fimmtudagur, október 10, 2019

Sex í sveit

Eftir Marc Camoletti. Íslenskun: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson. Leikmynd: Petr Hlousek. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir: Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson. Leikarar: Haraldur Ari Stefánsson, Jörundur Ragnarsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins laugardaginn 5. október 2019.

Þar sem enginn þekkir mann


Það er alltaf gaman að horfa á berskjaldað fólk reyna að fela hvað það er ómerkilegt, gráðugt og gratt. Nákvæmlega hvers vegna það er svo er kannski áhugaverð heimspekileg ráðgáta, en þá fer maður að hugsa um froskinn hans Marks Twain sem er eins og húmor og deyr við krufningu. Það viljum við ekki. Gefum okkur bara að farsar virka vegna þess að við erum flest á því að þar sé lýst óförum sem almennt er siðferðilega lofsvert að hæðast og hlæja að.

Og þrítug breiðgötukómedía Marcs Camoletti virkar. Sérstaklega fram að hléi, loftið sígur ískyggilega úr blöðrunni eftir það. Sökin liggur hjá höfundinum og áreynsla leikstjóra og áhafnar við að dæla nýju helíumi í belginn kemur að mestu fyrir ekki. Gerir jafnvel illt verra; reynsla er vandmeðfarin í ærslaleikjum, þótt ótrúlegt megi virðast. En morðfyndin eru tilþrifin fyrir hlé, meðan verið er að byggja upp blekkingaleiki félaganna Benedikts og Ragnars sem báðir ætla að fá eins mikið utankvótakynlíf út úr sumarbústaðahelginni fyrir norðan og mögulegt er. Benedikt með módelviðhaldinu sínu, henni Sóleyju, en Ragnar með Þórunni, konu Benedikts. Eða frekar á hinn veginn, Þórunn er við stjórnvölinn í því framhjáhaldi. Camoletti kann sitt fag og bætir lengst af eldsneyti á óreiðubálið af reglusemi hins þrautþjálfaða kyndara. Þá er gaman. Mikil ósköp.

Góð hugmynd hjá Bergi Þór Ingólfssyni leikstjóra og/eða þýðandanum Gísla Rúnari Jónssyni að tengja nýjustu tækni við gamla gangverkið. Auðvitað eru Þórunn og Benedikt með sama hringitón í gemsunum, og auðvitað hafa þau ekki nema rétt svo stjórn á Google Home kerfinu sínu. Mikið vill auðvitað meira og það hefði verið gaman að flétta tæknina enn þéttar inn í atburðakeðjuna. Hefði ekki verið gaman ef þetta væri Apple-stúlkan Siri og hún væri fyrir farsakennda tilviljun nafna bæði módelviðhaldsins og veisluþjónustustúlkunnar sem verður aðalskálkaskjól karlanna? Sigurverk vel smíðaðs farsa þolir samt ekki nema visst mikið af svona sandkornum frá túlkendum sínum. Stóri hlutanetsfarsinn er ósaminn enn, en möguleikarnir eru ótvíræðir.

Groddalegur galskapur ræður lengst af för í sýningunni, jafnvel umfram meðallag og stundum á kostnað fínni og nákvæmari tilþrifa í slapstick-i. Á hinn bóginn tekst Bergi að stilla sig um að skrúfa tryllinginn í botn áður en atburðirnir gefa tilefni til, sem hafa verið landlæg lýti á farsasýningum hér undanfarið. Að þessu sinni er spennustig sýningarinnar í takt við forsendur verksins. Og hálfu fyndnari fyrir vikið.

Mest hvílir það á leikhópnum, auðvitað, sem skilar sínu með fullum sóma. Týpugerðin ræður þar ofar hverri kröfu um þrívídd og dýpt. Fyrir vikið verðum við bara að trúa því að valkyrjan Þórunn, eins og hún verður í kröftugum meðförum Sólveigar Guðmundsdóttur, skuli velja sér til fylgilags jafn drengjalegan og spaugilega atkvæðalítinn meðreiðarsvein og Ragnar verður hjá Sigurði Þór Óskarssyni. Auðveldara er að trúa því að hún sé orðin leið á eiginmanninum, þessari hrokafullu pempíu sem Jörundur Ragnarsson hefur greinilega unun af að skapa og sýna í allri sinni lítilmótlegu dýrð. Við fáum svo sem enga tilfinningu fyrir hvernig hjónabandið er, eða var áður en þau ákváðu hvort í sínu lagi að leggja það í rúst. Eins hjálpa hvorki handritið né túlkun leikstjóra og leikenda okkur að skilja hverskonar tengsl eru á milli Benedikts og Ragnars. Hvort þau séu náin eða losaraleg, hver afstaða þeirra er, hvor er almennt séð í bílstjórasætinu. Eins er ekki gott að segja hvort þessi óskýrleiki kemur að sök svo einhverju nemi.

Það er einungis þegar kemur að þessum þremur sem er yfirleitt hægt að velta fyrir sér hvötum og forsendum. Hin þrjú eru fyrst og fremst leiksoppar atburðarásarinnar. Túlkendum þeirra gefast fyrir vikið mun fleiri færi á að láta eingöngu stjórnast af því sem líklegt er til að vekja hlátur, og fengu hann ómældan úr salnum á frumsýningu. Alla vega konunum, Haraldur Ari Stefánsson fær úr sýnu minnstu að moða og er auk þess nokkuð fjarri því að vekja trúverðuga ógn sem ofbeldissinnaður og afbrýðisamur þöngulhausinn sem honum er falið að leika.

Eiginkona hans, kokkurinn Sólveig, er leikin af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur af feikilegu fjöri. Það er óhætt að segja að Katrín Halldóra láti engum steinum óvelt í leit að skoplegum töktum, viðbrögðum, líkamstjáningu og ekki síst talanda. Sjaldan hefur verið farið eins langt yfir strikið í leikhúsnorðlensku og hér, ekkert l eða n var látið óraddað, harkan í lokhljóðunum hækkuð upp í ellefu og syngjandinn ómar frjálst. Ég ráðlegg viðkvæmum sveitungum mínum að norðan sem mæta á sýninguna að brynja sig. Þetta er glæst frammistaða.

Það sama má segja um Völu Kristínu Eiríksdóttur sem bætir stásspíunni Sóleyju í ljóskusafnið sitt. Þær eru samt hver með sínu sniði. Þessi er til dæmis sjálfsörugg og klók þó hún sé sennilega dálítið grunn eins og hefðin krefst. Stundum virkar hún sjálfsörugg af því hún er klók en oftar samt kemur hún fyrir sem klók af því hún er sjálfsörugg. Og grunn. Drepfyndin alveg í hvert sinn sem því verður við komið.

Sumarhúsið sem Petr Hloušek hefur hannað fyrir hjónin er þénugt augnayndi. Smekkfólk, þau Þórunn og Benedikt. Svo eru þau lita- og tilraunaglöð í fatavali, samkvæmt túlkun Stefaníu Adólfsdóttur. Aðrar persónur eru líka glæsilega gallaðar af henni. Lýsing Þórðar Orra Péturssonar lýtalaus að ég best gat séð og ljósastýringarvirknin í Google Home mun samstarfsfúsari en tónlistarvalið.

Hér er býsna vel að verki staðið sem sagt. En heildaráhrifin líða fyrir veikan seinni hluta þar sem áreynslan við að halda uppi gleðinni á heimstíminu skilar ekki sömu samfelldu hláturbylgjunum og glumdu í þeim fyrri.föstudagur, október 04, 2019

Húh!

Eftir leikhópinn RaTaTam. Leikstjórn: Charlotte Bøving. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Hljóðmynd og tónlist: Helgi Svavar Helgason og RaTaTam. Myndbönd: Aron Martin Ásgerðarson. Aðstoðarleikstjóri og dramatúrg: Stefán Ingvar Vigfússon. Leikarar: Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir og Hildur Magnúsdóttir. RaTaTam frumsýndi á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 27. september 2019. 
x

Sjáðu særða naflann minn


Við erum öll að glíma við sömu grundvallarvesenin, er það ekki? Leitum að hamingju og samastað í tilverunni. Ást og trausti. Að komast til fulls þroska. Að verða „besta útgáfan af sjálfum okkur“ eins og það heitir á alþjóðamáli sjálfshjálpariðnaðarins, en sú hroðalega klisja glymur nokkrum sinnum í sýningu leikhópsins RaTaTam í Borgarleikhúsinu sem þau kalla Húh! Sennilega frekar til að halda áfram með nafnalínuna sniðugu en að efnið beinlínis kalli á þetta heiti. Fyrri sýningar hópsins hétu Suss! og Ahhh… Þetta er góð lína og vel hægt að sjá fyrir sér að þau haldi sig á henni. 

Listin að lukkast er til umfjöllunar hjá þeim Albert Halldórssyni, Guðmundi Inga Þorvaldssyni, Guðrúnu Bjarnadóttur, Halldóru Rut Baldursdóttur og Hildi Magnúsdóttur, og leiðtoga hópsins, Charlotte Bøving. Þetta er sameiginlegt keppikefli okkar og því rökrétt að þau sæki einfaldlega í eigin reynslubrunn eftir hráefni til að rannsaka boðhlaupið sem við erum í með keflið. Hvernig við erum samt fyrst og fremst að berjast við okkur sjálf, en náum engu að síður að hrasa, villast og þjófstarta stöðugt, jafnvel þótt enginn sé endilega að bregða fyrir okkur fæti eða afvegaleiða. Stundum samt. 

Það eru sem sagt þeirra eigin sögur sem þau miðla og vinna með í þessari sýningu. Það hefur kosti og galla eins og annað. Einn gallinn er auðvitað ekki þeim að kenna: það eru svolítið margir að gera þetta. Frumsköpunarverkefni frjálsra leikhópa eru fleiri og fleiri unnin úr heimafengnum efnivið, hvort sem það er hópvinna eða einstaklingsframtak. Hitt er síðan næstum óhjákvæmilegt: það er ekki sjálfgefið að efniviðurinn sem stendur til boða sé til þess fallinn að bera uppi leiksýningu eða kveikja dramatískan neista. Þessa sjást nokkur merki í Húh! Það er ljótt að segja það, en lífsraunir fimmmenninganna, kulnun og krísur, eru ekki allar „í frásögur færandi“ á þessum vettvangi. Ekki spennandi í sjálfu sér þó að þær geti nýst sem frjór upphafspunktur sköpunar og standi að mörgu leyti fyrir algeng vandræði nútímamannsins; frammistöðukvíða, tengslaleysi, ráðvillu í baráttu við hraða og kröfur nútímalífsins. Og þá komum við að síðustu vandkvæðunum: sýningum sem unnar eru á þennan hátt, og Húh! þar meðtalin, hættir til að stranda í ferlinu. Bræðast ekki fyllilega saman á fullnægjandi listrænan hátt. Eða, sem er næstum algild regla, að það sem á borð er borið virkar eins og sýnishorn af sköpunarvinnunni frekar en tilbúin „afurð“. Eins og innlit í æfingarýmið. 

Á móti kemur svo ferskleikinn og fjörið sem einmitt þessi nálgun gefur. Þannig eru sum allra eftirminnilegustu atriðum Húh! þau „æfingalegustu“. Morðfyndin örvæntingararía Alberts yfir hvernig ferillinn hefur þróast. Æðiskast Guðmundar út í sveitina sem ól hann og hann er búinn að lofsyngja alla sýninguna. Hildur að gera upp málin við ástina og traustið með hjálp trompetsins. Halldóra að rifja upp skelfilegar bernskuminningar gegnum hækkandi svamphaug. Guðrún í górillubúningnum og særður ásökunarsvipurinn á henni þegar hún líkir sér við Neanderdalsmann og minnir okkur á að við útrýmdum þessum frændum hennar. Og okkar. Næstum. 

En sem heild nær sýningin ekki alveg vopnum sínum. Hlutirnir mynda ekki jafn sterka og sláandi heild og áhorfandanum finnst að standi til að bjóða honum. Að hluta til liggur þetta í eðli formsins; sundurleysi og sundurgerð er dagskipunin. En kannski er skýringanna líka að leita í óstöðugri blöndu gamans og alvöru. Sýningin er á köflum alveg bráðfyndin, og það er ljóst að fjör og fyndni er í aðalhlutverki í efnistökunum. Hér er þungur efniviður skoðaður á grínaktugan hátt en gert um leið ráð fyrir tilfinningalegri og vitsmunalegri svörun áhorfenda. Þetta heppnast oft og gerir það á mörgum köflum í Húh! En ef sýningin er skoðuð í heild verður samruni gleði og harms ekki alveg sannfærandi. 

Eitt sem samsköpun úr eigin reynslu gefur flytjendunum er færi á að blómstra á eðlilegan hátt á sviðinu. Þau eru jú mætt til leiks eins og þau eru klædd. Það heppnast fullkomlega hér. Öll með sinn ríkulega skammt af sviðssjarma og áreynsluleysi sem vafalaust hefur þurft að vinna fyrir, svo nákomið sem efnið er þeim. Nokkuð sem Charlotte er örugglega kjörin til að gera. Við erum til í þetta með þeim. Umgjörð, og þó sérstaklega búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur, styðja vel við þau. Samtíningsbragurinn á fatnaðinum virkar ekki eins og ódýr lausn fátæka leikhússins, sem hann vafalaust er öðrum þræði, heldur rökrétt leið. Aðrir umgjarðarþættir; lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar, myndband Arons Martins Ásgerðarsonar og hljóðmynd Helga Svavars Helgasonar sömuleiðis. Tónlistarflutningur leikhópsins bætir stórri vídd í sýninguna. Lokalagið var flott. 

Sumt af efninu í Húh! er bitastæðara en annað. Óvenjulegustu sögurnar og vinklarnir hefðu næstum getað borið uppi heila sýningu, eða allavega dugað sem fræ að fullbúinni og mun heildstæðari kvöldstund. Ég get nefnt samband manns og sveitar sem dæmi. En að sumu leyti eru það hversdagslegustu raunirnar, minnst leikvænu efnisþættirnir, sem eru kjarni erindisins. Hvernig lífið er að leika okkur öll. En á móti kemur að þær eru ekki bitastæðar eins og þær óvenjulegu. Það er vandratað í þessum kima leiklistarinnar og sýningin ber þess merki, þó vel megi njóta samvistanna við þau Albert, Guðmund, Guðrúnu, Halldóru og Hildi, og þekkjast boðið um að hlæja að óförum þeirra.