þriðjudagur, janúar 15, 2019

Ég dey

Höfundur og leikari: Charlotte Bøving. Þýðandi: Erla Elíasdóttir Völudóttir. Með-leikstjóri: Benedikt Erlingsson. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist: Gísi Galdur. Myndband og grafísk hönnun: Steinar Júlíusson. Lýsing: Garðar Borgþórsson. Sviðshreyfingar: Unnur Elísabet Sturludóttir. Charlotte Bøving / Fyrirtækið slf. frumsýndi á Nýja sviði Borgarleikhússins fimmtudaginn 10. janúar 2019.

Þið munuð öll …

Hvílir bannhelgi á dauðanum sem umræðuefni? Því er gjarnan haldið fram, en ég held að svo sé alls ekki. Ég hallast að því að það sé frekar þannig að tal um þöggun, veigrun og ótta við umræðuna sé hentugur upphafspunktur fyrir umræðu um þennan sjálfsagða hlut, náttúrulögmál sem allir hafa persónulega reynslu af og meðvitund um, og eru fúsir að ræða. Og reynast, þegar umræðan hefst, hafa keimlíkt viðhorf til. Einhverja útgáfu af æðruleysi, sem tekur síðan lit af þeim tilfinningum sem við berum til umhverfis okkar í víðasta skilningi. Til okkar nánustu, til okkar sjálfs og hvernig við höfum varið þeim tíma sem við vitum öll að er takmarkaður. Þegar upp er staðið tölum við ekki um dauðann, heldur í mesta lagi um afstöðu okkar, sem lifandi verur, til þessarar staðreyndar um okkur. Aðallega tölum við samt um lífið.

Það reynist líka eiga við um Ég dey, rannsóknarskýrslu Charlotte Bøving um margvíslegar staðreyndir, menningu okkar og annarra, eigin afstöðu og annarra, þegar kemur að dauðanum. Hún byrjar reyndar á bráðskemmtilegri yfirferð um hvað gerist á fyrstu klukkustundunum eftir andlát, en annars höldum við okkur hérna megin grafar. Ef mig misminnir ekki þeim mun verr þá víkur Charlotte aðeins á einum stað að því hvað sé handan blæjunnar. Það er reyndar í einum af hápunktum sýningarinnar, ákaflega kaldhamraðri vögguvísu þar sem barn fær hlutlægar upplýsingar um hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir mömmu, pabba og það sjálft. „Við deyjum öll en enginn kann að spá / Hvenær eða hvað við tekur þá“. Svo mörg voru þau orð. Við vitum ekki hvað gerist etir dauðann. Þannig afgreiðir nútímakonan helsta sölupunkt langflestra trúarbragða heimsins og heldur áfram að skoða dauðann í lífi okkar allra.

Þar reynist fáránleikinn í hversdagsleikanum bitastæðastur. Upptalningin á hverjir mega deyja (kjúklingar, minkar), hverjir ekki (höfrungar, kisur) og í hvaða röð (maður sjálfur á undan börnunum og svo koll af kolli). Útlistun og smásmyglisleg upptalning á öllum tjáknunum sem hún sendi dauðvona vinkonu sinni á samfélagsmiðlum þegar orðin dugðu ekki til. Bónusferð þar sem líkamsleifar dýra og plantna eru skoðaðar og metnar. Þar kom til sögunnar hljóðlykkjuvél sem bjó til skemmtilegan bakgrunn og Charlotte beitti af talsverðu öryggi og ætti jafnvel að þróa áfram í list sinni. Loop-tæknin var eitt af fimm uppátækjum sem leikkkonan var að prófa í fyrsta sinn. Þessar nýjungar eru eitt af byggingarefnum sýningarinnar, en varð kannski ekki eins mikið úr og æskilegt hefði verið. Annað af atriðunum fimm var að prófa að hafa hlé að þessu sinni, ólíkt fyrri einleikssýningum Charlotte. Það er að mínu mati misráðið. Þéttari skipan efnisins án uppbrots hefði verið betri kostur. Ég dey líður dálítið fyrir ómarkvissa byggingu, þar sem hver kafli þarf að standa fyrir sínu burtséð frá því sem kemur á undan eða eftir. Sumir þeirra gera það en ekki allir.

Þarna hefði leikarinn Charlotte þurft betri stuðning frá höfundinum Charlotte, sem og frá með-leikstjóranum Benedikt Erlingssyni, við að búa til skýrara flæði og missa ekki orkuna niður milli efnisatriða. Hún hefur umtalsverðan sviðssjarma og ræður yfir tímasetningatækni uppistandarans og aðferðum trúðsins við að ná sambandi við salinn og vinna hann á sinn band með einlægni og brosi, sérstaklega ef eitthvað fer ekki nákvæmlega eins og ætlað er. Á frumsýningu hnaut Charlotte um beygingu orðs strax í byrjun og með því að draga athyglina að því vorum við öll orðin vinir hennar. Tilbúin að trúa því sem hún segir og leggja allt út á besta veg. Vera með henni í liði.

Viðureign Charlotte við íslenskuna setur vitaskuld sterkan svip á Ég dey. Óhjákvæmilega dregur það úr möguleikum hennar til að láta blæbrigði máls og merkingar vinna með sér að hún hefur ekki fullt vald á málinu. Fyrir utan algerlega hversdagslega hluti eins og skilning áhorfenda á því sem sagt er og hraðatakmarkanirnar sem felast í getustiginu. En það er í eðli leikhúss af þessu tagi að í veikleikum felast styrkleikar. Framandgervingin í glímunni við málið fær okkur til að sperra eyrun og íhuga. Kallar fram óvæntar tengingar og hugsanir. Þegar best lætur beinir hún athyglinu að innihaldinu og nýjum flötum á því.

Umgjörðin er einföld og svipsterk hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Búningarnir voru flottir, sérstaklega anatómíski kjóllinn í upphafi. Notkun á myndböndum og grafík Steinars Júlíussonar var hugvitsamleg og skemmtileg og samleikur Charlotte við þá umhverfisþætti vel útfærður. Á hinn bóginn örlaði á því að leikkonan upplifði sig ekki fyllilega örugga í glæsilegum stiganum sem gnæfir yfir sviðsmyndinni. Leikskráin er sérlega snjöll, þó eftir á að hyggja sé hugmyndin augljós, eins og títt er um góðar hugmyndir.

Ég dey er skemmtileg kvöldstund í góðum félagsskap. Charlotte Bøving hefur góða nærveru og hefur aðferðir einleiksins vel á valdi sínu. Innihaldið varðar okkur öll og þó efnistökin varpi ekki endilega nýju eða djörfu ljósi á það þá er gaman að rifja upp furðurnar í hversdaginum og minna sig á að stærsti leyndardómurinn er öllum kunnur og við eigum hann öll í sameiningu.

fimmtudagur, janúar 03, 2019

Ríkharður III

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Aðlögun: Brynhildur Guðjónsdóttir og Hrafnhildur Hagalín. Leikstjórn: Brynhildur Guðjónsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Daníel Bjarnason. Dansar: Valgerður Rúnarsdóttir. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Leikarar: Arnar Dan Kristjánsson, Davíð Þór Katrínarson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Kristbjörg Kjeld, Sigrún Edda Björnsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir, Valur Freyr Einarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Frumsýning á stóra sviði Borgarleikhússins 29. desember 2018.

Okkar tíkarsonur


Með „Harmleiknum um Ríkharð þriðja“, eins og verkið heitir í fyrstu prentunum, steig William Shakespeare risaskref á þroskabraut sinni sem leikskáld. Í fyrsta sinn heppnast allt næstum fullkomlega, þó svo aldrei hafi hann teflt jafn djarft þegar hér er komið sögu. Þó óslitinn efnisþráður og stór hluti aðalpersóna tengi það við þríleikinn um Hinrik sjötta og Rósastríðin er himinn og haf milli formgerðar, efnistaka og skáldskaparflugs. Örlög titilpersónunnar kallast á við og speglast í ógæfu Englands og örlögum allra sem á vegi Ríkharðs verða. Nútímaleg persónusköpun sækir aðferðir og staðalmyndir í helgileiki miðalda. Þetta er eitthvað alveg nýtt. Við vitum núna að sagnfræðin er hæpin, lituð af málstað sigurvegaranna, Tudor-ættarinnar sem er krýnd í leikslok. Það truflar engan nema hörðustu kverúlanta. Og alls ekki lesendur og áhorfendur utan heimahaganna, þar sem Ríkharður hefur, einn söguleikjanna, numið lönd svo einhverju nemi. Þökk sé hinu iðandi lífi og myrkum kynþokka skrímslisins.

Það virðist vera kominn á friður í ríki Englendinga í upphafi verksins, eins og titilpersónan útmálar í frægri upphafsræðu og fyrsta af mörgum trúnaðarsamtölum við meinta bandamenn sína í áhorfendasalnum. Vígfimi og miskunnarleysi Ríkharðs hefur átt sinn þátt í að stríðsgæfan féll á endanum með Jórvíkurmönnum og bróðir hans er sestur í hásætið. En Ríkharður er, eins og hann bendir sjálfur á, enn sá sem hann var. Sá sem stríðið, sem stóð allan hans uppvöxt, gerði úr honum. „Okkar tíkarsonur“ gætu Játvarður konungur, Elísabet drottning og allt þeirra fólk kallað hertogann af Glostri eins og Roosevelt sagði um Somosa Níkaragúaforseta. Fyrst og fremst bara tíkarsonur samt. Með sín eigin markmið sem samræmast ekki lengur áætlunum ættarinnnar. Somosa er svo sannarlega ekki eini nútímastjórnmálamaðurinn sem kemur upp í hugann meðan horft er á þennan fjögurhundruð ára gamla sálfræðitrylli.

Því eitt af því sem opinberast sem aldrei fyrr, í einbeittri og úthugsaðri túlkun og sviðsetningu Brynhildar Guðjónsdóttur og hennar fólks í Borgarleikhúsinu, er hve sorglega brýn þessi gamla harmsaga er. Og það án nokkurrar áreynslu við að staðsetja söguna áþreifanlega í nútímanum. Við erum ekki stödd í Sýrlandi. Engir farsímar eða sjónvarpsskjáir. Engar byssur. Bara fólk, texti og yfirveguð og hugvitsamleg beiting á viðteknum verkfærum leikhússins. Minnst nútímalegt er kannski traust leikstjórans á framlagi höfundarins, augljós alúðin við orðin sem skilar sér í afburðameðferð leikhópsins í heild á textanum. Þá kemur líka í ljós að skáldið er, ólíkt Ríkharði sköpunarverki sínu, traustsins vert og útkoman áhrifaríkasta Shakespeareuppfærsla sem ég minnist á íslensku sviði og þó víðar væri leitað.

Þar kemur margt til og eins gott að byrja á þýðingunni. Einstigið er þröngt milli skáldlegra mælskutilþrifa frumtextans og skiljanleika í rauntíma sviðsins, þar sem engin yfirlega er möguleg. Leið Kristjáns Þórðar Hrafnssonar í sinni fyrstu ferð er óvenjuörugg. Eitt af mikilvægustu vopnum sýningarinnar. Kjarnyrt, skýr og beitt.

Næst í keðjunni kemur aðlögunin; styttingar og tilfæringar Brynhildar og Hrafnhildar Hagalín dramatúrgs. Aftur er skýrleiki og hnitmiðun greinilega stefnan og einnig þar heppnast allt. Persónum er róttækt fækkað og góður slatti af textanum í þessu fjórða lengsta leikriti Shakespeares fær að fjúka, eins og nánast undantekningalaust í óþolinmóðu nútímaleikhúsinu. Megnið af því sem endar hér á gólfinu er alsiða að strika, annað er óvenjulegra að verða af. Og svo hljóma kaflar í Borgarleikhúsinu sem sjaldan eru hafðir með. Þar kemur til róttækasta ákvörðun aðlagaranna; að bæta persónu í galleríið, Elísabetu af Jórvík, og ljá henni línur sem skrifaðar voru fyrir t.d. ættmenn drottningar, börn hertogans af Klarens og sigurvegara verksins, Hinrik Tudor. Þetta heppnast ágætlega og verður lykilatriði í þeirri meginstefnu túlkunarinnar að horfa á atburðina frá sjónarhóli kvennanna. Sólbjört Sigurðardóttir fer eins og aðrir af öryggi með textann en tjáir sig að mestu í dansi. Glæsilega vitaskuld, en ég er ekki alveg sannfærður um beitingu danslistarinnar í sýningunni, finnst hún stinga í stúf og ekki þjóna markmiðum sínum fyllilega, þó vel væri gert.

Að öðru leyti þarf ekki miklar tilfæringar til að stilla fókusinn á harma kvennanna í kringum Ríkharð. Það nægir nánast að stilla sig um að strika senurnar þeirra, svo mjög sem safarík samskipti þeirra við miskunnarlausan valdafíkilinn og kröftugar raunatölur þeirra setja svip sinn á verkið eins og höfundur skildi við það. Flestar áminningar um fortíð Margrétar ekkjudrottningar, sem var skörulegur stríðsgarpur í undanfaraverkunum með Ríkharðsleg voðaverk á afrekaskránni, eru reyndar fjarlægðar en að öðru leyti birtast atriði kvennanna næsta óstytt í allri sinni umtalsverðu dýrð. Fá líka heldur en ekki glæsta meðferð hjá leikkonunum. Sigrún Edda Björnsdóttir sýndi okkur Sesselju móður Ríkharðs sem konu sem löngu er búin að brynja sig en auðvitað hlýtur sú skurn að rofna. Þórunn Arna Kristjánsdóttir er Anna, ekkja eins fórnarlamba Ríkharðs og síðan skammlíf eiginkona eftir eina frægustu bónorðssenu bókmenntanna sem var þrúgandi og sannfærandi hér. Edda Björg Eyjólfsdóttir gerði ferðalagi Elísabetar drottningar frá krúnu til sorgarhyldýpis framúrskarandi skil. Og þó annað hefði mistekist hefði heimsókn í Borgarleikhúsið verið þess virði til að hlýða á refsinornina Margréti af Anjou í meistaralegum meðförum Kristbjargar Kjeld.

Karlarnir eru flottir líka, hvort sem það er ísmeygilegur Bokkingham Vals Freys Einarssonar, inngróinn en glórulaus kerfiskallinn Hastings hjá Jóhanni Sigurðarsyni, skoplega einfaldir konungur og biskup Halldórs Gylfasonar, langþrúgaður Katsbý Hilmars Guðjónssonar, lánlaus Rivers Davíðs Þórs Katrínarsonar eða samviskubugaður barnamorðingi Arnars Dan Kristjánssonar.

Þegar upp er staðið er þetta samt verk titilpersónunnar. Túlkun og frammistaða Hjartar Jóhanns Jónssonar í hlutverki Ríkharðs er hennar stærsti sigur, og er þá allnokkuð sagt. Krafturinn, húmorinn, grimmdin, slægðin, ósvífnin og umkomuleysið; allt er þetta þarna og skín í gegnum skelina til skiptis eins og kvikasilfur. Það er heldur ekki hægt annað en að nefna þá líkamlegu þrekraun sem Hjörtur undirgengst hér og stenst með glans. Sambandið við áhorfendur í forgrunni eins og vera ber, frábærlega útfært og viðhaldið. Sérstaklega undir lokin þegar við skynjum að Ríkharður veit að hann hefur fyrirgert samúð okkar en heldur samt áfram að vinka og brosa.

Öll umgjörð er vel heppnuð og stundum rúmlega það. Búningar Filippíu Elísdóttur gera allt sem þeir eiga að gera, gervi Elínar S. Gísladóttur fyrir Ríkharð er glæsilegt, tengir hann í mínum huga við Alien-myndirnar og snýr þannig veikleika fötlunar upp í styrk hins ómennska. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur hárréttur vettvangur með fjölbreyttum möguleikum og lýsing Björns Bergsveins Guðmundssonar náði mögnuðum áhrifum hvað eftir annað. Það sama má segja um tónlist Daníels Bjarnasonar. Skruðningar og ískur hljóðmyndarinnar sköpuðu stemminguna og sönglögin tvö frábær hugmynd og flottar smíðar. Sérstaklega örvæntingararía Elísabetar drottningar sem lyfti þjáningu hennar og sendi hana síðan út í heiminn þegar kórinn tók við. Við verðum öll að vera Anna, Margrét, Sesselja og Elísabetarnar. Bera harminum vitni, eigi nokkur von að vera til þess að Ríkharðar heimsins liggi í valnum og ljósið fái möguleika til að blakta og jafnvel skína líkt og í leikslok. Það segir þessi fjögurhundruð ára texti mesta skálds heimsins sem hér er komið til skila af virðingu, krafti og sannri list.

miðvikudagur, janúar 02, 2019

Einræðisherrann

Eftir Charlie Chaplin. Íslensk þýðing: Magnea J. Matthíasdóttir. Leikgerð og leikstjórn: Nikolaj Cederholm. Meðleikstjóri: Malene Begtrup. Leikmynd: Kim Witzel. Búningar: Line Bech. Tónlistarstjórn, píanóleikur og leikhljóð: Karl Olgeirsson. Sviðshreyfingar: Anja Gaardbo. Slapstick (skrípalæti, hlátraskellur): Kasper Ravnhøj. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Sigurður Sigurjónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestsson, Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 26. desember 2018.

Er hlæjandi að þessu?


Besta hugmynd sviðsgerðar Nikolajs Cederholms á Einræðisherra Chaplins, sú hugmynd þar sem leikhúsið blómstrar best á eigin forsendum í samspili sviðs og salar, er lokaaugnablik sýningarinnar. Hér verður ekki ljóstrað upp hvernig það er en látið nægja að segja að það sé töluvert brilljant og var jafnvel enn snjallara á frumsýningu en það verður eftirleiðis, þökk sé forseta vorum, sem átti stórleik. Að öðru leyti fylgir Cederholm atriðakeðju myndarinnar af mikilli trúmennsku, sennilega of mikilli, en leyfir sér á hinn bóginn að breyta texta og endurstilla persónugalleríið til að skapa verkinu meiri trúverðugleika og skýrara nútímaerindi. Sem er alltaf hættuspil, jafnvel þegar efniviðurinn er ekki meira meistarastykki en þessi djarfa en dálítið sundurlausa og þegar upp er staðið ekki fyllilega heppnaða tilraun Chaplins.

Í stuttu máli þá vindur tveimur sögum fram í Einræðisherranum. Annars vegar fylgjumst við með valdsmanninum og gyðingahataranum Hynkel búa sig undir landvinningastríð en á hinn bóginn kynnumst við hlutskipti gyðinga borgarinnar í gegnum augu minnislauss rakara sem fellur fyrir fátækri og blóðheitri stúlku í hverfinu og býr að hetjudáð úr fyrra stríði þar sem hann bjargaði lífi flugmanns sem komist hefur til metorða í vígvél harðstjórans. Dramatísk grunnhugmynd verksins er síðan sú að sami leikari fer með hlutverk Hynkels og rakarans, sem á endanum er tekinn í misgripum fyrir einræðisherrann og fær tækifæri til að ávarpa herinn, almenning og áhorfendur og boða frið og farsæld á þröskuldi stríðsins sem við vitum núna að varð heimsstyrjöld nr. 2.

Það hefur þurft ómælda einurð fyrir skærustu kvikmyndastjörnu heimsins, mann sem augu allra beindust að, að undirbúa þessa árás á ímynd voldugs leiðtoga sem yfirvöld í heimalandi stjörnunnar höfðu engan áhuga á að styggja, meðan óveðursskýin hrönnuðust upp fyrir austan haf 1938-39. Sem greining á ógnum og gangverki nasismans býr hún vitaskuld við takmarkanir formsins og er auk þess „barn síns tíma“ í bókstaflegum skilningi: þó að Chaplin hefði aðgang að sögum flóttamanna frá þriðja ríkinu um gyðingaofsóknir og ógnarstjórn nasista var helvíti stríðsins að mestu í framtíðinni, sem og „lokalausnin“, útrýmingarherferðin sem yfirskyggir með réttu allt annað í eftirmælum Hitlers og hugmyndafræði hans. Sjálfur sagði Chaplin síðar að hefði hann vitað hvað í vændum var hefði hann látið Einræðisherrann ógerðan.

Afstaða Cederholms til hráefnisins er marglaga, ef ekki hreinlega mótsagnakennd. Ugglaust telur hann erindi Einræðisherrans ótvírætt sem innlegg í umræðu nútímans um alræðishættu og ómennsku, annars væri til lítils af stað farið. Á sama tíma sér hann þörf á að nútímavæða boðskapinn að nokkru marki, einkum með því að breyta lokaræðunni frægu og gera hana að umhverfis- og dýraverndunarákalli í stað framfaratrúaðs húmanisma Chaplins. Gott og blessað sem erindi, en algerlega snertipunktalaust við allt sem á undan er gengið, fyrir utan flatneskju nýja textans í samanburði við meitlaða mælskulist fyrirmyndarinnar. Öllu verra er að skilja atlögur að því að styrkja tengsl skopstælingarinnar við fyrirmyndina; tala um Berlín sem höfuðstað Tómaníu, nota þýsk ávörp og vitna í ræður Hitlers. Hin einfalda, allt að því bernska nálgun Chaplins stendur alls ekki undir því að gera uppgang nasista og tak Hitlers á þýsku þjóðinni skiljanleg þrátt fyrir þessar áherslubreytingar, sem eru tilgangur þeirra samkvæmt ummælum Cederholms í fjölmiðlum. Enn undarlegri er sú ákvörðun að láta samskipti Hynkels og Napolinis fara fram á ensku í opinberri heimsókn þess síðarnefnda.

En vitaskuld er samfélagslegt erindi ekki nema hluti þess sem kallar fólk að Einræðisherranum. Varla einu sinni stærsti hlutinn. Þetta er ekki síst skrípó. Fólk að detta á rassinn og berja hvað annað í höfuðið með búsáhöldum. Eltingaleikir. Chaplin. Það verður að segjast að leikhópurinn nær ekki alveg ballett-líkum léttleikanum og áreynsluleysinu sem einkennir meistarann, en birtist líka í framgöngu mótleikara hans, þökk sé vægðarlausri fullkomnunaráráttu mannsins. Stundum ná þau í skottið á flæðinu, sérstaklega í samfelldum eltingaleiks- og slagsmálaatriðum, vel studd af bráðsnjallri leikmynd Kim Witzel og meistaralegri framgöngu Karls Olgeirssonar, hljóðmyndarsmiðs og áhrifshljóðstjóra. Aldrei verður flugið samt algert, hvort sem það má skrifast á reikning slapstick-stjórans Kaspers Ravnhøjs eða óvana leikhópsins. Svo glímir gleðin við grafalvarlegan bakgrunninn sem kæfir hláturinn alltaf þegar hann vill brjótast fram. Er í alvörunni hlæjandi að þessu?

Þó svo slapstickið sé ekki alltaf upp á tíu nýtast kómískir hæfileikar einstakra leikara ágætlega. Það er óhætt að segja að Sigurður Sigurjónsson beri sýninguna á herðum sér í aðalhlutverkunum báðum. Hynkel er óneitanlega bitastæðari persóna og þar nýtast týpusmíðahæfleikar og kómískar tímasetningar Sigurðar best, sérstaklega í samleiknum við undirsátana tvo; illyrmislegan Gubbels Guðjóns Davíðs Karlssonar og Boring flugmarskálk sem var kostulegur í meðförum Ólafíu Hrannar Jónsdóttur. Ilmur Kristjánsdóttir þótti mér ekki ná að gera hina eintóna Hönnu áhugaverða, en persónur Hönnu og rakarans, og samband þeirra eru veikir punktar frá hendi höfundar myndarinnar. Þröstur Leó Gunnarsson glímir við gyðinginn Jaeckel, sem Cederholm hefur reynt að ljá bitastæðari persónuleika en í myndinni án þess að það hafi nokkur áhrif á gang mála, en Þröstur leysir verkefnið snurðulaust en tilþrifalítið. Sama má segja um Hallgrím Ólafsson og heldur litlausa hetjuna Schultz. Napolini er dæmigerður sviðs-Ítali hjá Pálma Gestssyni, og þær senur ná ekki flugi, frekar en í myndinni. Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson hlaupa milli smáhlutverka og leysa allt vel, og ef einhver ætti að fá stjörnu fyrir slapstick-fimi þá væri það Sigurður Þór.

Leikmyndin er í stóru hlutverki eins og fyrr segir, prýðilega lýst af Ólafi Ágústi Stefánssyni. Búningar Line Bech eru hinir ágætustu, þó að velta megi fyrir sér hvort betur hefði farið á að fjarlægjast einkennisbúninga nasismans meira, en það lýtur aftur að grundvallarnálgun leikstjórans sem ég hef efasemdir um eins og fram hefur komið.

Kvikmynd Chaplins er langt í frá gallalaust verk. Vera má að Nikolaj Cederholm deili ekki þeirri skoðun minni. Allavega eltir hann bláþráðótta og stefnulausa atburðakeðjuna af mikilli trúmennsku og sviðsetur jafnvel atriði sem engan veginn njóta sín á sviði (t.d. móttöku Napolinis á lestarstöðinni, sem er mislukkuð í myndinni og afleit hér). Aftur á móti leitast hann við að skýra og uppfæra boðskapinn, sem ekki verður alltaf í takti við verkið. Skemmtigildi sýningarinnar líður dálítið fyrir þessa áherslu og lítið græðist af samfélagslegu erindi.

Að auki standa tveir senuþjófar í sviðsvængjunum. Charlie Chaplin með sína snilligáfu sem skyggir á jafnvel hæfileikaríkasta fólk, og svo Adolf Hitler sem kæfir hverja hláturroku í fæðingu með alkunnri illsku sinni.