föstudagur, maí 03, 2019

Loddarinn

Eftir Molière. Íslensk þýðing: Hallgrímur Helgason. Leikstjórn: Stefan Metz. Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist og hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Dóra Jóhannsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hilmir Snær Guðnason, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Oddur Júlíusson og Ragnheiður Steindórsdóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 27. apríl 2019.

Leiðtogi lífsins


Mikið á hann Orgeir gott. Þegar allt er farið fjandans til, fjölskyldan á vonarvöl, rekin burt af heimilinu fyrir sakir heimsku hans og blindu þá standa þau með honum, faðma hann og gráta honum til samlætis í stað þess að hrækja á hann og klóra úr honum augun eins og hann á skilið, ekki síst fyrir þá taumlausu fyrirlitningu sem hann hefur sýnt þeim öllum með ákvörðunum sínum undanfarið og orsaka þá stöðu sem upp er komin í leikslok. Þegar andlegi leiðtoginn hefur verið afhjúpaður svo allir, meira að segja blinda ættmóðirin, sjá í gegnum yfirdrepsskapinn og illan ásetning. Þegar hann stendur engu að síður með pálmann í höndunum og lyklana að húsinu meðan skósveinar hans skipta málverki út fyrir spegil og rífa klukkuna af veggnum.

Aldrei hefur mér fundist eins skýrt að Orgeir er aðalhlutverk Loddarans og í þessari uppfærslu Stefans Metz. Einungis hann, af aðalpersónum verksins, breytist eða þroskast. Allir aðrir á heimilinu hafa séð í gegnum Guðreð þegar tjaldinu er lyft. Sjálfur er loddarinn auðvitað bara það sem hann er. Eins og guð.

Nafnið Guðreður er auðvitað ein af bráðfyndnum uppáfinningum Hallgríms Helgasonar í sinni lipru og smellnu þýðingu. Önnur er nafnið Orgeir. Linnulaus straumurinn af AABBCC-rímuðum fimmliðunum reynir nokkuð á þolrifin þegar fer að síga á seinni hlutann en engu að síður er afrek hjá Hallgrími að halda þetta út. Það er síðan allur gangur á hvernig þýðingin skilaði sér út í salinn. Leikmyndin virðist skapa nokkra glymjandi og ekki allir leikararnir nógu passasamir með að fylgja línunum sínum eftir allt til enda.

Annars hvílir mikil ábyrgð á textanum í þessari uppfærslu. Fyrir utan nútímaleg snið búninganna er farið einstaklega sparlega með brögð leiksviðsins til að auka við merkingu leikritsins, bregðast við henni, skerpa eða snúa á hvolf. Það sama á við um grínið, sem fyrir utan fyrirskipuð farsabrögð og glaðbeitta þjónustustúlku hvílir nær eingöngu í textanum. Þótt hefð Moliéres eigi rætur í skopleikjaformi Commedia Dell'Arte með sínum stílfærðu persónum og líkamlega gríni heldur Stefan Metz sýningunni nánast algerlega á raunsæislegu plani. Svo mjög reyndar að það er varla hægt að tala um persónusköpun, hvað þá týpusmíð, umfram þau einkenni sem atburðarásin leiðir í ljós.

Það er fátítt, jafnvel gleðiefni, að sjá leiktexta treyst jafn afdráttarlaust til að bera hitann og þungann af áhrifum og erindi leiksýningar núna á öld leikstjóra-, samsköpunar- og konseptleikhússins, en þá verður textinn að vera traustsins verður. Ég veit ekki alveg hvort það sé raunin með þessa skörpu og sniðugu en dýptarlausu lýsingu Moliéres á hræsni og maklegum málagjöldum fáviskunnar. Fyrir vikið fáum við litla innsýn í hvernig fólk þetta er. Hvernig Guðreður náði þessum heljartökum á huga Orgeirs. Hvort það skýrist frekar af hrekkleysi eða einfeldningshætti fórnarlambsins eða útgeislun og sannfæringarkrafti hins andlega leiðtoga. Við sjáum reyndar heldur ekki nein merki um áhrif Guðreðar í heimilislífinu eða á hegðun þeirra sem hafa gerst lærisveinar hans. Við vitum heldur næstum ekkert um samband Orgeirs og Elmíru konu hans, hvaða stöðu frú Petrúnella hefur á heimili sonar síns eða hvers konar áhrif Guðreður hefur á börnin. Það er eitthvað meinlætalegt við það hvernig verkinu er boðið að tala fyrir sig sjálft. Það kemur líka í ljós að það hefur ekki margt merkilegt, óvænt eða hugvekjandi að segja. Vissulega falla kjánar enn fyrir náðarvaldi sjarmerandi síkópata. Vissulega fæðist einn slíkur enn á mínútufresti eins og P.T. Barnum sagði kannski. Og vissulega hefur orðsnilld og rímflæði gildi í sjálfu sér, í það minnsta skemmtigildi. En samt. Af hverju er verið að sýna okkur Tartuffe? Sýningin svarar því ekki á sannfærandi hátt.

Hún gefur þétt skipuðum leikhópnum heldur ekki mikil færi á að glansa. Einu karakterarnir sem verða sæmilega eftirminnilegir sem slíkir eru Dóra vinnukona sem Kristín Þóra Haraldsdóttir nýtur greinilega að skapa og sýna, þótt ekki sé hún alsaklaus af fyrrnefndum textameðferðargöllum, og kostuleg lögmærin hennar Dóru Jóhannsdóttur, sem vissulega er örhlutverk. Hennar „aðalhlutverk“ er Vala, heitmey heimasætunnar. Hún birtist í einni senu sem hefur elst hvað verst af texta Moliéres og verður algerlega tilgangslaus sé ekki unnið með afstöðu og persónueinkenni þeirra Völu og Maríönnu Orgeirsdóttur. Lára Jóhanna Jónsdóttir gaf þeirri síðarnefndu sviðssjarma en ekki eftirtektarverðan persónuleika. Danni, bróðir Maríönnu, er öllu tilþrifameiri í sínum fyrirgangi hjá Oddi Júlíussyni, en ekki er hann nú sérlega skýr samt. Það hefur sína kosti að kynbreyta tilvonandi ektamaka Maríönnu, en kostar líka sitt. Til dæmis það að kynhneigð heimasætunnar trompar allt annað sem hún gæti haft á móti því að giftast Guðreði. Einhverjum hefði líka þótt það dauðafæri að „jarðtengja“ trúarkreddur loddarans með því að gefa honum, og lærisveini hans, færi á að tjá á einhvern hátt vanþóknun á samkynja hjúskap, en það er ekki gert. Þetta er ekki svoleiðis sýning.

Baldur Trausti Hreinsson er mágur Orgeirs og hefur tilhneigingu til að láta línuendingar sínar fjara út en var annars aðsópsmikill í vanþakklátu hlutverki. Ragnheiður Steindórsdóttir var reffileg frú Petrúnella, en ekki fannst mér blinda hennar ýkja sannfærandi. Fyrir utan að ég skildi ekki tilganginn, þetta er almennt ekki uppfærsla sem krefst þess að vera skilin táknrænum hætti. Nína Dögg Filippusdóttir blómstraði í langbitastæðasta atriði verksins, þar sem húsfrúin Elmíra táldregur guðsmanninn til að afhjúpa hann loksins fyrir eiginmanninum. Guðjón Davíð Karlsson fer prýðilega með hlutverk Orgeirs, og ekki við hann að sakast hvað frelsi til skoptilþrifa eru af skornum skammti í túlkunarleið sýningarinnar. Hilmir Snær Guðnason glímir við sama vanda, en er einnig ágætur innan hins þrönga ramma. Hann byrjaði reyndar með þreytandi „stórleikararaddbeitingu“ í fyrstu innkomu sinni, eitthvert hljómfall sem jaðrar við flámæli, en svo hvarf það og styrkleiki hans í textameðferð nýtist vel. Það eru samt sorglega mörg glötuð tækifæri í afstöðuleysinu. Í hverju felst náðarvald hans? Hefur taumlaus neyslan sem lýst er í upphafi haft einhver áhrif á hann? Er hann jafnvel sérlega ógeðfelldur í augum allra annarra en Orgeirs og móður hans? Það nægir ekki að aflita hárið, klæða Guðreð í ljótan T-bol og láta hann bera krem á fæturna á sér til að trompa stjörnuútgeislun Hilmis Snæs.

Leikmynd Seans Mackaoui og búningar eru umtalsvert augnayndi. Sérstaklega létt og litrík föt fína fólksins, þótt klæðnaður Danna stingi þar í stúf. Erfitt er að lesa í búninga Völu og Guðreðar, hvort beri að skilja þá samfélagslegum eða táknrænum skilningi. Það þarf almennt að kveða fastar að í túlkun verksins og það gildir um umgjörð hennar líka. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er til sóma, skörpu „blakkátin“ mjög skemmtileg. Tónlist Elvars Geirs Sævarssonar var sniðug og flutningur leikhópsins á sálmi Sibeliusar var íðilfagur.

Loddarinn virkar heldur yfirborðskennt verk í þeirri mynd sem það fær á sig í þessari sýningu. Að sumu leyti óhjákvæmilegt, hinn hreini og beini framsetningarmáti Moliéres er í það minnsta einfaldur, og jaðrar við að vera einfeldningslegur, séð með baksýnisspegli nútímans. Það virðist vera meðvituð listræn ákvörðun að leyfa einfaldleikanum að tala að þessu sinni. Þar fara að mínu mati forgörðum ótal möguleikar til að gera þessa kvöldstund bæði skemmtilegri og umhugsunarverðari.

fimmtudagur, maí 02, 2019

Bæng!Eftir Marius von Mayenburg. Íslensk þýðing: Hafliði Arngrímsson. Leikstjórn: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Kjartan Þórisson. Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson. Myndband: Ingi Bekk. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Sýningarstjóri: Christopher Ian Astridge. Leikarar: Björn Thors, Brynhildur Guðjónsdóttir, Davíð Þór Katrínarson, Halldór Gylfason, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins 26. apríl 2019.

Skrímslafræði fyrir
byrjendur

Viðbrögð við kjöri Donalds Trumps í embætti Bandaríkjaforseta hafa verið margvísleg. Í þeim kimum heimsins sem flokkast sem frjálslyndir og lýðræðissinnaðir, eða bara rétt vinstra megin við fasisma, hafa tveir þræðir verið mest áberandi: furðublandin skelfing og dálítið óöruggur hæðnishlátur. Sjónvarpsgrínistar í Bandaríkjunum eru flestir hverjir algerlega helteknir af að sýna, greina og hæða nokkurn veginn allt sem forsetinn segir og gerir. Leikhúsin fengu endurnýjaðan áhuga á harmleik Shakespeares um uppgang harðstjórans Júlíusar Sesars, sem sum þeirra settu hreinlega í blá jakkaföt, of langt rautt hálsbindi og hæpna ljósa hárkollu. En auðvitað er svoleiðis leikur að hliðstæðum dæmdur til að missa marks að miklu leyti. Shakespeare var ekki að skrifa um Donald Trump. Hann var varla einu sinni að skrifa um Júlíus Sesar. Hvað getur „alvöru“ leikhús lagt til málanna?

Svar Mariusar von Mayenburg var Bæng!, sem frumsýnt var á Schaubühne í Berlín fyrir tveimur árum, og höfundurinn lýsir sem „ofnæmisviðbrögðum“ eftir þessa óvæntu en mögulega fyrirsjáanlegu vendingu í alþjóðastjórnmálum. Þar er sagt frá uppvexti og framgangi skrímslisins Hrólfs Bæng, frá því hann sprettur nánast alskapaður og vel tenntur úr móðurkviði eftir að hafa kyrkt tvíburasystur sína ófædda, hvernig hann elst upp í skjóli velmeinandi, frjálslyndra og ofurmeðvitaðra millistéttarforeldra og ræktar allar sínar illu eðlisgáfur og siðblindu í skjóli hins nytsama sakleysis sem ríkir á þeim bænum. Von Mayenburg sýnir okkur líka hvað hinn siðmenntaði og friðelskandi lífsmáti herra og frú Bæng er þunn himna utan um dýrslegt eðlið, sem býr bæði í blóðugri nánustu fortíð fjölskyldunnar og velþóknun þeirra hjóna yfir baráttuvilja ungbarnsins á leikvellinum. Að því leyti er sögn verksins á svipuðu róli og réttlætingarræður Hrólfs sjálfs fyrir framferði sínu: svona erum við. Í þeim er líka að finna bitastæðasta innlegg von Mayenburg til greiningarvinnunnar varðandi stöðu mála í heiminum og vegferðina fram undan: hvað óþol okkar fyrir leiðindum og kyrrstöðu er mikilvægur og vanmetinn drifkraftur í mannlífinu. Nokkuð sem birtist í óseðjandi lyst okkar á blóðugum morðsögum og fréttum af viðbjóðslegu ofbeldi gegn börnum. Líka t.d. í einbeittum vilja fjölmiðlafólks til að fá vísindamenn til að spá eldgosum og öðrum hamförum. Og svo auðvitað í kjörþokka fólks á borð við Bolsonaro, Duterte og Trump.

Fyrir utan þessa forvitnilegu þanka verður að segjast að rannsókn höfundar og framsetning efnisins í verkinu nær ekki að varpa miklu eða nýstárlegu ljósi á viðfangsefnið. Von Mayenburg er vissulega flinkur höfundur, öruggur í því lausbeislaða formi sem handritaskrif fyrir listrænt þenkjandi leikhús nútímans gerir ráð fyrir. Gréta Kristín Ómarsdóttir er líka á heimavelli í þessari hefð. Þannig eru bæði samskipti við áhorfendur, ferðalög í tíma og rúmi og stökk leikaranna út úr hlutverkum sínum og inn í raunheiminn lipur, eðlileg og þjóna tilgangi sínum. En frumleg og ögrandi eru þessi stílbrögð ekki lengur, frekar en notkun míkrófóna og kvikmyndavéla. Fyrir fastagesti leikhúsanna undanfarin ár er þetta orðið næsta fyrirsjáanlegt.

En þrátt fyrir færni höfundar og þokkalega skemmtun lengst af (lopinn er teygður til hins ýtrasta þessa tvo og hálfan tíma) er Bæng! ófullnægjandi sýning. Hún sannfærði allavega ekki þann sem þetta skrifar um gagnsemi þess að skoða pólitískar ógnir samtímans með einföldunaraðferðum dæmisögunnar og frumlitakassa barnaleikritanna að vopni. Það að velmeinandi veimiltítur í Prenzlauer Berg veiti fórnarlömbum heimilisofbeldis skjól í kjallaranum hjá sér, og fasíska frumsjálfið sem þau ala við brjóst sér vilji þau burt, varpar engu ljósi á flóttamannavandann eða uppgang útlendingaandúðar í Evrópu, sem virðist vera hliðstæðan sem von Mayenburg er að draga fram. Hálftíma könnunarleiðangur um athugasemdakerfin er mun gagnlegri.

Björn Thors er Hrólfur Bæng. Það eru gleðitíðindi að nú virðist Björn vera búinn að leggja Kenneth Mána endanlega til hvílu, hvort sem það voru nú leiktaktar hans eða ofvirkt leikhúsminni mitt sem héldu svona lengi í honum lífinu. Björn er oft og iðulega bráðfyndinn hér, aldrei beinlínis ógnvekjandi samt. Sá kækur hans að þagna í miðjum setningum dró mjög úr slagkrafti textans, hvort sem um var að kenna óöryggi eða misráðinni tilraun til að gefa honum raunsæislegra yfirbragð. Sem er engin ástæða til, svo mjög sem stílbrögð textans benda í aðrar áttir. Þeirra fremst hinar löngu og bráðfyndnu stuðluðu romsur sem faðirinn datt inn í þegar hann komst í geðshræringu. Vel útfærðar hjá þýðandanum Hafliða Arngrímssyni og leika Hirti Jóhanni Jónssyni á tungu.

Þau Brynhildur Guðjónsdóttir eru bráðskemmtileg sem foreldrarnir lánlausu. Hjörtur fyndnastur þegar þolgæði mjúka mannsins er ögrað og Brynhildur í afbrýðiseminni út í hina kynæsandi barnfóstru. Sú er túlkuð af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, ein af fjórum konum sem hún smíðar í sýningunni og hafa allar skýrt svipmót, eftirminnilegust sennilega hin kúgaða Ússí í næsta húsi. Eiginmaður hennar, ofbeldishrottinn Reynir, er síðan ein af rullum Halldórs Gylfasonar sem einnig fá allar afgerandi svip, eru hver annarri sannari og fyndnari hjá þessum flinka týpusmið. Það kemur svo í hlut Davíðs Þórs Katrínarsonar að vera hinn frekar sviplausi kamerumaður og verða svolítið utanveltu í stuðinu, en gerir sitt vel. Einkum í dálítið sjokkerandi atriði þar sem hann og frú Bæng hyggjast fá Ússí til að „stíga fram“ og afhjúpa ummerki heimilisofbeldisins, sem reynast vandræðalega lítilfjörleg í það sinnið.

Christopher Ian Astridge sýningarstjóri er síðan sýnilegur og ósýnilegur eftir þörfum, og stelur senunni smá með fiðluleik þegar mikið liggur við. Tónlistarval og útfærsla Garðars Borgþórssonar er með ágætum. Eva Signý Berger gerir búninga sem eru meira og minna hárréttir á natúralískum forsendum og hjálpa við að jarðtengja galskapinn. Leikmynd Barkar Jónssonar er smart verk með ótal möguleikum sem eru vel nýttir í flæðandi og lipurri sviðsetningu Grétu Kristínar. Lýsing Kjartans Þórissonar fín.

Vandi sýningarinnar liggur fyrst og fremst í verkinu, eða kannski í þunglamalegu eðli leikhússins sjálfs, og viðbragðssnerpu þess. Sem innlegg í umræðu um kjör Trumps, uppgang andverðleikastjórnmála og lýðskrum úr öfgahægriáttinni er það hvorki nógu snjallt né fyndið. Það býður heldur ekki upp á óvænta, spennandi eða gagnlega greiningu. Það má auðvitað hafa dálítið gaman af yfirgengileika Hrólfs Bæng og hlæja kuldahlátri að vanmætti velmeinandi en villuráfandi nærsamfélagsins. En það er brandari sem allir eru búnir að vera að segja, oft betur, í síbyljunni frá því Marius von Mayenburg ýtti öðru til hliðar til að skoða ástand heimsins síðla árs 2016.

x