fimmtudagur, september 22, 2022

Á eigin vegum

Eftir Kristínu Steinsdóttur. Leikgerð: Maríanna Clara Lúthersdóttir og Salka Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Leikmynd og myndbönd: Egill Sæbjörnsson. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Tónlist: Sóley Stefánsdóttir. Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson og Sóley Stefánsdóttir. Leikgervi: Guðbjörn Ívarsdóttir. Leikari: Sigrún Edda Björnsdóttir. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins laugardaginn 17. sepember 2022, rýnir sá 3. sýningu á sama stað fimmtudaginn 22. september 2022.

Dáið er allt án drauma

Gömul kona dregur vagn með dagblöðum um hverfið sitt snemma morguns. Kannski sjáum við þessari sömu konu bregða fyrir í jarðarför síðdegis. Betur til hafðri, og við veltum fyrir okkur hvernig hún þekkti hinn látna og rámar í að hafa séð hana áður.
Saga Sigþrúðar Kristbjargar Ólafsdóttur er, eins og kannski allar ævisögur, bæði einstök og dæmigerð. Hún gefur okkur innsýn í samfélag fyrri tíðar: óblíð lífskjör, fátækt og harðneskju sem mætir einstæðingum af lágum stigum, ekki síst þeim sem glíma við líkamlega fötlun, en Sigþrúður fæðist með samgróna fingur á annarri hendi. En saga hennar  er líka sérstök, persónuleg. Hvernig ástin kviknaði en hvarf, ávöxtur hennar fæddist andvana og hvernig Sigþrúður gerir það sem gera þarf til að byggja upp líf, og endurbyggja það síðan ein þegar lífsförunauturinn kveður. Og síðast en ekki síst: Hvernig draumurinn um hið fyrirheitna Frakkland vex innra með henni af fræinu sem er hugmyndin um að einn forfaðirinn sé af frönskum uppruna. Draumurinn sem heldur í henni lífinu, eða gerir það alla vega fyrirhafnarinnar virði.
Saga Kristínar Steinsdóttur er látlausari og lágstemmdari en margar þær bækur sem hafa fangað athygli leikhússlistafólks. Fyrir vikið er forvitnilegt að sjá hvað úr verður, en vitanlega er leiksviðinu ekkert mannlegt óviðkomandi og allt getur vaxið þar og blómstrað og fangað huga og ímyndunarafl áhorfandans.
Að sumu leyti heppnast það ágætlega. Sérstaklega þegar líður á sýninguna og aðferð hennar er hætt að fanga athyglina umfram efnið. Þá birtir líka yfir persónunni og hún tekur til sinna ráða við að leysa gátur lífshlaupsins. Og jafnvel að láta draumana rætast. Það er engu líkara en upprifjunin á sárri reynslu fortíðarinnar leysi hana úr læðingi. Tóntegund léttleikans skilar sér betur en dramatísk átök í aðferð og leikmáta sýningarinnar. Handrit Maríönnu Clöru Lútersdóttur og Sölku Guðmundsdóttur er fagmannlega unnið, en ekki hef ég tök á að hafa skoðun á hversu vel þær hafa gert sér mat úr bók Kristínar, sem ég á ólesna.
Leikmynd Egils Sæbjörnssonar mótar öðrum grunnatriðum fremur upplifun áhorfandans. Bakveggir leikrýmisins eru leikvöllur hans og strigi fyrir síbreytileg myndverk. Þau eru flest „fígúratív“ og endurspegla og styðja við atburðarás verksins, sem og minningar og drauma Sigþrúðar. Tvö andlit úr fortíðinni birtast í yfirstærð á veggjunum og eiga í samskiptum við persónuna á sviðinu; hin elskaða fóstra Hallfríður og hinn ekki síður elskaði unnusti Kjartan. Það er eitthvað bernskt við bókstaflega notkun myndanna. Bæði hvað hún er almenn og fyrirferðarmikil og hve sterkan grun hún vekur um að aðstandendur sýningarinnar treysti efniviðnum ekki til fullnustu til að halda athygli og heilla okkur. Það er vitaskuld engin leið til að fullyrða neitt um hvort það sé rétt mat. 
Umgjörðin sem slík er falleg og hugmyndin óvenjuleg. Innanstokksmunir á sviðinu eru hinsvegar nokkuð sérkennilega samtíndir og búa ekki yfir skýrri sögn. Treystir gömul tónelsk dreifbýliskona, alin upp í dreifbýlinu á gullöld útvarpsins, á upptrekktan grammófón til að stytta sér leið inn í töfraheima tónlistarinnar?
Talandi um tónlist: Verk Sóleyjar Stefánsdóttur er sérlega vel heppnað í sýningunni, sem og hljóðmynd hennar og Þorbjörns Steingrímssonar. Samflétting þekktrar tónlistar, gjarnan kirkjutengdrar, og hins frumsamda er lipur og snurðulaus. En aftur: hljóðmyndin er plássfrek og hefur mögulega átt sinn þátt í þeirri ákvörðun að magna upp allt tal leikkonunnar, sem er ansi hár fórnarkostnaður fyrir þá nánd og hið gullvæga samband sviðs og salar sem einleiksformið byggir á. Þegar persónan ávarpar okkur viljum við að hljóðið berist frá henni. Þessu vandmeðfarna vopni var vissulega beitt af tæknilegu öryggi, en engu að síður fór aldrei á milli mála að það var í notkun.
Það er sem sagt langur vegur frá að Sigrún Edda Björnsdóttir beri ein hitann og þungan á áhirfamætti sýningarinnar, þó hún standi vissulega ein á sviðinu. Umgjörðin veitir henni viðnám sem bæði eflir hana og truflar við það höfuðverkefni að ná sambandi við áhorfendur og draga þá inn í sögu sína. 
Tæknileg raddfimi hefur lengi verið eitt helsta vopn Sigrúnar Eddu og hér beitir hún því á hinn fjölbreytilegasta máta. Framan af var ég efins um þá ákvörðun að láta „grunnstöðu“ sýningarinnar, persónusköpun hinnar rosknu Sigþrúðar, sem sækir jarðarfarir og er við fyrstu sýn lítið annað en skrítin kattakelling sem ber út Moggann, byggjast á svona tilbúinni rödd. En þó það setji vissulega kómískan svip á lífsmáta Sigþrúðar er alltaf stutt í drama fortíðarinnar og nálgunin uppsker ríkulega í seinni hlutanum þegar sú gamla nær vopnum sínum. Almennt einkenndi fumleysi framgang leikkonunnar, hvort sem var við að eiga við textann eða leika á móti hugsmíðum Egils. 
Sýningin slær nokkuð úr og í með það í hversu miklum tengslum Sigþrúði er ætlað að vera við salinn, ef til vill hefði mátt treysta meira á áhrifamátt sögunnar og sagnamennskunnar. Hitt er ljóst að listrænar ákvarðanir og heildarhugsun býr að baki öllu því sem fyrir augu og eyru ber á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu hér. Bæði það sem virkar og hitt sem truflar. Það blasir við í öllu að ástríða Stefáns Jónssonar og hans samverkafólks er að skila þessari látlausu en seiðsterku sögu til áhorfenda á eins skýran og kröftugan hátt og kostur er, og tekst að mörgu leyti.
sunnudagur, september 04, 2022

Fíflið

Eftir Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir: Tónlist: Eyvindur Karlsson. Leikmynd og búningar: Guðrún Öyahals. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefásson. Hár og förðun: Ninna Karla Katrínardóttir. Grímur: Elín Sigríður Gísladóttir og Agustino Dessi. Leikendur: Bjarni Thor Kristinsson (rödd), Eyvindur Karlsson og Karl Ágúst Úlfsson. Frumsýnt í Tjarnarbíói 3. september 2022, rýnir sá sýningu 4. september.

Forréttindafífl

„Your All-Licenced Fool“ kallar Goneril fífl föður síns í Lé konungi, og Þórarinn Eldjárn þýðir snyrtilega sem „forréttindafífl“. Nær samt ekki alveg tilfinningunni fyrir að fíflið megi segja allt, gera hvað sem er, sem er svo skýrt í frumtexta Shakespeares. Skilar hinsvegar vel hvað Goneril er illa við þessa skipan mála, enda er forréttindatíð fíflsins og húsbónda þess senn á enda þegar hún hreytir þessu í karlinn.
Svo má auðvitað velta fyrir sér hvort hlutverk fíflsins, sem má – og kannski ekki síður á – að veita valdinu aðhald með sannleikanum í skopbúningi, sé réttnefnd „forréttindi“. Kannski er þetta ekki svo snjöll þýðing þegar allt kemur til alls. Þetta er eitt viðfangsefni Fíflsins, kveðju- og uppgjörssýningar Karls Ágústs Úlfssonar við feril sins á sviði og skjá. Hvað það hefur einatt kostað fíflin mikið að segja það sem þau segja. Sem þau vissulega eiga að segja, en ekki er alltaf vinsælt að heyra.
Hinir fjölbreyttu en einatt vel samverkandi hæfileikar og fagkunnátta Karls Ágústs koma glæsilega saman í Fíflinu. Hann er með háskólagráðu í leikritun og Fíflið er sérlega vel formað á heildina, flæði milli atriða og grunnhugsun skýr og beitt. Velta má fyrir sér hvort hinn ysti rammi sé beinlínis nauðsynlegur: að Karl sé mættur í leikhúsið til að sækja um vinnu. Sú hugsun rennur svolítið út í sandinn þegar gamanið fer í gang, víkur fyrir upprifjun á ýmsum sögum af nafnkunnum fíflum sögunnar og bókmenntanna, og samskiptum þeirra við yfirmenn sína.
Ramminn stangast líka svolítið á við þann yfirlýsta tilgang sýningarinnar að marka starfslok stjörnunnar. 
En á hinn bóginn er það kannski einmitt viðeigandi að áhorfendur séu ávarpaðir sem mögulegir vinnuveitendur fíflsins. Í okkar lýðræðislega nútímasamfélagi eru það jú við, almenningur, áhorfendur, sem förum með hið endanlega vald sem áður var í hendi konungs, í umboði Guðs almáttugs. Er það ekki annars?
Karl er vel menntað leikskáld, en hann er líka, kannski fyrst og fremst, einn afkastamesti sketsasmiður íslenskrar menningarsögu. Fundvís á hárréttar nálganir á hvert viðfangsefni, orðheppinn og beittur. Blygðunarlaus beitandi fimmaurabrandara þegar þeir gefa kost á sér, en svo sannarlega ekki upp á þá kominn. Hér eru dregnar upp ófáar skýrar smámyndir. Samspil fortíðarmyndanna af hirðfíflum úr grárri forneskju við umfjöllunarefni sem einatt tengjast samtímakýlum sem stinga þarf á eru oftar en ekki eitursnjöll. 
Leikskáld, sketsasmiður, og þriðja vopn höfundarins Karls Ágústs er síðan frábært vald hans á bundnu máli. Hér eru bráðhnyttnir söngtextar mikilvægur þráður í vefnum, vel og smekklega tónsettir af Eyvindi syni hans, sem jafnframt er verðugur og flinkur mótleikari þegar á þarf að halda. Tónlistin í lokanúmerinu reyndar fengin að láni. Frábær hugmynd, snjall texti og óhjákvæmilegur lokahnykkur, finnst manni þegar maður áttar sig á hvað það er. En það þarf auðvitað að láta sér detta það í hug. 
Annar mótleikari hljómar síðan af bandi, Bjarni Thor Kristinsson setur ofan í við fíflið af himnum ofan og rifjar upp eina „fegurstu“ stund Spaugstofunnar sem stungumenn samfélagskýla. 
Það er samt ekki höfundurinn sem er að kveðja, heldur leikarinn Karl Ágúst. Flytjandinn. Einnig þar á hann góðan dag. Ætli nokkur núlifandi íslenskur leikari hafi flutt eins mikið  af eigin texta? Týpugerðarmaðurinn er í essinu sínu á þessum endaspretti, þar sem raddblær, líkamshollning og málsnið rennur saman í skýra og eftirminnilega skyndimynd. Þær eru ófáar hér. Sviðsetning Ágústu Skúladóttur lipur og öll samþætting hennar á hinum fjölbreyttu meðölum sem beitt er. Umgjörð Guðrúnar Öyahals (leikmynd og búningar), Ólafs Ágústs Stefánssonar (lýsing) og Ninnu Körlu Katrínardóttur (hár og förðun) og Elínar Sigríðar Gísladóttur og Agustino Dessi (grímur) er smekkleg, svipmikil og skilar sínu til heildaráhrifanna. 
Fíflið virkar á öllum plönum. Frjó hugvekja um hlutverk þess sem bregður upp spéspeglinum, fyndið dæmasafn úr sögunni, hvöss ádeila á misbresti samtímans. Og að lokum ljúfsár kveðjustund – ef við ætlum að virkilega að trúa því að þessum frjóa og flinka listamanni sé alvara með því að leggja rauða nefið loksins á hilluna. Það verðar teljast frekar fúl alvara. 
En er þessum fíflum nokkurn tíman alvara?