór eins og það fór og hvernig það hefði getað farið öðruvísi. Og að sjálfsögðu hvort við hin séum endilega eitthvað skárri. Í viðtölum og öðru kynningarefni verksins hefur verið lögð rík áhersla á mikilvægt og tímabært erindi Ellenar B., sem ég held að sé misráðin og jafnvel villandi. Þetta er fyrst og fremst æsandi kvöldstund þar sem nútímaleikhús gerir það sem það hefur gert best frá því Ibsen var á dögum: Loka breyskt fólk inni í kassa og sjá það berjast fyrir lífi sínu.
Þetta tekst að mestu framúrskarandi vel. Umgjörðin til dæmis: ofursmört og naumhyggjuleg leikmynd Ninu Wetzel, lýst eins og sýningargluggi eða skurðstofa af Birni Bergsteini Guðmundssyni með áhrifaríkri hjartsláttarhljóðmynd Gísla Galdurs Þorgeirssonar til að magna spennuna eftir þörfum. Búningar Ninu fyrir Astrid og Klöru ríma við annað útlit, smartir og einfaldir, svo elegant að rauðu rendurnar á íþróttasokkum Klöru fanga strax athyglina. Á þessu heimili slappar aldrei neinn af. Úlfur er öllu hversdagslegri. Gervi hans er einkennisbúningur einmana og hæfilega hirðulauss skólamanns, sem sækir myndugleik sinn í hefðina fyrir að einmitt svona kallar skilgreini heiminn og stýri honum. Þurfa ekki að vera elegant, það er hlustað þegar þeir tala og ef það er af þeim vond lykt þá er það vandamál annars fólks.
Þessi skarpi munur getur þvælst fyrir áhrifamættinum. Það er svolítið eins og hér mætist ekki bara tvö valdakerfi, tveir reynsluheimar innan verksins heldur tvenns konar leikhúsfagurfræði sem ögrar raunsæisstemmingunni sem annars ríkir. Manni finnst eins og í sköpun Úlfs hafi Meyenburg og ekki síður Benedikt Erlingsson rifjað upp alla skrítnu kennarana með óþægilegu nærveruna og leyft sér að nálgast skopstælingu með blöndu af nostslgíu og skítaglotti. Þetta er vitaskuld ómótstæðilegt og nákvæmlega það sem færir heim sanninn um hvað leikarans Benedikts hefur verið saknað og hvað hann gerir best.
Persónusköpun kvennanna hefur ekki þessar raunsæisrætur, og fyrir vikið verða þær Astrid og Klara þokukenndari, jafnvel eins og þær séu úr annarri leikhúshefð eins og minnst var á hér að framan. Það kemur verr út fyrir Astrid, sem þarf að vera þungamiðjan í dauðadansinum. Það er erfitt að finna fyrir hinum ástríðufulla kennara sem er gagntekinn af nemendum sínum, og ummerkin um hann sem textinn vísar til sjást hvorki í leikmynd, búningum né í fasi Unnar Aspar Stefánsdóttur í hlutverkinu. Á móti skilar hún skýrt útsmognu ólíkindatólinu og það hvað Astrid verður mikil ráðgáta í túlkun Unnar þjónar heildaráhrifum sýningarinnar ágætlega. 
Klara er augljóst þriðja hjól í þessu tafli, og líkt og með Astrid gefur búningur og lögn lítið upp um hvernig lífii hennar er háttað í heiminum utan heimilisins, eða ef því er að skipta í heimilislífinu með sambýliskonunni. Ebba Katrín Finnsdóttir heldur engu að síður áfram að festa sig í sessi sem fremst meðal jafnaldra sinna í leikaraliðinu. Heldur vel í við kanónurnar og reynsluboltana sem deila sviðinu með henni og langt eintal Klöru um vaknandi kynhneigðarmeðvitund og samdrátt þeirra Astridar er glæsilegur virtúósahápuntur sýningarinnar.
Frá því ég sá fyrst til verka Benedicts Andrews hefur mér þótt hann afburðamaður í listinni að sviðsetja. Að láta stöður og hreyfingar leikaranna í rýminu þjóna spennu og frásögn. Það reynir öðruvísi á það hér í þessu kammerverki en í epískum stórvirkjum Shakespeares, og á sinn þátt í að magna andrúmsloftið. Ég hef vissar efasemdir um tíða notkun leikstjórans á áhorfendasalnum sem hluta leikrýmisins, sem getur verið áhrifaríkt uppbrot en tókst ekki að sannfæra mig um notagildið hér.
Ellen B. er kraftmikil, spennandi sýning. Verk skrifað af kunnáttu og öryggi, túlkað af sannfæringu um erindi þess, flutt af fimi og innlifun. Vekur hlátur, andköf og umhugsun. Verðskuldar hið besta gengi meðal fólks sem ann leikhúsinu að gera það sem það gerir best.